Í liðinni viku barst tilkynning um að vestfirska fyrirtækið Kerecis hefði verið keypt af dönsku fyrirtæki fyrir 175 milljarða króna. Eðlilega vakti það mikla athygli, enda er kaupverðið hátt og fyrirtækið verið talsvert í umræðunni síðustu ár sökum velgengni sinnar. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í framleiðslu á lækningavörum úr þorskroði og vörurnar hafa hjálpað fjölda fólks að ná heilsu og getið sér þannig góðan orðstír.
Nýsköpun sem byggist á því að nýta lausnir náttúrunnar er ekki nýtt fyrirbrigði. Vængir fugla hafa nýst við hönnun flugvéla, franskir rennilásar voru innblásnir af því hvernig tiltekin fræ loða við feld og svona mætti lengi telja. Náttúran er endalaus uppspretta lausna þegar vel er að gáð. Þess vegna er mikilvægt að hlúa að grunnrannsóknum til þess að auka þekkingu okkar á náttúrunni.
Eitthvað annað vex
Íslenskt efnahagslíf hefur lengi verið auðlindadrifið. Sjávarútvegur, orkufrekur iðnaður og ferðaþjónusta reiða sig á innlendar auðlindir til þess að skapa verðmæti til útflutnings. Með aukinni áherslu á nýsköpun er að verða til blandaðra hagkerfi hefðbundinnar auðlindanýtingar og nýsköpunar. Kerecis er ákaflega farsælt dæmi um þessa blöndu, þar sem aðföngin í framleiðslu Kerecis eru hliðarafurð úr sjávarútvegi. Fleiri áþekk dæmi eru til víðs vegar um landið, verðmætar afurðir verða til úr rækjuskel frá Siglufirði, bætiefni úr hliðarafurðum í laxeldi og svo framvegis. Fleiri tækifæri eiga eftir að verða til á næstu árum þó ómögulegt sé að sjá fyrir hvaða hliðarafurð verði næst að auðlind.
Það sem er einnig jákvætt er að þessi nýsköpun eigi sér stað víðar en í Vatnsmýrinni. Einhæfni í atvinnulífi er ekki góð fyrir samfélög á landsbyggðinni. Með því að byggja upp innviði víðs vegar um landið, í samgöngum, fjarskiptum og með samkeppnishæfu umhverfi fyrir nýsköpunarfyrirtæki geta stjórnvöld stuðlað að því að fleiri fyrirtæki komist á legg. Sjóðir á borð við Matvælasjóð, Rannís og Tækniþróunarsjóð og þjónustufyrirtæki á borð við Matís gegna einnig mikilvægu hlutverki í þeim innviðum sem þurfa að vera til staðar til þess að nýsköpun verði að veruleika. Við eigum sífellt að meta og endurmeta hvort við getum gert betur í þessum efnum. Þannig getum við aukið líkurnar á að fleiri fyrirtæki eins og Kerecis verði til.
Sem ráðherra matvæla nýt ég þeirra forréttinda að hitta reglulega fólk sem starfar að nýsköpun í málaflokkum ráðuneytisins. Eftir að hafa kynnst þeim krafti sem þar er að finna finnst mér líklegt að þegar sé búið að stofna „næsta Kerecis“ einhvers staðar á Íslandi. Hugmynd hefur kviknað í kolli og unnið er að því að koma henni í raunheima. Til mikils er að vinna að kerfin okkar geti aðstoðað við að koma hugmyndinni á legg.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra