Search
Close this search box.

Orri Páll Jóhannsson, ræða á Alþingi.

Deildu 

Virðulegi forseti, góðir landsmenn.

Það felst mikil ábyrgð í því að vera þingmaður. Ábyrgð sem einskorðast ekki við þingstörfin, starfið í stjórnmálaflokkunum eða strauma í stjórnmálunum. Ábyrgð okkar liggur ekki síst í því að hlusta eftir sjónarmiðum, afla gagna, kynna okkur staðreyndir og nálgast málin lausnamiðuð.

Við flóknum áskorunum samtímans eru engin einföld svör. Hvort sem um ræðir loftslagsbreytingar af mannavöldum eða tækniframfarir líkt og gervigreind, skiptir það sköpum að við tökumst á við þær áskoranir af áræðni og tryggjum af fremsta megni að þessar samfélagsbreytingar byggi undir réttlátt samfélag fyrir okkur öll. Dæmi um það er hvernig við þurfum að nýta tækniþróun, gervigreind og gagnavinnslu til framþróunar í jafnréttismálum og horfa til þess hvaða áhrif stafræn umbreyting hafi á vinnumarkaðinn og viðkvæma hópa eins og fatlað fólk og eldra fólk. Einnig þarf að huga að réttindum og mannhelgi fólks nú þegar gervigreindin ryður sér til rúms á flestum sviðum samfélagsins.

Virðulegi forseti.

Þegar ég horfi yfir þennan sal sé ég ekki þverskurð þjóðarinnar – og það er miður. Fólk af erlendum uppruna og fólk sem leitar hér skjóls auðgar samfélagið með nýjum áherslum og fjölbreyttri menningu. Hefur þessi hópur greiðan aðgang að umræðunni, ákvarðanatöku og þátttöku í stjórnmálum – jafnvel samfélaginu sjálfu? Svarið blasir við. Við þurfum öll að gera betur því við getum og verðum að stuðla að inngildingu þeirra sem velja að búa hér. Byrjum núna í okkar nærumhverfi; í foreldrastarfi, kórum, félagasamtökum, kvenfélögum, björgunarsveitum, sveitarstjórnum eða innan okkar stjórnmálahreyfinga. Fjölbreytt samfélag er betra samfélag.

Virðulegi forseti

Efnahagsmálin hafa sett mark sitt á þingveturinn. Hagstjórnin og húsnæðismálin hafa verið í brennidepli, eðli málsins samkvæmt. Það er alveg ljóst að verðbólga kemur illa við öll en allra verst við þau efnaminnstu í samfélaginu. Væntingastjórnun í óvissuástandi er auðvitað erfið það þekkjum við og lærðum af í heimsfaraldrinum.

Hagstjórn má líkja við samvinnu ólíkra stjórnmálaflokka sem vinna saman þvert á hið pólitíska litróf. Þar skiptir sköpum að ná jafnvægi við ákvörðunartöku allra aðila með góðu samtali fólks með ólíkar skoðanir og ólíka sýn. Í árferði eins og núna þegar verðbólgan er sameiginlegur óvinur okkar allra þá verða öll að leggjast á eitt til að ná henni niður; ríkisstjórn, Seðlabanki, aðilar vinnumarkaðarins og bankarnir með sveigjanlegum kjörum svo launahækkanir fari ekki beint út í verðlagið.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur sýnt það í verki að við tökumst á við áskoranir, við náum árangri og það gerum við líka núna – verðbólgan mun fara niður. Ríkissjóður mun hér eftir sem hingað til verða notaður til þess að verja þau sem höllum fæti standa.

Á þessum þingvetri hefur verið gripið til markvissra aðgerða til að verja kjör hópa sem eiga erfiðast með að mæta verðbólgunni; mun fleiri fjölskyldur fá barnabætur, bætur almannatrygginga hækkuðu um 7,4% í upphafi árs og frítekjumark atvinnutekna örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega var hækkað sem og húsaleigubætur. Til þess að verja kaupmátt elli- og örorkulífeyrisþega verða bætur almannatrygginga hækkaðar þann 1. júlí nk. sem og frítekjumark húsnæðisbóta – hvorttveggja til viðbótar við 7,4% hækkun í upphafi árs.

