PO
EN
Search
Close this search box.

Ræða Guðmundar Inga Guðbrandssonar, varaformanns VG á flokksráðsfundi.

Deildu 

Kæru félagar! Hjartanlega velkomin á Flokksráðsfund.

  1. Almennt: Stóra myndin og púsluspilið

Þegar ég var lítill patti fannst mér fátt skemmtilegra en að púsla stór og flókin púsluspil. Ég hafði reyndar líka mjög gaman að því að rekja ættir mínar við aðra Mýramenn og leggja á minnið afurðahæstu ærnar, gefa ánum nöfn og þegar að kindanöfn voru uppurin, þá greip ég til kúaskýrslna til að klára að nefna þessar 300 skjátur sem voru heima. Þannig man ég eftir að ein kindin hét Ljómalind og önnur Búkolla – og mér fannst það bara allt í lagi. Enda gert margt öfugt í lífinu.

En af hverju er ég að tala hér um púsluspil? Jú vegna þess að stjórnmálin eru svoldið eins og púsluspil. Stjórnmálahreyfingar móta sér stefnu og framtíðarsýn um samfélagið – kannski þá mynd sem er á púsluspilinu, utan á kassanum. Það er svo hvernig við setjum kubbana saman sem ákvarðar hvaða mynd við endum með og þar höfum við öll áhrif. Hver og einn kubbur og ekki síður samsetning þeirra skiptir máli. Að vera í ríkisstjórn eða í meirihluta í sveitarstjórn þýðir að stjórnmálahreyfingar hafa meiri áhrif á þá mynd sem verður á endanum teiknuð upp með púsluspilinu.

Við Vinstri Græn erum ekki fátæk af stefnumálum. Við erum líka rík af umræðuhefð okkar. Við sjáum púslumyndina fyrir okkur með skýrum hætti – framtíðina sem við stefnum að. Núna erum við í ríkisstjórn og höfum mikil áhrif á hvaða púslukubbar eru valdir og við keppumst við að púsla inn í okkar framtíðarmynd. Og, framtíðarmyndin okkar byggist á nokkrum grundvallarmálum: Umhverfis- og náttúruvernd, jöfnuði, jafnrétti og réttlæti og friði.

  1. Nokkur lykilverkefni ríkisstjórnarinnar

Þegar litið er til stjórnmálanna á alþjóðavísu veldur afneitun stjórnmálaleiðtoga og hreyfinga víða um heim á loftslagsvísindum mér þungum áhyggjum. Falsfréttir verða æ algengari og uppgangur fasisma og ógeðfelldra viðhorfa í garð hinsegin fólks eru stór viðfangsefni sem síður en svo tilheyra fortíðinni. Vegið er að sjálfsákvörðunarrétti kvenna og útlendingahatur er áhyggjuefni. Þessu verðum við að sporna gegn með manngæsku, ást og frið að leiðarljósi.

Ég er því stoltur af því að hreyfingin okkar hafi stórbætt þungunarrofslöggjöfina, komið á sanngjarnara skattkerfi, aukið réttlæti með lögum um kynrænt sjálfræði og sett loftslagsmálin á oddinn. Svo fátt eitt sé nefnt.

Formaðurinn okkar mun fara betur yfir sviðið á eftir en ég ætla að koma inn á þrennt: Efnahagsmál, heilbrigðismál en mest umhverfismál.

