PO
EN

Ræða formanns VG á landsfundi

Deildu 

Góðir félagar.


Verið hjartanlega velkomin til þessa rafræna landsfundar. Eins og við samþykktum hér í upphafi fundar þá verður fundinum frestað á morgun þannig að ýmis hefðbundin landsfundarstörf færast fram í ágúst. Við munum hins vegar nýta tímann vel hér á þessum rafræna fundi og ljúka málefnavinnu í fjölmörgum málefnahópum sem unnið hafa alveg hreint frábært starf undanfarin misseri við að endurskoða stefnu í ýmsum málaflokkum og sums staðar hefur ný stefna verið unnin frá grunni.

Ég hef verið félagi í þessari hreyfingu í 21 ár eða næstum hálfa ævina. Á þessum tíma hef ég kynnst mörgu góðu fólki og lært alveg ótrúlega margt. Fyrst og fremst er það grasrótin í Vinstri-grænum sem heldur í okkur lífinu; allir þeir félagar sem hafa fylgt okkur til lengri og skemmri tíma, haft áhrif á hreyfinguna, mótað stefnuna og sýnt okkur sem höfum valist í ýmsar ábyrgðarstöður fyrir hreyfinguna í senn stuðning og aðhald í blíðu og stríðu. Í nýju tímariti sem kemur út í dag og verður sent á hvert vinstri-grænt heimili er spjallað við nokkra félaga sem eru eins fjölbreyttir og þeir eru margir en eiga það sammerkt að brenna fyrir gildum Vinstri-grænna. Það eru forréttindi að fá að tilheyra slíkum hópi. Og ég hef nú setið á þingi í 14 ár – ég get lofað ykkur því að þingflokkur Vinstri-grænna er alltaf sá þingflokkur þar sem andinn er bestur – sérstaklega þegar á móti blæs en þá fyrst færist fjör í þingflokkinn.

Kæru félagar.

Stjórnmál snúast annars vegar um þær hugmyndir og þau gildi sem við viljum að móti samfélag okkar. Hins vegar um fólk. Þau snúast um að hafa skýra stefnu fyrir samfélagið og byggja á henni í öllum sínum verkum. Og þau snúast um að hafa áhuga á fólki, geta unnið með fólki og geta skilið alls konar fólk, sjónarmið þess og aðstæður.

Hvorttveggja finnst mér einkenna störf þessarar hreyfingar. Við höfum alla tíð lagt mikið í okkar málefnastarf. – og á þessum landsfundi sjáum við skýra birtingarmynd þess. Málefnavinnu var ekki slegið frest þrátt fyrir allar þær flækjur sem fylgja félagsstarfi í heimsfaraldri. Allir félagar lögðust á eitt við að leita lausna og skila vandaðri og umfangsmikilli málefnavinnu. Við höfum verið óhrædd við að endurskoða hugmyndir okkar og sömuleiðis að leggja fram róttæka stefnu sem oft hefur orðið að meginstraumspólitík síðar meir. Við höfum verið óhrædd við að vísa veginn þvert á tískustrauma og svo sannarlega ekki snúist eftir því hvernig vindar blása. Nægir þar að nefna loftslagsmálin sem Vinstri-græn settu fyrst á dagskrá og okkar umhverfisráðherrar hafa tekið og lyft grettistaki. Eða þá kvenfrelsismálin.

Við höfum stundum haft óvinsælar skoðanir og tekið óvinsælar ákvarðanir þegar okkur hefur þótt þær réttar ákvarðanir. Núverandi stjórnarsamstarf var óvinsælt af mörgum sem ákváðu fyrirfram að að við fengjum engu ráðið og myndum engu koma í framkvæmd. En annað hefur komið á daginn.

Það er óhætt að segja að þetta kjörtímabil hafi verið óvenjulegt og lærdómsríkt – ekki síst vegna þess ástands sem skapaðist vegna heimsfaraldurs. Og mikill málefnalegur árangur hefur náðst hvert sem litið er; árangur sem skiptir máli fyrir Ísland. Það er drifkraftur okkar hreyfingar, það sem lætur okkur vakna á morgnana og halda áfram – að vita að það sem gerum skiptir máli fyrir fólkið í landinu og við stefnum í rétta átt.

