Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur ákveðið að fela Oddi Þorra Viðarssyni, lögfræðingi á skrifstofu löggjafarmála í forsætisráðuneytinu, að sinna starfi ráðgjafa um upplýsingarétt almennings frá og með 1. september 2019. Oddur Þorri hefur starfað í ráðuneytinu frá 2015 og m.a. gegnt starfi ritara úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Þá hefur Ásthildur Valtýsdóttir verið ráðin í starf lögfræðings á skrifstofu löggjafarmála til að gegna starfi ritara úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá sama tíma. Auk meistaraprófs í lögfræði er Ásthildur með BA-próf í mannfræði. Hún hefur áður starfað sem verkefnastjóri á mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, skrifstofustjóri Reykjavíkurakademíunnar og við afleysingar í forsætisráðuneytinu á sviði upplýsingaréttar.
Alþingi samþykkti frumvarp forsætisráðherra um breytingar á upplýsingalögum nr. 140/2012 þann 11. júní sl. Breytingarnar hafa í för með sér að kveðið er á um að af hálfu stjórnvalda skuli starfa sérstakur ráðgjafi um upplýsingarétt almennings sem hefur það hlutverk að stuðla að bættri upplýsingagjöf hins opinbera. Forsætisráðuneytið sér ráðgjafanum fyrir starfsaðstöðu en hann er í ráðgjöf sinni óháður fyrirmælum frá ráðherra og öðrum. Hlutverk ráðgjafans er m.a. að:
- Leiðbeina einstaklingum, félagasamtökum, fjölmiðlum, lögaðilum og öðrum sem til hans leita um framsetningu beiðni um aðgang að gögnum, hvert henni skal beint og önnur atriði.
- Vera stjórnvöldum og öðrum aðilum sem falla undir gildissvið laganna til ráðgjafar um meðferð beiðni um aðgang að gögnum og töku ákvörðunar um rétt beiðanda til aðgangs.
- Fylgjast með því hvernig opinberir aðilar rækja skyldur sínar til að veita almenningi aðgang að upplýsingum, hvort sem er samkvæmt beiðnum eða að eigin frumkvæði og koma tillögum að úrbótum á framfæri þar sem við á.
- Fylgjast með rannsóknum og þróun á sviði upplýsingaréttar almennings og koma upplýsingum á framfæri við stjórnvöld.
Aðgerðirnar eru liður í því markmiði forsætisráðuneytisins að styrkja upplýsingarétt almennings og starfsgrundvöll úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Ráðuneytið mun áfram fylgjast með þróun málsmeðferðartíma nefndarinnar og grípa til frekari aðgerða ef þörf krefur.