EFNAHAGSMÁL. Hún er lífsseig mýtan um að vinstra fólk hafi ekki vit á efnahagsmálum og eigi þar af leiðandi ekki að fara með stjórn þeirra. En bíðum nú aðeins við. Ekki voru vinstriflokkar við stýrið í aðdraganda hrunsins. Vinstriflokkar voru aftur á móti við völd þegar efnahagsmálunum var komið aftur á réttan kjöl á árunum 2009-2013. Og, núna með VG aftur í ríkisstjórn erum við að upplifa mjúka lendingu í niðursveiflu í hagkerfinu. Stýrivextir eru í sögulegu lágmarki, og ráðstöfunartekjur hafa aukist mest á meðal þeirra sem minnst laun hafa – lægstu tekjutíundarinnar, eins og það heitir á fínu máli. Á meðan við lendum hagkerfinu mjúklega, erum við að búa til réttlátara skattkerfi – við erum að beita stjórntækjum efnahagslífsins í þágu þeirra sem minna hafa á milli handanna. Þriggja þrepa skattkerfi er auðvitað ekkert annað en stórkostlegt afrek í samstarfi við stjórnmálaflokka sem ræddu það í alvöru að setja á eitt skattþrep fyrir ekki svo löngu síðan. Loforð núverandi ríkisstjórnarflokka í stjórnarsáttmála um lækkun tekjuskatts hafa þannig skilað sér mest til þeirra sem minnst hafa. Þetta er vinstrapúsluspil, púsluspil þar sem stjórntæki efnahagslífsins eru nýtt til aukins jöfnuðar og félagslegs réttlætis. Mikilvæg skref í rétta átt og kannski afsannar allar mýtur um að vinstra fólk geti ekki farið með stjórn efnahagsmála. Hér á auðvitað Katrín Jakobsdóttir stórt hrós skilið.

HEILBRIGÐISMÁL.

Ég hef dáðst að þeim verkum sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur unnið að á síðustu tveimur árum. Heilbrigðisstefna hefur litið dagsins ljós í víðtækri sátt á Alþingi. Hún er grunnurinn fyrir verkefni framtíðarinnar í heilbrigðiskerfinu. Svandís fær oft kaldar kveðjur sem áhugavert væri að vita hvar eiga upptök sín – allaveganna frá einhverjum sem ekki eru parhrifin af aðgerðum hennar sem styrkja hið opinbera heilbrigðiskerfi. Púslukubbar okkar Vinstri grænna í heilbrigðismálum eru nefnilega að draga upp breytta mynd frá því sem í stefndi. Áhersla á heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað, bætt aðgengi allra landsmanna að grunnþjónustu og stóraukin áhersla á geðheilsu. Lækkun komugjalda úr 1200 krónum í 700 nú um áramótin og niðurfelling þeirra um þar síðustu áramót til öryrkja og eldri borgara, ásamt niðurgreiðslu á tannlækningakostnaði hjá sömu hópum. Allt eru þetta lykilkubbar í stóra púslinu.Myndin sem er að teiknast upp er mikilvæg fyrir aukinn jöfnuð og lífsgæði allra í samfélaginu. Takk Svandís!

Þar með er ekki sagt að ekki séu næg verkefni framundan til að bæta jöfnuð og auka félagslegt réttlæti. En við erum að stíga skref sem skipta raunverulega máli.

  1. Umhverfis- og náttúruverndarmálin

En þá að umhverfis- og náttúruverndarmálum. Ástæðunni fyrir því að ég er í pólitísku brölti eins og það var alltaf kallað heima í sveitinni.

Ég ætla að byrja á því að draga upp smá mynd af nýliðinni viku sem sýnir ágætlega umfangið og gróskuna í umhverfis- og náttúruvernd í dag. 

Á mánudaginn var frétt á RÚV um að fjöldi nýskráðra hreinna rafbíla á mánuði hafi í fyrsta skipti farið yfir 150 stykki nú í janúar eða yfir 20% allra nýskráninga, og það sem meira er að skráningu dísel og bensínbíla fækkar. Í samanburði við önnur lönd erum við Íslendingar í öðru sæti allra þjóða heims yfir hlutfall nýskráðra nýorkubifreiða. Þessir hlutir gerast ekki af sjálfu sér. Þeir gerast með VG í ríkistjórn og eru afrakstur markvissrar stefnu í loftslagsmálum. Og, þetta er bara eitt dæmi.

