Search
Close this search box.

Ræða Guðmundar Inga Guðbrandssonar

Deildu 

Kæru félagar!

Það eru rétt rúm þrjú ár síðan ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við stjórnartaumunum og stuttur tími eftir af þessu kjörtímabili. Við siglum nú inn í kosningaár eftir að hafa leitt ríkisstjórn í fyrsta skipti.

Við upphaf ríkisstjórnarsamstarfsins vissum við af mörgum stórum verkefnum, en eins og alltaf eru líka mál sem ómögulegt er aðsjáfyrir.

Við vissum að kjarasamningar myndu verða vandasamt verkefni. Það var leyst farsællega með mikilli vinnu, umfangsmiklum aðgerðum stjórnvalda og kerfisbreytingu á vaktafyrirkomulagi stórra og mikilvægra kvennastétta.

Við vissum að útfærsla á skattalækkun yrði áskorun, ekki síst í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Það var leyst í þágu efnaminni og réttlátara samfélags.

Við vissum að aukinn kraftur í umhverfis- og náttúruvernd kæmi ekki af sjálfu sér. Við erum farin að sjá árangur í loftslagsmálum og höfum friðlýst eins og vindurinn.

Svona mætti áfram telja.

En ekkert okkar átti von á þessari bévítans veiru. Veirunni skæðu. Skaðvaldinum mikla. Vágestinum óvelkomna. Öll þessi orð um þessa blessuðu veiru. Það þarf þolgæði og kjark til að standast ágjöfina og takast á við áskoranir sem svona verkefni fylgja. Við erum vissulega ekki komin í mark en það sér nú vonandi fyrir endann á þessu langhlaupi. Hér hafa okkar konur í ríkisstjórn staðið vaktina með þau skýru leiðarljós að láta líf og heilsu fólks ganga fyrir í öllum ákvörðunum.

  1. HEILBRIGÐISMÁL

Vinstri græn settu heilbrigðismál á oddinn fyrir síðustu kosningar. Ég gríp hér niður í nokkrar setningar úr stjórnarsáttmála og þegar ég segi orðið TÉKK, þá er ég að segja að búið sé að ljúka við eða koma verkefninu til framkvæmdar:

  • Ríkisstjórnin mun fullvinna heilbrigðisstefnu fyrir Ísland. TÉKK! 
  • Heilsugæslan verður efld sem fyrsti viðkomustaður notenda. TÉKK! 
  • Framkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna Landspítala munu hefjast. TÉKK! 
  • Ríkisstjórnin ætlar að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. TÉKK!
  • Geðheilbrigðisáætlun til 2020 verður hrint í framkvæmd og hún fjármögnuð. TÉKK!
  • Ráðist verður í stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarheimila og mun hún birtast í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. TÉKK!

Á þessu kjörtímabili hafa því verið stigin stór og mikilvæg skref í átt að réttlátara og öflugra heilbrigðiskerfi. Greiðsluþátttaka sjúklinga er orðin mun nær því sem gerist á öðrum Norðurlöndum eins og stefnt hefur verið að. Komugjöld á heilsugæslustöðvar hafa lækkað, þau hafa verið afnumin fyrir aldraða og öryrkja, auk þess sem greiðsluþátttaka þeirra í tannlækningum hefur verið minnkuð og mun minnka enn meira. Þá hafa styrkir til hjálpartækja verið auknir á ýmsum sviðum.

Geðheilbrigðismál hafa líka verið tekin föstum tökum. Meðal annars hafa  geðheilbrigðisteymi út um allt land verið fullmönnuð og fjöldi sálfræðinga sem starfa í heilsugæslunni hefur næstum tvöfaldast. Aukin áhersla á heimahjúkrun gerir fólki kleift að búa lengur heima og mun geta skilað víðtækum árangri í heilbrigðiskerfinu á næstu árum með meiri fjölbreytni í þjónustu. Stórt skref var stigið í þeim efnum núna rétt fyrir jólin með samningi Sjúkratrygginga Íslands og Reykjavíkurborgar um heimahjúkrun í Reykjavík til næstu fjögurra ára. Í þessa átt eigum við að stefna og við þurfum líka að sinna fyrirbyggjandi þáttum betur en gert er í dag.

Ég vil fá að þakka Svandísi okkar fyrir ótrúlega mikilvægt verk í heilbrigðisráðuneytinu.

Kannski tókuð þið eftir því að ég hef ekki ennþá minnst á kórónuveirufaraldurinn í samhengi heilbrigðismála. Þar vil ég bara segja þetta: Staðan á Íslandi í augnablikinu er allt að því draumkennd miðað við Evrópu, Ameríku og fleiri heimsálfur. Okkur hefur í stórum dráttum auðnast að standa saman sem einn hópur sem ætlar að ná árangri. Þannig þarf það að vera áfram á meðan við komumst út úr þessu. Bólusetningum fjölgar og stefnt er að því að klára bólusetningu viðkvæmustu hópanna á næstu mánuðum og svo koll af kolli þannig að þorri þjóðarinnar verði bólusettur um mitt ár.

