Search
Close this search box.

Ræða Guðmundar Inga Guðbrandssonar, varaformanns VG á flokksráðsfundi á Flúðum.

Deildu 

Kæru félagar!

Það er gaman að vera komin saman aftur eftir sumarið. Gott að sjá ykkur.

Það hefur verið frekar vindasamt í pólitíkinni í vor og sumar og enn blæs hann. Við höfum setið samfleytt í ríkisstjórn í bráðum sex ár og haft forsætisráðherra úr okkar röðum allan þann tíma. Við höfum haft mikil áhrif, við höfum komið í gegn mikilvægum baráttumálum, við höfum gert mál að meginstefnumálum, við höfum stoppað mál, og við höfum stýrt landi og þjóð í gegnum erfiða tíma. Að því ógleymdu, að við erum í miðju kafi að komast út úr verðbólgukúfi og þrengingum í efnahagslífinu.

Ég gæti talið upp fjöldann allan af málum sem hefðu ekki gerst nema á okkar vakt, en það hef ég oft gert áður. Þess í stað langar mig að tala út frá því sem mér finnst við þurfa að klára á vakt okkar í því stjórnarsamstarfi sem við erum í núna.

Mig langar hér fyrst að nefna þá umfangsmiklu vinnu sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður okkar Vinstri grænna hefur leitt varðandi endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins. Í þessu felst ekki bara ákveðið uppgjör eftir efnahagshrunið, heldur líka löngu tímabærar breytingar á stjórnarskránni. Nægir þar að nefna nauðsynlega vernd náttúru og umhverfis sem byggist á varúðar- og langtímasjónarmiðum um sjálfbæra þróun, réttinn til heilnæms umhverfis og almannaréttinn. Hitt stóra málið er auðvitað þjóðareign á auðlindum, sjálfbær nýting þeirra og það principp að enginn geti fengið þau gæði og réttindi sem felast í auðlindunum okkar til eignar eða varanlegra afnota, og auðvitað að réttlátt auðlindarenta sé greidd fyrir nýtingu auðlinda í ábataskyni.

Í öðru lagi hefur Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra staðið fyrir umfangsmikilli og þverfaglegri vinnu að nýrri stefnu um sjávarútveg, sem kallast Auðlindin okkar. Í þeirri vinnu hefur umhverfið og vistkerfin verið sett í öndvegi, þ.e.a.s. hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar er grundvöllur stefnumörkunarinnar. Litið er til hámörkunar verðmæta innan þeirra marka sem vistkerfin setja okkur og tekist á við hvernig megi tryggja sanngjarna dreifingu þeirra verðmæta. Í þessu tilliti er gagnsæi lykilatriði, ekki síst um eigna- og stjórnunartengsl útgerða. Þá er í mínum huga mikilvægt að halda áfram á þeirri braut sem Svandís hefur varðað og leggja meiri áherslu á hafrannsóknir og auknar alþjóðlegar skuldbindingar, meðal annars um 30% verndarsvæða í hafi fyrir árið 2030, en þar er sannarlega verk að vinna. Þessari vinnu þurfum við að koma í höfn.

Í þriðja lagi þá verðum við að ljúka við heildarendurskoðun örorkulífeyriskerfisins. Það er á mínu borði og sú vinna gengur vel. Við höfum þegar komið þremur mikilvægum frumvörpum í gegnum Alþingi, meðal annars lengingu á greiðslum á endurhæfingarlífeyri og hækkun á frítekjumarki atvinnutekna örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Og, við höfum tryggt fjármögnun heildarendurskoðunarinnar í fjármálaáætlun sem samþykkt var í júní síðastliðnum á Alþingi.

Breytingarnar sem við vinnum að, og ég hyggst kynna fljótlega í samráðsgátt stjórnvalda, lúta að því að nýta fjármagnið sem fer í endurskoðunina til að hækka þau sem minnst hafa í kerfinu, að einfalda alltof flókið kerfi, að fjölga hvötum til virkni og atvinnuþátttöku, að styðja fólk betur í að komast út á vinnumarkaðinn, að öðlast aukna færni til vinnu, og að fjölga hlutastörfum og sveigjanlegum störfum til að styðja við breytta hugsun og framkvæmd.

Í fötluðu fólki býr ekki síðri mannauður og verðmæti fyrir samfélagið en í ófötluðu fólki. Fatlað fólk situr hins vegar ekki við sama borð og ófatlað. Og, það er auðvitað óþolandi. Fatlað fólk hefur færri tækifæri til náms, eða kemst hreinlega ekki að í námi, færri tækifæri til atvinnuþátttöku og aðgengi þess að samfélaginu í víðri merkingu þess orðs er mjög svo ábótavant og það þarf almennt að hafa mun meira fyrir lífinu en ófatlað fólk – stundum vegna fötlunar sinnar en þó mun oftar vegna samfélagslegra hindrana.