Aftur var tekið upp þrepaskipt tekjuskattskerfi. Fæðingarorlof var lengt úr níu mánuðum í tólf mánuði. Stórmál fyrir fjölskyldurnar í landinu og fyrir jafnrétti í landinu. Nýir velsældarmælikvarðar og velsældaráherslur í fjármálaáætlun endurspegla breyttar áherslur í gildismati stjórnvalda. Þar höfum við átt gott og gefandi samstarf með stjórnvöldum í Skotlandi og Nýja-Sjálandi og verður gaman að heyra gest okkar á eftir, Nicolu Sturgeon, fjalla um það. Við höfum áttfaldað framlög til loftslagsmála á kjörtímabilinu og fullfjármögnuð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum með mælanlegum markmiðum er okkar leiðarvísir til að ná nýjum og metnaðarfullum markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Dýrmætur réttur hvers og eins til að velja sér kyn hefur verið tryggður með nýjum lögum. Sjálfsákvörðunarréttur kvenna yfir eigin líkama – sem er undirstaða alls kynjajafnréttis – var undirstrikaður með nýjum lögum um þungunarrof – lögum sem konur höfðu barist fyrir í marga áratugi.

Stytting vinnuvikunnar er mikilvægt framfaramál og auk þess voru stærstu breytingar sem gerðar hafa verið árum saman gerðar á vaktavinnufyrirkomulagi – sem er mikilvægt skref til að bæta kjör stórra kvennastétta sem eru meirihluti vaktavinnufólks. Við höfum aukið stuðninginn við félagslegt húsnæðiskerfi sem er undirstaða stöðugleika á húsnæðismarkaði og tekjulægra fólki auðveldað að kaupa sitt fyrsta heimili með nýjum hlutdeildarlánum. Fjölmargar ómetanlegar náttúruperlur njóta nú verndar með friðlýsingum sem aldrei hafa verið fleiri.

Í stjórnmálum er mikilvægt að horfa til framtíðar og það höfum við gert – meðal annars með því að undirbúa samfélagið til að nýta tækifærin sem ný tækni býður upp á. Við höfum unnið aðgerðaáætlun um viðbrögð við tæknibreytingum og mótað stefnu um gervigreind. Við höfum stóraukið framlög til grunnrannsókna og nýsköpunar. Nýr Matvælasjóður var stofnaður. Skóflustunga tekin að byggingu Nýs Landspítala, heilsugæslan efld og dregið úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Framlög til geðheilbrigðismála voru stóraukin á kjörtímabilinu. Ný upplýsingalög voru sett, ný lög um vernd uppljóstrara og ný lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum. Mikilvæg framfaralög sem við hefðum ekki viljað að væru óafgreidd. Lög voru sett um jarðakaup til að tryggja að of mikið land safnist ekki á fárra hendur og ný stefna sett um þjóðlendur á Íslandi –mál sem skipta máli fyrir okkur en ekki síður komandi kynslóðir í þessu landi. Og fyrir þinginu liggja frumvörp um þjóðgarð á hálendi Íslands og breytingar á stjórnarskrá – hvorttveggja mál sem fela í sér ríka almannahagsmuni og væri Alþingi til sóma að klára fyrir okkur öll.

Þetta eru okkar málefni og þetta er mikilvægur málefnalegur árangur sem við náðum fram af því að við höfum skýra stefnu – um félagslegt réttlæti, sjálfbærni og jöfnuð. Stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn geta nefnilega valið um það hvort þeir fylgja stefnu eða hafa skoðanir á öllu sem upp kemur. Hvort þeir eru vegvísar – eða vindhanar. Og Vinstri-græn hafa kosið að fylgja okkar stefnu örugglega og halda okkur við hana óháð sviptivindum einstakra daga. Þetta er ein af ástæðum þess að við getum öll verið stolt af því að tilheyra þessari hreyfingu – því hún treystir sér til að vísa veginn.

Kæru félagar.

Á miðju kjörtímabili skall á heimsfaraldur sem heldur betur hefur sett svip sinn á líf okkar allra undanfarin misseri. Viðbrögð okkar við honum hafa snúist um að vernda líf og heilsu fólksins í landinu og styðja við afkomu almennings og atvinnulífs. Í þessum viðbrögðum höfum við haft hagsmuni almennings að leiðarljósi – sagan af covid-19 á Íslandi er saga af því hvernig við höfum tekið erfiðar ákvarðanir – bæði hvað varðar sóttvarnaráðstafanir hér innanlands og á landamærum – með hagsmuni þjóðarinnar í fyrirrúmi og það hefur skilað okkur góðum árangri.

Samstaða þjóðarinnar og úthald hefur reynst mikið og mikilvægt, þetta hefur verið 14 mánaða barátta þar sem við höfum staðið saman með skýr markmið að leiðarljósi.  Og um leið hefur faraldurinn gert öllum ljóst hvað það skiptir miklu að eiga öflugt opinbert heilbrigðiskerfi þar sem allir eiga jafnan aðgang. Hvað stórar kvennastéttir eru mikilvægar fyrir samfélag okkar. Skólarnir sem hafa haldið sínu striki í gegnum erfiðar aðstæður. Og hvað það skiptir miklu máli að eiga öflugt vísindafólk og fagfólk sem lætur allt annað til hliðar til að vinna samfélagi sínu gagn á ögurstundu. Fyrir utan öll þau sem hafa staðið í framlínunni um allt samfélag þessi erfiðu misseri, staðið sína vakt og gert skyldu sína við erfiðar aðstæður. Við erum þeim þakklát.

