Raforka er vara á Íslandi, frá og með aðgengi okkar að EES-samningnum 1994, og enn frekar eftir samþykkt 1. og 2. orkupakkans. Um 80% orkunnar er nýtt í orkufrekan iðnað og varla óeðlilegt að hún teljist vara í viðskiptum.
Raforkuframleiðsla og raforkusala eru aðskilin og nokkur fyrirtæki vinna í báðum greinum. Háspennudreifing er í höndum Landsnets. Það er í eigu fjögurra orkufyrirtækja og eru aðaleigendur Landsvirkjun og Orka náttúrunnar. Burðarásar orkuframleiðslu og -flutnings eru sem sagt í opinberri eigu. Stjórnmálaflokkar nú til dags stefna ekki að einkavæðingu fyrirtækjanna. Hins vegar er erlendum fjárfestum heimilt að fjárfesta í orkufyrirtækjum, eins og í öðrum fyrirtækjum, nema í sjávarútvegi. Markaðsvæðing í hagkerfi er ekki sjálfkrafa vinsamleg alþýðu manna en hún merkir heldur ekki að vald ESB, EFTA eða annarra fjölþjóðabandalaga sé þar með orðið, eða verði, óhjákvæmilega yfirþjóðlegt og ráði innri orkumálum ríkja. Stjórnmálaákvarðanir innan og á milli ríkja þarf til þess, og eflaust fleira.
Orkustofnun er ríkisstofnun. Hlutverk OS er m.a. að fara með stjórnsýslu í orkumálum og afla þekkingar á nýtingu orkulinda, vinna á áætlanagerð um orkubúskapinn, vera ríkisstjórn til ráðuneytis, veita leyfi til rannsókna og nýtingar og annast eftirlit með framkvæmd raforkulaga, þ.m.t. flutningi og dreifingu raforku. OS metur orkuþörf samfélagsins til margra áratuga í senn.
Fram til 2050 verður þörf á a.m.k. 500 MW rafafli vegna íbúafjölgunar, lítilla, meðalstórra og allstórra iðnfyrirtækja (stóriðja undanskilin), orkuskipta og nýsköpunar, til viðbótar við laust/ónotað afl (um 200 MW). Komi hingað stór gagnaver má auðveldlega gera ráð fyrir samanlagt 500 – 1.000 MW í viðbót. Það gæti fengist úr starfandi vatnsaflsvirkjunum vegna jöklarýrnunar og meira vatnsrennslis og endurbóta á hverflum og svo úr nýjum virkjunum með vatnsafli, jarðvarma og vindafli. Öflug matvælavinnsla til útflutnings („stóriðja“) gæti líka komi til skjalanna, einkum í ylrækt. Óvissuþættir til langframa eru þó augljósir: Lokun einhverra málm- og kísiliðjuvera og árangursrík djúpborun í háhitasvæðum sem getur margfaldað afl sérhverrar borholu.Hvernig sem fer er ljóst að raforka til útflutnings um sæstreng (500 – 1.000 MW) er fjarri lagi. Mikil samstaða er um að hægt verði farið í orkuvinnslu og ekki aflað meiri raforku nema til starfsemi sem fellur að sjálfbærni og áætlunum á borð við Rammaáætlun (eins og hún verður eftir einhver ár). Brýnt er að auðlindaákvæði verði tekið upp í stjórnarskrána og uppbygging í orkugeiranum miðuð við innlenda notkun raforku.
Staðan í orkumálum ESB
ESB keppir ötullega að því að ná ásættanlegum loftslagsmarkmiðum og auka öryggi raforkumála á meginlandinu. M.a. þess vegna er til orðið samtengt raforkuflutningsnet í stórum hluta álfunnar. Það byggir á svokölluðum frjálsum viðskiptum á grunni ríkjandi hagkerfis, kapítalismans. Um orkusölu er samið á viðskiptagrunni, örugglega með hagnað í huga. Land tengist inn á netið að eigin ákvörðun, metur orku aflögu til sölu og ákveður, ef svo ber til, að auka við framleiðsluna, landinu í hag. Þetta hefur áhrif á raforkuverð heima fyrir; oft til hækkunar en líka til lækkunar; allt eftir megineðli orkuframleiðslu og orkuþörf hvers lands. Raforkan streymir enda í gagnstæðar áttir!
