PO
EN

Nú er komið nóg

Deildu 

Náttúruleg hlýnun?

Í 3-4 milljarða ára sögu jarðar, eftir fyrsta ármilljarðinn, hefur samsetning lofthjúpsins og loftslagið oft breyst og hitinn sveiflast. Síðstu tæpar 3 ármilljónirnar kallast kvartera ísöldin (fyrri ísaldarir eru þekktar). Á henni hafa liðið mörg jökulskeið með miklum kuldum, risajöklum og hafís á norðurhvelinu. Á milli þeira ganga yfir styttri hlýskeið með margfalt minni jöklum. Við lifum á einu slíku sem hófst fyrir 11.700 árum. Á hlýskeiðinu, sem enn stendur og gæti t.d. verið hálfnað, hefur nútímamaðurinn þokast úr frumstærðri steinöld til flókinna iðnbyltinga og úr nokkrum milljónum manna til 7-8 milljarða.

Á jökul- og hlýskeiðum var loftslag mishlýtt og misúrkomusamt. Sveiflurnar hafa gengið yfir af náttúrulegum orsökum. Frá því fyrir 9.500 árum og þar til á miðöldum breyttist meðalhiti jarðar alloft af stærðargráðu á milli 0,1°og 0,5°C. Á fyrstu árþúsundunum hurfu jöklar að mestu, eða með öllu, á Íslandi í nokkuð hlýju loftslagi, en alls ekki á Grænlandi. Jökulís þar mælist fáein hundruð þúsund ára næst berggrunninum við meginjökulsmiðju. Frá því um miðbik tímabilsins hefur kólnað í heild þrátt fyrir hlýindasveiflur. Upp úr því taka núverandi hveljöklar hérlendis að safnast fyrir á hálendi og Grænlandsjöklar bæta við sig. Milli u.þ.b. 1300 og 1900 var kaldra en í fáeinar aldir á undan og „nýju“ íslensku jöklarnir ná hámarki á þessari „Litlu ísöld“ Afkoma þeirra er ávallt góður mælikvarði á loftslagsbreytingar.

Gróðurhúsalofttegundir

Nokkrar lofttegundir, aðrar en nitur og súrefni, eru mikilvægar öllu lífi. Þær eru, ásamt vatnsgufu, í litlu magni í loftinu, svokallaðar gróðurhúsalofttegundir (GHL). Án þeirra væri meðalárshiti jarðar ekki í nánd vð 15°C, heldur langt neðan frostmarks. Koldíoxíð, efnið sem við öndum frá okkur og plöntur nota við ljóstillífun (og losa þá súrefni), er þekktast efnanna. Lofttegundin losnar við bruna kolefnis. Á yfirborði jarðar er hringrás þar sem kolefni losnar (frá lífverum og t.d. við trjáelda) en binst samtímis í jurtum. Hringrásin á að geta náð völtu jafnvægi með bindingu kolefnis í gróðri á landi og „grænum“ lífverum í sjó. Brenni menn kolum og olíu úr „földum“ jarðlögum raskast hringrásin svo um munar vegna mikillar aukalosunar koldíoxíðs.

Áhrif GHL á hitafar og þar með raka í loftinu eru margsönnuð. Sólarljós með tiltekinni bylgjulengdarbreidd (m.a sýnilegt ljós og innrauð hitageislun)  berst í gegnum lofthjúpinn. Ljósið lendir á yfirborðinu en hluti geislunarinnar endurkastast í gegnum lofthjúpinn. Bylgjulengdin breytist við endurkastið og aðeins hluti upphaflega varmans skilar sér út í geiminn. Hinn hlutinn hefur vermt yfirborðið og lofthjúpinn. Hann „gleypir“ varma og virkar líkt og glerþak í gróðurhúsi. Enginn getur hrakið þessa einföldu eðlisfæði.

Hvað hefur breyst?

Frá því um miðja 18. öld hafa menn grafið upp kol svo um munar, og seinna olíu og gas, og brennt feikna magni. Samtímis hefur verið gengið hart að skóglendi og gróðursvæðum breytt, t.d. úr villigróðri í tún og akra en eyðimerkur stækkað. Afköst jurta heims, í heild, við að binda kolefni úr koldíoxíði hefur minnkað.