Kæru félagar.

Framundan eru krefjandi og spennandi tímar. Við blasir uppbygging sem þarf að vera græn, sjálfbær og réttlát.  Við þurfum að skapa störf, tryggja fjölbreytt atvinnu- og efnahagslíf og öflugt velferðarsamfélag. Við þurfum að standa vörð um þá innviði sem hafa þjónað samfélaginu svo vel á þessum erfiðu tímum.

Í næstu kosningum verður kosið um það hvaða stefnu íslenskt samfélag á að taka að loknum faraldri.

Þar viljum við Vinstri-græn vísa veginn. Og við viljum að við förum öll saman til framtíðar.

Við ætlum að byggja á því sem gert hefur verið á kjörtímabilinu og halda áfram að gera betur.

Við viljum halda áfram að styðja og efla grunnrannsóknir og nýsköpun og þróun. Þar viljum við sérstaklega styðja við grænar lausnir og græn störf. Þannig gerum við allt í senn; aukum hlut þekkingargeirans í íslensku atvinnulífi, fjölgum stoðunum undir íslenskt efnahagslíf og náum loftslagsmarkmiðum okkar.

Við viljum styðja við ferðaþjónustuna í uppbyggingu eftir heimsfaraldur og tryggja að sú uppbygging stuðli að loftslagsmarkmiðum Íslands, verði sjálfbær og einkennist af jöfnuði.

Við viljum stórefla innlenda matvælaframleiðslu og leggjum þar áherslu á fjölbreytni. Við viljum auka hlut innlendra matvæla og við viljum auka hlut lífrænnar framleiðslu innan innlendrar framleiðslu.

Við viljum orkuskipti í sjávarútvegi og minnum útgerðarfyrirtækin á að þau geta lagt meira til samfélagsins með því að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðlað um leið að því að íslenskur sjávarútvegur verði framúrskarandi á þessu sviði.

Við viljum auðlindaákvæði í stjórnarskrá og sanngjarna rentu þeirra sem nýta sameiginlegar auðlindir landsins til samfélagsins. Og best væri að Alþingi afgreiddi það fyrir kosningar.

Við viljum stórefla skapandi greinar sem atvinnugrein en þar á Ísland mikil sóknarfæri.

Við viljum áfram tryggja öfluga almannaþjónustu og standa vörð um þá mikilvægu uppbyggingu sem orðið hefur á þessu kjörtímabili. Almannaþjónustu sem þjónar öllum um land allt.

Við viljum að Ísland taki forystu í að nýta stafræna tækni til að bæta þjónustu og létta líf fólks en tryggi líka réttindi og jöfnuð í tæknibreytingum. Við þurfum að tryggja réttindi og kjör vinnandi fólks og að ábati tæknibreytinga skili sér með réttlátum hætti til samfélagsins.

Við viljum efla menntun á öllum skólastigum því að við vitum að það er undirstaðan fyrir blómlegu efnahags- og atvinnulífi!

Með þessi skýru gildi viljum við skapa störf og tryggja að Ísland muni vaxa út úr þessari kreppu. Þannig tryggjum við best jöfnuð og réttlæti, verðmætasköpun og vöxt og bjarta framtíð fyrir samfélag okkar.

Kæru félagar.

Vegvísir okkar Vinstri-grænna í gegnum þennan faraldur hefur verið að hugsa um hag almennings. Það hefur ekki einungis birst í sóttvarnaráðstöfunum heldur aðgerðum, á sviði geðheilbrigðismála auk annarra félagslegra aðgerða, til að vinna gegn neikvæðum áhrifum faraldursins.

Öflug velferð er órjúfanlegur hluti af góðu samfélagi. Stór skref hafa verið stigin í að efla félagslegt húsnæðiskerfi á kjörtímabilinu og halda þarf áfram á þeirri braut. Grunnurinn hefur verið lagður með almenna íbúðakerfinu en hraða þarf uppbyggingu því að slíkt kerfi er lykillinn að stöðugleika á húsnæðismarkaði og til að komast framhjá þeim sveiflum sem við höfum upplifað í þessum efnum.

