Search
Close this search box.

Ræða Guðmundar Inga á flokksráðsfundi

Deildu 

Kæru félagar!

Gaman að sjá ykkur öll og gaman að sjá okkur svona mörg samankomin hér í dag.

Þessi fundur verður okkur gríðarlega mikilvægur. Hann er upptakturinn að landsfundi okkar í október og mikilvægur liður í málefnastarfi okkar.

Öflugt málefnastarf er og hefur alltaf verið aðalsmerki hreyfingarinnar okkar, enda finnst flestum okkar mjög gaman að tala mikið og lengi. Ég er engin undantekning þar á og mun sanna það í þessari ræðu.

Við sem erum hér saman komin viljum öll hafa áhrif á íslenskt samfélag til hins betra. Við viljum ná árangri fyrir fólkið í landinu á félagslegum forendum. Forsendum grunngilda hreyfingarinnar okkar um félagslegt réttlæti, umhverfis- og náttúruvernd, kvenfrelsi og friðarstefnu.

Þetta er grunnurinn okkar og það er erindi okkar að berjast fyrir þessum gildum. Gildum vinstristefnunnar og gildum grænu byltingarinnar.

Ófriðarskýin hafa hrannast upp og staða heimsmála er uggvænleg á mörgum sviðum, þó margt gangi líka vel. Ég geld mikinn varhug við þeim uppgangi öfgahægri afla í Evrópu sem við höfum séð víða um álfuna á undanförnum misserum. Ísland fer ekki varhluta af þessari þróun en áherslur margra flokka hérlendis hafa bæði færst til hægri og orðið steinsteypugráar í stað þess að vera iðagrænar.

Og, við berum ábyrgð á því að veita þessari auknu hægristefnu kröftuga mótspyrnu. Það er eitt af erindum okkar í íslenskum stjórnmálum. Hluti af kjarna okkar og það er okkar skylda. Höldum við ekki uppi rauðum og grænum gildum, gerir það enginn.

En það blæs ekki byrlega með okkur í skoðanakönnunum. Það þurfum við að vera óhrædd að ræða og horfast í augu við. Allt þetta kjörtímabil, hafa fylgistölur sígið niðurávið og við höfum núna síðasta hálfa árið mælst með milli 3 og 5% fylgi. Og, það er raunverulegt áhyggjuefni því með slíku fylgi höfum við lítil sem engin áhrif á framþróun samfélagsins.

Við þurfum að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort við ætlum að pakka saman eða hvort við ætlum að vinna að raunverulegri uppbyggingu hreyfingarinnar með gildi vinstristefnunnar og umhverfisverndar að leiðarljósi. Hvert viljum við fara? Hvert ætlum við stefna?

Ég hef rætt um það að nauðsynlegt sé að fara aftur í ræturnar og skerpa á áherslum okkar í umhverfismálum og í vinstri málunum. Hið sama á við um mannréttindamál og friðarstefnu.

Stjórn hreyfingarinnar lagði upp í þá vegferð að koma þessari vinnu af stað og við héldum opinn félagsfund í júní síðastliðnum til að bæði ræða stöðu okkar en líka hvert við viljum stefna.

Og, flokksráðsfundurinn hér í dag er upphafið að þessari uppbyggingar vinnu.

Það eru sjö vikur í landsfund okkar. Klukkan tifar og tíminn flýgur áfram. Á fundinn munum við mæta til að kjósa nýja forystu og stilla kompásinn fyrir komandi vetur.

Katrín Jakobsdóttir lét af störfum sem formaður í byrjun apríl og sagði af sér embætti forsætisráðherra. Katrínu færi ég mínar og okkar allra bestu þakkir fyrir afskaplega óeigingjarnt og gott starf í þágu hugsjóna okkar og í þágu lands og þjóðar á undanförnum 20 árum. Við munum finna gott tilefni til að þakka henni persónulega á næstunni. En við skulum líka gefa henni gott klapp hér.

Þegar jafn stór manneskja og Katrín kveður hið pólitíska svið myndast óneitanlega tómarúm. En, eins og Kata sagði oft sjálf að þá er enginn ómissandi og það kemur alltaf maður í manns stað. Öllum breytingum fylgja líka tækifæri. Það hafa margir bæði fyrrum og núverandi félagar nefnt akkúrat þetta, að horfa eigi á breytingarnar núna sem tækifæri. Tækifæri til að horfa inn á við, skerpa okkur, leita í ræturnar og koma enn sterkari til baka. Og það skulum við að gera. Saman.

