Kæru félagar!
Innilega velkomin til flokksráðsfundar okkar Vinstri Grænna og í Mýra- og Borgarfjarðarhérað.
Ég vil byrja á að þakka þeim sem tóku þátt í göngu okkar Bjarka Grönfeldt í gær undir leiðsögn Bjarka Þorsteinssonar.
Það er kannski skrítið í ræðu sem þessari að nefna ekki það sem er að gerast í heiminum í kringum okkur, ræða ekki verðbólgu og vexti, húsnæðismál og matarkörfu. Eða yfirlýsingar fjármálaráðherra um niðurskurð í fjárveitingum. En við Svandís skiptum aðeins með okkur verkum og hún mun fara vítt yfir hið pólitíska svið, meðan ég ætla að staldra lengur við nokkur mál.
Á morgun, 1. september, taka gildi breytingar á lögum um almannatryggingar. Þetta eru stærstu breytingar í örorkulífeyriskerfinu í áratugi, og við unnum að allt síðasta kjörtímabil, komum inn í þingið og kláruðum með stuðningi allra flokka, nema Flokks fólksins.
Breytingarnar er gríðarlegt framfaraskref sem gerir kerfið einfaldara, sanngjarnara og betra fyrir þau sem þurfa á því að halda. Nýja kerfið minnkar tekjutengingar og hvetur til aukinnar atvinnuþátttöku. Það stoppar upp í göt í framfærslu í endurhæfingu og samhæfir hana á milli kerfa. Og með breytingum hækkum við greiðslur til örorkulífeyrisþega um 18 milljarða árlega.
Þetta er sigur fyrir þau sem hafa barist fyrir réttindum fatlaðs fólks í áratugi og stærsta skref í langan tíma til að draga úr fátækt í íslensku samfélagi.
En þetta gat Flokkur fólksins ekki stutt.
En það er ekki nóg að hafa náð þessum áfanga – það þarf að tryggja að framkvæmd breytinganna verði farsæl. Þar skiptir einna mestu máli að tryggja tækifæri til aukinnar atvinnuþátttöku, verkefni sem við hófum. Því miður uppfylla ekki ný reglugerðardrög um vinnumarkaðsaðgerðir væntingar mínar eða hagsmunasamtaka fatlaðs fólks, heldur eru að hluta til afturför. Og ég spyr:
Hvers vegna ætlar nýr félagsmálaráðherra, Inga Sæland, að draga sérstaklega úr tækifærum eins hóps fatlaðs fólks, fólks með þroskahömlun, til að nýta sér hvatakerfi til atvinnuþátttöku í nýju kerfi? Ráðherrann sem hefur gefið sig út fyrir að vera bjargvætt öryrkja og eldra fólks.
Þetta er ekkert annað en óskiljanlegt.
Ég vil einnig krefjast þess að ríkisstjórnin lögfesti samning Sþ um réttindi fatlaðs fólks – ekki seinna en strax! Við lögfestum Mannréttindastofnun Íslands á okkar vakt og við unnum frumvarp um lögfestingu samningsins í félagsmálaráðuneytinu í minni tíð. Nýr félagsmálaráðherra virðist ekki koma frumvarpinu í gegnum þingið. Við þetta verður ekki unað.
Við hófum líka þá vegferð að hækka grunngreiðslur til örorkulífeyrisþega, og þær munu hækka umtalsvert á morgun vegna kerfisbreytinganna. Það er krafa okkar vinstri manna að ríkisstjórnin haldi þessu verkefni okkar áfram þannig að grunngreiðslur standist að lokum lágmarkslaun.
Og, ég vil sjá ríkisstjórnina taka forystu á alþjóðavettvangi í málefnum fatlaðs fólks. Það smellpassar inn í megináherslur Íslands á jafnrétti kynjanna, hinsegin málefni, málefni barna og virðingu fyrir réttarríkinu
og alþjóðalögum. Þetta yrði mikil lyftistöng fyrir Ísland og þau ríki sem við vinnum með, ekki síst í þróunarsamvinnu og á sviði mannréttinda.
