PO
EN

Ræða forsætisráðherra 17. júni

Deildu 

Kæru landsmenn.

Lýðveldið Ísland er 75 ára í dag. Íslenska þjóðin fagnaði 100 ára fullveldisafmæli í fyrra og nýtti árið til að rifja upp söguna, aðdraganda fullveldis og sjálfstæðis og merkingu fullveldis í samtímanum. Það kann að vera að ég sé að að bera í bakkafullan lækinn að rifja nú upp sögu undanfarinna 75 ára eftir heilt ár af hátíðarræðum og viðburðum. Samt sem áður er þessi dagur afmælisdagur lýðveldis sem nú er 75 ára og það kallar á að litið sé yfir farinn veg. Víst er það að ef Sigga og Jón fyrri tíma tækju sér ferð með tímavél beint frá árinu 1944 til ársins 2019 þætti þeim ótrúlega margt breytt. Árið 1944 bjuggu aðeins um 125 þúsund manns á öllu landinu. Íslendingar stukku beint inn í nútímann nálægt lýðveldisstofnun, þegar við virkjuðum fossa, fórum að malbika vegi og smíða brýr. Iðnvæðingin sem hófst á 18. öld í nágrannalöndunum kom hingað með hvelli í byrjun 20. aldar og brátt varð samfélag okkar eitt hið iðnvæddasta í heiminum eftir ótrúlega hraða þróun úr sárri fátækt í fádæma velmegun. Það eru líka hundrað ár í ár síðan flug hófst á Íslandi en er núna iðnaður sem skiptir miklu fyrir þjóðarhag. Jóni og Siggu yrði starsýnt á nútíma hægindin, veitingastaði, leikhús, tónleikahallir, snjalltæki, sjónvörp og tölvur. Þeim liði eflaust eins og þau væru stödd í vísindaskáldsögu þar sem ekkert væri samt. Enda er það nú þannig að mannveran er stöðugt að breytast og þróast. Saga lýðveldisins hefur einnig verið sveiflukennd. Efnahagurinn hefur farið upp og niður eftir fiskgengd, álverði, ferðamannastraumi og regluleg góðæri og hallæri hafa einkennt hagsöguna. En þó hefur okkur miðað áfram. Það er ekki heill mannsaldur síðan kona sem stendur mér nærri og er fædd ári eftir lýðveldisstofnun missti föður sinn í Hveragerði. Móðir hennar sat ein eftir með börnin og gripu þá bæjarbúar til þess ráðs að safna fyrir ekkjuna þannig að hún yrði ekki á vonarvöl þar sem hún bjó við þröngan kost. Um leið og þessi saga ber fagurt vitni samstöðu Íslendinga þegar á reynir minnir hún líka á þær framfarir sem hafa orðið í samfélaginu: almannatryggingar, heilbrigðisstofnanir, skóla, menningu. Alla þessa innviði höfum við byggt upp og um leið samfélag sem er meðal þeirra fremstu í heimi þegar kemur að jöfnuði og velsæld. Og þó að nú blási nokkuð á móti í efnahagslífinu erum við núna vel í stakk búin til að takast á við smá stinningskalda. Árin frá hruni hafa nýst til að undirbyggja hagstjórnina, greiða niður skuldir og byggja upp innviði. Við munum takast á við öll veðrabrigði með samstöðu og trú á framtíðina, eins og við höfum gert alla lýðveldissöguna. Góðir landsmenn. Margt áþreifanlegt hefur breyst á 75 árum en ekki síður viðhorfin. Skömmu eftir lýðveldisstofnun kom út í Bandaríkjunum Bókin um barnið eftir Benjamin Spock sem olli straumhvörfum í hugmyndum fólks um barnauppeldi. Allt í einu var í lagi að hugga börn og faðma þau, jafnvel drengina, þvert á fyrri hugmyndir um að láta börnin gráta sig hás til að gera þau að sterkari einstaklingum. Hugsanlega erum við stödd í öðrum slíkum straumhvörfum nú þegar börn og ungmenni gera ríkari kröfur en nokkru sinni fyrr til að skoðanir þeirra séu teknar gildar í pólitískri umræðu samtímans, eins og sést á vikulegum loftslagsverkföllum hér á þessum bletti. Það getur nefnilega allt breyst, líka það sem virðist klappað í stein. Nú hefur runnið upp fyrir flestum hvaða áhrif menn hafa á loftslagið, og það er það sem unga kynslóðin gerir nú skýra kröfu um: að eldri kynslóðir geri nú allt sem í mannlegu valdi stendur til að sporna gegn þessum hamförum. Stjórnvöld hafa sett fram skýra sýn um að Ísland verði kolefnishlutlaust ekki seinna en árið 2040 og Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Fyrstu áfangar í aðgerðaáætlun stjórnvalda lúta að orkuskiptum í samgöngum og aukinni kolefnisbindingu. Um leið er algjörlega nauðsynlegt að endurskoða áætlunina reglulega til að hraða þessum viðsnúningi. Sigga og Jón sáu þetta tæplega allt fyrir en lýðveldisstofnunin á rætur að rekja til mikillar samstöðu þjóðarinnar – sömu samstöðu og við þurfum nú til að ná árangri í baráttunni við stórar áskoranir, á borð við þá hamfarahlýnun sem nú er yfirvofandi. Við viljum ná árangri vegna þess að við trúum á framtíðina og að við getum gert hana betri fyrir komandi kynslóðir alveg eins og Íslendingar trúðu á framtíðina þegar þeir lýstu yfir lýðveldi. Sú ákvörðun skilaði þjóðinni farsæld. Um það snýst jafnvægi sögunnar. Að skapa samstöðu með þeim sem eru hér og nú um ákvarðanir sem reynast farsælar til framtíðar án þess að við getum séð fyrir allt sem muni breytast eða hver við nákvæmlega verðum þá.