Kæru félagar.

Síðastliðið vor ætti að gefa okkur kraft og trú á að ekki aðeins höfum við náð gríðarlega góðum árangri í ríkisstjórn, heldur komið í gegn mörgum af stórum, jafnvel risastórum áherslumálum vinstrisins á Íslandi. Og, við verðum að nýta okkur það sem veganesti í framhaldinu.

Seinni hluta vetrar var gengið fá kjarasamningum til fjögurra ára á almennum vinnumarkaði og ríkisstjórnin kom inn í það með ríflegan kjarapakka. Sá kjarapakki er nefnilega sniðinn að lágtekju- og fjölskyldufólki og eykur jöfnuð og félagslegt réttlæti í samfélaginu.

Varaformaðurinn okkar fór vel yfir hvað felst í honum og ég ætla ekki að endurtaka það.

  • Aukning til barnabóta  
  • Þakið í fæðingarorlofinu hækkað.
  • Húsnæðisbætur auknar
  • Bætt er í stofnframlög inn í almenna íbúðakerfið til að byggja fleiri leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir lágtekjufólk.
  • Og síðast en ekki síst, skólamáltíðir, gjaldfrjálsar, næringarríkar skólamáltíðir í grunnskólum, sem er risastórt baráttumál okkar Vinstri grænna er orðið að veruleika,
  • Og þetta kæru félagar er ein skilvirkasta og besta leiðin til að draga úr fátækt á meðal barna.

Ég vil bara segja:

Kjarapakkinn í heild sinni er eins og snýttur út úr nös á vinstristefnunni.

Kjarapakkinn er stórt skref í átt að því að draga almennt úr fátækt á Íslandi, um leið og hann leggur lóð á vogarskálar stöðugleikans á vinnumarkaði til næstu fjögurra ára. 

Jana kom einnig inn á samþykkt stofnunar Mannréttindastofnunar Íslands sem var annar stórsigur okkar Vinstri græna. Og Jana ræddi líka örorkulífeyriskerfisbreytingarnar.

En af vorverkunum nefni ég þær breytingar að lokum.

Fyrir fáu hef ég brunnið jafnmikið í starfi mínu sem félagsmálaráðherra og málaflokki fatlaðs fólks.

Að sjá það óréttlæti sem birtist í minna aðgengi að námi, minna aðgengi að vinnu, og alltof bágum kjörum alltof margra sem aldrei hafa beðið um að þurfa að reiða sig á opinberan stuðning.

Ekki bara verður kerfið einfaldara og skiljanlegra, heldur er það sanngjarnara fyrir fólkið, og nú verða réttir hvatar til atvinnuþátttöku og við bætum kjör og drögum úr fátækt örorkulífeyrisþega með 19 nýjum milljörðum.

Þess vegna eru þessar breytingar góðar. Mikilvægar.

Steinunn Þóra þingkona okkar í Reykjavík á miklar þakkir skyldar fyrir að sigla málinu af festu og lipurð í gegnum þingið með góðum breytingum í sátt við stjórn og stjórnarandstöðu.

Öll þessi vorverk sem ég hér nefni eru risastór vinstri mál sem auka jöfnuð og félagslegt réttæti. Það er alveg á hreinu að þessi mál hefðu ekki orðið að veruleika ef VG hefði ekki keyrt þau áfram.

Kæru félagar.

Í vor urðu líka mannabreytingar hjá okkur. Eva Dögg Davíðsdóttir tók sæti Katrínar á þingi og býð ég hana innilega velkomna í hóp okkar þingmanna. Það urðu breytingar á ráðherraliði okkar og nýir málaflokkar komu í okkar hlut. Svandís Svavarsdóttir stýrir nú stóru ráðuneyti innviða og hefur lagt sérstaka áherslu á almenningssamgöngur og að ýta Borgarlínunni úr vör með endurskoðun á samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Þetta er mikið fagnaðarefni. Stefnt er að kynningu á því máli í næstu viku. Og, svo er unnið að uppfærðri samgönguáætlun, og það er frábært til að hugsa að Svandís sé nú hér við stjórnborða.