Þó svo að engum sé illa við fatlað fólk, þá eru ennþá alltof miklir fordómar í samfélaginu gagnvart fötluðu fólki og fyrirfram ákveðnar skoðanir á því sem fatlað fólk á að geta, á að vilja og á að gera, en kannski aðallega hvað það eigi ekki að gera eða hvað það geti ekki gert.

Aukinn skilningur og viðhorfsbreytingar gerast ekki á einni nóttu, en þau skref sem við erum að taka í málefnum fatlaðs fólks með nýrri mannréttindastofnun, lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Landsáætlun um framkvæmd samningsins hérlendis, eru svo sannarlega stór skref í rétta átt. Ábyrgðinni á þessari vinnu skiptum við Katrín með okkur.

Til hliðar við þetta er líka í gangi sérstakur starfshópur á mínum vegum í samstarfi við mennta- og barnamálaráðherra og háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um fjölgun mennta- og starfstækifæra fyrir fatlað fólk.

Ég vil líka sjá okkur koma þessari vinnu í höfn þó að stundum blási á móti í pólitíkinni.

Allt það sem ég hef farið yfir hér eru veigamiklar breytingar á kerfum sem munu skila réttlátara og jafnara samfélagi, eitthvað sem við, kæru félagar, höfum efst á málalista okkar.

En brýnasta málið akkúrat núna er samt að ná niður verðbólgunni og háu vaxtastigi. Það er besta kjarabót allra heimila, en sérstaklega þeirra sem minnst hafa á milli handanna. Enda höfum við haft að leiðarljósi að verja viðkvæma hópa í gegnum þennan skafl.

Við höfum tvívegis hækkað örorku- og ellilífeyrisgreiðslur um mitt ár, en það er venjulega bara gert einu sinni á ári, við áramót. Hækkanir til þessara hópa hafa varið kaupmátt þeirra og hafa haldið í við verðbólguna. Við höfum líka aukið stuðning í gegnum húsaleigubætur og barnabætur, og þannig mætt lágtekjufólki sem býr við meiri húsnæðiskostnað og er með börn á framfæri.  

Þenslan í þjóðarbúinu er að minnka og sama gildir um hagvöxt; hagkerfið sýnir merki þess að það sé að kólna líkt og stefnt hefur verið að með harðara taumhaldi í ríkisfjármálum. En á sama tíma er atvinnuleysi lágt og spenna á vinnumarkaði er enn talsverð. Þó eru vísbendingar um að hún hafi minnkað sem ætti að draga úr launahækkunum og þannig verðbólguþrýstingi. Það hefur hægt á einkaneyslu og ekki hafa komið fram vísbendingar um almennan vanda skuldsettra heimila þrátt fyrir miklar vaxtahækkanir, ekki enn sem komið er a.m.k. Þá hefur húsnæðisverð staðnað og jafnvel lækkað lítillega.

Þannig að í heildina séð hafa verðbólguhorfur skánað og kannski það mikilvægasta er að vísbendingar eru um að undirliggjandi verðbólga sé einnig farin að lækka sem skiptir miklu máli fyrir ákvarðanir um vaxtastig. Og, maður vonar að stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans í vikunni sé sú síðasta í bili.

Í fjármálaáætlun sem samþykkt var í vor eru stigin mikilvæg skref til að styðja við markmið um að ná verðbólgu og vaxtastigi niður. Þar koma bæði fram áform um aðhaldsaðgerðir og nýjar skatttekjur. Ég ætla sérstaklega að nefna tekjuhliðina hér, en umræðan undanfarið hefur meira beinst að aðhaldsaðgerðunum. Á tekjuhliðinni horfum við til breytts gjaldtökukerfis af ökutækjum, aukinnar gjaldtöku á ferðaþjónustu og fiskeldisfyrirtæki og tímabundins aukins tekjuskatts á lögaðila, auk endurskoðunar veiðigjalds sem skila mun talsverðum tekjum í ríkissjóð. Þetta er mjög svo í takt við stefnu VG.

Ég er líka þeirrar skoðunar að draga eigi frekar úr þeim skattalega stuðningi sem ferðaþjónustan nýtur í dag, enda er það sanngjarnt að hún borgi meira til samfélagsins, sem nýta má til uppbyggingar í heilbrigðisþjónustu og samgöngum sem ferðamenn nýta.

Vert er að taka fram líka að horfur er á að frumafkoma ríkissjóðs verði 100 milljörðum króna hagstæðari í ár en gert var ráð fyrir, eða 50 milljarða króna afgangur í stað 50 milljarða króna halla af reglulegum rekstri ríkisins.

Ég hef fulla trú á því að við náum niður verðbólgunni, en það er á sameiginlega ábyrgð ríkisvaldsins, Seðlabankans og aðila vinnumarkaðarins, en kjarasamningar eru jú lausir á næsta ári. Við verðum öll að vinna að því að ná niður verðbólgu og vaxtastigi. Það er allra hagur. Á sama tíma má ekki missa sjónar af markmiði um hækkun lægstu launa og leiðréttingu á launamun kynjanna.