Viðskipti með orku sem vöru milli landa getur valdið deilum milli þeirra eða að samningar séu ýmist brotnir eða teljast óeðlilegir með einhverjum hætti. Stofnuninni ACER, sem er samstarfsstofnun nærri 30 innlendra eftirlitsstofnana, er ætlað að hafa eftirlit með raforkuflutningum og raforkusölu eins og slíkt gerist hverju sinni samkvæmt ákvörðun tveggja eða fleiri landa. Hún er ekki yfirþjóðleg valdastofnun sem getur skipað fyrir um orkusölu (magn, nýjar línur eða fleiri orkuver). En úrskurðir hennar eru endanlegir frammi fyrir deiluaðilum, rétt eins og við þekkjum um fleiri evrópskar stofnanir.
Hollt er að horfa á raunveruleikann í þessum efnum. Hvergi hefur mér tekist að finna dæmi um að ríki sé birtur úrskurður um að það skuli bæta við raforku til útflutnings, leggja nýjar háspennulínur að landamærum eða leggja rafstreng í sjó. Ekki hafa Danir og Kýpurbúar orðið fyrir því með sitt vindafl, ekki Svíar með sína sölu yfir til Finnlands, Ungverjar með mikinn lághita eða Rúmenar með verulegt vatnsafl. Auðvelt er að halda fram fölskum orðum um yfirþjóðlegt vald ACER en sýna aldrei fram á dæmi þess að það hafi leitt til valdboða sem ríki neyðist til að hlíta. Vissulega gæti stofnunin t.d. krafist viðbótarafls í virka flutningslínu yfir landamæri ef samningar fullvalda ríkja kveða á um orkumagn sem eitt ríkið stendur ekki við. En það er ekki merki um yfirþjóðlegt ofurvald heldur virkt eftirlit með að milliríkjasamningar um raforkuflutning og sölu séu haldnir, þ. e. orkusölusamningar sem eiga að gilda um þær flutningslínur sem þegar eru fyrir hendi. Komi til þess að ESB gefi út tilskipanir um miðstýrða orkuframleiðslu í 28 löndum þarf til þess nýja stjórnmálastöðu, samþykki allra landanna um afsal hluta fullveldis og mikla breytingu á ESB. Slíkur fráleitur háttur á orkuframleiðslu tæki ekki tillit til ólíkra aðstæðna í löndunum og þaðan af síður til efnahagsástands í hverju landi.Tilskipun um meiri orkuframleiðslu í löndum og aukinn útflutning færi þá langt fram úr þeim reglum að hvert land ræður yfir sínum auðlindum í jörð (olíu, gasi, kolum, málmum, jarðefnum og jarðhita) og á yfirborði (lausum jarðlögum, s.s. eftirsóttum steypusandi og rennandi vatni). Dæmi um þvinguð viðskipti með afurðir einhverra auðlinda af þessu tagi liggja ekki á lausu, andstæðingum 3. orkupakkans til umhugsunar.
EES-gerðir
Tiltekið ferli, sem hefst í Brussel, með aðkomu fulltrúa ESB og EES-ríkjanna, endar venjulega á innleiðingu á tilskipunum ESB í lög og reglugerðir EES-landanna, ef um það semst og fyrirvarar gerðir þegar svo ber undir. Alloft þarf að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara með umfjöllun á þjóðþingi EES-lands. Mun ekki rekja ferlið nánar hér, rúmsins vegna. Snemma í ferlinu er unnt að aðlaga tilskipanir aðstæðum landa og vinna að
tilhliðrunum. Ísland hefur liðið fyrir eigið fámenni í matstarfinu í Brussel og oft haft náið samstarf við Norðmenn til að auðvelda vinnuna. Sameiginlega EES-nefndin er burðarásin. Í sumum tilvikum er unnt að fara fram á viðamiklar tilslakanir eða undanþágur frá tilskipunum en þá þarf samþykki allra 28 ESB-ríkjanna. Beiðni um slíkt „eftir á“ verður ólíklega samþykkt.