Önnur frétt í vikunni var um að Krónan hefði sparað 3,3 milljónir plastpoka frá því að frumvarp okkar Vinstri grænna um plastpokabannið svokallaða var samþykkt frá Alþingi í fyrra vor. Þó svo að bannið sjálft taki ekki gildi fyrr en 1. janúar á næsta ári, er löggjöfin hins vegar þegar farin að virka eins og hún átti að gera. 

Á fimmtudaginn í síðustu viku skrifaði ég undir friðlýsingu á hluta Þjórsárdals sem tekur m.a. til Gjárinnar, Hjálparfoss, Háafoss og Granna. Þetta var virkilega gleðileg stund og ekki skemmdu fréttirnar frá Umhverfisstofnun um að vegna ákvörðunar minnar í fyrra um aukið fjármagn í landvörslu og lagfæringar á göngustígum, myndi svæðið í ár fara af svokölluðum rauðum lista Umhverfisstofnunar um svæði sem eiga á hættu að missa verndargildi sitt. Þetta er árangur af markvissri stefnu.

Í gær fékk ég kynningu á verkefni um landbúnað og náttúruvernd sem ég setti í gang undir lok árs 2018. Skýrslan lýsir viðhorfum og áhuga bænda hérlendis á að vinna að náttúruvernd, dregur saman fróðleik um verkefni í öðrum Evrópuríkjum og á þessu ári ráðumst við í að prufukeyra verkefni af þessu tagi hérlendis með þátttöku bænda. Einnig er á lokametrunum í umhverfisráðuneytinu útfærsla á samstarfi ríkis og sauðfjárbænda um kolefnisjöfnun greinarinnar. Þessi tvö verkefni eru dæmi um ríkan vilja okkar í VG til að búa til ný tækifæri með landbúnaðinum sem tengjast umhverfis- og náttúruvernd.

Fyrr í dag tilkynnti ég svo um stóraukna styrki til félagasamtaka, bæði til reksturs og sérstakra verkefna. Frá því að Vinstri Græn tóku aftur við lyklavöldum í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, hafa rekstrarstyrkir nær þrefaldast og verkefnastyrkir hátt í tvöfaldast ef sérverkefni eru tekin með.

Og talandi um fjármagn. Þessi málaflokkur hefur verið fjársveltur svo lengi sem ég man eftir mér og fór að fylgjast með pólitík. Það var því eitt af stóru málunum fyrir mér að auka fjárframlögin. Og það höfum við gert. Með fjárlögum þessa árs hefur núverandi ríkisstjórn aukið fjárframlög til umhverfismála um 25% miðað við 2017 og það mun enn hækka á næstu árum. Afrakstur þessara ákvarðana er þegar farinn að skila sér, ekki síst í aðgerðum í loftslagsmálum og í náttúruverndinni.

Jæja, af hverju er ég að draga fram þessi dæmi? Jú, vegna þess að þau eru öll púslukubbar sem eru hluti af miklu stærri mynd. Þeirri framtíðarmynd að árið 2030 ætlum við geta sagt að við höfum staðið við skuldbindingar okkar samkvæmt Parísarsamkomulaginu, að árið 2040 verði Ísland orðið kolefnishlutlaust og árið 2050 muni losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi verða mjög lítil og við munum binda meira kolefni en við losum. Þessi dæmi eru líka hluti af þeirri framtíðarmynd að Ísland leggi áherslu á verndun náttúrunnar, náttúrunnar sjálfrar vegna, en líka sem byggðamál og efnahagsmál.

Ég ætla að ræða aðeins nánar um tvö stærstu málin: Loftslagshamfarir og Hálendisþjóðgarð.