Áfram þarf að vinna að úrbótum fyrir öryrkja. Framfærsla þeirra tekjulægstu í hópi örorkulífeyrisþega var hækkuð um síðustu áramót og áður hafði verið dregið úr skerðingum. Áfram þarf að leggja megináherslu á framfærslu öryrkja – en einnig styðja betur við endurhæfingu og styðja þannig þau sem geta farið út á vinnumarkaðinn. Og þar þarf hið opinbera að ganga á undan með góðu fordæmi og tryggja framboð starfa.

Einnig þarf að endurmeta framfærslu aldraðra og horfa þar sérstaklega til tekjulægsta hópsins sem er líklegri til að búa við húsnæðisóöryggi og greiða of mikinn hluta af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnað. Um leið og þörf er á að endurskoða lífeyristökualdur til hækkunar þurfa sveigjanleg starfslok að vera raunverulegur valkostur því ekki hafa allir þrek eða heilsu til að lengja starfsævi sína. Þarna þarf að vanda vel til verka.

Stór skref hafa verið stigin í að draga úr kostnaði sjúklinga, uppbyggingu heilsugæslunnar og geðheilbrigðisþjónustu en við viljum halda áfram og gera enn betur. Við þurfum að leggja aukna áherslu á lýðheilsu. Að geta hreyft sig í náttúrulegu umhverfi og hreinu lofti er lýðheilsumál. Að geta sótt menningarviðburði er lýðheilsumál. Að hafa aðgang að þjónustu í nærumhverfi sínu er lýðheilsumál. Að hafa aðgang að hollum og góðum mat er lýðheilsumál. Heilsa snýst nefnilega ekki eingöngu um heilbrigðisþjónustu sem þarf að vera framúrskarandi – heldur um daglegt líf í samfélagi okkar.  

Við höfum þegar séð árangur af aðgerðum gegn loftslagsvánni sem ráðist var í snemma á þessu kjörtímabili. En við höfum líka sett ný og metnaðarfull markmið í loftslagsmálum um enn meiri samdrátt í losun. Næsta verkefni er að tryggja að þau markmið náist eins hratt og unnt er og gera enn betur. Um leið þarf að tryggja að umskiptin yfir í grænt og loftslagsvænt samfélag verði réttlát og enginn verði skilinn eftir. Tryggja þarf réttinn til heilnæms umhverfis í stjórnarskrá, umhverfissjónarmið þurfa að vera hluti af öllu sem við gerum.

Enn hefur jafnrétti kynjanna ekki verið náð. Enn finnst einhverjum erfitt að tryggja réttindi kvenna, hvort sem er yfir eigin líkama, og enn mæta sjálfsögð jafnréttismál andstöðu í þinginu. Enn er kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni meinsemd í samfélaginu eins og sést á öllum þeim þolendum sem enn og aftur stíga fram af hugrekki og lýsa ofbeldi og áreitni. Það er mikilvægt að við sem samfélag hlustum á þolendur ofbeldis sem hafa rofið þögnina um þessi mál.

Hins vegar er það dapurlegt að við séum ekki lengra komin og minnir okkur á að við getum því ekki litið svo á að jafnrétti kynjanna sé sjálfsagt fremur en önnur mannréttindi. Stór framfaramál hafa náð í gegn á undanförnu kjörtímabili en þeirri baráttu er ekki lokið. Við höfum gert ýmsar réttarbætur, hvað varðar stafrænt kynferðisofbeldi og umsáturseinelti, og ný forvarnaáætlun gegn kynbundnu og kynferðislegu áreitni og ofbeldi vísar veginn til framtíðar. Fræðsla og forvarnir um þessi mál verða vonandi til þess að komandi kynslóðir þurfi ekki að upplifa ofbeldi og áreitni sem hefur fengið að þrífast í skjóli þagnar. Á komandi kjörtímabili þarf að stíga stærri skref til að tryggja réttarstöðu brotaþola. Þar liggur mikil vinna fyrir en ekki hefur náðst að gera nauðsynlegar lagabreytingar til að bæta þá stöðu. Úr því þarf að bæta.

Kæru félagar. Í ágúst munum við koma saman á nýjan leik, kynna kosningaáherslur og brýna sverðin fyrir komandi kosningabaráttu. Þar höfum við góða sögu að segja og góða stefnu að kynna. Við erum hreyfing sem erum til í að leggja mikið á okkur til að byggja upp samfélagið, vinna verkin og taka slaginn.

Okkar hlutverk hér eftir sem hingað til verður að vísa veginn til réttlátara samfélags fyrir okkur öll. Þoka Íslandi áfram eftir þeim vegi farsældar sem við erum nú á. Það verður verkefni fram að kosningum að taka slaginn fyrir betra Ísland fyrir okkur öll.

Áfram Ísland.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search