Við á Íslandi erum í fararbroddi jafnréttis í heiminum og mörg framfaraskref hafa verið stigin á undanförnum árum á sama tíma og sjá má bakslag víða í heiminum. Þegar núverandi stjórnarsáttmáli var undirritaður var í fyrsta sinn í slíkum sáttmála sett fram stofnun sjálfstæðrar mannréttindastofnunar. Á sama tíma færðust mannréttindamál til forsætisráðuneytis og í kjölfarið byrjaði forsætisráðherra að vinna að stofnun hennar en grænbók um mannréttindi hefur nú verið birt í samráðsgátt sem er liður á þeirri vegferð.
Með Vinstri græn í forystu ríkisstjórnar höfum við hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi til að tryggja öllum velsæld og tækifæri með félagslegum áherslum. Jafnrétti kynjanna og mannréttindi allra eru undirstaða heilbrigðs lýðræðissamfélags. Við eigum öll allt okkar undir því að mannréttindi séu virt og því mega engin vera undanskilin. Því má heldur aldrei gleyma að mannréttindi eru ekki sjálfsögð og það þarf ávallt að standa vörð um þau því undan þeim fjarar fljótt á tímum ófriðar og samfélagslegs óróa eins og sagan sýnir okkur.
Tilvist sjálfstæðrar mannréttindastofnunar er forsenda þess að hægt verði að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks líkt og einnig er kveðið á um í stjórnarsáttmála. Allt miðar þetta að því að við eigum öll jafnan rétt til að njóta mannréttinda án mismununar og fyrir þeim gildum hafa Vinstri græn alltaf barist, gildum sem gera samfélagið betra þegar þau komast á dagskrá.
Staða mannréttinda í heiminum hefur farið versnandi. Stríð í Evrópu, skelfileg staða í Íran og svo harðnaði viðhorf til réttinda kvenna og hinsegin fólks svo fátt eitt sé nefnt. Við getum ekki horft fram hjá þessu bakslagi og verðum nú sem aldrei fyrr að standa vörð um mannréttindi fólks og til þess þarf kortlagningu, stefnu og framkvæmd. Öflug sjálfstæð mannréttindastofnun er sannarlega á veg komin á vakt VG.
Jódís Skúladóttir, þingmaður NA-kjördæmis.