Það kom líka í hlut Svandísar að koma skólamáltíðunum, húsaleigulögunum og húsnæðisbótunum inn í þingið þar sem okkar góðu þingmenn fylgdu málum eftir af einurð.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir tók við í matvælaráðuneytinu af Svandísi og hefur ekki setið auðum höndum, en ný reglugerð um sjálfbæra landnýtingu markar tímamót og sama má segja um  landsáætlun um útrýmingu sauðfjárriðu, fjármögnun Jarðræktarmiðstöðvar á Hvanneyri og aðkoma að uppbyggingu líforkuvers á Dysnesi við Eyjafjörð. Bjarkey verður með mörg stór mál fyrir þinginu næsta vetur sem tengjast sjávarútvegsmálum.

Í gær samþykkti svo ríkisstjórnin að  flytja jafnréttis- og mannréttindamál frá forsætisráðuneyti til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Ég mun leggja sérstaka áherslu á baráttu gegn kynbundnum launamun, fyrir málefnum hinsegin fólks og mun setja lögfestingu Samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í forgang og koma fram með frumvarp þess efnis nú á haustþingi.

Kæru félagar.

Í dag hefjum við uppbyggingarstarfið sem framundan er. Það verður krefjandi vinna, en á umfram allt að geta verið skemmtileg og gefandi.

Mig langar að velta upp nokkrum málefnum sem hafa verið mér ofarlega í huga á síðustu mánuðum, en eru jafnframt risavaxin verkefni fyrir íslenskt samfélag á næstu árum og áratugum.

Þjóðin er að eldast.

Sem dæmi mun fjöldi 85 ára og eldri fara úr 6500 í dag í yfir 22 þúsund eftir 30 ár.

Þessari öldrun þjóðarinnar munu fylgja gríðarlega miklar áskoranir á mörgum sviðum, sérstaklega hvað varðar elsta aldurshópsins, sem þarf mestu þjónustuna. Fleiri áskoranir blasa við eins og að manna þjónustuna við þennan hóp, að vinna gegn einmanaleika og félagslegri einangrun eldra fólks.

Aðgerðaáætlunin Gott að eldast sem Alþingi samþykkti að tillögu minni í fyrra vor er ætlað að gera grundvallarbreytingu á fyrirkomulagi þjónustu við eldra fólk með það að markmiði að veita betri þjónustu, draga úr þörf á hjúkrunarrýmum og gera fólki kleift að búa lengur heima.

Og þá vil ég segja að það er algjörlega tímabært að skoða næstu skref í bættum kjörum ellilífeyrisþega og slíkar aðgerðir eiga að beinast að þeim sem efnaminni eru.

Fæðingartíðni hefur farið lækkandi á Vesturlöndum og Ísland er engin undantekning þar. Það er orðið erfiðara að kljúfa barneignir fjárhagslega. Og erfitt að fá leikskólapláss eftir að fæðingarorlofi lýkur. Ofan á þetta er síðan sífellt erfiðara að komast inn á fasteignamarkað fyrir fyrstu kaupendur.

Þá er skýr kynjamunur til staðar, en ráðstöfunartekjur kvenna lækka að meðaltali um 30-40% á fyrsta heila árinu eftir fæðingu barns en karla um 3-5%, með tilheyrandi áhrifum á uppsöfnun lífeyrisréttinda.

Þrátt fyrir að margt jákvætt hafi gerst á undanförnum árum, og við getum nefnt lengingu fæðingarorlofs, aukinn stuðningur við fyrstu kaupendur með hlutdeildarlánum, hækkun þaks í fæðingarorlofinu, að þá er klárlega verk að vinna hér og við verðum að tryggja að við höldum í unga fólkið okkar og sköpum góðar aðstæður til fjölskyldulífs.

Á þessum málum verður að taka og verður spennandi verkefni fyrir fastanefndir að kryfja þessi mál frekar.

Innflytjendur eru að nálgast það að verða 20% landsmanna. Við erum að sjá aukna stéttskiptingu, innflytjendur eru líklegri til að búa við fátækt og börn þeirra líklegri til að detta úr framhaldsskóla.

 Og þetta, góðir félagar, þetta eru hinar raunverulegu áskoranirnar þegar kemur að útlendinga- og innflytjendamálum á Íslandi.

Ég vil því segja það alveg skýrt hér að ég tel það ekki forgangsmál að gera frekari breytingar á útlendingalöggjöfinni. Mikilvægt er að áhrif breytinga á útlendingalöggjöfinni sem þegar hafa verið samþykktar komi fram.

Og núna á forgangurinn að vera á innflytjendamál.

