Virðulegur forseti. Við ræðum fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025 og þær áherslur sem þar er að finna í heilbrigðismálum. Samstaða um uppbyggingu innviða samfélagsins er eitt af aðalmarkmiðum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Þar eru heilbrigðismálin einn af allra stærstu málaflokkunum og með því að auka framlög til heilbrigðismála jafnt og þétt allt kjörtímabilið hefur okkur tekist að efla heilbrigðisþjónustuna, byggja upp og gera róttækar breytingar til góðs.
Í heilbrigðismálum er mörgum stórum verkefnum sem stefnt var að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þegar lokið. Við höfum skrifað og samþykkt heilbrigðisstefnu fyrir Ísland, byggingaframkvæmdir við Landspítala eru í fullum gangi og heilsugæslan og geðheilbrigðisþjónusta hafa verið efld, svo eitthvað sé nefnt.
Ég er stolt af þessum árangri og er viss um að hann hefði ekki náðst nema einmitt af því að Vinstrihreyfingin – grænt framboð, situr í ríkisstjórn.
Á tímum heimsfaraldurs Covid-19 hefur orðið enn ljósara hversu mikilvægt það er að við eigum öflugt opinbert heilbrigðiskerfi. Það er mikilvæg forsenda fyrir góðri lýðheilsu og jöfnuði að allir hafi aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu og efnahag. Þess vegna er mikilvægt að við höldum áfram að sækja fram í heilbrigðismálum og efla opinbera heilbrigðiskerfið, þrátt fyrir erfitt efnahagsástand í landinu – og það ætlum við að gera.
Við ræðum nú fjármálaáætlun til ársins 2025. Á næsta ári verða framlög til heilbrigðismála aukin um ríflega 15 ma. kr. að raungildi samkvæmt fjárlögum, það er að frátöldum launa- og verðlagsbótum, sem jafngildir tæplega 6% raunaukningu frá fjárlögum þessa árs. Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verða útgjöld til heilbrigðismála um 9,2% árið 2021, sem er hækkun frá fyrra ári þar sem hlutfallið var 9,0% og veruleg hækkun frá árinu 2019 þegar sambærileg tala var 8,0%.
Á tímabili fjármálaáætlunar aukast fjárframlög til heilbrigðismála samtals um 16,1 prósent, eða 41,1 milljarð. Að frátöldum launa- og verðlagsbreytingum upp á 12,7 ma.kr. er raunhækkunin 28,4 ma.kr. eða 11,1%.
Mikil áhersla er í fjárlögum næsta árs á framkvæmdir sem efla innviði heilbrigðiskerfisins, s.s. uppbyggingu og endurbætur á húsnæði heilbrigðisstofnana og stærsta einstaka framkvæmdin er uppbygging Landspítala við Hringbraut. Á fjárlögum næsta árs renna tæpir 12. ma. kr. til uppbyggingar Landspítala en á tímabili fjármálaáætlunar renna 60,4 ma.kr til þeirra framkvæmda. Á fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir að rúmum 200 milljónum króna verði varið til að undirbúa byggingu nýrrar legudeildar við Sjúkrahúsið á Akureyri en gert er ráð fyrir 6,0 milljörðum króna til verkefnisins í fjármálaáætlun til ársins 2025. Um 300 milljónum króna verður varið til undirbúnings viðbyggingar við endurhæfingardeild Landspítala við Grensás. Áætlaður heildarkostnaður vegna viðbyggingarinnar eru um 1,6 milljarðar króna sem áformað er að fjármagna að fullu á næstu þremur árum.
Um 600 milljónir renna til framkvæmda við sjúkrahúsið á Selfossi á næsta ári til viðbótar við 200 m.kr. í fjáraukalögum þessa árs. Heildarkostnaður vegna viðhalds og áformaðra endurbóta, m.a. byggingu viðbótarhæðar við sjúkrahúsið er um 3,3 milljarðar króna sem áformað er að fjármagna að fullu á næstu fjórum árum.
Um 200 milljónum króna verður varið til byggingar nýrrar heilsugæslustöðvar á Suðurnesjum. Áætlaður heildarkostnaður er 700 milljónir króna og gert ráð fyrir að framkvæmdum ljúki árið 2023. Fyrir liggur ákvörðun um að byggja tvær nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri. Á næsta ári eru 50 milljónir ætlaðar til verkefnisins til viðbótar við 100 m.kr. framlag á fjáraukalögum þessa árs vegna hönnunarkostnaðar, og á tímabili fjármálaáætlunar er gert ráð fyrir 1,8 ma.kr. í þetta verkefni.
Áfram verður unnið að því að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónustu og verða fjárframlög til þess aukin um 800 milljónir króna á næsta ári og um 800 milljónir á hverju ári á tímabili fjármálaáætlunar, samtals hækkun um 4.000 milljónir á tímabili fjármálaáætlunar. Framlög til heilsugæslu verða aukin um 200 milljónir króna til að fjölga fagstéttum og efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklinga í heilbrigðiskerfinu,.
Framlög til að efla geðheilbrigðisþjónustu í samræmi við geðheilbrigðisáætlun verða aukin um 100 milljónir króna á fjárlögum næsta árs og á hverju ári á tímabili fjármálaáætlunarinnar. Hækkunin nemur því 500 m.kr. á tímabilinu.Tímabundið framlag, samtals 540 milljónir króna, er veitt til að efla geðheilbrigðisþjónustu í öllum heilbrigðisumdæmum landsins á tímum COVID-19.