Search
Close this search box.

Nýsköpun í þjónustu við aldraða

Deildu 

Um helgina staðfesti ég samning Öldrunarheimila Akureyrar og  Sjúkratrygginga Íslands um rekstur öldrunarþjónustu. Með samningnum er skapað svigrúm fyrir aukinn sveigjanleika í þjónustu við aldraða til að mæta betur þörfum notenda. Þess er vænst að samningurinn verði fyrirmynd að gerð sambærilegra samninga milli Sjúkratrygginga Íslands og annarra rekstraraðila hjúkrunarheimila um allt land. 

Með samningnum er brotið í blað þar sem gerður er sérstakur samningur á milli Sjúkratrygginga Íslands og rekstraraðila hjúkrunarheimilis í stað þess að semja við  alla rekstraraðila hjúkrunarheimila í einu lagi líkt og hefur tíðkast.

Eins og fram kemur í samningnum er meginmarkmiðið að skapa svigrúm til sveigjanleika í öldrunarþjónustu sem gefur meðal annars kost á tímabundnum úrræðum og breytilegum þjónustutíma eftir þörfum. Forsagan er sú að Öldrunarheimili Akureyrar óskuðu eftir og fengu á liðnu ári heimild til að ráðast í nýsköpunar- og þróunarverkefni í öldrunarþjónustu sem í stuttu máli byggist á sveigjanlegri dagþjónustu í stað hvíldarinnlagna. Verkefnið hófst í byrjun þessa árs og hefur gefið góða raun.

Með samningnum sem undirritaður var um helgina er komin umgjörð sem styður betur við það markmið að þjónusta við aldraða byggi á einstaklingsmiðaðri þjónustuþörf og sé samfelld. Með því að bjóða fólki sem býr heima, en þarf stuðning,  fjölbreyttari og meiri þjónustu yfir daginn má draga úr og seinka þörf fyrir innlögn á hjúkrunarheimili og gefa fólki tækifæri til að búa á eigin heimili eins lengi og kostur er.

Í kjölfar samþykktar Alþingis á Heilbrigðisstefnu til 2030 hef ég hafði innleiðingu stefnunnar meðal annars með því að halda kynningarfundi í öllum heilbrigðisumdæmum. Fyrsti fundurinn var haldinn á Akureyri um miðjan júní.  Við það tilefni heimsótti ég hjúkrunarheimilið Hlíð á Akureyri og fékk kynningu á því öfluga starfi sem þar fer fram. Á Hlíð og á fleiri hjúkrunarheimilum á Akureyri er nýsköpun í öldrunarþjónustu í öndvegi. Það er rétt að líta til þess öfluga starfs sem þar er unnið í þróun öldrunarþjónustu á landsvísu og tel ég að með samningnum sem undirritaður var um helgina sé stutt við nýsköpun á þessu sviði sem nýtast mun í öldrunarþjónustu á hjúkrunar- og dvalarheimilum um land allt.

Við okkur blasir að þjóðin er að eldast. Leggja þarf aukna áherslu á forvarnir og heilsueflingu og bjóða upp á fjölbreyttari þjónustu við aldraða. Sveigjanleiki og fjölbreytni er það sem koma skal, styðja þarf við sprota og frumkvæði til nýsköpunar í þessari mikilvægu þjónustu og er undirritunin um helgina mikilvægt skref í þá átt.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search