Að veita meiri aðstoð í skólum, að kenna íslensku, að aðstoða fólk við að fóta sig í samfélaginu.

Þess vegna er það fagnaðarefni að í fjármálaáætlun í vor var tryggt aukið fjármagn til inngildingar, sérlega til aðstoðar í skólum landsins. Og í haust mun ég leggja fram á þingi fyrstu stefnu Íslands í innflytjendamálum ásamt framkvæmdaáætlun og ný heildarlög um inngildingu innflytjenda.

Höldum fókusnum og forganginum á réttum stað.

Kæru félagar.

En til að styðja við nauðsynlegar samfélagslegar breytingar með félagslegt réttæti, kynjajafnrétti og mannréttindi að leiðarljósi þarf líka að huga að efnahagslegum undirstöðum og sanngjarnri skiptingu kökunnar.

Á sviði efnahagsmála og ríkisfjármála hefur gríðarmikið gengið á, ekki síst vegna kórónuveirufaraldursins, óveðurs og eldsumbrota og við glímum enn við háa verðbólgu og hátt vaxtastig.

Við munum að í upphafi ríkisstjórnarsamstarfsins sammæltumst við meðal annars um það að hækka fjármagnstekjuskatt og koma á þriggja þrepa skattkerfi. Í skattamálum greinir stjórnarflokkana augljóslega á, og við höfum ekki fengið allt sem við viljum og ekki heldur hinir flokkarnir.

Aðalmálið núna er að við skerpum okkar áherslur byggt á grunngildum okkar um jöfnuð og félagslegt réttlæti. Þó svo að við komum þeim breytingum ekki í gegn í þessari ríkisstjórn.

Við viljum að breiðu bökin gefi meira til samfélagsins, einstaklingar og fyrirtæki. Við gætum til dæmis komið á hóflegum auðlegðarskatti og þrepaskiptum fjármagnstekjuskatti sem ver betur ævisparnað hjá venjulegu fólki en skattleggur auðmenn og gróðafyrirtæki. Og, nýting sameiginlegra auðlinda til hafs og lands, hvort sem er sjávarútvegur eða ferðaþjónusta á auðvitað að skila ríflega til samfélagsins og meiru en gert er í dag.

En í þessu samhengi verðum við líka að ræða einkavæðingu og ásókn gróðraafla í auðlindir okkar og í velferðarkerfin. Hér verðum við í VG að sporna við fæti og segja hátt og skýrt að við höfnum frekari einkavæðingu í heilbrigðis- og velferðarkerfinu, höfnum einkavæðingu í menntun og höfnum því að grunninnviðir eins og orkumannvirki, fjarskiptabúnaður og vegakerfi séu í eigu annarra en opinberra aðila. Það er grundvallarregla, sem á að eiga sér fáar undantekningar.

Mikilvægt atriði í þessu samhengi er að koma auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

Kæru félagar.

Síðast en ekki síst langar mig að beina sjónum að umhverfis- og náttúruvernd. Í fyrsta lagi hef ég áhyggjur af þeim viðsnúningi sem orðið hefur í orðræðu um umhverfismál.

Þar sem Sama-sem-merki er dregið á milli loftslagsmála og grænnar orku. Að umhverfismál snúist bara um græna orku, og meiri græna orku, er svo mikil einföldun að mér verður illt í umhverfishjartanu í mér.

En tilfinningin mín er að þessi orðræða hafi því miður hlotið hljómgrunn.

Náttúruverndarsamtök hafa haldið uppi andstæðri orðræðu og skilja að umhverfismál eru meira en bara græn orka. Og, það sama gildir auðvitað um okkur í VG. Við verðum hins vegar að mínu mati að vera duglegri og háværari að ræða um umhverfis- og orkumál, loftslagsmál og náttúruvernd út frá okkar góðu stefnu.

Einmitt til að mæta einföldun og tala gegn smættun heils málaflokks niður í tvö smart orð: Græna orku.

Kæru félagar, ég veit að mörg ykkar standið ykkur vel í tala okkar máli hér, en ég þarf a.m.k. að gera betur. 

Og, að náttúruverndinni sérstaklega. Á þessu kjörtímabili, undir stjórn Svandísar Svavarsdóttur í matvælaráðuneytinu undirgengumst við alþjóðlegar skuldbindingar um að friðlýst svæði þeki 30% á landi og í hafi árið 2030. Þetta er það langstærsta og mikilvægasta sem gerst hefur í náttúruvernd á þessu kjörtímabili, að mínu mati.

