EN
PO
Search
Close this search box.

Ræða Guðmundar Inga á flokksráðsfundi

Deildu 

Kæru félagar!

Frá því á síðasta flokksráðsfundi hefur mikið vatn til sjávar runnið. Alþjóðlega sjáum við aukna spennu í samskiptum ríkja, fleiri stríð, átök og innrásir. Hægri öfgaöflum hefur vaxið ásmegin og skautun aukist. Vinstristefna, umhverfisvernd, friðarhyggja og kvenfrelsi eiga því erindi sem aldrei fyrr í stjórnmálum samtímans.

Kæru félagar!

Við höfum nú setið samfleytt í rúm sex ár í ríkisstjórn. Sex ár er talsvert langur tími og margt hefur áunnist. VG blaðið sem sent var heim til allra félagsmanna er góð samantekt á árangrinum, þó það sé hvergi nær tæmandi listi. Nú þegar kjörtímabilið er rúmlega hálfnað er byrjaður að detta í hús árangur verkefna sem lagt var upp í við upphaf kjörtímabilsins. Við erum við upphaf uppskerutímans.

Hér vil ég fyrst nefna frumvarp Svandísar Svavarsdóttur um lagareldi sem ætlað er að skapa skilyrði til verðmætasköpunar innan ramma sjálfbærrar nýtingar og með vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Hér er í fyrsta skipti reynt að koma vitrænum böndum á sjókvíaeldi, gera meiri kröfur varðandi umhverfismál, laxalús, slysasleppingar svo eitthvað sé nefnt. Aukið eftirlit verður innleitt og langtímasýn sett í lög. Þá er það sérstakt fagnaðarefni að stefnt er að því að lögfesta núgildandi friðunarsvæði og að auki að friða Eyjafjörð og Öxarfjörð fyrir laxeldi, baráttumál okkar í VG til margra ára. Einnig hefur áhersla verið aukin á rannsóknir á villtum laxi á verkefnasviði Hafró.

Katrín er með þýðingarmikil mál inni í þinginu, þ.m.t. frumvarp um stofnun Mannréttindastofnunar, um rekstraröryggi greiðslumiðlunar, frumvarp um almennar sanngirnisbætur og frumvarp um rýni á fjárfestingum erlendra aðila.

Allt eru þetta mál sem ég tel mikilvægt að við náum að klára og nefni sérstaklega að óháð Mannréttindastofnun er forsenda lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem við stefnum á að lögfesta á þessu kjörtímabili.

Þá hefur mikil vinna hjá Katrínu á síðustu sex árum farið í að undirbúa frumvörp um breytingar á stjórnarskránni, og þar skiptir í mínum huga höfuðmáli að inn í stjórnarskrá komi ný ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd og auðlindir í þjóðareign. Vonandi verður þetta að veruleika.

Kæru félagar!

Það eru líka erfið mál sem takast þarf á við. Eitt þeirra er útlendingamál, málefni sem hefur litað alla stjórnmálaumræðu á undanförnum misserum. Mér hefur fundist VG fara halloka í þeirri umræðu undanfarin misseri og við ekki komist nægjanlega vel að í umræðunni með áherslur okkar, þar sem okkur hefur ítrekað verið stillt upp við vegg með að samþykkja eða hafna einstökum lagafrumvörpum frá dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Þá óttast ég aukna skautun í þessum málum, þar sem upp eru að dragast öfga hægri skoðanir á móti skoðunum um opin landamæri. Þetta er ekki góð þróun og hjálpar ekki útlendingum og innflytjendum á Íslandi, fólkinu sem á stóran þátt í að halda uppi verðmætasköpun og hagvexti í landinu.

Við Katrín höfum lagt ríka áherslu á að ríkisstjórnin nálgist útlendingamálin heildrænt, ekki bara út frá verndarkerfinu. Katrín kom því til leiðar að stofnuð var sérstök ráðherranefnd um útlendinga og innflytjendamál og komið var á fót samhæfingarstöð og starfi samhæfingarstjóra í forsætisráðuneytinu. Þetta hefur leitt af sér meiri samvinnu ráðuneyta, aukna gagnaöflun og faglegri nálgun á þennan viðkvæma málaflokk.

Allt þetta leiddi líka af sér að nú á dögunum sammæltist ríkisstjórnin um rúmlega 20 aðgerðir þar sem við lítum heildrænt á málefni útlendinga og innflytjenda. Ég tel að þetta muni gera umræðunni í samfélaginu og í pólitíkinni gott.

Í þessu samhengi höfum við í VG lagt ríka áherslu á að vinna verði gegn stéttskiptingu og ójöfnuði í samfélaginu þar sem innflytjendur verða undir og hafa færri og lakari tækifæri í samfélaginu en innfæddir. Slík þróun er ekki bara óréttlát og gagnstæð félagshyggju, heldur beinlínis hættuleg samfélaginu og getur leitt til átaka milli ólíkra hópa í nútíð og framtíð.

