Kórónuveirufaraldurinn kom eins og þruma úr heiðskíru lofti fyrir flest okkar. Og framtíðin hefur þannig oftar en ekki læðst aftan að heiminum í smáu sem stóru. Dæmin eru mörg um afspyrnu lélega spádóma: Neville Chambarlain, forsætisráðherra Breta, boðaði „frið um vora tíma” eftir að hafa gert friðarsamning við Hitler. Fólk hélt að tölvupóstur myndi útrýma pappírnum og að bitcoin myndi gera seðlabanka úrelta. Eitt sinn var það sett í stefnu rétt fyrir bankahrun að Ísland gæti orðið að alþjóðlegri fjármálamiðstöð. Hver vill lenda í slíku aftur?
Marktæk stefnumótun
Ég hafði þetta meðal annars á bakvið eyrað í störfum nefndar sem fékk það hlutverk að móta matvælastefnu fyrir Ísland. Stefnan sem varð til í þessari vinnu var kynnt í gær. Þó að matvælastefnan sé birt í miðjum faraldri þá var hún samt að uppistöðu mótuð á þeim tíma sem heimsfaraldur var eitthvað upp úr sögubókum eða vísindaskáldsögum. Þegar áðurnefndur faraldur setti líf heimsbyggðarinnar úr skorðum var ákveðið að nema staðar og skoða stefnuna sérstaklega til þess að greina hvort þyrfti að endurskoða drögin í ljósi faraldursins. Raunin varð sú að þess gerðist ekki þörf. Við höfðum rætt mikilvægi matvæla- og fæðuöryggis í hópnum og þau drög sem lágu fyrir tóku þegar mið af slíkum grunnatriðum.AUGLÝSINGÞó að enginn okkar í hópnum hefði spáð fyrir um kórónukrísuna, þá hélt stefnan samt. Þannig þarf marktæk stefnumótun að vera. Hún þarf að vera í takti við þær áskoranir sem fyrir eru, vera raunhæf og sjálfbær, en fyrst og fremst þarf hún að halda áfram að vísa veginn þó að framtíðin sé óráðin.
Matvæli eru meira en „bara” leið til að halda sér ofan moldu. Sennilega er fátt sem maður eyðir meiri tíma í um ævina heldur en að leita að uppskriftum, kaupa í matinn, elda og njóta matarins með fjölskyldu og vinum. Matvælastefnan fjallar um öll stig, frá framleiðslu til neyslu. Hún tengir saman mismunandi markmið og áskoranir. Hún tvinnar saman lýðheilsu og fæðuöryggi. Hún tekst á við tengsl fjallalambsins og ísfiskstogarans.
Loftslagsrofið stærsta verkefnið
Ég vona að tíminn muni leiða í ljós að við höfum oftar haft rétt fyrir okkur en rangt þegar þessi matvælastefna mætir framtíðinni á förnum vegi. Atriði sem ég tel víst að muni standast tímans tönn er það að laga matvælaframleiðslu að kolefnishlutleysi. Loftslagsrofið sem við upplifum er að mínu mati stærsta einstaka verkefni mannkynsins. Ísland getur þar orðið sýnidæmi fyrir aðrar þjóðir um hvað sé hægt að gera.
Á meðan það eru einstaka kolaver í heiminum sem losa meira koldíoxíð heldur en Ísland gerir í heild sinni,- það er að segja framleiðsla, neysla og eldfjöll, – þá er auðvelt að fyllast sinnuleysi og gera ekki neitt þar sem okkar viðleitni skiptir litlu. En Íslendingar eru ekki vanir því að fyllast vonleysi gagnvart ógnarstórum verkefnum. Það hefur glíman við kórónaveirufaraldurinn sannað. Skrifaðar hafa verið lærðar greinar um hvaða lærdóm megi draga af því hvernig Íslendingar hafa tekist á við sjúkdóminn með samstöðu og vísindi að vopni. Loftslagsrofið gerum við bærilegt með sömu meðulum.
Látum stefnuna visa veginn
Margar greinar í matvælaframleiðslu geta dregið verulega úr losun. Það hefur sjávarútvegurinn gert með því að fjárfesta í sparneytnari skipum og landbúnaðurinn með því að stórauka afköst, það er að segja með því að fækka gripunum sem þarf til að framleiða sama magn vöru. En losunin verður ekki núll í fyrirsjáanlegri framtíð, heldur þarf einnig að koma til stórfelld binding á kolefni. Sú binding getur verið í hvaða formi sem er, hvort sem það er með skógrækt, landgræðslu eða endurheimt votlendis. Eða með aðferðum sem kunna að uppgötvast á næstu árum. Náttúruvísindamaðurinn í mér er sannfærður um að náttúran hafi að geyma meiri visku en maðurinn. Með milljóna ára þróunarvinnu að baki er ljóstillífun líklegast hagkvæmasta leiðin til að fanga kolefni úr lofti. Aðlaga þarf umhverfi matvælaframleiðslu að kröfunum um kolefnishlutleysi, þannig að hvatar séu fyrir árangri í loftslagsmálum.
Ég tel að við getum náð forskoti með því að einhenda okkur í þá vinnu að gera matvælaframleiðsluna okkar kolefnishlutlausa. Sjávarútvegurinn sækir hærra afurðaverð m.a. á grundvelli vottana um sjálfbæra nýtingu fiskistofna. Við munum þurfa að gæta vel að vísindunum í þeirri vegferð og forðast snákaolíusölumenn. Með því að byggja samhliða upp innviðina fyrir fullkominn rekjanleika afurða og nýta tækni til þess að gera eftirlit skilvirkara, ódýrara og öruggara, eru allar forsendur fyrir því að við getum náð langt í þessum efnum.
Nú getum við látið stefnuna vísa veginn og lagt af stað.
Höfundur er skipaður án tilnefningar í verkefnisstjórn um mótun matvælastefnu fyrir Ísland.