Enginn þessara þátta er tilviljun. Það er okkar gæfa að hafa notið forystu Katrínar og Svandísar í gegnum þessar hamfarir sl. árið.

  1. MANNRÉTTINDI OG REISN

Sá þáttur sem ég held að fyrstu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur verði einna helst minnst fyrir þegar fram líða stundir eru stór og mikilvæg skref í réttindabaráttu kvenna og hinsegin fólks. Á tímum þar sem bakslag hefur orðið í þessari baráttu víða um heim, þakka ég fyrir að búa í landi þar sem réttindi þessara hópa hafa verið aukin á síðustu árum. En það gerist ekki af sjálfu sér.

Það þarf blöndu af ríkum pólitískum vilja, þori og seiglu og hér hafa Vinstri græn leitt vagninn. Löngu úreltri löggjöf um þungunarrof var skipt út fyrir ný lög sem tryggja konum sjálfsforræði yfir eigin líkama. Lífskjarasamninganna og í framhaldi samninga á opinbera markaðnum verður kannski ekki síst minnst fyrir það að vera kerfisbreyting fyrir stórar kvennastéttir sem tryggir aukin lífsgæði, með styttingu vinnuvikunnar og breytingum á vaktafyrirkomulagi mikilvægra stétta.

Mig langar líka að nefna lög um kynrænt sjálfræði sem er gríðarlega mikilvægt mannréttindamál og hefur fært Ísland upp á við á regnbogakortinu. Hlutlaus kynskráning hefur þannig verið tryggð og mörg sem biðu ekki boðanna um áramótin þegar hægt var að breyta um kynskráningu í þjóðskrá. Við slíkar fréttir, við að skynja þá gleði og það frelsi sem mér fannst skína frá þessu góða fólki vegna þeirra sjálfsögðu mannréttinda að geta sjálf skilgreint kyn sitt, þá er því ekki að neita að maður komst við.

Nýjasta viðbótin sem samþykkt var nú rétt fyrir jólin snýr síðan að réttindum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni og skal vilji þeirra vera ráðandi varðandi varanlegar breytingar á kyneinkunnum.

Þetta er stórstígar framfarir í mannréttindum, ekki bara þeirra hópa sem um ræðir, því aukin mannréttindi eru gæði alls samfélagsins.

Ég tel að Ísland eigi að setja sér það markmið að verða í algjörum fararbroddi þegar kemur að réttindamálum hinsegin fólks. Lítil þjóð getur sett mikilvæg fordæmi sem tekið er eftir. Stefnum að þessu, kæru félagar.

  1. LOFTSLAGSMÁL

Ég ætla að víkja að loftslagsmálum.

Fyrir daga ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur hafði ríkt kyrrstaða í loftslagsbaráttunni á Íslandi. Engin áætlun um samdrátt í losun var til. Engin stefna um kolefnishlutleysi. Engin stefna eða áætlun um aðlögun samfélagsins. Stjórnkerfið hafði enga pólitíska leiðsögn til að fara eftir. Að frátöldum 250 milljónum króna til nokkurra aðgerða, þá var engin fjármögnuð áætlun til. Engin. Ekkert. Það ríkti algjör doði.

Blaðinu hefur nú algerlega verið snúið við. Við erum komin á fullt skrið; fjármögnuð aðgerðaáætlun hefur litið dagsins ljós, unnið er að vegvísi um kolefnishlutleysi og stefnu um aðlögun. Fjármagn til loftslagsmál hefur aukist um meira en 700 prósent og dreifist á fjölbreyttar aðgerðir. Ég endurtek: Fjármagn til loftslagsmála hefur aukist um meira en 700 prósent! Þessar aðgerðir eru farnar að skila árangri í þessu okkar hjartans baráttumáli.

Bráðabirgðatölur Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda árið 2019 benda til samdráttar í losun frá vegasamgöngum í fyrsta skipti í mörg ár. Og þetta var fyrir kórónuveirufaraldurinn. Við vitum að Ísland er í öðru sæti í heiminum þegar litið er til nýskráninga vistvænna bifreiða, á eftir Noregi. Við vitum að innflutningur á rafhjólum og rafhlaupahjólum hefur margfaldast. Þetta eru dæmi um árangur sem byggir á stefnumörkun okkar.

