PO
EN
Search
Close this search box.

Olía og gas – nei, enn einu sinni

Deildu 

Til þess að ná því mikilvæga markmiði að halda aftur af hlýnun loftslagsins og jafnvel snúa þróuninni þarf að ríghalda í ákveðiðið markmið: Aðeins má vinna og nota 30-40% þekktra birgða í jörð af kolum olíu og gasi. Um þetta er þarflaust að deila. Til viðbótar verður að sjá til þess að minna verði nýtt af kolum en samtímis að jarðgas (í fyrsta sæti) eða olía (í öðru sæti) komi sem mest í stað kolanna við orkuframleiðslu. Þau losa mest af gróðurhúsagösum fyrir hvert brennt tonn en gasið minnst. Til þessa þarf pólitískar ákvarðanir.

Tímabil slíkra aðgerða má þó aðeins verða stutt, þ.e. þar til kolefnislosun og kolefnisbinding taka að snúa við alvarlegri loftslagsþróun sem er vísindalega staðfest.

Þessar staðreyndir merkja ekki að opna beri fleiri olíu- og gaslindir á norðurslóðum. Þekktar birgðir olíu og gass, þar sem annars staðar, eru nægar til þess að stuðla að minnkandi kolanotkun á heimsvísu. Verð ólíkra orkugjafa skiptir vissulega máli en á endingu verða það losunarmarkmið ríkja sem mestu ráða um hvernig orka er framleidd og hvað hún kostar, ekki verðið og hagkvæmnin ein.

Íslendingar eiga að hafna því að opna á mögulega vinnslu olíu og gass við Jan Mayen. Gildir einu þótt hagnast megi á henni. Sú dýra vinnsla myndi ekki draga úr olíu- og gasvinnslu annars staðar eða beina þjóðum frá kolanotkun til olíu- og gasnotkunar. Hún bæri þess einungis merki að við vildum taka þátt í kapphlaupinu um að hagnast á efni sem þegar er vitað um í nægum mæli, meira að segja of miklum mæli, og framtíðin mun hafna að lokum. Vissulega verður erfitt fyrir sum ríki eða sjálfstjórnarsvæði, sem reiða sig á sölu olíu, kola og gass, að ná landi í loftslagsmálum – en þau neyðast til þess. Við erum ekki þar.

Þegar lagt er á Alþingi fram frumvarp til laga um að Ísland verði í hópi ríkja, sem ekki geta eða vilja vinna jarðefnaeldsneyti á næstunni, er það yfirlýsing um nýja tíma. Umsögn Orkustofunnar um nýlrgt þingmannafrumvarp VG (og fleiri), og orð orkumálastjóra í Morgunblaðinu 31. október, eru á skjön við raunveruleikann. Við afsölum okkur ef til vill fé með því að láta jarðefnin liggja en fáum lífsgæði í staðinn. Við vinnum ekki olíu eða gas en ýtum undir að meirihluti efnanna á heimsvísu verði látin óhreyfð.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search