Search
Close this search box.

Ný framtíð

Deildu 

Fyrsta samráðsþing í málefnum fatlaðs fólks verður haldið á fimmtudaginn í þessari viku í Hörpu í Reykjavík. Á samráðsþinginu verða kynnt drög að tillögum starfshóps fjölda samstarfsaðila um fyrstu landsáætlun um innleiðingu og framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Á sama tíma stendur yfir í forsætisráðuneytinu undirbúningur að lögfestingu samningsins og stofnun Mannréttindastofnunar. Á samráðsþinginu, sem ber yfirskriftina Ný framtíð, verður leitast við að greina tækifærin fram undan og hvað skipti máli þegar horft er til framtíðar.

Í starfi mínu sem ráðherra hef ég lagt mikla áherslu á þau sjálfsögðu réttindi að fatlað fólk njóti mannréttinda og mannfrelsis til fulls og til jafns við aðra. Farið hefur fram kröftug vinna hagsmunasamtaka fatlaðs fólks, fulltrúa sveitarfélaga og fjölda ráðuneyta við undirbúning landsáætlunar­innar.

Á undanförnum misserum hef ég stutt við fjölmörg umbótaverkefni félagasamtaka, hagsmunasamtaka og annarra sem ætlað er að bæta lífsgæði fatlaðs fólks og aðgengi þess að samfélaginu í takt við áherslur samnings Sameinuðu þjóðanna.

Í síbreytilegum heimi tæknibreytinga hef ég lagt ríka áherslu á að tryggja stafrænt aðgengi fatlaðs fólks. Við höfum nú stigið fyrsta skrefið í því verkefni með opnun stafræns talsmannagrunns þar sem persónulegir talsmenn fatlaðs fólks geta nú fengið aðgang að stafrænu pósthólfi skjólstæðinga sinna og sinnt margvíslegum rafrænum erindum.

Nýlega tók síðan til starfa vinnuhópur um starfs- og námstækifæri fyrir fatlað fólk í samvinnu okkar háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mennta- og barnamálaráðherra, auk fjölmargra annarra aðila sem vinna nú að tillögum til að auka tækifæri fatlaðs fólks til náms og starfa.

Fatlað fólk getur verið miklu virkari þátttakendur í samfélaginu en nú er, en til þess þurfum við viðhorfsbreytingu með nýrri framtíð. Ég bind miklar vonir við öll þau verkefni sem nú eru í vinnslu í málefnum fatlaðs fólks, samfélagi okkar til heilla.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search