Áreiðanlegar mælingar á efnum í loftblöðrum í jökulís á Grænlandi og enn eldri ís á Suðurskautslandinu, samt beinum mælingum í lofti eftir 1950, sanna að frá miðbiki 18. aldar til 2020 hækkaði magn koldíoxíðs í lofti úr vel undir 0,03% í 0,0418%, þ.e.yfir 40%. Svo hátt hlutfall koldíoxíðs hefur ekki verið í lofthjúpnum í hundruð þúsundir ára. Hraði breytinganna hefur margfaldast á sl. 50 árum. Samfara síaukinni rýrnun trjáþekju jarðar og brennslu jarðefnaeldsneytis hefur meðalhiti jarðar hækkað um 1,1 til 1,2°C á skömmum tíma.

Heildarlosun á Íslandi – stærðargráðan

Skipta má losun á Íslandi sem ígildi koldíoxíðlosunar í fimm flokka: Losun frá landnotkun, breyttu gróðurlendi, m.a. framræstu votlendi, og skógrækt (1), losun úr málmiðnaði o.fl., ásamt utanlandsflugi og alþjóðasiglingum (2), losun frá úrgangi (3), losun vegna notkunar jarðefnaeldsneytis í samgöngum innanlands í lofti, á sjó og landi, í sjávarútvegi og vegna jarðvarmanotkunar (4), losun frá húsdýrum og áburði (5). Raforkuframleiðsla og hagnýtt varmaorka úr gufu eða heitu vatni losar lítið af GHL í samanburði við aðra losunarvalda. Þess vegna er 95-97% íslenskrar orku réttilega sögð græn eða endurnýjanleg. Losun GHL í eldgosum eða úr hverasvæðum eru hlutar náttúrulegrar hringrásar og teljast ekki með.

Margir milljarðar tonna á heimsvísu bætast nettó við GHL sem fyrir eru í lofthjúpnum ár hvert. Of hægt gengur að breyta því enda hafa ljóstillífandi lífverur og útfelling kalksambanda í hafinu ekki undan að binda kolefni. Mannkynið er líka seint að taka við sínum björgunarþætti, með því að græða land og draga úr losun, m.a. með því að minnka notkun jarðefnaeldsneytis, einkum við raforkuframleiðslu.

Reikningar koldíoxíðígilda, mælingar og mat á losun GHL úr landnokun og úr mannlegri virkni á Íslandi benda til 13 til 15 milljóna tonna losunar á ári. Árslosun Þýskalands nú er um 800 milljón tonn. Hjá okkur er flokkur 1 langstærstur og um leið flóknastur að reikna og meta. Eitt af allmörgum kolaorkuverum í Þýskalandi (Boxberg), sem framleiddi 2.427 MW rafafl 2013 (næstum allt rafafl Íslands), losaði þá 22 milljón tonn á ári. Afar stórt kolefnisspor okkar miðað við fólksfjölda er mjög lítið á heimsmælikvarða. Það léttir þó alls ekki á okkar ábyrgð og skyldum, rétt eins og gildir um aðrar skyldur, t.d. mannúðaraðstoð.

Undir Parísarsamkomulaginu

Helstu uppsprettur losunar sem eru á ábyrgð Íslands 2019 (Kyoto- og Parísasamkomulagið) voru vegasamgöngur (33%), olíunotkun fiskiskipa (18%), iðragerjun húsdýra (10%), nytjajarðvegur (8%), losun frá kælimiðlum (F-gös) (7%) og losun frá urðunarstöðum (6%). Hlutfallslosun frá mismunandi uppsprettum sem telja minna en 3% af losun á ábyrgð Íslands voru (9%).  Samtals nemur þessi losun koldíoxíðígilda nálægt 4 milljón tonnum (3,4, og 5). Þeim verður að fækka um vel rúman helming á næstu átta árum.

Samdráttur í losun er þegar á nokkuð á veg kominn. Orkuskipti í umferðinni aukast í takt við framboð sk. grænna bíla og vinnutækja, útgerðir hafa náð verulegum árangri, aðallega með því að nota mengunarminni olíu en fyrir var, hægur samdráttur er í losun frá landbúnaði en allhraður frá úrgangsvinnslunni. Bann við tilteknum kæligösum skilar árangri.

Aðgerðaráætlun stjórnvalda (sjá vefsíðu forsætisráðuneytisins) er fjármögnuð, markmiðssett og raunhæf 2021 en hana verður að uppfæra reglulega og herða á aðgerðum. Staðið er skil á losunarbókhaldi hvers árs (sjá vefsíðu Umhverfisstofnunar). Raunhæfa losunarmarkmiðið vegna Parísarsamkomulagsins hefur verið hækkað úr 29% í a.m.k. 55% samdrátt og getur enn hækkað svo fremi sem óskhyggja ræður ekki stefnu og aðgerðum heldur styrkur sem felst í samvinnu ríkisstjórnar, Alþingis, sveitarstjórna, fyrirtækja, félaga og almennings. Samvinna og samstaða, líka um kostnaðarþáttinn, er lykill að árangri.