Í aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgu sem kynntur var síðastliðinn mánudag koma fram skýrar aðgerðir í húsnæðismálum. Tvöfalt fleiri leiguíbúðir verða byggðar fyrir tekjuminni fjölskyldur og einstaklinga heldur en áður var gert ráð fyrir – 2.000 á næstu tveimur árum í stað 1.000. Þá er að vænta tillagna frá stýrihópi um bætta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda sem mun verða grundvöllurinn að breytingum á því sviði en verið er að vinna að útfærslu á leigubremsu. Þá stöndum við vörð um grunnþjónustu og látum ekki aðhald bitna á almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, sjúkratryggingum og heilbrigðis- og öldrunarstofnunum eða viðkvæmri velferðarþjónustu. Þetta er pólitísk varðstaða í fullu samræmi við stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Stóra verkefnið er að auka velsæld og stuðla að réttlátu samfélagi t.a.m. með því að gera almannatryggingakerfið sanngjarnara þar sem uppi eru áform um mikilvægar breytingar og umbætur. Undir forystu hæstvirts félags- og vinnumarkaðsráðherra er unnið að sanngjarnara og gagnsærra kerfi, en fyrst og fremst réttlátara. Í tengslum við þá vinnu hefur ráðuneyti hans einnig ráðist í ýmis verkefni sem gera vinnumarkaðinn aðgengilegri fólki sem annars myndi að líkindum enda á örorku. Það gerum við bæði með því að vinna að jákvæðu viðhorfi til fjölbreytileikans, skapa tækifæri – bæði í námi og starfi – fyrir fólk með mismikla starfsgetu.

Virðulegi forseti

Velsæld landsmanna til framtíðar byggist á sjálfbærri nýtingu auðlinda. Sjálfbærni og umhverfisvernd er leiðarstef úr stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem meðal annars er nú unnið eftir ímatvælaráðuneytinu en þar er unnið að grundvallarstefnumótun í sjávarútvegi með víðtæku samráði um Auðlindina okkar. Þá sameinuðumst við hér nýlega um tvær stefnur á málefnasviði matvælaráðherra; matvælastefnu og landbúnaðarstefnu sem mun nú koma til framkvæmda með aðgerðaáætlunum. Þá hafa verið stigin mikilvæg skref til að efla kornrækt hérlendis sem rennir styrkari og fjölbreyttari stoðum undir landbúnað, fæðuöryggi og matvælaframleiðslu til framtíðar.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur frá upphafi haft það skýra markmið að efla mannréttindi og undirbýr nú stofnun sérstakrar mannréttindastofnunar.

Þrotlaus og áratugalöng mannréttindabarátta hagsmunasamtaka hinsegin fólks hefur skilað okkur bættri stöðu og réttindum þessa hóps. Á þetta skýra ákall höfum við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði alltaf hlustað, unnið stefnu og lagt okkar af mörkum til þess að koma mikilvægum lagabreytingum til framkvæmda. Nýverið var tilkynnt á ráðstefnu Evrópusamtaka hinsegin fólks að Ísland væri komið í fyrsta sæti á réttindakorti trans fólks í Evrópu og upp í fimmta sæti á Regnbogakortinu – upp um ellefu sæti á tveimur árum. Við gleðjumst yfir því sem hefur áunnist en á sama tíma megum við aldrei taka áunnum sigrum í mannréttindabaráttu sem gefnum hlut, við verðum að halda vöku okkar og standa saman. Í ljósi bakslags í umræðunni, hatursfullra umræðna og óásættanlegrar hegðunar í garð hinsegin fólks er vert að minna á lögin um kynrænt sjálfræði sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fékk samþykkt hér á þingi fyrir tæpum fjórum árum. Lögin mörkuðu tímamót og tryggja sjálfsákvörðunarrétt fólks þegar kemur að því að skilgreina sitt eigið kyn og setur þá skyldu á herðar okkar allra að virða það. Þá tryggja lögin einnig réttindi barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Loks má nefna mál forsætisráðherra um hatursorðræðu sem mikilvægt er að ljúka afgreiðslu á.

Mannréttindabarátta er barátta fyrir betra, fallegra og frjálsara samfélagi. Tryggari mannréttindi eins skerða ekki mannréttindi annars.

Virðulegi forseti, góðir landsmenn.

Það er gefandi fyrir bakland stjórnmálahreyfinganna að sjá stefnumálin sín endurspeglast í aðgerðum stjórnvalda og árangri. Um þetta snúast stjórnmál; koma málum á dagskrá og taka þátt í að móta samfélagið okkar. Við eigum öll að hafa möguleikann á að kraftar okkar njóti sín, það er gefandi og hefur keðjuverkandi jákvæð áhrif á samfélagið allt. Höldum þeirri áherslu vakandi áfram.

Góðar stundir.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search