Nú er verið að bæta við mannaflann og efla EES-vinnuna í þessum efnum. Ísland hefur tekið upp um það bil 15% af regluverki ESB í gegnum EES-samninginn. Alkunna er að margt af því hefur verið til mikils gagns fyrir samfélagið, t.d. margvísleg réttindamál, samstarf í menntamálum og vísindum og hvað útflutning varðar. Verulegur meirihlutastuðningur er við samstarf í samræmi við EES-samninginn.
Þriðji orkupakkinn er tíu ára. Nokkrar tilskipanir sem mynda pakkann gagnvart EES fjalla um raforkueftirlit. ESA (eftirlitsstofnun EFTA) kemur þar í stað ACER (og vinnur náið með henni), ásamt aukinni neytendavernd og gegnsæi á raforkumarkaði. Pakkinn í heild gildir um þá um orkuflutninga yfir landamæri sem fyrir eru og um það sem að samningum ríkja lýtur og auðvitað um viðbótar orkuflutninga sem ríki ákveða sjálf á hverjum tíma.EES-gerðir reyna alloft á stjórnskipunina, þ.e. valda mati á framsali ríkisvalds. Jafnan hefur verið metið svo að framsalið sé lítilvægt eða ekkert og þar með ásættanlegt. Þetta er viljandi eða óviljandi sagt vera andstætt fullveldi, sjálfsákvörðunarrétti, sjálfstæði eða sjálfræði. Allt eru þetta hugtök sem hafa tiltekna merkingu, jafnvel umdeilda, í þjóðarrétti, og oft notuð án þekkingar á inntakinu. Hvað sem því líður er rétt að viðhafa almennt varúð á upptökum EES-gerða og koma ákvæði um framsal ríkisvalds og/eða fullveldis í stjórnarskrá. Árið 2013, í stjórnartíð Sigmundar Davíðs, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, þegar helsta tækifæri til undanþága frá 3. orkupakkanum gafst, var ekkert að gert.
Ísland og 3. orkupakkinn
Stjórnarflokkarnir hafa ekki tekið við innleiðingu 3. orkupakkans með flýti eða léttúð. Unnið þétt að undirbúningi og fengið a.m.k. 5 lögfræðiálit um stjórnskipulegan fyrirvara og þýðingu eða afleiðingar af innleiðingu pakkans. Flest eru álitin, í örstuttu máli, jákvæð og langt í frá talið að Ísland missi völd yfir orkulindum sínum. Eitt álit gengur lengst, þ.e. telur að best fari á sem skýrustum fyrirvara. Ríkisstjórnin vinnur m.a. eftir álitinu með því að lögfesta samþykki Alþingis fyrir tengingu með rafstreng við umheiminn. Hvorki ESA né ESB getur þvingað fram gerð og lagningu sæstrengs eða lagningu raflína frá nýjum virkjunum eða eldri virkjunum sem allt í einu myndu framleiða orku á lausu af því t.d. álver lokar. Hvergi í reglugerð um ACER stendur neitt í þessa veru og þarf vel pælda útúrsnúninga til þess að láta líta svo út að ESB hafi vald til það skikka Ísland til að selja 1.000 MW til meginlandsins. Samningar um sæstreng yrðu ávallt unnir á almennum forsendum EES-samningsins, ekki 3. orkupakkans.
Fyrirvarinn er þessi í hnotskurn: Sæstrengur er á forræði þjóðarinnar sjálfrar og orka til hans sömuleiðis. Hún er ekki til núna og verður ekki framleidd nema fyrir liggi áætlanir og samþykki stjórnvaldsstofnana. Dreifikerfi orku í viðkomandi sæstreng er líka á forræði þjóðarinnar, eða með öðrum orðum á valdi Alþingis, í öllum tilvikum. Úrskurði ESA á næstu árum, sem er afar ólíklegt, að fyrirvarinn gangi ekki upp, verðum við að mæta því með rökum og vörnum.
