EN
PO
Search
Close this search box.

Plastlaus September – ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra,

Deildu 

Sæl öll og til hamingju með daginn,

Það er mér heiður að fá að setja formlega Plastlausan september. Í einu orði sagt er magnað að sjá hvernig þetta merkilega átak hefur vaxið og dafnað og að upplifa þá miklu vitundarvakningu sem orðið hefur í samfélaginu um plastmengun og umhverfismál.

Frá því að ég stóð hér fyrir einu ári hefur umræðan snaraukist um ofgnótt plasts og afleiðingar þess. Það sem meira er, aðgengi og úrval af plastlausum vörum hefur stóraukist. Þessi mikla gróska og þetta sterka ákall um breytingar vekur sannarlega með mér von. Mjög margt er einfaldlega að breytast.

Þegar mér bauðst að verða ráðherra umhverfismála ákvað ég strax að plastmálin yrðu eitt af því sem ég myndi leggja sérstaka áherslu á. Margt hefur gerst á því eina ári frá því að ég var með ykkur síðast og mig langar að fara yfir það – og segja ykkur aðeins frá því sem við í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu höfum verið að vinna að með fólki vítt og breitt um samfélagið.

Í nóvember á síðasta ári fékk ég afhentar tillögur frá starfshópi sem ég skipaði og var ætlað að fara í saumana á því hvernig við gætum tekist á við plastvandann. Í hópnum voru fulltrúar atvinnulífsins, sveitarfélaga, umhverfisverndarsamtaka, félagasamtaka, opinberra stofnana, Alþingis, ráðuneyta og fleiri. Þau afhentu mér 18 tillögur og fjölmargar þeirra hafa ýmist þegar komið til framkvæmda eða eru í kortunum:

Bann við afhendingu burðarplastpoka. Bannið var í vor samþykkt sem lög frá Alþingi og tekur gildi 1. janúar 2021. Bannið er mikilvægt því það snertir daglegt líf okkar og eykur vitund okkar um plast og notkun þess í okkar daglega lífi. Það er mér síðan sérstök ánægja að segja frá því að samkvæmt nýju lögunum er einnig – frá og með deginum í dag – óheimilt að afhenda burðarpoka án þess að rukka fyrir þá! Þetta á við um alla poka, sama úr hvaða efni þeir eru og tekur líka til litlu, þunnu plastpokanna í grænmetisdeildunum. Ekki má sem sé lengur gefa poka heldur verður að rukka fyrir þá. Þetta skiptir máli við að beina fólki frá einnota kosti og að fjölnota. 

Plasttilskipun Evrópusambandsins innleidd. Mjög spennandi hlutir eru að gerast í Evrópusambandinu til að taka með róttækum hætti á við plastmengun og við í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu vinnum nú að innleiðingu hinnar svokölluðu plasttilskipunar Evrópusambandsins. Þar á meðal er bann við plasthnífapörum, plastmatarprjónum, plastdiskum, plaströrum, ílátum úr frauðplasti undir matvæli, drykkjarmálum úr frauðplasti ofl. Bannið tekur gildi árið 2021. Í tilskipuninni eru einnig afar spennandi hlutir eins og framlengd framleiðendaábyrgð og kröfur vegna hönnunar og samsetningar tiltekinna plastvara.

Vitundarvakning um ofnotkun einnota plastvara. Nú í vor fór Umhverfisstofnun í kynningarátak um ofnotkun á einnota vörum, líkt og plasthópurinn lagði til. Átak sem þetta vekur verðskuldaða athygli á áhrifum plastmengunar og hvað við getum gert til að draga úr henni. 

Viðurkenning fyrir framúrskarandi plastlausar lausnir. Verðlaunin hafa fengið nafnið Bláskelin og verða veitt í fyrsta sinn hér rétt á eftir. Þeim er ætlað að halda á lofti því sem vel er gert við að nota lausnir án plasts.

