Search
Close this search box.

Nýjar og grænar leiðir í kreppu eru fyrir fólkið.

Deildu 

Viðtalið birtist fyrst í 1. maí blaði VGR

Forsætisráðherra vonast til þess að kjarasamningar haldi og að mat á verðmæti starfa breytist í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Hún útilokar ekki að endurskoða þurfi laun allra toppa hjá hinu opinbera, þar með talið stjórnmálamanna, þegar gerðar verða áætlanir í kjölfar Covid-kreppunnar. Í 1. maí viðtali VGR við forsætisráðherra, svarar Katrín því fyrst, hvaða aðgerðir ríkisstjórnar séu bestar til að auka jöfnuð og velferð vinnandi stétta einmitt nú?

Hlutastarfaleið ríkisstjórnarinnar er auðvitað stærsta aðgerðin hingað til til að tryggja afkomu og velferð vinnandi stétta en núna eru nærri 34 þúsund manns að nýta sér hana. Fjárfestingaátak á þessu ári, stuðningur við fyrirtæki og umfangsmikil fjárfesting í nýsköpun, matvælaframleiðslu og skapandi greinum. Allt er þetta til að verja störf og skapa ný sem er auðvitað ein af undirstöðum velferðar vinnandi fólks. Við erum að setja rúma tvo milljarða í sumarstörf fyrir stúdenta sem verða útfærð í samstarfi við sveitarfélög og stofnanir hins opinbera sem getur skilað þrjú þúsund sumarstörfum.  Verið er að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir til að taka betur utan um fólk með stuðningi við geðheilbrigðisþjónustu, tómstundastarf barna og fjölbreytt menntunar- og starfsúrræði fyrir atvinnuleitendur. Þar að auki verður sérstaklega stutt við viðkvæma hópa en núna búum við að reynslunni frá því í síðasta hruni og vitum að bregðast þarf strax við félagslegu áhrifunum sem fylgja þeim efnahagslegu. Hér tala ég um hættuna á félagslegri einangrun, t.a.m. eldri borgara og öryrkja, viðkvæma stöðu barna og fólks af erlendum uppruna. Þá verður sérstök áhersla á að bæta í aðgerðir gegn heimilisofbeldi og ofbeldi.

Mótvægisaðgerðir í efnahagslægðum felast oft í verklegum framkvæmdum, kenndar við verktaka og við karla. VG leggur áherslu á fjölbreytt störf og að hefja kvennastéttir til vegs og virðingar. Hvernig kemur það fram í aðgerðapökkum gegn atvinnuleysi núna?

Þegar horft er til fjárfestingar í rannsóknum, þróun, nýsköpun og skapandi greinum gagnast hún auðvitað öllum kynjum. Hlutastarfaleiðin gagnast öllum kynjum. Lokunarstyrkir gagnast ekki síst smærri vinnustöðum þar sem meirihluti starfsmanna er iðulega konur, stuðningslánin eru líka hugsuð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.

Alþýðusamband Íslands lýsti vonbrigðum með síðustu tillögur stjórnvalda til að bregðast við áhrifum Covid-19 veirunnar, sagði þær ekki tryggja ekki afkomuöryggi allra og samráð hefði skort. Hverju svarar forsætisráðherra gagnrýni ASÍ?

Við höfum haldið nokkra fundi með forsvarsmönnum launafólks, bæði í Þjóðhagsráði og sérstakan fund með forystu ASÍ. Þá voru sérfræðingar þeirra boðaðir á fund vegna aðgerðanna og margar af áherslum launafólks hafa ratað inn í okkar aðgerðir. Sú gagnrýni að aðgerðirnar séu fyrir fyrirtæki en ekki fólk finnst mér ekki standast skoðun. Það sem fólk hefur mestar áhyggjur af núna er að missa vinnuna. Það er staðan. Þessar aðgerðir beinast því beint að fólki því þær snúast um að tryggja fólki afkomu og atvinnu.

Þú varst ráðherra í hruninu, þar sem margir misstu allt sitt.  Nú erum við í enn dýpri kreppu og margþættari vanda, sem enginn sá fyrir.  Verður erfiðara að komast upp úr þessari lægð, en hruninu?