Kæru landsmenn. Á tímum þar sem við erum öll sítengd og ýmis skilaboð koma stöðugt upp á skjánum er hættan sú að fátt sé of smátt til að birtast í hinni stafrænu veröld en um leið dvínar mikilvægi þess sem skiptir í raun mestu máli og klukkustundunum sem við nýtum til að sinna því fækkar. Allt verður sambærilegt í hinum stafræna heimi, hneyksli dagsins ganga yfir undraskjótt óháð umfangi og inntaki. En um leið er hættan sú að það sem skiptir raunverulegu máli gleymist í öllum hávaða dagsins – allt verður flatneskja. Í flatneskjunni getur það sem stendur okkur næst missi vægi sitt í samanburði við aðra síður mikilvæga viðburði og hluti. Hún hefur áhrif á stjórnmálin þar sem stórt og smátt rennur saman í einn graut. Tæknibreytingar hafa ýkt þessa stöðu þar sem breytt umræða á samfélagsmiðlum veldur því að brýnt þykir að setja fram skoðanir á vettvangi dagsins en það gleymist að hugsa um stóru málin sem munu breyta samfélaginu til lengri tíma. Margt af því sem stjórnmálin fást við virðist ekki þeirrar gerðar að það breyti gildismati eða hafi raunveruleg áhrif á líf fólks. En þó geta stjórnmálaákvarðanir breytt lífi fjöldans. Að brúa umönnunarbilið með því að lengja fæðingarorlofið breytir lífi ungs barnafólks. Að tryggja að fæðingarorlof deilist milli mæðra og feðra hefur breytt gildismati heillar kynslóðar sem nú telur sjálfsagt og rétt að börn njóti ástar og umönnunar beggja foreldra. (Hvað hefði Dr. Benjamin Spock sagt um það?) Að byggja upp félagslegt húsnæðiskerfi breytir lífi fólks sem býr við óöryggi í húsnæðismálum. Það breytir lífi barna sem hafa áhyggjur af því hvar þau muni búa eftir nokkra mánuði. Ákvarðanir núna um orkuskipti í samgöngum og aukna kolefnisbindingu munu breyta lífi komandi kynslóða sem munu dæma verk okkar nú út frá áhrifum þeirra á umhverfi og loftslag í framtíðinni. Hart var barist fyrir sjálfstæði Íslands en þegar langt er liðið frá baráttunni getur manni orðið hætt við því að verða full makindalegur. Stundum vill gleymast að við getum ekki tekið lýðræðinu sem var innsiglað fyrir 75 árum við stofnun lýðveldisins Íslands sem gefnu. Einhver fleygði þeirri hugsun fram við mig um daginn að ef lýðræðið væri miðaldra hjón væru þau kannski að kaupa sér mótórhjól eða byrja í fjallamennsku. Stundum er lýðræðið eins og það skorti tilgang í heimi þar sem efast er um stjórnmálaflokka, þjóðþing og stofnanir lýðræðisins á hverjum degi. En þá má ekki gleyma því að 80% þjóðarinnar mæta á kjörstað í þingkosningum, meira að segja þegar þær eru haldnar með árs millibili, og velja þá flokka sem eru í boði og afhenda okkur þingmönnum um leið mikla ábyrgð. Því hlutverk okkar allra er að vera fulltrúar þjóðarinnar allrar, ekki aðeins eigin kjósenda, og standa vörð um og tryggja að undirstöðustofnanir hins frjálslynda lýðræðis virki sem skyldi í þágu alls almennings og tryggi opið samfélag, vernd minnihlutahópa, mannréttindi og þrískiptingu ríkisvalds.

Góðir landsmenn! Íslandssagan er saga samskipta við umheiminn. Þótt við séum eyland sannast hið fornkveðna að enginn er eyland. Frá landnámi vorum við stöðugt á ferðinni, vegna verslunar og viðskipta, vegna menningar og lista eða vegna myrkraverka sem við hrósum okkur kannski ekki af núna. Íslensk menning er afurð alþjóðlegra samskipta þó að hún sé líka einstök fyrir margra hluta sakir. Mikilvægt er að ræða reglulega stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna en eitt má læra af sögunni. Í senn er mikilvægt að standa með sjálfum sér og gæta að því sem við eigum: landi, tungu og menningu. En líka að muna að við erum fullvalda þjóð og getum sem slík átt samskipti við hvern sem er á jafnræðisgrundvelli. Við varðveitum ekki fullveldið með því að flýja undan öðrum því þá er hættan að fyrir okkur fari eins og Bjarti í Sumarhúsum sem fór úr einum næturstað í annan verri. Mætum öðrum þjóðum á jafnræðisgrundvelli en tryggjum um leið hagsmuni almennings í landinu.

Góðir landsmenn Seinasti mánuður hefur verið veðursæll og margir iðnir að birta myndir af landinu okkar fagra en líka af fögru mannlífi. Þó að forsætisráðherra fái stundum skammir frá erlendu fólki sem finnst íslenskir landamæraverðir ekki hafa verið nógu liprir við erlend fótboltalandslið er enn algengara að heyra það erlendis að Ísland þyki fallegt land, mannlífið gott og þjóðin einstaklega dugmikil. Lýðveldið Ísland er 75 ára í dag. Um leið og við fögnum okkar sameiginlegu sögu og öllum þeim framförum sem hafa náðst frá 17. júní 1944 verðum við að horfa til framtíðar og takast á við þær áskoranir sem framundan eru. Sjaldan hefur verið mikilvægara að standa með fullveldinu og lýðræðinu, með gildismati þeirra sem börðust fyrir sjálfstæði Íslands og trúðu að Ísland ætti erindi sem fullvalda og sjálfstæð þjóð í samfélagi þjóðanna. Loftslagsbreytingar og tæknibreytingar hafa haft og munu hafa mikil áhrif á samfélög og lýðræðið. Við Íslendingar eigum tækifæri í þeirri stöðu því rödd okkar getur verið sterk þótt við séum fámenn þjóð. Það sem við munum gera skiptirmáli fyrir alþjóðasamfélagið og okkur sjálf. Það sem gerum skiptir máli fyrir okkur sem hér stöndum en líka fyrir komandi kynslóðir.

Sýnum því heiminum að Ísland þorir, vill og getur.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search