Search
Close this search box.

Nýtt og skilvirkara kerfi um atvinnuréttindi útlendinga utan EES

Deildu 

Komið verður á nýju og skilvirkara kerfi um atvinnuréttindi útlendinga utan EES. Forsætisráðherra, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra kynntu tillögur þess efnis á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í dag.

Þörf er á nýrri nálgun fyrir fólk utan EES-svæðisins sem vill flytja hingað til lands, búa hér og starfa. Ísland stendur fremstu ríkjum umtalsvert að baki í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að því að að laða að og gera innflytjendum kleift að verða fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Núverandi fyrirkomulag er flókið og byggist á óskilvirkum ferlum, ákvarðanataka innan þess er tilviljanakennd þar sem hún grundvallast á óljósu mati á vinnumarkaði og of þröngar skorður eru settar fyrir veitingu atvinnuleyfa.

Íslenskt samfélag á mikið undir að vel takist til með breytingar á núverandi fyrirkomulagi. Leiðarljósið í breytingum á dvalar- og atvinnuleyfakerfinu á að vera gagnsæi, sanngirni, traust og skilvirkni. Engar vísbendingar eru um annað en að Ísland verði að treysta á aðflutt fólk til að manna fjölmörg störf sem verða til á komandi árum og áratugum til að halda uppi lífsgæðum og velsæld í íslensku samfélagi. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem koma hingað til lands er að leita að bættum lífsgæðum og að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi og mikilvægt er að íslenskur vinnumarkaður verði aðgengilegri þeim sem hingað vilja koma.

Til að ná þessum markmiðum verður ráðist í eftirfarandi aðgerðir:

  • Reglur um dvalar- og atvinnuréttindi útlendinga verði rýmkaðar

Gerðar verði ýmsar breytingar til þess að rýmka reglur um dvalar- og atvinnuréttindi útlendinga í því skyni að gera Ísland að eftirsóknarverðari og samkeppnishæfari kosti fyrir erlenda starfsmenn og nema utan EES, gera íslenskt samfélag fjölbreyttara og um leið styrkja efnahagslífið til framtíðar.

  • Fyrirsjáanleiki verði tryggður með spá um mannaflaþörf

Nýju kerfi verði komið á fót sem taki mið af mannaflaþörf. Vinnumálastofnun greini þörf vinnumarkaðar að fenginni ráðgjöf utanaðkomandi sérfræðinga og aðila vinnumarkaðarins sem staðfest verði af félags- og vinnumarkaðsráðherra. Samhliða verði eftirlit með félagslegum undirboðum eflt. Vinnuskiptasamningum við önnur ríki verði fjölgað.

  • Stjórnsýsla verði einfölduð með sameiningu dvalar- og atvinnuleyfa

Dvalarleyfi, sem eru gefin út af Útlendingastofnun, og atvinnuleyfi, sem eru gefin út af Vinnumálastofnun, verði sameinuð í dvalarleyfi sem skipt verði í ólíka flokka og gefin út af Útlendingastofnun.

  • Umsóknarferli um dvalarleyfi verði einfaldað og bætt með stafvæðingu

Til að gera umsóknarferlið aðgengilegra fyrir umsækjendur sem og að auðvelda úrvinnslu umsókna í nýju kerfi eru lögð til metnaðarfull áform til að hraða stafvæðingu. Með aukinni sjálfvirknivæðingu umsóknarferlisins, sem byggir á stafvæðingu, verður hægt að tryggja styttri málsmeðferðartíma, auðvelda gagnaúrvinnslu og auka yfirsýn yfir gögn um umsækjendur.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra: „Þessar breytingar fela í sér verulega kerfisbreytingu fyrir íslenskan vinnumarkað. Framundan er mikil vinna við nánari útfærslu á tillögunum sem unnin verður í samráði við aðila vinnumarkaðarins en sýn stjórnvalda er skýr og hún felur í sér sanngjarnari, gagnsærri og skilvirkari leikreglur um þátttöku fólks utan EES á íslenskum vinnumarkaði.“

„Það er mikið fagnaðarefni að við séum að stíga stór skref í að auðvelda alþjóðlegum sérfræðingum og nemendum að koma hingað til lands svo íslenskt samfélag fái notið sérfræðiþekkingar þeirra, þeir miðli áfram sinni reynslu og þekkingu,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. „Það er grundvöllur fyrir vaxtartækifæri okkar að við höfum aukinn mannauð og þekkingu og stöndum samkeppni annarra landa um fólk.“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra: „Með þessum breytingum erum við að stíga mikilvægt skref fyrir vinnumarkaðinn á Íslandi. Við föngum þekkingu og reynslu fólks utan EES-svæðisins og aukum þannig samkeppnishæfni landsins. Nýtt kerfi atvinnuleyfa útlendinga mun byggja á mannaflaspám sem unnar verða reglulega, auk þess sem kerfi leyfisveitinga verður einfaldað og komið fyrir á einni hendi.“

Tillögur starfshóps um atvinnuréttindi útlendinga utan EES

Kynningarglærur af blaðamannafundi

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search