Við höfum á þessu kjörtímabili komið í verk vinnu sem flestar nágrannaþjóðir okkar hafa gert löngu á undan okkur. Mamma mín kenndi mér að skúra. Hún sagði að maður yrði að fara út í hornin og ekki gleyma neinum bletti. Í loftslagsmálunum hef ég haft þessi vinnubrögð móður minnar að leiðarljósi og farið út í hornin því við höfum gripið til aðgerða í flestum ef ekki öllum málaflokkum. Það er eðlilegt að við spyrjum okkur hvernig við viljum byggja á því sem búið er því verkefnin í loftslagsmálunum eru óþrjótandi og alltaf hægt að gera betur. Meira að segja þegar kolefnishlutleysi verður náð, er hægt að ganga lengra og binda kolefni umfram nettólosun og minnka þannig magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti. Og, það er vissulega stefna okkar Vinstri grænna.

Núna í desember kynnti ríkisstjórnin uppfærð og mun metnaðarfyllri markmið fyrir Ísland í loftslagsmálum. Stefna okkar Vinstri grænna í loftslagsmálum fyrir næstu kosningar þarf að vera róttæk og djörf vegna þess að við þurfum að halda áfram að gera betur, ganga lengra og færa línuna.

En loftslagsstefnan þarf líka að vera klók. Hún þarf að horfa til samlegðar við aðra málaflokka, þannig að aðgerðir okkar gagnist líka við að draga úr neyslu, minnka sóun, auka fjölbreytileika lífríkisins, stuðla að landgræðslu og skógrækt, betri loftgæðum, hafa í för með sér betri heilsu og meiri hreyfingu og stuðla að hagstæðari viðskiptajöfnuði við útlönd. Aðgerðir geta þannig skipt máli fyrir svo margt fleira en loftslagið.

Loftslagsstefnan þarf líka að fela í sér að búa til græn störf. Þau störf geta orðið til, til dæmis í gegnum hringrásarhagkerfið, þar sem við búum til verðmæti úr úrgangi, styðjum við endurnotkun og endurvinnslu hér á Íslandi. Enda sýna rannsóknir erlendis að innleiðingu hringrásarhagkerfis fylgir aukinn grænn hagvöxtur og fleiri störf. Og, auðvitað erum það við Vinstri græn sem leiðum vagninn í innleiðingu hringrásarhagkerfisins. Ég mun mæla fyrir mikilvægum lagabreytingum á þingi í vor um að Ísland verði endurvinnslusamfélag, þar sem skylda verður að flokka sorp og almenningi gert það einfaldara, en jafnframt ódýrara ef við stöndum okkur vel, þ.e.a.s. að sá borgi sem mengar – innleiðing mengunarbótareglunnar sem hefur verið á okkur stefnuskrá í lengri tíma.

Við þurfum að þróast í átt að lágkolefnahagkerfi og það mun kosta breytingar. Aðgerðir verða að taka tillit til félagslegrar stöðu fólks, og efnahags. Umskiptin yfir í lágkolefnahagkerfið þurfa að vera sanngjörn og þau mega ekki bitna meira á þeim sem minna hafa á milli handanna.  

Kæru félagar. Við erum á fullri ferð . Loftslagsbaráttan verður verkefni næstu ára og áratuga og á þessu kjörtímabili hefur verið lagður grunnur sem mun reynast gríðarlega mikilvægur fyrir hlut Íslands í baráttunni.

  • EFNAHAGSMÁL

Utan loftslagsmálanna verða efnahagsmál og atvinnumál að líkindum stóru málin sem kosið verður um. Og, hér skiptir pólitík miklu máli. Já, vinstri pólitík og hægri pólitík. Og svo auðvitað græn pólitík.

Við höfum séð hversu miklu máli öflugt opinbert heilbrigðiskerfi hefur skipt á undangengnu ári. Við höfum séð hversu miklu máli öflugt menntakerfi hefur skipt. Hversu miklu hið félagslega kerfi hefur skipt okkur nú þegar atvinnuleysi er í hæstu hæðum. Við þurfum samfélagslega uppbyggingu sem grípur fólk og verkefni okkar í stjórnmálum er að byggja upp slíkt samfélag. Efnahagsmálin verða að taka mið af þessu. Þess vegna hafna ég sögulegum hugmyndum hægrisins um niðurskurð í hinu opinbera kerfi.

Við Vinstri græn höfum lagt áherslu á að við eigum að vaxa út úr þeim efnahagsþrengingum sem við stöndum frammi fyrir með aukinni verðmætasköpun. Það gerum við svo sannarlega ekki með víðtækum niðurskurði.  Að mínu mati verðum við að halda þeirri stefnu sem var mörkuð bæði í fyrra og fyrir þetta ár í fjárlögum ársins; að standa algjöra vörð utan um mikilvægustu innviðina, í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og félagslega kerfinu. Mikilvægi þess að halda þessari stefnu til streitu á komandi árum þegar við vinnum okkur út úr lægðinni verður ekki ofmetið.

