Search
Close this search box.

Nýju föt keisarafjölskyldunnar

Deildu 

Hver elskar ekki að klæðast fallegri flík við minnsta tilefni? Hoppa á nýjustu tískubylgjuna eða reyna að koma nýrri af stað? Að gera góð kaup á útsölu eða safna fyrir flík sem lengi hefur verið á óskalistanum? Tískubylgjur virðast koma og fara á sama hraða og hitabylgjur sumarsins en síðastliðin ár hafa orðið miklar breytingar á lífstíma tískutímabila. Tímabilin verða sífellt styttri og framleiðendur aðlaga starfsemi sína að breyttum veruleika. Þróuninni fylgir því miður aukin ofneysla sem við Íslendingar tökum svo sannarlega þátt í, hver Íslendingur losar sig við a.m.t. 20 kg af textíl á ári, umtalsvert meira en meðal jarðarbúi. 

Síðastliðin ár hafa vinsældir endurnotkunar aukist hratt og við höfum séð jákvæða þróun þá sérstaklega er kemur að fatnaði. Lengi voru fataverslanir Rauða krossins og Hjálpræðishersins viðkomustaðir þeirra sem þurftu eða vildu kaupa ódýran, notaðan fatnað en nýlega hafa fjöldi loppumarkaða opnað dyr sínar. Þar geta seljendur leigt bása og selt föt eða aðra muni í anda hringrásarhagkerfisins. Vinsældir þeirra er fagnaðarefni, við sjáum föt og aðrar vörur öðlast framhaldslíf sem fjölgar þeim skiptum sem hver flík er notuð. En hefur tilkoma loppumarkaða ekki komið upp um okkur og neyslumynstrið sem Íslendingar hafa tileinkað sér?

Hvaðan koma öll þessi föt?

Básar á íslenskum loppumörkuðum eru oftar en ekki uppbókaðir allan ársins hring, margir fullir af lítið eða ónotuðum fötum. Föt sem pössuðu ekki, voru ekki nógu klæðileg eða jafnvel dottin úr tísku áður en hægt var að nota þau. Hvar hefðu fötin endað ef ekki væri fyrir markaðstorgin? Eftirspurnin eftir sölubásum og fjöldi slíkra markaða gefur til kynna að neysla okkar er hvorki sjálfbær né ábyrg. Það er til mikils að vinna og ávinningurinn getur verið umtalsverður eins og útreikningar EFLU fyrir eigendur Barnaloppunnar sýnir fram á. Frá stofnun Barnaloppunnar er talið að endursala hafi komið í veg fyrir losun 9.6 þúsund tonna af koltvísýringsgildum út í andrúmsloftið sem samsvarar útblæstri 42.500 bíla á ári. Samantektin setur neyslu okkar í samhengi við umhverfisáhrif og minnir á þörfina fyrir ábyrgari neytendum og breyttu hegðunarmynstri.

Áhrif á umhverfið 

Textíliðnaður er ábyrgur fyrir 8-10% af losun gróðurhúsaloftegunda í heiminum, losar rúmlega 1,2 milljarða tonna koltvísýringsgilda á ári, meira en allt millilandaflug og sjóflutningar samanlagt. Áhersla stórfyrirtækja á lágt vöruverð leiðir til sparnaðar við mengunarvarnir og launakostnað og er vinnuaðstaða bágborin. Það bitnar helst á konum og börnum sem eru jafnan í meirihluta starfsfólks við framleiðslu textíls. Margt jákvætt er þó að gerast í heimi textílframleiðslu þar sem hönnuðir og framleiðendur horfa til þess að lágmarka vistsporið og bjóða upp á gæðavörur, lífrænt vottaða framleiðslu eða sanngjarna viðskiptahætti (e. „fair trade“). Hönnuðir tala um “línulausa nálgun” eða “árstíðalausa nálgun” þar sem áhersla er lögð á vandaðan og sígildan fatnað sem endist lengur. 

Sannfæringarmáttur klæðskeranna

Nokkrar alþjóðlegar fatakeðjur hafa sett sér stefnumótandi áætlanir um umhverfisvænni framleiðslu, draga úr ríkjandi áherslu á örtískubylgjur (e. „fast fashion“), sem kynda undir stöðuga neysluþörf. Samt sem áður er erfitt að sanna sannleiksgildi slíkra loforða og skilja á milli grænþvottar og raunverulegra breytinga. Á samfélagsmiðlum styðja stórfyrirtæki við áhrifavalda sem upphefja magnkaup (e. “shopping haul”) og smærri fyrirtæki koma vörum sínum á kortið með skipulögðum örtískubylgjum. Áherslan er sett á ofneyslu, föt seljast upp á mettíma en litlu máli virðist skipta að fötin verði aðeins notuð einu sinni og dreifast síðan á loppumarkaði eða enda í landfyllingum.

Hvað getum við gert til að leggja okkar af mörkum?

Ein af stærstu áskorunum Íslands er kemur að baráttunni við loftslagsbreytingar er ofneysla, kolefnisfótspor íslenskra heimila er stærra en þekkist í nágrannalöndum. Á mánudag staðfesti skýrsla IPCC að dregið er of hægt úr óafturkræfum áhrifum á loftslagið, nýta þarf auðlindir betur og viðhalda verðmætum þeirra eins lengi og hægt er. Öll þurfum við að leggja okkar af mörkum, stjórnvöld, fyrirtæki og einstaklingar. Breytt neyslumynstur, meðal annars á fatnaði er mikilvægt í baráttunni gegn ofneyslu. Ábyrg meðhöndlun, lengri notkun, endurnýting, endurvinnsla og endursala skipta máli. Við ákveðum hvar og hvenær við kaupum fatnað. Þá er gott að hafa í huga vistspor og gæði vörunnar, notagildi og að í hvert skipti sem við kaupum notaða vöru í stað nýrrar drögum við úr framleiðsluþörf. Nýtum auðlindir jarðarinnar betur og ábyrgjumst eigin neyslu. Þrýstum á stórfyrirtæki að fylgja eigin áætlunum og setjum þeim hærri kröfur.

Höfundar: Hólmfríður Árnadóttir, oddviti VG í Suðurkjördæmi, og Una Hildardóttir, sem er í
2. sæti á lista hreyfingarinnar í Suðvesturkjördæmi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search