Loftslagsmálin hafa loksins fengið verðskuldaða athygli bæði alþjóðlega og hér heima. Þar eigum við fyrirmyndinni Grétu Thunberg mikið að þakka og okkar eigin unga fólki sem þrýstir á stjórnvöld og fyrirtæki um frekari aðgerðir í þágu Jarðarinnar. Við vinnum eftir þeirri framtíðarsýn sem ég lýsti hér að ofan. Þessi sýn er bráðnauðsynleg þannig að leiða megi vagninn í rétta átt. Og gleymum því ekki kæru félagar að Vinstri Græn hafa alltaf leitt loftslagsvagninn. Við töluðum um þessi málefni meðan aðrir gerðu það ekki, við settum fyrstu loftslagslögin árið 2012 og fyrstu fjármögnuðu aðgerðaáætlunina árið 2018. Hverri stóru aðgerðinni á fætur annarri hefur verið hleypt af stokkunum síðan þá: Skattaafslættir fyrir umhverfisvænni farartæki, þ.m.t. fólksbíla, rútur og hjól, styrkir fyrir hleðslustöðvum, upphaf Borgarlínu, stóraukin framlög til landgræðslu og endurheimtar votlendis og skóga, stofnun Loftslagssjóðs til að styrkja nýsköpun og fræðslu, aðgerðir gegn matarsóun, fræðsla í skólum, og fleira og fleira. Ég fagna því hins vegar að aðrar stjórnmálahreyfingar hafa gert loftslagsmálin að áhersluatriðum því það er nóg pláss á loftslagsvagninum. Og, við munum ótrauð vinna áfram að því að gera enn betur. Við munum áfram leiða vagninn.

Eitt stærsta þingmál þessa vetrar er Hálendisþjóðgarður. Fyrirhugaður þjóðgarður hefur hlotið mjög mikla fjölmiðlaumfjöllun sem er verðskuldað þegar fyrir dyrum stendur að taka jafn stóra ákvörðun og þessa.

Þverpólitísk nefnd með aðkomu sveitarstjórnarstigsins og ráðuneyta, undir stjórn Óla Halldórssonar sveitarstjórnarfulltrúa VG í Norðurþingi, skilaði skýrslu til mín í byrjun desember en í haust var unnið að gerð lagafrumvarps um stofnun Hálendisþjóðgarðs í samvinnu við nefndina. Mjög mikið samráð hefur átt sér stað um málið, ekki síst við sveitarstjórnir. Bæði af hálfu nefndarinnar og minni hálfu. Ég heimsótti allar sveitarstjórnir sem fara með skipulagsábyrgð á miðhálendinu í haust til að heyra viðhorf þeirra og hef haldið opna kynningarfundi víða um land núna í upphafi árs um frumvarpið sjálft. Þetta samráð hefur skilað góðri útkomu, en við vinnum nú úr frekari athugasemdum eftir umsagna- og samráðsferli.

Oft er kvartað yfir því að hlutirnir taki alltof langan tíma í stjórnsýslunni, en í þessu máli hef ég orðið var við að fólki finnist alltof hratt farið. Já, öðruvísi mér áður brá! Allt tal um að of hratt sé farið er einfaldlega ekki rétt, málið er mjög vel unnið enda stjórnvöld unnið ötullega að þessu máli í bráðum fjögur ár.

Kjarni málsins er sá að hér getum við Íslendingar ákveðið á grundvelli þessa lagafrumvarps að vernda stærstu víðerni landsins, magnaðar jarðminjar, fágætar gróðurvinjar og ómetanlegt landslag. Fyrir komandi kynslóðir. Lagt grunn að nýjum tíma þar sem íslensk þjóð fylkir sér á bak við ákveðin gildi og verðmæti sem felast í því að vernda einstaka náttúru landsins. Stærsta framlag Íslendinga til náttúruverndar fyrr og síðar. Á sama tíma má búa til efnahagsleg verðmæti. Það er góð nýting náttúruauðlinda.

Ég vil fá að þakka sveitarstjórnarfulltrúum VG sem hafa stutt mig með ráðum og dáðum í þessu máli og haldið náttúruverndarkyndlinum á lofti í umræðunni heima fyrir og í samfélaginu. Ég vil líka þakka ykkur félagsmönnum öllum sem sumir hafa skrifað greinar, aðrir hringt eða sent skilaboð – aldrei er mikilvægara en akkúrat núna að tala fyrir þessu máli á kaffistofunni, í heita pottinum, á Þorrablótum, í fermingarveislum og í grænmetisdeildinni í búðinni. 

