Search
Close this search box.

Nýjar friðlýsingar kynntar.

Deildu 

Umhverfisstofnun hefur kynnt áform um friðlýsingu jarðanna Heyskála, Hrafnabjarga og Unaóss. Áformin eru kynnt í samstarfi við landeigendur og sveitarfélagið Fljótsdalshérað.

Á svæðinu er afar fjölbreytt landslag þar sem fjöll, klettar og björg, víkur og tangar setja mikinn svip á landslagið. Víða má sjá berghlaup og grjótjökla, en frægast þeirra er Stórurð undir Dyrfjöllum. Að Stórurð liggur vinsæl gönguleið frá Vatnsskarði.

Svæðið er að hluta innan Úthéraðs þar sem fuglalíf er mjög fjölbreytt og meðal annars að finna tegundir sem ná alþjóðlegum verndarviðmiðum. Enn fremur eru á svæðinu merkar sögulegar minjar, m.a. gamall verslunarstaður og höfn við Krosshöfða og Stapavík.

Áform um friðlýsingu eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki eru á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár séu kynnt sérstaklega.

Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 18. september 2019. Athugasemdum má skila á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Þá hefur Umhverfisstofnun einnig kynnt áform um friðlýsingu Goðafoss í Þingeyjarsveit. Áformin eru kynnt í samstarfi við landeigendur og sveitarfélagið Þingeyjarsveit.

Goðafoss er í Skjálfandafljóti í Bárðardal og er einn af vatnsmestu fossum landsins. Hann greinist í tvo meginfossa og nokkra smærri og er ásýnd hans fjölbreytileg eftir vatnsmagni, veðurfari og árstíð. Goðafoss er 9-17 m hár og um 30 m breiður. Landið við vesturbakka Goðafoss heitir Hrútey, en hún afmarkast af Hrúteyjarkvísl sem greinist frá Skjálfandafljóti ofan við Goðafoss, en sameinast fljótinu aftur alllangt neðar.

Nafn sitt dregur Goðafoss af því að Þorgeir Þorkelsson Ljósvetningagoði mun hafa varpað goðalíkneskjum sínum í fossinn þegar honum var falið að ná sáttum milli heiðinna manna og kristinna, og ákvað að taka upp nýjan sið.

Goðafoss er vinsæll ferðamannastaður og þangað kemur fjöldi ferðamanna allan ársins hring.

Áform um friðlýsingu eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki eru á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár séu kynnt sérstaklega.

Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 18. september 2019. 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search