Opinber heimsókn forsætisráðherra til Bretlands

Deildu 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, átti tvíhliða fund með Nicolu Sturgeon, fyrsta ráðherra skosku heimastjórnarinnar í gær. Ráðherrarnir ræddu meðal annars um samstarfsverkefni smærri ríkja á sviði hagsældar (e. the Wellbeing Economy Government project). Skotland leiðir verkefnið og munu ráðherrarnir taka þátt í stefnumótunarfundi í dag.  Katrín og Nicola ræddu einnig um loftslagsmál og um samstarf ríkjanna á sviði sjálfbærrar ferðamennsku.„Það eru sterk tengsl á milli Íslands og Skotlands og ég fagna mjög samstarfi okkar á sviði hagsældar og sjálfbærrar ferðaþjónustu. Við lítum til stefnumótunar skoskra stjórnvalda í þessum málaflokkum og fleirum, þar á meðal að því er varðar stafrænt kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi. Þá ræddum við sérstaklega um loftslagsmál enda löngu tímabært að þau mál skili sér inn í stefnumótun á öllum öðrum sviðum.“ segir Katrín Jakobsdóttir.Forsætisráðherra átti einnig fund með Fionu Hyslop, ráðherra menningarmála, ferðamennsku og alþjóðamála og Roseanna Cunningham, ráðherra umhverfis- og loftslagsmála í skosku heimastjórninni i Edinborg.

Tilefni fundanna er þriggja daga heimsókn forsætisráðherra til Bretlands sem hófst á heimsókn til Glasgow og Edinborgar.  En á næstu dögum ræðir Katrín, einnig við Jeremy Corbyn og Theresu May.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.