Þess vegna þarf að leggja mun meiri áhersla á aðlögun að samfélaginu, aðstoð við nemendur af innflytjendauppruna í skólum, íslensku- og samfélagskennsla fyrir fullorðina, svo eitthvað sé nefnt. Í þessu samhengi er vert að rifja upp að nærri því 1/5 landsmanna eru nú innflytjendur og 80% þeirra koma af EES svæðinu en 10% í gegnum verndarkerfið. Í stefnumótun í málefnum innflytjenda sem nú stendur yfir í ráðuneytinu hjá mér er lögð áhersla á þessa þætti en innflytjendur um allt land hafa komið að þeirri vinnu á opnum fundum.

Í mínum huga verður VG að búa sér til pláss í umræðunni um útlendinga- og innflytjendamál, taka frumkvæði og tala út frá okkar áherslum og okkar sýn. Ég vil meina að okkur hafi tekist að gera þetta á undanförnum tveimur vikum.

Kæru félagar!

Stærsta áhersla mín sem félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur verið sú að skapa samfélag þar sem er pláss fyrir okkur öll. Mannréttindi fatlaðs fólks, bætt kjör og aukin tækifæri til mennta og atvinnu hafa verið helstu baráttumál mín í málaflokki fatlaðs fólks.

Á undanförnum misserum hefur okkur tekist að landa stórum málum í þessum mikilvæga málaflokki. Við náðum áfanga í kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk nú í desember, ég mælti fyrir þingsályktunartillögu um landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks á Alþingi í janúar, sem er fyrsta heilstæða stefnan í málaflokki fatlaðs fólks, og fram er komið frumvarp í samráðsgátt stjórnvalda um endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu.

Landsáætluninni er ætlað að koma Samningi sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks til framkvæmdar. Landsáætlunin er afrakstur gríðarlega umfangsmikillar samvinnu ráðuneyta, sveitarfélaga, hagsmunasamtaka og einstaklinga, sem stýrt hefur verið af Guðrúnu Ágústu Guðmundsdóttur. Verklagið hefur verið þannig að fulltrúar samtaka fatlaðs fólks hafa stýrt ellefu vinnuhópum, hvaðan afrakstur þeirra 58 aðgerða í sex aðgerðaflokkum kemur. Einn aðgerðaflokkanna er afrakstur sérstaks starfshóps um aukin náms- og starfstækifæri fatlaðs fólks. Nú er unnið að endurskoðun atvinnumála fatlaðs fólks á Vinnumálastofnun í samráði við ráðuneytið, í takti við tillögur í Landsáætlun og styður sú vinna við endurskoðun örorkulífeyriskerfisins.

Á því sem nú er orðið árlegt samráðsþing í málefnum fatlaðs fólks, og fram fór öðru sinni í gær, var áhersla á vitundarvakningu. Skilaboðin þaðan eru þau að fatlað fólk sé ekki einsleitur hópur og réttindi þess séu ekki sérréttindi.

Til marks um að við erum á réttri leið, að þá er í alþjóðlegu samstarfi farið að líta til þeirrar aðferðafræði sem beitt hefur verið við gerð Landsáætlunar, með fatlað fólk eða fulltrúa samtaka þeirra í forgrunni vinnunnar, og Ísland þar með að koma sér á kortið þegar kemur að innleiðingu SRFF.

Ég bind miklar vonir við að við afgreiðum Landsáætlunina á Alþingi fyrir páska.

En, kæru félagar!

Stærsta verkefnið sem ég hef unnið að á þessu kjörtímabili er endurskoðun örorkulífeyriskerfisins.

Fyrir tveimur vikum birti ég drög að frumvarpi vegna endurskoðunar kerfisins í samráðsgátt stjórnvalda. Í stuttu máli felast breytingarnar í því að við erum að hverfa frá ógagnsæju, óréttlátu og flóknu kerfi yfir í einfaldara, sanngjarnara og framsæknara kerfi.

Breytingarnar, verði þær að lögum, munu marka tímamót. Þær fela í sér nýja hugsun, breiðari nálgun, og mestu umbyltingu á örorkulífeyriskerfinu frá upphafi. Við þessa umbyltingu tökum við betur utan um fólk en áður.

Við munum í fyrsta lagi bæta kjör örorkulífeyrisþega, sérstaklega þeirra sem einungis fá greiðslur frá ríkinu (eða Tryggingastofnun) og kjör þeirra sem eru með lágar aðrar tekjur umfram þær sem koma frá TR. Þetta er vinstri áhersla. Þetta er áhersla sem skiptir fólkið máli.

