Í dag mæli ég fyrir breytingu á lögum um veiðigjöld sem felur í sér að veiðigjöld skili u.þ.b. 2,5 milljarði meira í ríkiskassann en áður á næsta ári, eða 9,5 milljarða króna samtals. Þar af verður veiðigjald af uppsjávartegundum á borð við makríl, síld, loðnu og kolmunna 2,3 milljarðar í stað 700 milljóna. Ástæðan fyrir því að ég tel nauðsynlegt að ráðast í þessa breytingu er óheppilegt og illfyrirsjáanlegt samspil aðgerða sem samþykktar voru fyrir atvinnulífið í heimsfaraldri kórónuveiru annars vegar og veiðigjalda hins vegar. Að óbreyttu bergmálar þessi ívilnun nú í reiknistofni veiðigjalda þannig að minna samræmi yrði á milli raunverulegrar afkomu sjávarútvegsins og innheimtra veiðigjalda, sérstaklega á uppsjávartegundum.
Veiðigjöld hafa sveiflast síðustu ár
Í tíð síðustu ríkisstjórnar var lögum um veiðigjöld breytt þannig að útreikningar voru einfaldaðir og tenging gjaldanna við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja færð nær í tíma en áður var. Vegna þess að afkoma útgerðarinnar hefur verið með ágætum síðustu ár, hafa veiðigjöld skilað ríkissjóði á bilinu 5-8 milljörðum í tekjur. Þetta hefur gerst, þrátt fyrir að leyfilegur heildarafli í okkar verðmætasta nytjastofni, þorski, hafi dregist saman um 24% síðan 2019, og að engin loðna hafi verið veidd árin 2019 og 2020. Framlegð sjávarútvegsins er sem sagt há, einkum hjá fyrirtækjum sem stunda uppsjávarveiðar. Það er jákvætt, enda er greinin burðarás í íslensku atvinnulífi.
Samræmi milli veiðigjalda og afkomu sjávarútvegsins er afar mikilvægt fyrir alla. Miklu skiptir fyrir sátt um greinina að tengingin milli afkomu hennar og innheimtra veiðigjalda sé skýr. Þessi tenging hefur einnig mikla þýðingu fyrir sjávarútveginn sjálfan, þannig að þegar vel árar greiði greinin meira í okkar sameiginlegu sjóði og minna þegar verr gengur. Enda var það gagnrýnt við fyrri útfærslu veiðigjalda að liðir, sem höfðu lítið að segja um raunverulega afkomu greinarinnar, höfðu veruleg áhrif á upphæð veiðigjalda.
Skýr tenging við afkomu er mikilvæg
Sú breyting sem ég mun mæla fyrir eykur fyrirsjáanleika með því að draga úr sveiflum í hluta veiðigjaldanna. Þessi breyting gerir það að verkum að fyrningar einstakra skipa hafa ekki lengur afgerandi áhrif á veiðigjöld í heilum nytjastofnum.
Breytingin er mikilvæg fyrir sjávarútveginn og stjórnvöld en með henni er fyrningunum dreift á fleiri ár. Í þeirri stefnumótun sem nú á sér stað í sjávarútvegi, undir formerkjum „Auðlindarinnar okkar“ verður síðan farið vandlega yfir fyrirkomulag veiðigjalda og meðal annars hvort tilefni sé til frekari breytinga.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra