Search
Close this search box.

Ræða forsætisráðherra á þjóðhátíðardegi

Deildu 

Góðir landsmenn.

Þjóðhátíðardagur Íslands nálægt miðju sumri er ævinlega gleðidagur. Lýðveldið nálgast áttrætt, en líkt og margir Íslendingar á sama aldri ber það aldurinn vel, er svo blómlegt og unglegt að furðu sætir.

Fyrir réttu ári vorum við enn að kljást við heimsfaraldurinn. Í honum sýndu íslenskt samfélag og heilbrigðiskerfi styrk sinn og á ótrúlega skömmum tíma er samfélagið orðið aftur eins og Erilborg sem ég las um sem barn í bókinni Öll erum við önnum kafin í Erilborg. Ég hugsa enn til þess með þakklæti hversu vel íslenska þjóðin stóð sig í þessari eldraun: heilbrigðisstarfsfólk, starfsfólk skóla, velferðarkerfis, atvinnulífið, landsmenn allir. Í svona erfiðleikum sýnir gott samfélag styrk sinn.

Það er stundum sagt að þegar náttúran sýnir klærnar standi íslenska þjóðin sameinuð þó að þess á milli ríki nágrannaerjur um hina smæstu hluti. Eins og aðrar klisjur er þessi ekki alveg úr lausu lofti gripin.

Því miður tekur þó hver kreppan við af annarri þessi ár. Innrás Rússlands í Úkraínu hefur haft og mun hafa hrikalegar afleiðingar. Fáheyrður fjöldi fólks flýr yfir til nágrannaríkja og búist er við að yfirvofandi fæðuskortur um víða veröld bitni með mestum þunga á þeim sem minnst hafa.

Áhrif stríðsins á fólk í Úkraínu eru skelfileg og vegna þess hve nálæg átökin eru sjáum við nú skýrt hvaða afleiðingar hernaður og styrjaldir hafa. Á bak við fréttir um hermenn, fallbyssur, skriðdreka og eldflaugar er líf venjulegs fólks, eyðilögð heimili, hungur og ástvinamissir.

Stuðningur íslenskra stjórnvalda við Úkraínu er afdráttarlaus og við höfum komið honum skýrt á framfæri, bæði í orði og verki. Nú þegar hafa komið hingað til lands tæplega 1200 Úkraínumenn og er mikilvægt að taka vel á móti þeim sem og öðru flóttafólki.

Þá er rætt um að Ísland endurskoði öryggis- og varnarmál sín og auðvitað er það viðvarandi verkefni stjórnvalda á hverjum tíma. Sú vinna er í gangi meðal annars í tengslum við nýtt hættumat og endurskoðun þjóðaröryggisstefnu Íslands á vettvangi Þjóðaröryggisráðs. Fregna af hvoru tveggja er að vænta á seinni hluta þessa árs.

Í þessu ölduróti hefur utanríkisstefna Íslands verið skýr. Ísland er og verður herlaus þjóð sem byggir fullveldi sitt á virðingu fyrir alþjóðalögum og virku samstarfi við önnur ríki á vettvangi alþjóðastofnana. Sem traustur og áreiðanlegur þátttakandi í alþjóðakerfinu er Ísland öðru fremur málsvari mannréttinda, lýðræðis og réttarríkis. Og hér eftir sem hingað til notum við rödd okkar til að tala fyrir réttindum kvenna og stúlkna, fyrir umhverfis- og loftslagsmálum, og fyrir friði og afvopnun.

Síðastnefnt er ekki síst mikilvægt nú þegar mörg ríki heims auka útgjöld til hermála. Einmitt við þær aðstæður er afar brýnt að afvopnun verði áfram í forgrunni, að veröldin ani ekki út í nýtt vígbúnaðarkapphlaup með tilheyrandi hörmungum, og komið sé böndum á hernaðarviðbúnað með gagnkvæmum samningum sem auka gegnsæi og traust, alveg eins og hyggnir þjóðarleiðtogar gerðu á efstu dögum kalda stríðsins. Í Gerplu Halldórs Laxness segir norskur bóndi við Þormóð Kolbrúnarskáld: „Í styrjöld munu þeir einir miður hafa, er trúa stáli.“

Fámennar og friðsamar þjóðir eins og Ísland eru í engri stöðu til að hafa betur í hernaðarátökum og ógnir þessa stríðs fyrir okkur eru enda af öðrum toga en þeirra sem nær þeim búa. Þetta stríð ógnar friði og öryggi allra og brýtur gegn alþjóðalögum og rétti. En þar fyrir utan er ljóst að Evrópu stafar veruleg ógn af efnahagslegum áhrifum stríðsins. Meðal annars vegna hækkana á olíu og gasi og ekki síður vegna hættunnar á matarskorti. Við sjáum reyndar fram á alvarlega kreppu í matvælaframleiðslu heimsins. Afleiðingar þessa sjáum við birtast í verðbólgu og verulegri hættu á efnahagssamdrætti sem skapar kjörlendi fyrir lýðskrumara sem jafnan hafa á reiðum höndum einföld svör við flóknum spurningum.

Það er mikilvægt að við horfumst í augu við að orka, matur og vatn og eftir atvikum land fela í sér mikilvægar pólitískar áskoranir fyrir okkur Íslendinga.

Orkuauðlindin og yfirráð yfir henni eru hluti af fullveldi okkar. Þar blasa við ýmis álitamál þegar við viljum tryggja orkuskipti til að ná árangri í baráttunni við loftslagsvána. Það er okkar stjórnmálamanna að tryggja að þau umskipti þjóni því markmiði að tryggja lífsgæði íslensks almennings samhliða því að ná árangri í loftslagsmálum.

Það skiptir líka máli að tryggja hið dýrmæta jafnvægi milli verndar og nýtingar. Áfram eigum við að vinna eftir faglegu ferli í mati á virkjanakostum í gegnum rammaáætlun, sem stuðlar að hinu mikilvæga jafnvægi verndar og nýtingar og halda því til haga að vernd skilar okkar samfélagi ómetanlegum gæðum sem verða æ eftirsóknarverðari í heiminum á 21. öldinni – þar sem ósnortin náttúra verður æ fágætari.

Við þurfum líka að marka ramma utan um það hvernig arðurinn af nýrri auðlind – beislun vindorkunnar – renni til samfélagsins. Þar þurfum við að skrifa leikreglurnar nú þegar, því staðan er sú að einkaaðilar, innlendir og erlendir, hafa merkt sér svæði víða um land sem þeir telja ákjósanleg til nýtingar.

Áður en lengra er haldið  þarf að ná samfélagslegri sátt um arðinn – og ekki síður marka stefnu um hvar sé æskilegt að byggja upp vindorku. Víða erlendis hefur uppbyggingunni verið beint út á haf og við eigum að horfa til þess því vindorkan hefur sannarlega áhrif á landslagið – hin ósnortnu víðerni – og því er mikilvægt að hafa skýra sýn á það hvar nýting hennar á heima og hvar ekki.

Við eigum ómæld tækifæri til að efla hér matvælaframleiðslu þannig að við verðum í auknum mæli sjálfum okkur nóg. En um leið stuðla að markmiðum okkar í loftslagsmálum og auka fæðuöryggi. Við getum kallað það réttlát umskipti í landbúnaði og sjávarútvegi sem geta skipt sköpum um hver lífsskilyrði komandi kynslóða verða í landinu.

Eignarhald á landi er lykilatriði þegar kemur að þessari auðlind. Þar skiptir máli eignarhald almennings á þjóðlendunum sem við eigum saman og sú staðreynd að fyrir tveimur árum voru sett ný lög sem koma í veg fyrir samþjöppun lands á of fáar hendur.

Kæru landsmenn

Þó að heimurinn sé harður er margt jákvætt að gerast á Íslandi og okkur farnast vel. Niðurstöður lífskjararannsóknar Hagstofunnar fyrir árin 2019 til 2021 sýna að hlutfall heimila sem eiga erfitt með að láta enda ná saman hefur aldrei mælst lægra og færri telja byrði húsnæðiskostnaðar þungan. Hlutfall heimila sem segjast búa við efnislegan skort er nálægt sögulegu lágmarki og aldrei hafa færri heimili sagst eiga í erfiðleikum með að mæta óvæntum útgjöldum.

Þessar tölur segja sitt, þær skipta máli og sýna góðan árangur hinnar félagslegu efnahagsstefnu. En þær segja ekki alla söguna. Við setjum húsnæðismál í forgang enda eitt stærsta kjaramál heimilanna og þar er stærsta verkefnið að tryggja aukið húsnæðisöryggi. Gott samstarf ríkis og sveitarfélaga hefur hér mikla þýðingu. Aukið framboð á húsnæði ásamt öflugri aðstoð, ekki síst við þau sem eru á leigumarkaði, ræður miklu um lífsafkomu þeirra fjölskyldna sem búa við hvað lökust kjör í landinu.

Aukin umsvif efnahagslífsins í kjölfar Covid eru jákvæð en auka hættuna á ofþenslu samhliða aukinni óvissu og versnandi verðbólguhorfum bæði hér heima og alþjóðlega. Þar valda mestu stríðsátökin í Úkraínu sem hafa áhrif á aðfangakeðjur og hrávöru- og orkuverð um víða veröld. Við erum í góðri stöðu til að mæta þessum áskorunum, erum til að mynda ekki eins háð innfluttri orku eins og fjölmargar þjóðir Evrópu.

Stoðum undir atvinnu- og efnahagslíf hefur verið fjölgað og þær styrktar á undanförnum árum. Hugverkageirinn er hin nýja stoð útflutnings á Íslandi. Þar eru sóknarfærin óteljandi enda byggist iðnaðurinn einvörðungu á nýtingu þeirrar auðlindar sem óþrjótandi má teljast – hugvitinu. Ríkisstjórnin hefur á síðustu árum lagt aukna áherslu á að styðja við þessa þróun sem og lagt fram skýra stefnumörkun þegar kemur að tæknibreytingum. Framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingagreina hafa ríflega tvöfaldast frá árinu 2017 og enn er gert ráð fyrir aukningu til þessar mála á næstu árum. Árangurinn af þessu má sjá í því að útflutningstekjur úr hugvits- og tæknigreinum hafa stóraukist á síðustu árum og voru í fyrra tvöfalt meiri en á árinu 2014.

Loftslagsváin er marglaga vandamál sem ekki verður leyst nema með margs konar lausnum og aðkomu samfélagsins alls. Rannsóknir vísindamanna sýna okkur að staðan er grafalvarleg og neyðarástand blasir við ef ríki heims taka ekki höndum saman um árangursríkar aðgerðir gegn loftslagsvánni. Við munum ekki ein leysa loftslagsvanda heimsins en á okkur hvílir rík skylda til að gera okkar besta – engin þjóð, fámenn eða fjölmenn, getur skilað auðu eða setið hjá.

Ég tel hins vegar fulla ástæðu til að vera bjartsýn. Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið, raunhæfar áætlanir og lagt fram fjármagn til að fylgja þeim eftir. Sá metnaður og áhugi sem ég finn í samfélaginu öllu er áþreifanlegur, almenningur og atvinnulíf leita stöðugt nýrra og skapandi lausna til að draga úr losun sem skila oft líka betri lífsgæðum og aukinni hagkvæmni. 

Kosið var til sveitarstjórna nú í vor. Gjarnan hefði ég viljað heyra meiri umræðu um leikskóla og grunnskóla í aðdraganda þeirra enda stærsti og mikilvægasti málaflokkur sveitarfélaganna. Skólakerfið er án vafa eitt mikilvægasta jöfnunartæki sem við eigum. Í skólanum koma börn saman með ólíkan bakgrunn og mynda samfélag með kennurum og öðru starfsfólki. Þar koma saman kennarar, nýir og gamlir, og byggja upp og undirbúa nýjar kynslóðir sem erfa munu landið. Skólinn er staður þekkingar og menntunar, en líka griðastaður, staðurinn sem öðrum fremur getur tryggt jöfn tækifæri þar sem hæfileikar allra fá notið sín. Það er mikilvægt að standa vörð um þennan stað – skólann og leikskólann sem er hjarta hvers samfélags. Aðbúnaður og menntun barna segir allt um það hvernig og hversu mikils hvert samfélag metur framtíðina. Hamingjusöm og glöð börn eru von og fyrirheit um bjarta framtíð.

Ein af grunnstoðum aðalnámskrár grunnskóla er lýðræði og mannréttindi en allir nemendur eiga að öðlast skilning og þekkingu á þessum hugtökum. Segja má að þessi þráður liggi í gegnum allt samfélag okkar og er ein forsenda þess að á alþjóðavettvangi höfum við stillt okkur upp í það hlutverk að vera málsvari mannréttinda og lýðræðis. Það er engin vanþörf á. Lýðræðið hefur átt undir högg að sækja víða um heim og við verðum stöðugt að halda vöku okkar – lýðræðið getur horfið á einni svipstundu – jafnvel þótt það hafi lengi verið við lýði. Í dag er lýðveldið Ísland 78 ára. Látum lýðræðið verða okkar leiðarljós á þessum þjóðhátíðardegi og öllum þeim dögum sem á eftir honum koma. Lýðræðið á að vera sú saga, það ljóð, sem við kjósum okkur til handa alla tíð.


Kæru landsmenn! Til hamingju með þjóðhátíðardaginn!

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search