PO
EN

Öflugri stuðning viðfriðarstefnu og minnistuðning við öfgahægrið

Deildu 

Það er gleðilegt að sjá að Volodómír Selenskí, forseti Úkraínu, hafi séð sér fært að koma til Íslands á fund allra forsætisráðherra Norðurlandanna á Norðurlandaráðsþingi. Það var líka gott að sjá samstöðu leiðtoga Norðurlandanna með Úkraínumönnum. Skilaboðin voru skýr: Norðurlöndin standa áfram þétt við bakið á Úkraínu. Alltof margt fólk hefur látið lífið í ólöglegri innrás Rússa inn í Úkraínu sem hefur nú staðið yfir í rúm tvö ár og í kjölfarið hafa átt sér stað fjölmennustu fólksflutningar í heiminum frá seinni heimsstyrjöld. Alls hafa 10 milljónir Úkraínumanna flúið heimili sín vegna stríðsins, bæði innan Úkraínu en líka til Evrópuríkja.

Ísland hefur stutt veglega við Úkraínubúa með mannúðaraðstoð og diplómatískum stuðningi og við höfum tekið vel á móti saklausu fólki frá Úkraínu sem hefur neyðst til að rífa upp rætur sínar til að flýja stríðið. Ísland hefur tekið á móti um fimm þúsund manns frá Úkraínu, mestmegnis konum og börnum. Mannúðaraðstoð af því tagi þarfnast góðs skipulags og vilja stjórnvalda til að útfæra móttökuna vel og það hefur tekist að langmestu leyti, þó að það hafi búið til mikinn þrýsting á móttökukerfi okkar, húsnæðiskerfi og skóla. Enda ekki skrýtið.

Almenningur á Íslandi hefur líka sýnt stuðning sinn við flóttafólk frá Úkraínu í verki með beinum eða óbeinum hætti; hvort sem er með gjöfum eða óeigingjarnri sjálfboðamennsku.

En fólk er á flótta annars staðar í heiminum. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að á síðasta ári hafi 126 milljónir verið á flótta. Tæplega átta milljónir manna hafa flúið heimili sín vegna stríðsins í Súdan og næstum þrjár milljónir manna hafa nú flúið heimili sín vegna innrásar Ísraela inn á Gaza og á Líbanon. Tugþúsundir hafa látið lífið í grimmilegum árásum Ísraelshers á saklaust fólk á Gaza. Konur, börn og karlar. Og mannfallið í Líbanon hleypur á hundruðum. Stríðsátök eru meginástæða þess að saklaust fólk tekur sig upp og yfirgefur heimili sín, samfélagið sitt, yfirgefur jafnvel fjölskyldur og vini. Langflest þeirra sem flýja vegna stríðsátaka eru konur og börn samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna. Stríð umturnar lífi fólks og langflest þeirra sem hafa búið við stríð verða aldrei söm eftir þá lífsreynslu.

Viðbrögð okkar við stríðinu í Úkraínu eiga að vera leiðarljós

Viðbrögð okkar Íslendinga, í samvinnu við aðrar líkt þenkjandi þjóðir, við innrás Rússa inn í Úkraínu og stuðningur og aðstoð við úkraínsku þjóðina eiga að vera okkur fyrirmynd og leiðarljós þegar við sýnum öðrum þjóðum stuðning vegna ólöglegra innrása og stríðsátaka gagnvart saklausu fólki. Hvar sem það býr, hvaða trú sem það aðhyllist eða hvernig það lítur út. Við viljum öll frið og við eigum ekki að gera upp á milli fólks sem flýr stríð. Við þurfum að standa alltaf skýrt með friði og forystufólk þjóðarinnar þarf ávallt að boða í hvívetna friðsamlegar lausnir á vopnuðum deilum og stríðum. Friðarstefnan hefur nefnilega verið almennt leiðarstef í íslenskri utanríkisstefnu og henni eigum við að fylgja áfram í heimi vaxandi stríðsátaka og spennu. Þá skiptir meira máli en nokkru sinni fyrr að nýta rödd okkar og áhrif til að tala fyrir friði.

Tökum á móti öfgahægrinu og pópulismanum  

En það eru blikur á lofti og spenna á alþjóðasviðinu. Aukin þjóðernishyggja og útlendingaandúð í Evrópu, Bandaríkjunum og hér á landi er ógnvænleg. Hún býr til og elur á ótta hjá fólki og klýfur samfélög. Afraksturinn af þessari einangrunarstefnu og andúð birtist svo í vaxandi hernaðarhyggju með tilheyrandi spennu, stríðsátökum og mannfalli. Undanfarið hefur því miður alltof margt stjórnmálafólk á Íslandi daðrað við eða upphafið útlendingaandúð í miklu meira mæli en áður. Sama stjórnmálafólk gerir lítið úr eða grefur undan alþjóðastofnunum og alþjóðlegum sáttmálum. Allt í popúlískum tilgangi sem þjónar því eina markmiði að sundra grunngildum um mannréttindi og mannúð sem alþjóðleg sátt hefur verið um í kjölfar hryllings seinni heimsstyrjaldarinnar.

Við svona aðstæður reynir á mótstöðu þeirra sem vilja standa vörð um mannréttindi, mannúð og frið. Þá ríður á að sem flest tali og beiti sér skýrt gegn popúlisma og öfgahægrinu. Það gerum við með því að vinna gegn einangrunarstefnu, sundrungu og klofningi og leggja áherslu á opin og  fjölbreytt samfélög. Leggja áherslu á inngildingu fólks en ekki útilokun og á samvinnu okkar allra og samstöðu. Á mannúð og mannréttindi. Og það reynir ekki síst á að tala stöðugt fyrir friði og vinna af öllum mætti gegn stríðsátökum. 

Eini íslenski stjórnmálaflokkurinn sem hefur haft skýra friðarhyggju í sinni grunnstefnu frá stofnun er Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Til að öfgahægrinu og popúlismanum sé mætt og að friðarstefnan heyrist almennilega og sé áfram á dagskrá í íslenskum stjórnmálum og hafi vægi á Alþingi þurfa kjósendur að kjósa VG í næstu þingkosningum.


Rósa Björk Brynjólfsdóttir skipar 2. sætið á lista VG í Reykjavík norður.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search