Spennandi tímar eru runnir upp á Austurlandi með tilkomu hins víðlenda og, a.m.k. á landsbyggða mælikvarða, fjölmenna sveitarfélags sem saman er að renna úr Borgarfjarðarhreppi, Seyðisfjarðarkaupstað, Fljótsdalshéraði og Djúpavogshreppi. Fyrir er Fjarðabyggð þar sem sameinuð eru sex sveitarfélög á fjörðunum frá því sú sameining hófst.
Yfirgnæfandi meirihluti íbúa Austurlands er því nú sameinaður í tvö öflug sveitarfélög og sú sameining hefur öll orðið á grundvelli ákvarðana íbúanna sjálfra og án þvingunar. Þó slíkar sameiningar einar og sér leysi fjarri því öll vandamál dreifðra byggða og þéttbýliskjarna er enginn vafi að burðug sveitarfélög skipta máli þegar sækja þarf fram.
Samgöngur og innviðir
Austurland hefur nú á síðustu árum séð umtalsverðar samgöngubætur ná fram að ganga. Nægir þar að nefna tilkomu Norðfjarðarganga, sem sett voru af stað með fjárfestingarátaki þáverandi ríkisstjórnar 2012.
Þá hefur vegur verið byggður upp og lagður bundnu slitlagi í Skriðdal og um Berufjarðarbotn. Nú eru vegur yfir Öxi og Fjarðarheiðargöng að komast á framkvæmdastig á næsta og þarnæsta ári og bundið slitlag kemur á alla leiðina til Borgarfjarðar. Verulega auknu fé er varið til tengivega, almennra framkvæmda og viðhalds, þökk sé miklu átaki í innviðauppbyggingu í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þá hillir undir að ljósleiðarvæðingu landsins ljúki og niðurgreiðslur á flugfargjöldum, svonefnd „skosk leið“ eru á fjárlögum þessa árs og framkvæmdin senn að hefjast treysti ég. Þessar umbætur allar leggja grunn að samtengdu og sterkara Austurlandi.
Vinstri hreyfingin grænt framboð hefur bæði í orði og á borði stutt bæði heilsársveg um Öxi og Fjarðarheiðargöng og fylgt málum þar eftir með dyggum stuðningi og eftirfylgni fulltrúa VG fyrir austan sem hafa öðrum fremur látið að sér kveða af festu og einurð um þessi stóru og samfélagslega mikilvægu samgönguverkefni innan svæðisins.
Umhverfi og ferðaþjónusta
Á sviði umhverfismála hefur Austurland og ekki síst hið nýja og víðlenda sveitarfélag miklu að skarta. Vatnajökulsþjóðgarður hefur löngu sannað gildi sitt og spennandi tímar renna upp með hinum stóra Miðhálendisþjóðgarði sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar og til stendur að afgreiða frá Alþingi í vetur. Margar perlur á hálendi Austurlands og í hálendisjaðrinum, sem liggja utan marka núverandi Vatnajökulsþjóðgarðs, eiga að mínum dómi fullt erindi inn í hinn stóra hálendisþjóðgarð. Stuðlagil og ævintýrið kring um það færir okkur heim sanninn um þá auðlegð sem getur verið fólgin í einstökum náttúruperlum sem leynast víðar en nokkurn grunar og bíða síns tíma svo lengi sem þeim er ekki spillt.
Nátengdir umhverfismálunum eru möguleikar ferðaþjónustunnar og þar á Austurland mikið inni. Reyndar verður áhugavert að fylgjast með því hvernig kynni Íslendinga af eigin landi í sumar endast. Þar nutu fjarlægari landshlutar Suðvesturhorninu eins og Vestfirðir, Austurland og Norðausturhornið góðs af því að landinn tók sér tíma til lengri ferðalaga innan lands. Miðað við fjölda ánægðra ferðalanga sem uppgötvuðu ný svæði eða landshluta í sumar má gera sér vonir um að margir endurtaki leikinn.
Mennt er máttur
Að síðustu er rétt að minna á og að við brýnum okkur öll til dáða þegar kemur að því að styrkja stöðu Austurlands á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar. Bætt aðgengi að námi á háskólastigi er brýnt framfaramál fyrir Austurland. Samstarf heimamanna og háskólans á Akureyri gefur fyrirheit í þeim efnum en það þarf meira kjöt á beinin en svo.
Það verður að segja þá sögu eins og hún er að staða fjórðungsins hefur verið veik í þessum efnum. Sú staðreynd vakti strax athygli mína þegar ég fór að sinna málefnum Austurlands af meiri þunga eftir kjördæmabreytinguna 1999. Hærra menntunarstig, öflugt rannsókna- og nýsköpunarumhverfi og aukið framboð starfa sem úr slíkum jarðvegi spretta eiga að vera hvað efst á lista í sóknaráætlunum svæðisins á komandi árum. Þegar stórir sigrar eru að vinnast á sviði samgöngumála og minni orku og tíma þarf í þá baráttu er vel við hæfi að þetta taki við sem forgangsverkefni.
Ég óska hinu nýja sveitarfélagi og íbúum þess til hamingju og als hins besta. Ég vona að Vinstri-grænar áherslur fá þar sinn sess og þess er sannarlega þörf.
Þegar við höfum sigrast á heimsfaraldrinum, sem við munum gera, standa loftslagsmálin eftir sem stærsta áskorun samtímans, stærsta sammannlega verkefnið jafnvel frá upphafi vega.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Norðausturkjördæmis og forseti Alþingis