Neytendum gert kleift að mæta með eigin umbúðir undir keypta matvöru. Mikilvægt er að við drögum eins mikið og við getum úr notkun einnota matarumbúða. Eitt af því sem plasthópurinn undirstrikaði var mikilvægi þess að bæði verslanir og einstaklingar áttuðu sig á því að ekkert mál væri fyrir fólk að koma með eigin umbúðir að heiman – og að það mætti sem sé. Nú hafa verið útbúnar leiðbeiningar til verslana, veitingastaða og neytenda sem eru aðgengilegar á vef Matvælastofnunar. Hugmyndin er að verslanir hengi þennan miða hér í kjöt- eða fiskborðið hjá sér (sjá glæru). Þar með vita neytendur að þeir mega vel koma með margnota box, auk þess sem miðinn virkar sem nokkurs konar áminning til þeirra um að gera það. Ég hvet ykkur til þess að spyrja verslanir um þessa miða – og hvetja þær til að hengja þá upp hjá sér.

Sveitarfélög og rekstraraðilar skylduð til að koma á samræmdri flokkun úrgangs.Aðgerðin er útfærð í drögum að nýrri stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra um meðhöndlun úrgangs sem nú er í samráðsferli. Eins og aðgerðin er sett upp mun hún fela í sér að flokkun bæði heimilis- og rekstrarúrgangs verði gerð að skyldu. Jafnframt að fyrirkomulag við flokkun heimilisúrgangs verði samræmt og að aðgengi almennings að flokkunarílátum verði bætt. Hugmyndin er að hver úrgangsflokkur fái sitt merki og sinn einkennislit og ber að nota merkingarnar við alla meðhöndlun úrgangs, alls staðar á landinu. Þetta mun marka tímamót!

Græn nýsköpun. Aðgerðin er útfærð í áðurnefndum drögum að nýrri stefnu um meðhöndlun úrgangs. Hún felur í stuttu máli í sér að ríkið nýti hagræna hvata til að styðja við græna nýsköpun með því að setja upp kerfi sem styðji fjárhagslega m.a. við þá lögaðila eða þau sveitarfélög sem starfrækja endurvinnslu úrgangs hér á landi. Áhersla verður lögð á að styðja við hágæða endurvinnslu sem felur í sér að úrgangi verði haldið í síendurtekinni hringrás þar sem það er mögulegt. 

Merkingar á staðbundnum veiðarfærum. Plasthópurinn benti á það mikla magn veiðarfæra sem fyndist í fjörum við Ísland og væri úr plasti. Þau lögðu til að sett yrði reglugerð sem fæli í sér að öll staðbundin veiðarfæri væru merkt á skýran hátt, til að auka rekjanleika þeirra og gera auðveldara að vinna að viðeigandi lausnum. Það er gaman að segja frá því að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið birti nú í sumar drög að reglugerð um merkingu veiðarfæra og töpuð veiðarfæri. 

Á fjárlögum næsta árs mun koma inn nýtt fjármagn til hringrásarhagkerfisins, 100 milljónir króna, sem mun m.a. verða nýtt í græna nýsköpun, í að ýta undir grænan lífsstíl, verkefni tengd nýrri innkaupastefnu ríkisins, neyslumál, sóun og fræðslu.

Mig langar líka að segja ykkur frá því að alþjóðlega hef ég líka beitt mér varðandi plast. Hér í Reykjavík í vor var til að mynda undirrituð mikilvæg yfirlýsing norrænna umhverfisráðherra þar sem þeir kölluðu eftir nýjum alþjóðlegum sáttmála sem hefði það að markmiði að draga úr og fyrirbyggja losun plasts og örplasts í hafið.

Áður en ég kynni um verðlaunahafa fyrir Bláskelina, verðlaun fyrir framúrskarandi plastlausa lausn, langar mig til að segja þetta: Til hamingju öll þið sem staðið hafið í ströngu við að skipuleggja Plastlausan september. Enginn vafi liggur á því að átakið hefur átt drjúgan þátt í að koma plastmálum enn frekar á dagskrá hér á landi. Hafið þökk fyrir það.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search