Kæru félagar. Viðvörununarbjöllur hringja í fleiri málaflokkum úr félagsmálaráðuneytinu. Þið munið kannski öll að Inga Sæland var á móti þungunarrofslöggjöfinni og nú hefur hún sem ráðherra vinnumarkaðsmála líst því yfir að núverandi fyrirkomulag í fæðingarorlofi þar sem VG í ríkisstjórn tryggði jafna skiptingu orlofs milli foreldra sé forræðishyggja og ójafnræði – og auðvitað eigi fólk sjálft að ráða skiptingunni.
Það er ótrúlegt að heyra ráðherrann tala svona gegn kynjajafnrétti og gegn faglegum gögnum. Ég spyr: Hvað segir forsætisráðherra Samfylkingarinnar um þetta? Er hún sammála félagsmálaráðherranum? Er þetta það sem Samfylkingin vill fyrir framtíðina?
Kæru félagar!
Þá kem ég að öðru óveðurskýi sem er ekki síður alvarlegt: Það heitir Umhverfisráðherra. Við í VG höfum í gegnum tíðina verið leiðandi í umhverfis- og náttúruvernd og það er sárt að sjá núna hrannast upp óveðursskýin, og það á vakt Samfylkingarinnar, sem ég hélt að væri skárri en margur annar í umhverfismálunum.
En ráðherrann og ríkisstjórnin reka gallharða virkjanastefnu, útiloka ekki olíuleit og olíuvinnslu, vilja ekki banna sjókvíaeldi í opnum kvíum, og sýna algert metnaðarleysi þegar kemur að friðlýsingum. Og, ráðherrann skilar hundruðum milljóna í ríkiskassann sem hægt hefði verið að nota t.d. til að takast á við loftslagsvána.
Þessi ríkisstjórn er alveg tilbúin að ganga á náttúru Íslands í nafni fjárhagslegra hagsmuna og þjóna virkjanaaðilum í hvívetna. Þetta er óásættanlegt!
Á sínum tíma lét ráðherra okkar, Svandís, framkvæma úttekt á stöðu fiskeldis og skrifa frumvarpsdrög þar sem m.a. var lagt til að vernda Eyjafjörð og Öxarfjörð gegn fiskeldi. Inni í þinginu lögðum við í VG til við meirihlutann að sett yrði sólarlagsákvæði sem bannaði laxeldi í opnum kvíum. Umhverfisráðherra nú hafnar slíku ákvæði. Fulltrúi Samfylkingarinnar í opnum umræðum fyrir kosningar, Þórunn Sveinbjarnardóttir, var á móti eldi í opnum kvíum. Þetta eru heilindi Samfylkingarinnar og tvískinnungur.
Slysasleppingar verða alltaf úr opnum kvíum og munu skaða náttúrulega laxastofna og jafnvel útrýma þeim. Krafan er að núverandi ríkisstjórn ljúki því verki sem við hófum og fasi út laxeldi í opnum kvíum við Íslandsstrendur.
Ég hef alltaf viljað gefa fólki tækifæri til að sanna sig, en umhverfisráðherra Samfylkingarinnar veldur mér sífellt meiri vonbrigðum. Ég varð enn daprari þegar hann nýlega útilokaði ekki olíuleit og vinnslu, þrátt fyrir að stefna Samfylkingarinnar sé í samræmi við stefnu VG um að banna olíuvinnslu.
Frekari olíuvinnsla fer í bága við loftslagsmarkmið, skaðar lífríkið og ógnar mannkyninu. Ísland gæti verið leiðandi í loftslagsmálum og það gæti einmitt verið eitt stærsta framlag okkar til loftslagsmála að halda olíunni í jörðinni þar sem hún á heima!
Árið 2022 stóðum við frammi fyrir erfiðum ákvörðunum við afgreiðslu rammaáætlunar í þinginu. Guðlaugur Þór, þá umhverfisráðherra, lagði málið fram óbreytt frá fyrri tillögum, en það var ekki samstaða um að klára málið þannig í þinginu. Ríkisstjórnarflokkarnir ákváðu að fresta því sem þurfti til að tryggja að rammaáætlunin lifði, þ.e.a.s. að stækka biðflokk. VG tryggði líka að ekki var bara fækkað virkjanahugmyndum í
verndarflokki eins og samstarfsflokkarnir vildu, heldur líka í nýtingarflokki – og sett í biðflokk. Það var einhver balance. Og, gleymum því ekki að Skjálfandafljót var sett í verndarflokki, sem var stór sigur.
