Search
Close this search box.

Nýtt loftslagsráð – nýr fulltrúi ungs fólks

Deildu 

Nýtt loftslagsráð kom saman í fyrsta sinn í gær en því er ætlað að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um stefnumarkandi ákvarðanir sem tengjast loftslagsmálum á Íslandi. Þetta er í annað sinn sem loftslagsráð er skipað.

Með breytingum sem Alþingi samþykkti á lögum um loftslagsmál í vor er loftslagsráð lögfest og tiltekið að í ráðinu skuli eiga sæti fulltrúar frá tilteknum aðilum en að auki er gert ráð fyrir að umhverfis- og auðlindaráðherra hafi heimild til að skipa fulltrúa annarra, sem þörf er talin á að eigi sæti í ráðinu á hverjum tíma. Ráðherra bætir nú inn í ráðið fulltrúa ungs fólks sem undanfarið hefur m.a. beitt sér í loftslagsmálum.

Einnig bætast við fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands og Viðskiptaráði Íslands, auk þess sem fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur verið fjölgað í tvo.

Auk formanns, varaformanns og framangreindra fulltrúa sitja í loftslagsráði fulltrúar frá Bændasamtökum Íslands, Festu – miðstöð um samfélagsábyrgð, Neytendasamtökunum, háskólasamfélaginu, Samtökum atvinnulífsins og umhverfisverndarsamtökum.
Sem fyrr er formaður ráðsins Halldór Þorgeirsson, fyrrum yfirmaður hjá skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC), skipaður af umhverfis- og auðlindaráðherra. Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, er áfram varaformaður og skipuð af umhverfis- og auðlindaráðherra.

Í ráðinu eiga að auki sæti:

 • Sigurður Thorlacius, fulltrúi ungs fólks, skipaður af umhverfis- og auðlindaráðherra,
 • Maríanna Traustadóttir, sérfræðingur, tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands,
 • Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands,
 • Jóhanna Harpa Árnadóttir, stjórnarmaður, tilnefnd af Festu – miðstöð um samfélagsábyrgð,
 • Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, prófessor, tilnefnd af samstarfsnefnd háskólastigsins,
 • Steingrímur Jónsson, prófessor, tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins,
 • Sævar Helgi Bragason, jarðfræðingur, tilnefndur af Neytendasamtökunum,
 • Hrefna Karlsdóttir, sérfræðingur, tilnefnd af Samtökum atvinnulífsins,
 • Hrönn Hrafnsdóttir, verkefnisstjóri, tilnefnd af Samtökum íslenskra sveitarfélaga,
 • Ragnar Frank Kristjánsson, sviðsstjóri, tilnefndur af Samtökum íslenskra sveitarfélaga,
 • Árni Finnsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, tilnefndur sameiginlega af umhverfisverndarsamtökum,
 • Ragnhildur Freysteinsdóttir frá Skógræktarfélagi Íslands, tilnefnd sameiginlega af umhverfisverndarsamtökum,
 • Gunnar Dofri Ólafsson, lögfræðingur, tilnefndur af Viðskiptaráði Íslands.

Loftslagsráði er m.a. ætlað að veita ráðgjöf um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, aðgerðir til að auka kolefnisbindingu og aðlögun að loftslagsbreytingum. Þá hefur það einnig það hlutverk að rýna áætlanir stjórnvalda sem snerta loftslagsmál; hafa yfirsýn yfir miðlun fræðslu og upplýsinga um loftslagsmál til almennings, fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga; og rýna tillögur sem berast frá fagstofnunum um vöktun og rannsóknir sem tengjast loftslagsbreytingum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search