Sjúkratryggingar Íslands hafa gert samning við Reykjalund, endurhæfingarmiðstöð SÍBS, um endurhæfingarþjónustu stofnunarinnar. Samningurinn tekur gildi 1. apríl næstkomandi og er til tveggja ára, með möguleika á framlengingu um tvö ár til viðbótar. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur staðfest samninginn sem forstjóri Sjúkratrygginga Íslands og stjórnendur Reykjalundar undirrituðu í heilbrigðisráðuneytinu fyrir helgi. Aðilar segja samninginn marka þáttaskil og muni efla og styrkja í sessi þá mikilvægu endurhæfingarþjónustu sem Reykjalundur annast á landsvísu.
Með samningnum er lögð áhersla á skilvirkni, skýra forgangsröðun og ýtarlega skilgreiningu á þeirri þjónustu sem stofnuninni er ætlað að veita. Þetta leiðir til þess að unnt verður að auka framboð endurhæfingarþjónustu Reykjalundar frá því sem verið hefur. Kveðið er á um að Reykjalundur setji sér mælanleg markmið um gæði og árangur þjónustunnar og að beitt verði viðurkenndum aðferðum til að meta árangurinn. Niðurstöður árangursmælinga fyrir hvert meðferðarsvið Reykjalundar skulu kynntar Sjúkratryggingum Íslands í ársskýrslu.
Sjúklingar hvaðanæva af landinu geta sótt þjónustu á Reykjalundi. Til að fullnægja skilyrðum um jafnræði landsmanna skal þar boðin gisting fyrir þá einstaklinga sem búa fjarri stofnuninni. Einnig er í samningnum kveðið á um að gisting skuli standa til boða þeim sem af heilsufars- félagslegum eða öðrum ástæðum geta ekki nýtt sér endurhæfingu án þess. Á Reykjalundi eru samtals 60 gistirými í þessu skyni.
Hópmeðferð fyrir fólk með heilaskaða er ný þjónusta hjá Reykjalundi sem sérstaklega er kveðið á um í samningnum. Viðbótarframlag vegna þeirrar þjónustu nemur 20 milljónum króna. Áskilið er að talmeinafræðingur og taugasálfræðingur starfi hjá stofnuninni til að sinna þeirri þjónustu.
Fjárveiting til endurhæfingarþjónustu Reykjalundar á þessu ári nemur tæpum 2,1 milljarði króna.