EN
PO
Search
Close this search box.

Ræða Ara Trausta Guðmundssonar á eldhúsdegi

Deildu 

Áheyrendur allir – sælir og blessaðir – gott kvöld

Nú stefnir í þinghlé. Þá ber að horfa yfir haust- og vorþingið. Skyldur okkar kalla á fagleg, uppbyggileg og skilvirk vinnubrögð við þingmál, sum þeirra er skylt að afgreiða fyrir þinghlé. Ég nefni þar eina mikilvægustu samgönguáætlun síðari ára. Þingbundið lýðræði, sem við höfum valið okkur, veitir þingmanni víðtæk réttindi og margar skyldur, meðal annars að rökræða vandlega, leggja fram tillögur sem hann telur til framfara, semja um mál innan meirihluta eða veita honum aðhald sem minnihluta þingmaður. En um leið ber þingmanni að ábyrgjast að Alþingi geti afgreitt stjórnarmál innan hóflegra, rökstuddra og lýðræðislegra tímamarka.  Ella verður jafnt málfrelsi sem þingbundna lýðræðið að grátbroslegu og skemmandi leikriti sem hvorki er þingmanni sæmandi né samfélaginu þolanlegt.

Samgönguáætlunin leggur háar viðbótarfjárhæðir til uppsafnaðrar innviðappbyggingar, allt frá höfnum og flugvöllum til nýrra brúa. Einnig til meiri vegabóta á næstu árum en við höfum áður séð á sambærilegu tímabili og loks til átaks í almenningssamgöngum. Flugferðir, ferju- og strætóferðir verða samtengdar en ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu vinna saman við að nútímavæða almenningssamgöngur á þéttbýlasta svæði landsins. Unnið verður þar að undirbúningi, hönnun, útboðum og framkvæmdum, jafnt á stofnleiðum sem hönnun og gerð vistvæns vagnakerfis. Beðið er eftir fjölbreyttri innviðauppbyggingu um allt land. Hún er ein leiðanna úr efnahagsvanda covid-faraldursins og jákvæð byggðastefna í verki

Náttúruvá er margvísleg á Íslandi. Við henni bregðumst við með vísindarannsóknum, heildarskipulagi almannavarna, samhæfingu stjórnarráðs og heilbrigðiskerfis og aðkomu Þjóðaröryggisráðs. Vel má fella covid-faraldurinn að hugtakinu náttúruvá. Í vetur og vor höfum við einnig glímt við hörð óveður og nú jarðskjálfta. Margt höfum við lært, til dæmis að endurskoða verður raforkuflutninga og eldsneytisbirgðir. Kófið slæma ítrekaði gildi þess að fara eftir sóttvarnarreglum. Líka höfum við endurnýjað traust okkar á viðbragðsaðilum og framlínufólki, á samstöðu og samhjálp. Og, eins og ávallt þegar á reynir, fundið ágalla sem kalla á breytingar.

Loftslagsbreytingar á norðurslóðum eru hraðari en annars staðar. Þar kristallast ótal verkefni sem við tökumst á við, m.a. með þátttöku í, og nú forystu fyrir, Norðurskautsráðinu og sérstæðu ríkja- og frumbyggjasamstarfi, nokkuð þvert á heimspólitík og væringar stórvelda. Ekkert mun þó gagnast betur mannkyni en minnkandi losun kolefnisgasa og hröð binding kolefnis í gróðri, jafnt á landi sem í hafi. Undirliggjandi er krafa um jafnrétti á heimsvísu, hringrásarhagkerfi og fulla sjálfbærni samfélaga og ábyrgar athafnir. Þess vegna leggur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur þunga áherslu á að hraða aðgerðum Íslands í þessum efnum og auka framlög til málaflokksins en þar hafa einstaklingar og fyrirtæki, félög og sveitarstjórnir líka hlutverkum að gegna.

Okkur hefur því miður gengið of hægt að fylla okkar loftslagsmála-skerf frá 1997 að telja, samkvæmt markmiðum Kyoto-yfirlýsingarinnar. Öðru máli gegnir um skuldbindingar Parísarsamkomulagsins miðað við 2005. Ríkisstjórnin lagði í dag fram endurskoðaða og metnaðarfulla aðgerðaráætlun í loftslagsmálum. Samkvæmt henni munum við, segir sérfræðilíkanið, draga úr losun vel yfir markmiðum samkomulagsins, um 35% eða meira, allt eftir frekari aðgerðum, en ekki 29% eins og okkur er sett fyrir. Samtímis margfaldast binding kolefnis en hún varðar miklu í baráttunni gegn loftslagsbreytingum sem ekki sér fyrir endann á. Efla á stjórnsýslu umhverfismála í kjölfar nýrrar úttektar.

Flestir samþykkja þá staðhæfingu að umhverfismál eru málefna mikilvægust og þau lita fjölda málefna. Færri sjá að undirstaða marga mistaka hvíla á grunni ríkjandi hagkerfis. Þar er síaukinn hagvöxtur, reiknaður án tillits til annars en alsberra efnahagsreikninga, miðpunktur alls, en þolmörk auðlindanýtingar, samfélagsþróunar og misskiptingar auðs ýmist vanmetin eða viljandi gleymd. Við verðum að endurmeta og endurskipuleggja hagkerfin ef stækkandi mannkyn á að lifa í friði og í sátt við náttúruna. VG hefur talað fyrir, haft frumkvæði að og unnið að slíku marki.

Stjórnarsamstarfið hefur borið ljós merki um grænar framfarir í anda sjálfbærni og nýsköpunar, þökk sé samstöðu og málamiðlun samkvæmt stjórnarsamningi. Nefni til dæmis  ferðamálastefnu, nýsköpunarstefnu, nánast tilbúna orkustefnu, flugstefnu og matvælastefnu, heildarendurskoðun á úrgangsstefnu, áætlanir um orkuskipti og plastaðgerðaáætlun. Enn fremur opinberan stuðning við fráveitur, friðlýsingar landsvæða og staða og loks lagagerð um þjóðgarð á miðhálendinu og nýja þjóðgarðastofnun, ásamt endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum áætlana og framkvæmda.

Allt þetta og meira til rúmar uppskera þriggja þinga og – enn er eitt þing eftir þar til kosið verður á ný. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði vinnum ötullega í þágu almennings, í þágu þeirra sem minnst mega sín, í þágu dreifbýlis og þéttbýlis – og náttúrunnar – með jafnrétti, sjálfbærni og virkt lýðræði að leiðarljósi.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search