Search
Close this search box.

Ræða Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur á eldhúsdegi

Deildu 

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn.

Ef einhver hefði sagt mér í september síðastliðnum þegar þetta þing var sett að við ættum eftir að kljást við snjóflóð, ofsaveður, heimsfaraldur og efnahagskreppu á heimsvísu hefði ég líklega talið viðkomandi galinn.

En þessi vetur kom með öllum sínum áskorunum og nú erum við hér samankomin á lokadögum þingsins og því vert að fara örstutt yfir áhrifin bæði innan þings og utan. Þetta var vetur sem einkenndist af fordæmalausum tímum, náttúruhamförum sem ýfðu upp gömul sár í þjóðarsálinni en drógu einnig fram samstöðu, samvinnu og þann kraft sem býr í íslensku þjóðinni.

Mér hefur þótt það sérstök upplifun að sitja þingi á meðan heimsfaraldur geysar. Við þingmenn stóðum frammi fyrir því að taka þurfti ótal ákvarðanir, vinna hratt og stundum allan sólarhringinn. Það er mörgum sem ber að þakka fyrir það hversu vel tókst til. Þar eru að sjálfsögðu fremst í flokki Þórólfur, Víðir og Alma sem héldu þjóðinni upplýstri á hverjum degi og róuðu þannig þandar taugar hræddrar þjóðar. Kári Stefánsson og starfsfólk Íslenskrar erfðagreiningar lyfti sömuleiðis grettistaki sem og allar ósýnilegu hetjurnar í framlínustörfum, m.a. starfsfólkið í verslunum, lögreglan og ekki síst heilbrigðisstarfsfólkið okkar. Heilbrigðisstarfsfólkið sem vinnur allan sólarhringinn, alla daga ársins, ekki einungis þegar heimsfaraldur geysar. Fólkið sem stofnar lífi sínu í hættu til að bjarga okkur hinum. Eitt af því sem mér þykir standa upp úr er hversu dýrmætt er að eiga gott opinbert heilbrigðiskerfi og gríðarlega mikinn mannauð.

Í öllu því havaríi sem fylgdi því að koma landi og þjóð í skjól fyrir óþekktri veiru efaðist ég þó aldrei nokkurn tímann um að vel myndi til takast. Við búum nefnilega að traustri forystu, bæði í forsætisráðuneytinu sem og ráðuneyti heilbrigðismála sem mæddi mikið á þetta vorið. Það er á þeim stundum, þar sem taka þarf stórar og erfiðar ákvarðanir sem efasemdir þagna um hæfi fólks. Ég er afar stolt af því að standa hér sem þingflokksformaður Vinstri grænna enda skiptir máli hverjir eru við stjórnvölinn ekki síst á erfiðum tímum.

Það er mikil áskorun að vera ráðherra umhverfis og auðlinda á tímum þar sem augu heimsins beinast sem aldrei fyrr að málaflokknum. Þess þó heldur þegar Covid kom og hliðra þurfti mikilvægasta náttúruverndarmáli Íslands – Hálendisþjóðgarði – fram á haust. En okkar góði umhverfisráðherra heldur ótrauður áfram. Í dag kynnti hann metnaðarfulla aðgerðaráætlun í loftslagsmálum þar sem gert er ráð fyrir að 45 milljörðum verði varið til aðgerða í loftslagsmálum næstu fimm árin. Aðgerðaráætlunin sýnir að við munum ekki bara standa við alþjóðlegar skuldbindingar heldur gera enn betur. Í liðinni viku, á sjálfan þjóðhátíðardaginn, var svo ein dýrmætasta náttúruperla Íslendinga, Geysissvæðið, friðlýst og í vikunni þar á undan Goðafoss í Skjálfandafljóti og því ber að fagna.

Virðulegi forseti – kæru landsmenn
Það er ýmislegt sem hefur áunnist þennan veturinn annað en þau rúmlega þrjátíu mál sem hafa þurft alla athygli okkar þingmanna vegna Covid-19.

Þannig varð á dögunum til glænýtt námslánakerfi á Íslandi. Menntasjóður námsmanna og segja má að baráttumál stúdentahreyfingarinnar til margra ára sé í höfn með auknum stuðningi og réttlátara kerfi.

