Search
Close this search box.

Ráðist í stefnumótun á sviði endurhæfingar

Deildu 

  • Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að ráðast í stefnumótun á sviði endurhæfingar. Verkefnið felst meðal annars í því að greina þá endurhæfingarþjónustu sem er fyrir hendi hér á landi, umfang hennar, skipulag og árangur, auk samanburðar við fyrirkomulag endurhæfingar hjá öðrum þjóðum.

Svandís segir verkefnið bæði stórt og brýnt: „Endurhæfing skiptir í mörgum tilvikum sköpum um það hvernig fólki reiðir af í kjölfar slysa, veikinda eða annarra áfalla. Endurhæfing hefur mikla þýðingu fyrir fólk sem býr við skerta færni vegna ýmissa langvinnra sjúkdóma eða hrörnunar sem fylgir hækkandi aldri svo eitthvað sé nefnt.

Endurhæfing hefur ekki verið opinberlega skilgreind hér á landi og heildarsamhæfingu þjónustunnar skortir. Ýmsir aðilar sinna endurhæfingu sem er að stærstum hluta greidd af almannafé en eignarhald, rekstrarform, skipulag, stjórnun og greiðslufyrirkomulag þjónustunnar er mismunandi. Hluti endurhæfingar telst til heilbrigðisþjónustu en einnig fer fram umtalsverð endurhæfing á sviði vinnu- og félagsmála sem heyrir undir félagsmálaráðuneytið.

Liður í stefnumótunarvinnunni sem heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að ráðast í verður að greina styrkleika og veikleika í skipulagi endurhæfingarþjónustu hér á landi, benda á leiðir til að bæta nýtingu þeirra endurhæfingarúrræða sem til eru og bæta samfellu þjónustunnar gagnvart notendum.

Heilbrigðisráðherra hefur falið verkefnið tveimur sérfræðingum, þeim Guðrúnu Sigurjónsdóttur sjúkraþjálfara og Hans Jakobi Beck lækni. Gert er ráð fyrir að þau skili ráðherra drögum að endurhæfingarstefnu í byrjun febrúar 2020. Við vinnu sína er þeim ætlað að hafa samráð við þá aðila sem málið varðar helst, s.s. notendur og veitendur þjónustunnar, stjórnendur heilbrigðisstofnana, fagfélög og fleiri eftir atvikum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search