Kæru félagar!

Ég ætla ekki að yfirgefa ræðustólinn fyrr en ég hef ávarpað útlendingamálin. Hvers vegna endar sumt fólk sem hefur fengið endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd á götunni? Það er ekki í takt við sýn Vinstri grænna á samfélagið. Var þetta vilji Alþingis? Var það vilji þingmanna stjórnarflokkanna? Var það vilji þingmanna VG?

Nei, kæru félagar, það var klárlega ekki viljinn og það kemur skýrt fram í meðförum Alþingis, í minnisblöðum bæði dómsmálaráðuneytis og félags- og vinnumarkaðsráðuneytis til Allsherjar- og menntamálanefndar þingsins, í ræðum þess sem hér stendur, og fleiri þingmanna meirihlutans, þ.m.t. framsögumanns málsins. Þannig að þá hlýtur það að vera framkvæmd laganna sem er broguð. Og það er staðreynd.

Framkvæmdin er í höndum ríkislögreglustjóra, en hann ber ábyrgð á þjónustu við fólk sem hefur fengið endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Og, ríkislögreglustjóri heyrir undir dómsmálaráðuneytið. Það þýðir hins vegar ekki að maður sitji hjá og horfi á húsið brenna.

Ég hef stigið inn í þetta mál í því augnamiði að taka þátt í að leysa það. Leysa það út frá vilja Alþingis, út frá grundvallar mannréttindum, út frá stjórnarskrárbundnum réttindum fólks, og út frá sýn okkar í VG á mannúðlega stefnu í útlendingamálum. Ráðuneyti mitt vinnur þess vegna að lausn með sveitarfélögunum, en þau fara vissulega með hlutverk samkvæmt félagsþjónustulögunum þegar kemur að útlendingum í neyð. Lausn þessi lítur vonandi dagsins ljóss sem allra fyrst, þannig að tryggja megi fólki hið minnsta húsaskjól og mat.

Ég viðurkenni það fúslega, að mér er þetta mál mjög þungbært og ég veit að það er ykkur líka þungbært. Og þó svo að það hefði aldrei átt að þurfa að koma til þessa, þá er verkefnið núna að leysa málið. Og, það verður gert.

En ég get ekki skilið við þennan málaflokk öðruvísi en draga líka fram það sem hefur jákvætt gerst. Í takti við stefnu VG þá höfum við aðskilið þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd frá Útlendingastofnun, við höfum búið til móttökustöð í Domus Medica, hina fyrstu sinnar gerðar, og okkur hefur tekist stórslysalaust að taka á móti gríðarlegum fjölda fólks sem hér fær vernd, fundið því húsnæði, fundið börnum skólapláss, fundið vinnu og komið fólki af stað til að festa hér rætur.

Samningum sveitarfélaga við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um samræmda móttöku flóttafólks hefur fjölgað úr fimm í 13, þar af eru samningar við 9 stærstu sveitarfélög landsins. Málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd í Reykjanesbæ var mikið í fjölmiðlum og umræðunni í fyrravetur, þannig að við í ráðuneytinu ásamt Vinnumálastofnun unnum meira að segja sérstaka aðgerðaáætlun með Reykjanesbæ um hvernig við tökumst á við þann mikla fjölda sem þar býr.

Já, við leysum málin!

Og, nú vinnum við líka að stefnumótun í málaflokknum, hinni fyrstu sem unnin hefur verið á Íslandi, meðal annars með aðstoð sérfræðinga frá OECD. Vonandi getur sú stefnumótun orðið leiðarljós í útlendinga- og innflytjendamálum á Íslandi.

Kæru félagar! Ég sæki orku og næringu í fundi sem þessa. Fæ kraft til skemmri og lengri tíma með því að heyra ráð ykkar og stuðning. Og mér þykir líka vænt um að heyra áminningar og varnaðarorð, skárra væri það nú, við erum nú einu sinni VG og við höfum sterkar skoðanir og ríka réttlætiskennd, og það er það sem alltaf heillar mig í flokksstarfinu.

Við höfum komið mörgu til leiðar í ríkisstjórn, við höfum fært átakalínur í íslenskum stjórnmálum, málefni sem áður voru róttæk og komu frá okkur eru orðin að meginstefnumálum, og við sem hreyfing þurfum að spyrja okkur hvort við eigum ekki við slík tímamót að tikka í boxin yfir það sem lokið er og draga nýjar, vinstri grænar línur í hið pólitíska landslag. Endurnýja okkur fyrir næstu kosningar.

Ég vonast til að þessi fundur marki upphafið að því.

Kæru félagar! Ég vil enda á því að þakka starfsfólki skrifstofunnar fyrir frábæran undirbúning að vanda og öllum þeim sem koma að sumarferðinni og öðrum undirbúningi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search