Þegar lagafrumvarp hefur verið rætt í 135 klst telst það málþóf. Þótt fyrr hefði verið. Á Alþingi, ólíkt mörgum þjóðþingum, hefur málþóf verið talið til gæða meðal þeirra sem eru í stjórnarandstöðu. Með því megi tefja eða hindra að mál nái fram til næstu umræðu og jafnvel eyða því með öllu. Málþóf hafa allir flokkar stundað en sjaldan með árangri sem þæfendur sætta sig við.
Í lögum um þingsköp leyfist þingmönnum að halda, eins oft og þeim sýnist, 5 mínútna ræðu, eftir að hafa talað í 20 mín. í fyrsta sinn og 10 mín. í annað sinn. Það er allur galdurinn; 50 ræður (!) ef svo verkast. Til að kæta þá sem fyrir málþófinu verða hefur ný leið verið reynd til að bæta um betur. Svonefnd andsvör við ræðum hafa auðgað umræður á þingi. Þau eru í reynd ekki réttur þingmanns, heldur leyfð af forseta. Tilgangurinn er augljós (og heitið líka): Fyrst og fremst sá að andstæðingur getur spurt ræðumann eða gert athugasemd við orð hans, fengið viðbragð, komið aftur í pontu og ítrekað eða spurt aftur og fengið ný viðbrögð. Engar reglur eru um andsvör, aðrar en tímalengd og fjöldi andsvara við hverri ræðu. Fyrir hefur komið að samherji í stjórnarliði spyrji samstarfsmann einhvers en það heyrir til undantekninga. Samherji úr flokki ræðumanns hefur örsjaldan nýtt sér andsvar enda í engu í samræmi við þetta leyfi til andsvara. Forseti getur bannað slíkt og eru þess fordæmi.
Miðflokkurinn hóf málþóf fyrir löngu og hefur sett allt þinghald úr skorðum. Ólíkt öllu öðru málþófi er hann einn að verki, ekki stjórnarandstaða gegn stjórnarliðum, og hann fer með andsvör í öllum ræðum þannig að úr verður samræða sömu fáu þingmannanna. Flokkurinn og samherjar hans í málinu úr öðrum skoðanahópum telja forseta bera ábyrgð á málþófinu af því hann, eða a.m.k. 9 þingmenn, leggja ekki fyrir þingsal til atkvæða að umræðum skuli hætt (71. grein þingskapa). Heimildinni hefur nær aldrei verið beitt vegna þess að ræðurétturinn hefur verið talinn ganga fyrir öllu og auðvelt fyrir þann sem fyrir slitum verður að barma sér sem fórnarlamb ritskoðunar, jafnvel ofbeldis. Í stað þess er reynt að höfða til ábyrgðar málsþæfenda og leyfa þeim að eiga sviðið, meðan stætt er.
Sömu andstæðingar málsins, sem til umræðu er, láta eins og ábyrgð á málþófi sé forseta af því „hann hafi dagskrárvaldið“ og geti ekki aðeins stöðvað umræður heldur líka raðað málum á dagskrá eins og honum einum sýnist. Góð stjórnun þings undanfarna áratugi hefur falist í að ljúka umræðu sem hafin er og hafa hana eins samfellda og unnt er (jafnvel með næturfundum). Enn fremur með því að dagskrá nokkurra daga eða viku í einu er unnin með forsætisnefnd í samræmi við þingsköp en ekki ákveðin af forseta einum, nema þegar allt þrýtur. Umræðum um tiltekið mál er jafnan aðeins frestað tímabundið (eins og forseti gerði nú í lok maí) en þó lengur ef málshefjandi, flokkur hans eða samstarfsflokkar ákveða það. Stundum er reynt að semja um lok málþófs, þegar sýnt er að helstu rök teljast komin fram. Oftast hætta menn þó málþófi af sjálfsdáðum. Af öllu þessu leiðir að höfuðábyrgðin á málþófi og misnotkun andsvara er Miðflokksins eins enda vita menn þar gjörla hve langt þeir geta gengið án harðra viðbragða.
Um málþófið má almennt segja að það er andstætt helstu viðmiðum hefðbundins (borgaralegs) lýðræðis. Minnihluti getur ekki talið sig eiga ótakmarkaðan tafarétt við afgreiðslu í hvaða félagi eða hópi sem setur sér lýðræðisreglur. Vel má hugsa sér málskotsrétt minnihluta, háðan ströngum reglum, til allra sem hópurinn vinnur fyrir, en auk þess væru takmörk fyrir því eftir fyrirferð og yfirgripi máls. Án meirihlutavalds er ekki hægt að ná árangri við stjórnun, ef og þegar samstaða næst ekki. Þess vegna eru hafðar upp reglur sem miða að því að meirihluti geti þjónað samfélaginu með því að afgreiða mál eftir faglegar og pólitískar umræður. Sanngirni meirihluta í garð minnihluta felst meðal annars í því að hann nái að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og jafnvel móta afgreiðslu mála, allt eftir pólitísku afli. Á móti reynir upplýstur og sanngjarn minnihluti að virða þau sannindi að ávallt kemur að þeim tíma að rök með og á móti í máli eru ljós orðin. Minnihluti hefur jafna ábyrgð og meirihluti á því að mál fái þá afgreiðslu sem fram fæst að lokum. Ábyrgð í umræðum felst í því nýta tíma í raunverulegar rökræður og frelsið í því að nýta það þar til ljós mynd af andstæðum sjónarmiðum, eða samstöðu, er til orðin. Linnulausar endurtekningar og málalengingar eru andstæðar borgaralegu lýðræði og því siðræna mati að bæði meiri- og minnihluti geti haft rangt fyrir sér. Að endingu axla menn ábyrgð á málflutningi eins og til er sáð og ljúka málsmeðferð. Staðreyndir skipta líka meginmáli í lýðræðislegri umræðu en þar líta menn oft ólíkum augum á silfrið.
Ég hef ávallt verið mótfallinn fundarsköpum sem leyfa málþóf eins og hér um ræðir. Tel tvær leiðir færir til breytinga. Önnur er sú að heimila tiltekinn ræðutíma í heild fyrir frumvörp og þingsályktanir (ræðutími til annars er þegar takmarkaður). Klukkustundafjöldann hlýtur að vera hægt að festa í ljósi reynslu og með samþykki flokka á þingi. Hin leiðin er sú að gera rétt aukins meirihluta þings til að stöðva umræðu eins hversdagslegan og unnt er. Með einhverju móti tekst flestum öðrum þingum að koma í veg fyrir málþóf af því tagi sem við þekkjum leiðustu dæmin um á Alþingi.