Search
Close this search box.

Nýtt ráðuneyti matvæla mun efla landbúnað

Deildu 

Nýtt ráðuneyti matvæla tók til starfa um mánaðamótin. Málaflokkar ráðuneytisins eru sjávarútvegur, landbúnaður, matvælaöryggi og fiskeldi líkt og áður en tveir nýir málaflokkar bætast við; skógrækt og landgræðsla. Í matvælaráðuneytinu horfum við til þess að Ísland verði í fremstu röð á heimsvísu í framleiðslu matvæla. Mín sýn er sú að til þess að við komumst í fremstu röð þá þurfi sjónarmið um jöfnuð og sjálfbærni að liggja til grundvallar ákvörðunum. En jafnframt er ljóst að nýsköpun í sinni breiðustu mynd mun þurfa til þess að komast á leiðarenda. Í nýju ráðuneyti mun ég leggja áherslu á sjálfbæra nýtingu auðlinda, en almennt er talað um þrjár víddir sjálfbærni.

Umhverfisleg sjálfbærni – krafa um árangur í loftslagsmálum 

Við þurfum að tryggja að matvælaframleiðsla á Íslandi styðji í enn meira mæli en áður við loftslagsmarkmið Íslands. Landbúnaður byggir á hringrás næringarefna og þess vegna er innleiðing hugmyndafræði hringrásarhagkerfis vel til þess fallin að bæta árangur og draga úr kolefnisspori. Aukin lífræn ræktun getur haft jákvæð áhrif á hringrásir næringarefna og mun ég vinna tímasetta aðgerðaráætlun til eflingar lífrænnar ræktunar. Traust orðspor Íslands á alþjóðavettvangi eru mikilvæg verðmæti fyrir íslenskan útflutning sem og innanlandsmarkað og síauknar kröfur eru um gæði, lágmörkun kolefnisspors, rekjanleika og vottanir matvæla. Til þess að orðsporinu sé viðhaldið þarf það að byggja á bestu mögulegri þekkingu og virðingu fyrir alþjóðlegum samningum.

Félagsleg sjálfbærni – aukin sátt um nýtingu landsins

Það er mikilvægt að við umgöngumst náttúruna á ábyrgan hátt og leggjum okkur fram við að vernda viðkvæm vistkerfi og líffræðilega fjölbreytni. Markmiðið þarf alltaf að vera að halda til haga órofa tengslum fólks og umhverfis, gæta að lífríkinu öllu og því sem nærir það. Bændur sem vörslumenn lands hafa stóru hlutverki að gegna þegar kemur að því að ná markmiðum okkar í loftslagsmálum og því er gott samstarf við þá gríðarlega mikilvægt. Félagsleg sjálfbærni snýst líka um samfellda byggð í landinu og menningarlegt samhengi í sambúð manns og náttúru. Þessi sjónarmið mun ég hafa að leiðarljósi í mínu embætti sem matvælaráðherra og í þeim verkefnum sem ég mun fást við og setja á dagskrá. 

Efnahagsleg sjálfbærni – ný nálgun

Ljóst er að vinna þarf stefnumörkun í matvælamálum og landbúnaðarmálum þar með töldum áður en að endurskoðun búvörusamninga hefst á næsta ári. Þau atriði sem nefnd hafa verið hér að ofan, sjálfbærni ásamt sjónarmiðum um jöfnuð og nýsköpun munu verða þar fyrirferðarmikil. Landbúnaðurinn hvílir á djúpum rótum í atvinnusögu landsins. Til að greinin blómstri til framtíðar þarf að vökva þær. Leita þarf lausna á viðvarandi afkomuvanda í sauðfjárrækt þannig að þeir sauðfjárbændur sem hafa sauðfjárrækt sem aðalbúgrein geti lifað af vinnu sinni. Það mun ekki takast nema með því að gera breytingar. Taka þarf til skoðunar þá hvata sem eru í núverandi kerfi og meta áhrifin af mögulegum breytingum. Markmið með opinberum stuðningi við landbúnað þurfa vera skýr, mælanleg og hljóta víðtækan stuðning almennings til að tryggja samfélagslega sátt um umgjörðina til lengri tíma. 

Aðstoð vegna hækkunar á áburðarverði

Fyrir 2. umræðu fjárlaga fyrir jól lagði ég til að settar yrðu til hliðar 700 milljónir til þess að geta brugðist við miklum hækkunum á áburðarverði. Sú tillaga var samþykkt og í afgreiðslu þingsins kom fram að fjármunirnir skyldu greiddir út í gegnum búvörusamninga. Því verður fjármununum ráðstafað á þann veg að greitt verður álag á jarðræktarstuðning og landgreiðslur ársins 2021. Sú leið hefur marga kosti, en einna helst að það er einföld og ekki síður fljótleg leið til þess að koma þessum stuðningi þangað sem hans er mest þörf. Útgreiðsla verður eins fljótt og auðið er. Þá verða settar til hliðar 50 milljónir til þess að efla innviði Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins til þess að bæta ráðgjöf um áburðargjöf og leiðir til þess að draga úr henni. Fyrir bændur þýðir þetta að álagið verður u.þ.b. 75% af þeirri upphæð sem greidd var í desember síðastliðnum.

Þegar horft er til lengri tíma er ljóst að áskorun þessa áratugar verður að draga úr áburðarnotkun eins og kostur er. Við þurfum að leita leiða til þess að verða sjálfbær um áburð og ein mikilvæg leið til þess er að nýta lífrænan úrgang mun betur. Verkefni undir nafninu „Sjálfbær áburðarframleiðsla – heildstæð nálgun á hringrásarhagkerfi“ er nýfarið af stað hjá Matís og verður spennandi að fylgjast með því. Með hugviti, rannsóknum,  tækniframförum og búviti íslenskra bænda hef ég mikla trú á að við náum miklum árangri á sviði sjálfbærrar matvælaframleiðslu á komandi árum. Tækifærin eru fjölmörg og okkar að nýta þau.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search