Eftir skoðun raðaði verkefnisstjórn virkjanahugmyndum á sama hátt, þar sem tiltekin svæði, eins og Jökulsárnar í Skagafirði og Kjalölduveita, voru áfram í verndarflokki og aðrar í nýtingu. En nú leggur núverandi umhverfisráðherra til að allar hugmyndir í verndarflokki verði fluttar í biðflokk, verndarflokkurinn verði bara tæmdur, en hann hreyfir ekki við nýtingarflokki. Þetta myndi gera hann að fyrsta ráðherranum sem leggur fram rammaáætlun án virkjanahugmynda í verndarflokki. Þá hefur hann einnig flutt vindorkuverkefni í Garpsdal úr biðflokki í nýtingu, án nýrrar stefnu fyrir vindorku.
Við VG mótmælum harðlega þessari aðför að rammaáætlun og náttúru Íslands. Ráðherrann er einungis að vinna fyrir virkjanaaðila, ekki fyrir almenning og ekki að almannahagsmunum.
Ráðherra leggur til að aðeins sex af 89 svæðum verði friðlýst á næstu fimm árum, sem er met í metnaðarleysi hvort sem miðað er við tillögur Náttúrufræðistofnunar sem voru 89 talsins, eða í samanburði við þær samtals u.þ.b. 60 friðlýsingar okkar Svandísar og Kolbrúnar á átta árum í umhverfisráðuneytinu.
Ég hlýt að spyrja: Hvað með Hálendisþjóðgarð, Dynjandisþjóðgarð og friðlýsingu víðerna? Hvað með að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar okkar um að vernda 30% af landi og hafi fyrir árið 2030?
Nei, hægrisveiflan og iðnaðaröflin í Samfylkingunni hafa sannarlega orðið ofan á.
Kæru félagar.
Baráttan heldur áfram. Það er það sem við gerum: Við berjumst.
Baráttan fyrir betri kjörum þeirra sem minnst hafa, baráttan fyrir jafnrétti kynjanna, baráttan fyrir mannréttindum, friði og náttúruvernd heldur áfram.
Já, kæru félagar við höldum áfram, sama hversu flókin staða okkar er utan þings og án fjármögnunar. Því ef við gefum eftir, þá gefa líka eftir þau gildi sem við stöndum fyrir.
En við þurfum súrefni. Við þurfum nýjabrum. Og við þurfum hvatningu. Ég tel að við eigum að leita samstarfs við sérfræðinga og félagasamtök til að finna nýjar leiðir til að ná árangri í þeim málaflokkum sem við höldum á lofti. Við eigum líka að vinna meira með systursamtökum okkar á Norðurlöndunum, eins og við sameiginlegu ályktunina um stöðuna á Gaza sem birt var í vikunni. Sú ályktun var að okkar frumkvæði og kveikjan kom úr grasrótinni, frá henni Ölmu Mjöll. Í svona samstarfi felst hvatning.
Við mældumst síðast með 4,2% fylgi. Ekki bara myndi það tryggja okkur þingsæti í Noregi, heldur er það stökk upp á við og þýðir að við þurfum ekki nema 1-2% til að vera aftur orðin „með í leiknum“. Með þrautsegju og þolinmæði að vopni þá mun okkur takast þetta.
Og, með því að víkka sjóndeildarhringinn og leita til annarra, laða að nýtt fólk og efla kynslóðaskipti, getum við tryggt að það sem við stöndum fyrir fá byr í seglin. Að við endurheimtum fyrri styrk með því að byggja nýtt VG á gömlum grunni – eða nýtt eitthvað annað. En, að við gerum það saman og með fleiri hendur og ferska vinda.
Ég þakka ykkur öllum fyrir þátttökuna í undirbúningi fundarins og fyrir stuðninginn. Við erum sterkari saman – það er krafturinn sem við byggjum á, í anda félagslegs réttlætis, friðar, kvenfrelsis og umhverfisverndar.
Ég segi fundinn settan.