Það er mjög mikilvægt að við vinnum hratt og vel að þessu markmiði. Í tíð Svandísar og í minni tíð í umhverfisráðuneytinu voru friðlýsingar í forgangi, og þær verður bara að setja aftur í forgang til að ná þessum mikilvægu markmiðum.

Það þarf að forgangsraða að klára Hálendisþjóðgarð sem er og verður stærsta verkefnið okkar þegar kemur að friðun svæða, enda geymir hálendið ekki bara lítt snortin víðerni, mögnuð og margvísleg fjöll og umfangsmikla sanda með yndislegum gróðurvinjum, heldur geymir það líka kyrrð og veitir hugarró.

Það er þetta með unaðsstundirnar vs megawöttin, svo vitnað sé til Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings.

En við þurfum líka nýja hugsun og ferska vinda inn í náttúruvernd, svona eins og þegar náttúruverndarhreyfingin breytti orðræðunni úr því að vera á móti virkjunum á hálendinu yfir í að stofna þjóðgarð á hálendinu. Við þurfum að horfa á náttúruna sem friðhelga og að nýting sé undanþága frá þeirri meginreglu. Með því snúum hugsanahættinum við. Þetta kann að hljóma háfleygt og flókið, en það er til fyrirmynd í villidýralögunum hvað þetta varðar.  

Að lokum loftslagsmál. Við í VG höfum alltaf haft loftslagsmálin í forgrunni og verðum að setja baráttuna gegn loftslagsbreytingum í fyrsta sæti. Hvers vegna? Jú, vegna þess að loftslagið er grunnurinn og umgjörðin utan um allt líf og auðlindir á jörðunni sem við byggjum tilvist okkar á og fáum þaðan fæði og klæði.  

Og þess vegna er baráttan gegn loftslagvánni ekki bara stærsta umhverfismálið heldur líka stærsta velferðarmál 21. aldarinnar.   

Kæru félagar.

Það eru fjöldamörg önnur mál sem verðskulda umfjöllun og við þurfum að móta skýrar áherslur um. Þar má nefna menntamál, mannréttindamál, menningu og listir, vinnumarkaðsmál, stöðu fjölmiðla og lýðræðislegrar umræðu, skautun, byggðamál og samgöngur, fiskeldi og sjávarútveg og landbúnað. Og á þessu höfum við skoðanir og þurfum að draga fram áherslur í fastanefndunum.

En ég má til með að víkja að lokum að stöðu mála á stríðshrjáðum svæðum. Ástandið er víða svo skelfilegt að maður á erfitt með að horfa á fréttir og lesa um þær hörmungar sem fólk er að ganga í gegnum. Fáar fréttir berast frá Súdan, en allar lýsa þær ógnarástandi. Þrátt fyrir niðurstöðu Alþjóðadómstólsins í Haag heldur Ísrael áfram því sem ekki er hægt að kalla neitt annað en þjóðarmorð á Gaza. Hvar endar þetta? 

Það er alveg ljóst að Bandaríkin verða að beita sér af meiri krafti í að koma á friði og koma verður í veg fyrir að átökin breiðist út til annarra landa. Ég er ánægður að sjá kröftuga ályktun fyrir fundinum hér í dag um þetta málefni.

En kæru félagar.

Nú tekur við vinna okkar hér í dag við að skerpa áherslur í fjölmörgum málaflokkum.

Tímabilið fram að næstu kosningum getur orðið mjög skemmtilegt, gefandi en við vitum a.m.k. að það verður mjög krefjandi. Allt er það undir okkur sjálfum komið hvernig þetta verður, vinnu okkar að málefnum, samstöðu og vinskap. Ég geng bjartsýnn til verks hér í dag með ykkur, og ég hvet ykkur öll til hins sama.

Á landsfundinum munum við kjósa okkur nýja forystu. Ég hef ekki tekið ákvörðun um framboð, en hver sem ákvörðun mín verður, þá er alveg ljóst að ég mun vinna áfram að baráttumálum okkar og fyrir hreyfinguna okkar af fullum krafti. Framlag okkar allra skiptir máli sama hvar við stöndum í stafni.

Að lokum ætla ég bara að segja: Við ætlum ekki að gefast upp. Við ætlum ekki að leyfa frjálshyggjunni að sigra.

Guðmundur Ingi, formaður VG

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search