Search
Close this search box.

Nýtum tækifærið

Deildu 

Þegar ég mælti fyrir frumvarpi um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins í febrúar lagði ég áherslu á að Alþingi ætti nú einstakt tækifæri. Nú væri tækifæri til að ná raunverulegri umræðu um efnisatriði málsins og að koma sér saman um góðar, markverðar og mikilvægar breytingar sem lengi hefur verið kallað eftir.

Áhugavert er að lesa umsagnir sem borist hafa Alþingi um þær breytingar sem lagðar hafa verið til á stjórnarskrá og vissulega valda sumar þeirra vonbrigðum. Því miður má þar greina hefðbundna skotgrafapólitík sem er til þess eins fallin að koma í veg fyrir nokkra hreyfingu á málinu og um leið virðast allmargir umsagnaraðilar túlka samfélagslega sátt um breytingar þannig að hún felist í því að þeir komi fram eigin vilja.

Bersýnilegast kemur þetta fram í umsögnum um auðlindaákvæði frumvarpsins. Í tillögunni kemur eftirfarandi skýrt fram: Auðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru lýstar í þjóðareign. Þær ber ekki að afhenda til eignar eða varanlega og úthlutun nýtingarheimilda skal grundvallast á jafnræði og gagnsæi. Löggjafanum ber að taka afstöðu til gjaldtöku fyrir nýtingu heimildanna.

Í þágu útgerðanna?

Um þetta ákvæði berast nú umsagnir úr tveimur áttum. Annars vegar frá þeim sem telja að þetta hljóti að vera samið sérstaklega fyrir stórútgerðir:

„Er sátt útgerðarfyrirtækjanna mikilvægari en sátt yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar? Hvað með alla þá kjósendur sem veittu tillögum Stjórnlagaráðs brautargengi haustið 2012?” (Úr umsögn Stjórnarskrárfélagsins um frumvarp til stjórnskipunarlaga).

„Þið hafið gert þetta einkum til að þóknast sérhagsmunum útvegsmanna sem virðast eiga ykkur með húð og hári.” (Úr umsögn Þorvaldar Gylfasonar um frumvarp til stjórnskipunarlaga).

Gegn hagsmunum útgerðarinnar?

Eftir að hafa lesið þessi brigsl verða kannski einhverjir hissa að lesa umsagnir helstu hagsmunavarða útgerðarinnar og íslensks atvinnulífs:

„Að öllu framangreindu virtu telja SFS að fyrirliggjandi frumvarp sé ýmsum annmörkum háð og leggja til að frumvarpið nái ekki óbreytt fram að ganga. Hvatt er til endurskoðunar á efni frumvarpsins og samráðs við samtökin og aðra hagaðila.” (Úr umsögn SFS um frumvarp til stjórnskipunarlaga).

Og í annarri umsögn segir:

„Í ljósi framangreindra athugasemda leggja samtökin til að auðlindaákvæði frumvarpsins verði fellt brott.” (Úr umsögn Samtaka atvinnulífsins um frumvarp til stjórnskipunarlaga).

Og enn annar umsagnaraðili segir:

„Viðskiptaráð telur því misráðið að færa auðlindaákvæði þessa frumvarps óbreytt inn í stjórnarskrá lýðveldisins.” (Úr umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til stjórnskipunarlaga).

Sátt um engar breytingar?


Að sjálfsögðu hvetja allir þessir aðilar til að sátt náist um málið. Ef marka má umsagnirnar er ljóst að þeir gætu mætavel sæst á að halda rifrildinu áfram að eilífu þannig að ákvæði af þessu tagi komist aldrei inn í stjórnarskrá. Það verður aftur á móti áhugavert að sjá hvað alþingismenn munu segja þegar þeim gefst nú færi á að tryggja þjóðareign á auðlindum – ekki eingöngu sjávarauðlindinni sem sumir láta eins og málið snúist eingöngu um – og mæta þeim skýra vilja sem hefur ítrekað birst í könnunum og atkvæðagreiðslum.

Tillagan um auðlindaákvæði er vel ígrunduð og skýr eins og aðrar tillögur frumvarpsins. Þó að slíkt ákvæði finnist ekki í stjórnarskrám allra annarra ríkja hefur það verið til umræðu á Íslandi lengi og endurspeglar sú umræða þann vilja að stjórnarskráin fjalli með afdráttarlausum hætti um auðlindir landsins og nýtingu þeirra. Í þessu ákvæði er slík lína dregin.

Hið sama gildir um aðrar tillögur frumvarpsins, löngu tímabært ákvæði um náttúru- og umhverfisvernd, stjórnskipulega stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls og endurskoðaðan kafla um forseta og framkvæmdavald sem tekur tillit til þeirra breytinga sem orðið hafa á samfélagsgerðinni án þess að kollvarpa hlutverki forseta Íslands sem rík sátt er um.

Nú er tækifæri til raunverulegra breytinga ef við leyfum þeim ekki að ráða sem líður svo vel í gömlum skotgröfum að þeir mega ekki hugsa sér að málið leysist.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search