Nú hafa tekið gildi nýjar reglur um komu fólks til Íslands vegna Covid-19-faraldursins. Síðastliðinn mánudag, 15. júní, bættist við sá valmöguleiki að fara í sýnatöku við landamæri ef skilyrði fyrir sýnatöku eru uppfyllt en áður höfðu allir sem komu til landsins þurft að fara í sóttkví í 14 daga. Sóttvarnareglur þarf að hafa í huga og mikilvægt er að við hlöðum öll niður smáforritinu, Rakning C-19. Á heimasíðunni covid.is er að finna góðar leiðbeiningar fyrir ferðalanga sem ég mæli með að sem flest kynni sér. Fyrir viku tók líka gildi frekari tilslökun á samkomubanni. Fjöldamörk á samkomum hækkuðu úr 200 í 500 og takmarkanir á gestafjölda sundlauga og líkamsræktarstöðva féllu niður.
Með þessum nýjum reglum höldum við áfram að draga úr samkomutakmörkunum og tökum varfærin skref í átt að því að opna landið. Það er mikilvægt fyrir samfélagið að vera opið, öflugt og virkt, en að við gætum þess á sama tíma að Covid-19 blossi ekki upp aftur. Nú munu ferðamann geta komið til landsins án þess að þurfa að vera í sóttkví og þannig gerum við landið okkar að eftirsóknarverðari áfangastað. Við sjáum að löndin í kringum okkur eru flest smám saman að opna sín landamæri og að mati sóttvarnalæknis er þessi leið sem við höfum ákveðið að fara, að taka sýni á landamærum landsins, skynsamleg í ljósi sóttvarnaráðstafana.
Með góðri vinnu og dugnaði undirbúningsaðila gekk vel að skipuleggja og koma verkefninu um sýnatöku á landamærum af stað. Sýnatakan, greining sýna, samskipti við ferðamenn og allt það fjölmarga sem þarf að huga að í þessu samhengi hefur gengið ótrúlega vel og þau sem hafa komið að þessari vinnu eiga þakkir skildar.
Hvert skref í tengslum við opnun landsins þarf að stíga af varfærni og yfirvegun svo síður verði bakslag. Hvert og eitt okkar þarf að muna að gæta áfram að sínum eigin sóttvörnum með því að virða eftir atvikum fjarlægð milli fólks, þvo hendur, spritta, vera heima ef einkenni gera vart við sig og fara sérstakalega varlega í nálægð við fólk sem er viðkvæmt fyrir veirunni. Þrátt fyrir að nú sé veiran á algjöru undanhaldi hérlendis megum við ekki gleyma því að hún getur blossað upp aftur. Með því að passa upp á einstaklingsbundnar sóttvarnir drögum við úr líkunum á því að það gerist.
Verkefninu er langt í frá lokið, og við verðum að vanda okkur áfram og sýna þolinmæði eins og við höfum gert hingað til. Við ætlum að opna samfélagið á varfærinn hátt og gæta þannig að því að sá góði árangur sem hefur náðst í baráttunni við veiruna glatist ekki. Hér eftir sem hingað til gerum við það saman.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.