Einn af stórum áföngum kjörtímabilsins er að við erum aftur komin með þrepaskipt skattkerfi – en við eigum að jafna byrðarnar enn betur og þau okkar sem erum hálaunafólk eigum að leggja enn meira til samfélagsins, því ekkert mannsbarn á Íslandi á að þurfa að þola fátækt.

Ég verð að benda líka á sköpun grænna starfa í gegnum náttúruverndina og ferðaþjónustu. Ég hef tröllatrú á að ferðaþjónustan muni skipta miklu máli fyrir efnahagslífið eftir kórónaveirufaraldurinn, en endurreisn hennar þarf að gerast á grænni forsendum en voru fyrir hendi áður. Mikilvægt er að stjórnvöld styðji við slíka þróun, því hún skiptir máli bæði vegna skuldbindinga okkar í loftslagsmálum en líka til að byggja upp jákvæða ímynd og meiri samkeppnishæfni út á við.

Og, hér getur Hálendisþjóðgarður svo sannarlega hjálpað til. Stofnun Hálendisþjóðgarðs, stærsta þjóðgarðs í Evrópu mun vekja athygli út um allan heim. Hálendisþjóðgarður mun styrkja jákvæða ímynd Íslands og laða að ferðamenn á sama tíma og við verndum ein stærstu óbyggðu víðerni Evrópu og einstakar andstæður og fjölbreytileika í náttúrufari og landslagi. Náttúruarfleifð sem okkur ber að standa vörð um. Og, Hálendisþjóðgarður mun skapa græn störf á landsbyggðinni.

Frumvarp um Hálendisþjóðgarð er nú til umfjöllunar á Alþingi. Margt hefur verið sagt á undanförnum vikum um þetta mál – með og á móti. Ég held að gagnrýnin sem fram hefur komið sé sprottin af ást og umhyggju fyrir svæðinu og áhyggjum af því að ríkisvaldið ætli að taka eitthvað af fólki. Ég segi: Það er óþarfi að óttast þetta. Fyrirkomulagið er það lýðræðislegasta sem nokkurri ríkisstofnun er gert að viðhafa hérlendis. Hálendisþjóðgarður á að vera þjóðgarður allra landsmanna, griðastaður þar sem við getum notið náttúrunnar og útivistar, hvort sem við kjósum að gera það akandi, gangandi, ríðandi eða á skíðum. Og, frumvarpið styrkir þennan rétt okkar borgaranna til að njóta þessa svæðis um ókomna tíð, því það er beinlínis markmið frumvarpsins.

Þingmenn hafa í höndunum einstakt tækifæri til að stíga stærsta skref í náttúruvernd sem tekið hefur verið hérlendis og einstakt tækifæri til að efla byggðir og ferðaþjónustu um allt land. Ég hef fulla trú á því að meiri eining náist um þetta mál í meðförum Alþingis og við eignumst Hálendisþjóðgarð.

  • KOSNINGAÁRIÐ 2021

Kæru félagar. Ég hlakka til að sjá drög að stefnumálum hér á morgun. Ég vil nota tækifærið og þakka ykkur öllum sem hafið komið að málefnavinnunni, því rödd grasrótarinnar er og þarf að vera rödd hreyfingarinnar.  

Ég vil líka þakka ritnefndinni fyrir einstaklega gott skipulag og utanumhald og starfsfólki hreyfingarinnar sömuleiðis. Á morgun fáum við öll tækifæri til að benda á hvað sé gott og hvað megi betur fara í málefnastefnum. Málefnahóparnir munu svo halda vinnu sinni áfram fram að landsfundi í mars næstkomandi.

Alþingiskosningar verða haldnar í lok september.  

Við Vinstri græn byggjum á  góðu starfi á þessu kjörtímabili, starfi þar sem við höfum klárað og komið í verk ótrúlega stórum hluta af kosningaáherslum okkar frá síðustu kosningum sem mörg hver eru grundvallaráherslumál okkar hreyfingar.  

Stöndum saman í að koma verkum okkar á framfæri og byggja á þeim í komandi kosningabaráttu. Við munum byggja á skýrri málefnastefnu sem unnin er af grasrótinni í hreyfingunni. Skýrri framtíðarsýn fyrir íslenskt samfélag: Grænt samfélag jöfnuðar og félagslegs réttlætis.

Ég hlakka til að taka slaginn með ykkur.

Um leið og ég set þennan flokksráðsfund okkar Vinstri grænna vil ég þakka starfsfólki hreyfingarinnar fyrir góða skipulagningu og utanumhald í hvívetna.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search