Search
Close this search box.

Nú er lag!

Deildu 

Í fréttum hefur komið fram að núverandi eigendur óvirkrar verksmiðju United Silicon hf. í Helguvík hafa sagt upp raforkusamningi við Landsvirkjun. Samningi sem var ef til vill verðmætasta eignin í þrotabúi þessa „ævintýris“.

Fáir tóku eftir því að þarna losnuðu á að giska 35 MW sem var búið að ráðstafa í stóriðju og geta nú nýst til þess að mæta orkuskiptunum. Fleiri slíkir samningar munu losna í náinni framtíð. Það er því rakið að mínu mati að taka nú þá umræðu af alvöru að beina þegar framleiddri orku í farveg orkuskiptanna án þess að brjóta nýtt land með tilheyrandi áhrifum á stórbrotna íslenska náttúru og án þess að heilu samfélögin logi í óeiningu vegna fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda.

Orkuskiptin sem slík eru ef til vill ekki umdeild, en við deilum um leiðirnar að þeim. Í skýrslu sem kom út í mars síðastliðnum um stöðu og áskoranir í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum eru dregnar upp sex sviðsmyndir.

Framan af umræðunni fór mest fyrir þeirri sviðsmynd sem áætlar þörf um meira en tvöföldun á raforkuframleiðslu hérlendis.

Forgangsröðun í þágu náttúru og orkuskipta

Síðan þá hafa ýmsir glímt við að draga upp raunhæfari myndir, svo sem með orkuskiptahermi Landverndar, vefnum orkuskipti.is og nú síðast orkuskiptaspárlíkani Orkustofnunar.

Þegar umræðan um skýrsluna hófst gagnrýndi ég það hvernig einblínt var á þá sviðsmynd sem gengi freklegast fram. Mér fannst þá og finnst enn þurfa að taka af alvöru með í reikninginn að við getum forgangsraðað þegar framleiddri orku með öðrum hætti, til að mynda með því að nýta orku í stóriðjusamningum sem losna í þágu orkuskiptanna.

Nú þegar kemur á daginn að 35 MW hafa losnað vegna endaloka áforma um kísilmálmverksmiðju í Helguvík er full ástæða til að staldra við, bæði í þágu íslenskrar náttúru og í þágu orkuskipta. Það getur farið saman. Slíkar aðstæður geta kallað á nýtt mat. Nú er lag!

Orri Páll Jóhansson, þingflokksformaður Vinstri grænna

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search