PO
EN

Opin­berir starfs­menn: Bákn eða bú­stólpi?

Deildu 

Það fer fyrir brjóstið á mér hvernig sumt fólk talar af óvirðingu og dónaskap um opinbera starfsmenn. Þeir séu táknmynd of mikilla ríkisumsvifa, hið stóra bákn ríkisins sem stækki á kostnað almennings. Óskilvirkir og sóun á almannafé. Ég mótmæli þessum málflutningi harðlega. Hann á ekki við nokkur rök að styðjast.

En hvaða fólk er þetta? Jú, þetta er kennarar barnanna þinna, þetta er hjúkrunarfræðingurinn á heilsugæslunni, þetta er lögregluþjóninn í hverfinu og slökkviliðsmaðurinn sem bjargar þér frá húsbruna. Það er því eðlilegt að spyrja: Er þetta fólk báknið í íslensku samfélagi? Svar mitt er skýrt: Nei, opinberir starfsmenn skipta lykilmáli í að standa undir velferð og öryggi borgaranna.

Það á að gera kröfur til opinberra starfsmanna, að sjálfssögðu, en að þeir þurfi að sitja undir allskonar ómaklegum árásum á sig, meðal annars frá stjórnmálamönnum, er óboðlegt. Reynsla mín af því að hafa unnið hjá Veiðimálastofnun, Landgræðslu ríkisins, Háskóla Íslands, og verið ráðherra í sjö ár er sú að opinberir starfsmenn sinni vinnu sinni af alúð, væntumþykju og metnaði fyrir íslensku samfélagi.

Ég held að okkur væri nær að horfa til kjaramála opinberra starfsmanna, sérlega kvennastétta eins og kennara, sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga og fleiri hópa. Vanmat á virði þeirra er staðreynd í íslensku samfélagi og verður að breyta. Á kjörtímabilinu sem leið voru stigin mikilvæg skref í að greina og þróa aðferðafræði um virðismat starfa. Hún á að geta skilað okkur nauðsynlegum upplýsingum og faglegum staðreyndum um kerfisbundið vanmat kvennastarfa og byggja þannig undir að leiðrétta kynbundin launamun hið snarasta.

Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Miðflokkur, hægri flokkarnir, tala um að skera niður í ríkisrekstri sem þýðir fækkun opinberra starfa. „Báknið burt“, segja þau við fólkið sem sinnir almannaþjónustu og þjóna almannahagsmunum. Þannig hefur hægrið búið til strámann úr opinberum starfsmönnum.

Orðið „bústólpi“ merkir stoð og stytta búsins. Ef við heimfærum það á samfélagið getum við spurt: Eru opinberir starfsmenn bákn eða bústólpi? Hugsaðu málið.

Höfundur er varaformaður VG og skipar 1. sæti VG í Suðvesturkjördæmi

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search