Þetta er allt öðruvísi kreppa. Fjármálageirinn hrundi. Fyrirtæki og heimili voru þá mjög skuldsett, með stóran hluta skulda sinna gengistryggðan. Gjaldeyrisvaraforðinn stóð ekki undir því. Það, ásamt mjög háum stýrivöxtum, olli miklu verðbólguskoti sem hafði gríðarleg áhrif á lán fólks í landinu. Núna stöndum við frammi fyrir kreppu sem verður til vegna sóttvarnaráðstafana heimsins. Engan hefði órað fyrir því í janúar að landamæri Evrópuríkja og Norður-Ameríku myndu lokast, svo dæmi sé nefnt. En munurinn er sá að við stöndum efnahagslega mun betur, með öflugan gjaldeyrisvaraforða, stýrivextir hafa aldrei verið lægri og skuldsetning er mun minni. Þá er auðvitað munur á því að vera í sömu stöðu og allar nágrannaþjóðir okkar sem var auðvitað ekki 2008. En þessi kreppa verður djúp og erfið og mun reyna á samfélag okkar.

Í kreppu sem fjármálaráðherra lýsir sem þeirri dýpstu í 100 ár, er eðlilega rætt um jöfnuð og kjör framlínunustétta og ómissandi fólks í faraldrinum. Eru líkur á því að verðmætamat breytist í kjölfar þessa áfalls? Og hvernig?

Í þeim aðgerðum sem við kynntum núna síðast var meðal annars lagt til sérstakt COVID-álag á framlínufólk innan heilbrigðisþjónustunnar. Þegar svona stendur á sýnir það sig hve mikil verðmæti felast í öflugri almannaþjónustu, hvort sem er innan heilbrigðiskerfis, menntakerfis eða félagslega kerfis. Þarna hefur fólk í raun og veru umbreytt öllu til að takast á við faraldurinn og sýnt sveigjanleika í raun. Sama má segja um þá sem standa í framlínunni í margháttuðum þjónustustörfum; verslunum, þjónustu, strætisvögnunum og svo mætti lengi telja. Sá lærdómur sem við getum líka dregið af þessum faraldri er að það er hið ósýnilega umhyggjuhagkerfi sem heldur samfélaginu saman, annars vegar öflugt velferðarkerfi og hins vegar hin ólaunaða umhyggja sem við sýnum hvert öðru, það að styðja hvert við annað, sýna samstöðu og hjálpa hvert öðru. Mínar vonir standa til þess að þessi reynsla sem við göngum í gegnum núna muni hafa áhrif á verðmætamat okkar.

Hugmyndir hafa verið settar fram af hálfu atvinnurekenda um að fresta gildistöku kjarasamninga, hækkun launa stjórnmálamanna frá 1. janúar hefur verið mótmælt og krafist er lækkunar. Verða launalækkanir og ef svo hvernig?

Ekki er útilokað að það þurfi að endurskoða laun allra toppa hjá hinu opinbera þegar við setjum niður okkar áætlanir fyrir framtíðina, stjórnmálamenn þar ekki undanskildir.

Atvinnuleysi rýkur nú upp,  stór hluti alls vinnuafls í er í fangi ríkisins. Munu almennir kjarasamningar halda?  Og hvað ef Efling fer aftur í verkfall?

Ég vona að sjálfsögðu að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði haldi en auðvitað er óvissan mikil um framtíð margra fyrirtækja sem mun hafa mikil áhrif á lífskjör fólks. Ríkisstjórnin vinnur áfram samkvæmt þeirri yfirlýsingu sem við gáfum í fyrra og mun leggja fram í vor fleiri mál sem tengjast lífskjarasamningum til að standa við hana. Nú þegar hefur mörgum verkefnum verið lokið en önnur eru enn í vinnslu.

Í faraldrinum hefur rofað til í loftslaginu. Getum við á einhvern hátt unnið út frá því og breytt samfélaginu í þá átt að minnka mengun til frambúðar, draga úr sóun og minnka ójöfnuð. Hvernig sérðu fyrir þér nýtt samfélag eftir Covid 19?

Okkar áherslur eru einmitt grænar áherslur. Í fjárfestingum stjórnvalda er ekki verið að horfa á orkufrekan iðnað líkt og venjan var að kalla eftir á árum áður í fyrri kreppum, heldur þekkingargeirann, nýsköpun og rannsóknir og innlenda matvælaframleiðslu sem einmitt þjónar loftslagsmarkmiðum. Þá hefur verið aukið við fjárfestingar í orkuskiptum sem er lykilatriði til að ná þeim skuldbindingum sem við höfum undirgengist. Uppfærð aðgerðaáætlun verður lögð fram núna í byrjun sumars og við erum staðföst í að ná miklum árangri í loftslagsmálum, óháð faraldrinum. Á alþjóðavísu er ljóst að það verða varanlegar breytingar á vöruflæði heimsins. Hér mun skilja á milli þeirra sem horfa til loftslagsmarkmiða og þeirra sem gera það ekki tel ég. Uppbrotið sem hefur orðið síðustu vikur og mánuði getur til dæmis leitt til þess að vörukeðjur verði styttri sem er eitt af stóru atriðunum í baráttunni gegn loftslagsvánni.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search