Við höfum líka lengt fæðingarorlof, tryggt réttaröryggi uppljóstrara, stofnað Kríu – nýjan og öflugan nýsköpunarsjóð og samþykkt fyrstu forvarnaráætlunina gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi. Við höfum tryggt heilbrigðisþjónustu fyrir fólk með fíknivanda með tilkomu neyslurýma, lögfest að norrænni fyrirmynd þriggja þrepa skattkerfi og gjörbylt lögum um náttúruvernd.

Allt eru þetta mál sem við sem þingmenn Vinstri grænna getum verið stolt af enda öllum ætlað að bæta líf fólks, á einn eða annan hátt.

Kæru áheyrendur

Ég fór út í stjórnmál til að hafa áhrif á samfélagið okkar og til að gera það enn betra. Verkefnin eru ærin og sum viðvarandi. Eitt af því er  bæta kjör þeirra sem verst standa í samfélaginu. Það er skoðun okkar Vinstri grænna að það sé best gert með félagslegum áherslum og þrátt fyrir að enn sé margt óunnið er óneitanlega ánægjulegt að líta yfir farinn veg þetta árið og sjá mörg þessi góðu mál koma til framkvæmda.

Þessi mál bætast á langan lista framfaramála sem þessi ríkisstjórn hefur komið til framkvæmda. Landspítalinn rís, frelsi kvenna yfir eigin líkama er staðfestur, kynrænt sjálfræði hefur verið lögfest og stór skref hafa verið tekin í orkuskiptum í samgöngum.

Virðulegi forseti – kæru landsmenn

Við erum sterkust þegar við stöndum saman. Þessi vetur hefur verið erfiður að mörgu leyti, en það sem hefur einnig einkennt hann er samheldni og samvinna. Þó svo við þingmenn tökumst stundum á tók samfélagið sem heild höndum saman. Lífið umturnaðist á methraða en við aðlöguðumst jafn harðan. Ný tækni tók yfir líf okkar, fjarvinna varð skyndilega hversdagurinn fyrir marga en ekki framtíðarsýn. Okkur varð ljósara en fyrr að vinna þarf ekki að vera bundin við tiltekin stað og gefur tilefni til að fyrirtæki og hið opinbera skoði vel hjá sér að fjölga störfum án staðsetningar. Því mýmargar stéttir tókust á við nýjan veruleika m.a. kennarar og nemendur sem tókust á við gjörbreyttar aðstæður og gerðu það með miklum sóma. Þannig lögðum við öll hönd á plóg í baráttunni við þennan ósýnilega óvin, kynntumst nýjum lausnum um leið og við stóðum vörð um okkar viðkvæmustu bræður og systur.

Góðir áheyrendur

Við erum nú komin í þá öfundsverðu stöðu að geta tekið á móti ferðamönnum í auknum mæli, ein fárra þjóða í heiminum öllum. Um árangur ríkisstjórnar Íslands undir forystu Vinstri grænna í baráttunni gegn Covid er fjallað víða um heim og skyldi engan undra.

Nú stígum við inn í sumarið og ferðumst innanlands og vonandi að sem flestir geti nýtt sér ferðagjöf stjórnvalda. Inn á samfélagsmiðla flæða nýjar minningar úr útilegum, bústaðaferðum og fjölskylduferðum víðsvegar um landið. Náttúran heldur þó áfram að minna á sig og þessa dagana skelfur jörð í minni heimabyggð á Tröllaskaga. Náttúran okkar hér á Íslandi er stórbrotin, en getur jafnframt verið varasöm og mikilvægt er að við gleymum því aldrei að lykillinn að búsetu hérlendis er að búa í sátt og samlyndi við náttúruöflin. Ef til vill er það hluti af því að okkur hefur gengið vel hingað til í baráttunni gegn Covid. Við erum vön því að taka náttúruhamförum alvarlega og vinna saman sem ein heild þegar þær ríða yfir. Við þurfum enn að vera á varðbergi. Við þurfum enn að taka Covid-19 alvarlega og huga að okkar persónulegu sóttvörnum. En nú er hásumar, nætur eru bjartar og við höldum ótrauð áfram.

Mig langar að ljúka máli mínu með því að vitna í orð Jóhannesar úr Kötlum sem hafa verið mér hugleikin í vetur. Með leyfi forseta:

Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt.

Kæru samlandar
Njótið sumarsins.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search