Stóriðja, siglingar og utanlandsflug 

Íslensk losun frá orkufrekum iðnaði og alþjóðlegum samgöngum (2) er nálægt 2 milljónum tonna á ári. Álverin þrjú, málmblendiverksmiðjan og eitt kísilver skora hæst. Þau lúta svokölluðu ETS-kerfi (ekki Parísarsamkomulaginu), kaupa sér losunarkvóta þar sem verð á einingu hækkar jafnt og þétt og þvingar fyrirtæki til þess að draga úr losun, t.d. með niðurdælingu koldíoxíðs, breyttu framleiðsluferli eða framleiðslu eldsneytis. Unnið er að svipuðu kerfi fyrir alþjóðaflug og tekur Ísland þar þátt. ETS-kerfið nær til stórra flutingaskipa en ekki íslenskra vegna smæðar þeirra. Mikilvægasta framlag okkar í flugi og siglingum eru orkuskipti og ný notkun vetnis, metanóls og lífdísils. Hingað til hefur losunarsamdráttur í þessum geira (2) verið lítill en þó sá að tölvutækni og íblöndun efna í eldsneyti hefur skilað árangri. Fyrstu skref við niðurdælingu koldíoxíðs frá álverinu í Straumsvík eru hafin og  ný rafskaut án kolefnis í augsýn. Hitt er svo ljóst: Einhver málmiðjanna kann að hætta starfsemi.

Landnotkun og losun  

Mannvist á Íslandi og „Litla ísöldin“ hafa valdið gríðarlegum gróðurfarsbreytingum. Veruleg losun koldíoxíðs er frá landi með skerta jarðvegshulu og framræstu votlendi; um 9 milljón tonn á ári. Aðgerðir til uppgræðslu, endurheimt votlendis og skógrækt minnka losun og binda kolefni. Það dugar þó skammt gagnvart Parísarsamkomulaginu þar sem áherslan er á að minnka aðra losun fyrir 2030 en frá landi í bágu ástandi.

Kolefnisjöfnun getur aftur á móti tryggt að lögbundið kolefnishlutleysi náist fyrir 2040. Þarna verða nú töluverðar framfarir og er reiknað með að a.m.k. 1,2 milljón tonn á ári hafi bundist 2030. Herða verður kolefnisbindingu á næstu árum og fimm til sjöfalda hana til 2040. Uppgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis er verkefni margra og gildir undanþága frá tekjuskatti (0,85% árstekna), leggi lögaðilar fé til kolefnisbindingar með ýmsu móti. Margir skógar- og landgræðslubændur starfa og fjölmenn skógræktarfélög, auk allöflugra ríkisstofnana. Kolefnisjöfnun er afar mikilvægt framlag í loftslagsmálum og einn stærsti áfangasigurinn á leið til sjálfbærni og græns orkubúskapar jarðarbúa.

Verkefnin eru örlagarík

Um þessar mundir er allra mál að herða verði róðurinn, jafnt á Íslandi sem í Kína. Það er í samræmi við þá staðreynd að við vitum nóg um orsakir loftslagbreytingar til þess að geta brugðist rétt við. Beinar aðgerðir verða að vera í forgangi. Þær vilja allt of víða stranda, ekki á efasemdar- og úrtölufólki, heldur fyrst og fremst á tregðu sumra stjórnmálaafla við að breyta forgangsröðun í efnahagsmálum, á valdi haghafa í þeim hluta hagnaðardrifinna, kapítalískra fyrirtækja þar sem skakkaföll vegna loftslagsbreytinga hafa enn ekki knúið þau til breyttra hátta og að síðustu á skorti valdaleysi framsækinna afla í stórveldunum. Innan G20-ríkjanna sitja þeir sem bera mesta ábyrgð á vandanum. Sjálfbærni í stað rányrkju, orkuskipti í stað frekari leitar að og vinnslu á jarðefnaeldsneyti, hringrásarhagskefi með félagslegum áherslum í stað markaðs- og sívaxtarhyggju og jafnrétti í stað landlægs misréttis: Engin smá áskorun! Þessi eina byggða pláneta sem við vitum um er í húfi sem slík.

Ari Trausti Guðmundsson, jarðvísindamaður og þingmaður VG 2016-21

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search