Án sæstrengs veldur 3. orkupakkinn því að raforkueftirlit Orkustofnunar verður skilið frá henni. Ný eftirlitsstofnun lítur þá til með viðskiptum innanlands með raforku en ekki til útlanda, fylgir evrópskum neytendareglum og veldur auknu gegnsæi á þessum sama markaði. Verið er að auka sjálfstæði eftirlitsstofnunar með orkusölu. Orkustofnun að öðru leyti breytist ekki og sú staðhæfing að „verið sé að veita ESB vald yfir Orkustofnun“ er öfugmæli. Orkuverð hreyfist auðvitað ekki því tenginguna við meginlandið vantar. Heimili Alþingi einhvern tíma gerð og lagningu sæstrengs gildir eftirlit ESA/ACER með orkusölu um hann og einnig, eftir sem áður, eftirlit með innlendum viðskiptum með raforku.
Sæstrengurinn frá Íslandi er mjög flókin tæknileg framkvæmd en möguleg. Hann er miklu áhættusamari og dýrari en línur sem hafa verið lagðir í Norðursjóinn eða Eystrasaltið. Liggur m.a. niður landgrunnshallann, þar sem skriðuföll eru alltíð, og á allt að 1.000-1.500 m dýpi, nærri 1.200 km leið, Ég hef hitt fulltrúa breska fyrirtækisins Atlantic Super Connection og tel að vinnan hafi alla tíð verið fremur lágstemmd fýsileikakönnun. Hún hófst að frumkvæði ríkisstjórna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og David Camerons. Fyrirvari Sigmundar Davíðs snerist þá um orkuverðið eitt en ekki yfirþjóðleg völd ACER og glötuð orkuyfiráð Íslendinga. Hann vissi þá betur en svo og veit enn! Sæstrengurinn er hrein hagnaðardrifin hugmynd einkafyrirtækis sem fær stuðning frá breska ríkinu ef það getur fjármagnað sæstreng að hluta. Orkan fullnægir smábroti af orkuþörf Stóra-Bretlands. Auðvitað gæti salan skipt okkur máli, ef við fengjum hagstætt verð fyrir orkuna, en bæði hækkað raforkuverð og útvegun orku til að selja hentaði okkur alls ekki. Nú hefur fýsileikakönnun sæstrengs (ICE-Link) verið hætt og könnunarverkefnið afturkallað að skipun íslensku ríkisstjórnarinnar.Munum líka að svo kann að fara að Bretar standi utan ESB. Samningar um sæstreng væru þá tvíhliða gjörningur fullvalda ríkja án virks, margþjóðlegs eftirlitsaðila en undir gerðardómi ef deilur yrðu uppi.
Að lokum
Ég tel mikilvægt að sem flestir sjái í gegnum málatilbúnað og rangfærslur helstu talsmanna gegn 3. orkupakkanum. Orkuauðlindir okkar eru ekki í hættu. Þær geta orðið það, en þá af öðrum, nú óþekktum, orsökum. Afgreiðsla ríkisstjórnarinnar jafngildir ekki útsölutilboði á raforku, heldur ábyrgri afgreiðslu EES-gerðar sem varðar okkur miklu um eðlileg samskipti við umheiminn. Hér á landi er ekki meirihlutavilji fyrir uppsögn EES-samningsins eða umsókn um aðild að ESB. Við getum lagfært innviði, bætt lífskjör fjöldans, aukið félagslegt réttlæti og jafnrétti innan ríkjandi hagkerfis, með víðtækri samstöðu ólíkra afla. Kerfið tryggir allt slíkt ekki til langframa né leysum við loftslagsvandann og umhverfismál nema með nýju sjálfbæru hagkerfi sem byggir samstöðu, jafnrétti og mannúð. En baráttan fyrir því öllu saman er annað og flóknara mál.
Ari Trausti Guðmundsson er þingmaður VG.