Í öðru lagi höfum við hannað kerfi sem eykur áherslu á endurhæfingu fólks þar sem það á við, kerfi með nýju heildrænu sérfræðimati í stað örorkumats, sem tekur inn sálræna og félagslega þætti auk líkamlegra, og í þriðja lagi kynnum við til sögunnar hlutaörorkulífeyri, sem tryggir fötluðu fólki sem getur unnið hlutastörf stuðning ríkisins meðfram hlutastarfinu og setjum inn ríkulega fjárhagslega hvata til atvinnuþátttöku.

Fái fólk ekki hlutastarf er fólki tryggt endurmat sem tekur tillit til stöðu viðkomandi á vinnumarkaði. Þannig höfum við hannað kerfi sem aðstoðar og hvetur einstaklinga sem geta unnið hlutastarf til að fara út á vinnumarkað, en grípum þau aftur ef það gengur ekki. Þannig höfum við svarað helsta áhyggjuefni hagsmunasamtaka fatlaðs fólks og okkar í VG.

Kæru félagar!

Ég vil leggja ríka áherslu á að með nýju örorkulífeyriskerfi munum við taka stærsta skref í langan tíma sem tekið hefur verið í að draga úr fátækt í hópi örorkulífeyrisþega, en samkvæmt skýrslu forsætisráðherra frá í fyrra eru öryrkjar einn þeirra hópa sem líklegastir eru til að dansa í kringum lágtekjumörk og festast þar.

Hér er því um að ræða gríðarlega stórt velferðarmál, stórt jafnréttismál því konur eru fleiri í hópi öryrkja, stórt mannréttindamál því tryggari framfærsla, aukin þátttaka í samfélaginu og tækifæri til að vinna skiptir miklu máli í því samhengi.

Í hnotskurn eru breytingar mikilvægar til að auka jöfnuð og búa til réttlátara samfélag þar sem við erum öll með, erum öll þátttakendur í samfélaginu.

Ég vil að lokum nefna að ég hef átt mjög gott samstarf og samvinnu síðastliðin tvö ár með hagsmunasamtökum fatlaðs fólks, og þegar maður les umsagnir á samráðsgáttinni, þegar maður finnur stuðning hagsmunasamtakanna, hinna stjórnarflokkanna, og fagaðila, og tekur inn trú fólks á nýtt kerfi, þá eigir maður von til þess að þetta verkefni, þessar nauðsynlegu breytingar, geti loksins raunverulega orðið að veruleika. Við skuldum örorkulífeyrisþegum og fötluðu fólki að klára þetta.

Kæru félagar!

Í önnum dagsins er auðvelt að gleyma sér í hringiðunni og því sem er efst á baugi í fjölmiðlum hverju sinni. Það má samt ekki koma niður á málefnastarfi, sem við erum mjög góð í, og umræðu um hugmyndafræði innan hreyfingar okkar. Vinstri-græn hugmyndafræði gengur út að samþætta réttlátt samfélag, sjálfbært umhverfi, frið á alþjóðavísu og kvenréttindi. Næstu misserin í aðdraganda kosninga á næsta ári eigum við að nýta vel og kveikja neistann, ræða framsæknar hugmyndir og finna róttæknina.

Málefni sem ég t.d. hef ekki tíma til að fara yfir hér í dag eru menntamál, en við þingmenn hreyfingarinnar vörðum kjördæmaviku í að heimsækja framhaldsskóla landsins. Annað mál, sem er mér ekki síður kært, eru umhverfis- og náttúruverndarmál. Í báðum þessum málaflokkum finnst mér við eiga mikið erindi og getum mótað okkur sérstöðu.

VG á áfram að vera farvegur breytinga í samfélaginu, deigla þeirra sem vinna að réttlátara samfélagi. Leyfum okkur að hugsa stórt því allur heimurinn er undir. Breikkum sjóndeildarhringinn og tölum meira saman um málefni samfélagsins, bjóðum félagasamtökum, hagsmunasamtökum og baráttufólki til samtals við okkur á vettvangi hreyfingarinnar. Það leiðir líka af sér skemmtilegra og áhugaverðara félagsstarf.

Sex ár í ríkisstjórn eru fljót að líða en baráttan fyrir jöfnuði, réttlátari heimi og náttúruvernd er eilífðarverkefni okkar vinstri grænna, óháð því hvaða ríkisstjórn situr á hverjum tíma. Hið innlenda og alþjóðlega stórkapítal sér róttækum vinstri og róttækum græningjaflokki fyrir sífelldum verkefnum og við veigrum okkur aldrei við því að taka slaginn.

Kæru félagar.

Um leið og ég set flokksráðsfund þá býð ég nýjan framkvæmdastjóra, Ragnar Auðun Árnason, innilega velkominn til starfa og þakka skrifstofunni fyrir undirbúning og skipulag fundarins.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search