Gleymum því aldrei að á bak við hvern og einn kubb í púsluspilinu góða er hinn almenni félagsmaður. Hinn almenni félagsmaður sem hefur tekið þátt í að móta stefnuna, hefur stutt við að búa til kubbinn og koma honum á réttan stað. Það er fátt meira gefandi en að sjá árangur erfiðis síns og finna hvernig það passar inn í þá framtíð sem við viljum búa til saman.

Ég stæði ekki hér sem varaformaður flokksins nema vegna þess að þið kusuð mig til þess. Ég tek hlutverk mitt alvarlega og hlakka til samstarfsins framundan. Stuttu eftir landsfund settist ég niður með starfsfólki hreyfingarinnar á skrifstofu flokksins til að fara yfir með hvaða hætti ég gæti lagt mitt af mörkum til félagsstarfsins. Ég þekki það vel úr starfi félagasamtaka að þátttaka félagsmanna er lykilatriði. Í stjórnmálahreyfingu er það bráðnauðsynlegt.

Ég hef sett mér það markmið að halda fund einu sinni í mánuði með svæðisfélögum á einhverjum stað á landinu og hef þegar haldið opinn fund í Reykjanesbæ og á Selfossi fyrir jól, og svo héldum við Katrín fund hér á höfuðborgarsvæðinu í janúar. Við hittum jafnframt stjórnarfólk í svæðisfélögunum til að ræða með hvaða móti við getum rifið upp starf og stemningu, ekki síst þar sem það styttist í kosningar, bæði til Alþingis og sveitarstjórna. Ég hyggst halda áfram að heimsækja svæðisfélög og bjóða fram krafta mína við að byggja upp enn öflugra starf úti um allt land.

Mér og ykkur til halds og trausts er starfsfólk skrifstofunnar okkar og vil ég þakka þeim og ykkur öllum, svæðisformönnum og félögum sem ég hef komist í kynni við á þessum stutta tíma, fyrir afskaplega góðar móttökur og frábært samstarf eftir að ég varð varaformaður.

Ég vil einnig vekja athygli á því að búið er að festa sveitarstjórnarráðstefnu VG þann 25. maí í Garðabæ. Afar mikilvægt er að ná góðri þátttöku á þá ráðstefnu og þétta raðirnar. Þá vil ég líka sérstaklega fagna því að VG á Austurlandi ætli að bjóða fram undir eigin merkjum í sveitarstjórnarkosningum í sameinuðu sveitarfélagi í vor. Ég hlakka til.

Í næstu viku verða síðan ráðherrar, þingmenn, sveitarstjórnarfólk og margir félagsmenn á ferðinni í kjördæmaviku. Þar munum við heimsækja fyrirtæki og stofnanir um allt land og halda opna fundi, ræða við félagsmenn og aðra – og ég veit að það verður mjög gaman.  

Ég verð að koma inn á eitt atriði sem ég tel mikilvægt að ræða örlítið. Við heyrum öll að sagt að VG fái lítið sem ekkert út úr stjórnarsamstarfinu. Þurfi að kyngja ýmsu. En hvers vegna er þá oft barið á ráðherrum og þingmönnum fyrir mál sem svo sannarlega eru vinstri mál og svo sannarlega græn mál – málum sem við einmitt komum í gegn? Málum sem ekki væru ef við værum ekki….. Það er auðvitað vegna þess að við erum að ná árangri og það líkar auðvitað ekki öllum.

En það er líka mikilvægt að sem flestir taki þátt í umræðunni og hjálpi stefnumálum okkar að fá hljómgrunn með því að tala fyrir málunum okkar í heita pottinum, fermingarveislunni og í grænmetisdeildinni. Þetta hafið þið gert, félagar mínir í VG, með greinaskrifum, mætingu á fundi og fjölbreyttum stuðningi í umræðunni um Hálendisþjóðgarðinn. Fyrir það er ég afskaplega þakklátur.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search