PO
EN
Search
Close this search box.

Ræða Guðmundar Inga í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra

Deildu 

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn.

Aldurssamsetning þjóðarinnar breytist nú hratt. Við lifum lengur en áður og við erum virkari og hraustari en nokkru sinni fyrr. Á síðasta þingvetri samþykkti Alþingi tillögu mína til þingsályktunar um þjónustu við eldra fólk, sem hlotið hefur nafnið Gott að eldast. Gott að eldast er samfélagslegt umbótaverkefni sem á að efla þjónustu við eldra fólk og auka samvinnu og samþættingu milli heilbrigðiskerfisins og félagsþjónustu sveitarfélaga. Með aukinni samþættingu í þjónustu, aukinni heilsueflingu og með stórbættri ráðgjöf og upplýsingum munum við á næstu árum koma til leiðar stærstu kerfisbreytingum í þjónustu við fólk í langan tíma. Þessa vegferð höfum við heilbrigðisráðherra hafið með það að markmiði að það verði sannarlega gott að eldast á Íslandi. Enn fremur vinnur ráðuneyti mitt nú að tillögum í samstarfi við fjármálaráðuneytið og innviðaráðuneytið um hvernig megi bæta afkomu þeirra í hópi eldra fólks sem lökust hafa kjörin.

Þetta er mikið réttlætismál.

Góðir landsmenn.

Eitt stærsta og mikilvægasta verkefni ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á þessu kjörtímabili í velferðarmálum er heildarendurskoðun örorkulífeyriskerfisins. Breytingarnar á kerfinu eiga í fyrsta lagi að hækka greiðslur til þeirra sem minnst hafa í kerfinu, þ.e. þeirra sem geta ekki unnið fyrir sér sjálf eða hafa lágar tekjur umfram það sem þau fá frá ríkinu. Í öðru lagi að styrkja og efla kerfi starfsendurhæfingar með aukinni þverfaglegri nálgun og bættri þjónustu þannig að fleiri eigi möguleika á að komast út á vinnumarkað, oft eftir slys eða veikindi. Í þriðja lagi viljum við breyta og einfalda greiðslukerfið til að styðja betur við ofangreind markmið.

Virðulegi forseti.

Ég er þess fullviss að ef okkur tekst að sameinast um þessar mikilvægu kerfisbreytingar hér á Alþingi þá verða það gríðarlega mikilvæg skref til að draga úr fátækt og bæta lífskjör og lífsgæði stórs hóps íslensku þjóðarinnar. Það mun skila okkur réttlátara samfélagi og það mun draga úr ójöfnuði. Allt eru þetta gildi sem við Vinstri græn stöndum fyrir.

En samhliða breytingum á örorkulífeyriskerfinu þurfum við líka hugarfarsbreytingu á vinnumarkaði. Atvinnurekendur þurfa að gera fötluðu fólki og örorkulífeyrisþegum auðveldara að taka þátt á vinnumarkaði, hvort sem horft er til ríkis, sveitarfélaga eða fyrirtækja. Þessir hópar sitja nefnilega ekki við sama borð og ófatlaðir eða þau sem búa við fulla starfsgetu. Þau hafa færri tækifæri til náms og þau hafa færri tækifæri til atvinnuþátttöku.

Þetta er óréttlátt og þetta stingur mann í hjartað. Þetta verðum við að sameinast um að bæta.

Virðulegi forseti.

Síðasta ár hefur verið í gangi umfangsmikil vinna milli ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarskiptingu vegna þjónustu við fatlað fólk. Fulltrúar ríkis og sveitarfélaga munu ræða tillögur um þetta á næstu dögum og það er von mín að brátt sjái fyrir endann á þessari mikilvægu vinnu og hægt verði að ljúka henni í síðasta lagi í byrjun október, þjónustu við fatlað fólk til framdráttar.

Góðir landsmenn.

Baráttan gegn loftslagsbreytingum er að mínu viti stærsta velferðarmál 21. aldarinnar. Neikvæð áhrif loftslagsbreytinga á vistkerfi og náttúruauðlindir, sem við byggjum jú afkomu okkar á, koma nefnilega verst niður á þeim sem höllustum fæti standa í samfélaginu, alveg sama hvar í heiminum það er. Í boðaðri aðgerðaáætlun umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra þarf einmitt að huga að áhrifum aðgerða á mismunandi hópa samfélagsins, ekki síst jaðarhópa og tekjuminna fólk. Það má segja að allir ráðherrar þurfi að eiga loftslagsgleraugu, og auðvitað nota þau. Ef ég myndi lána ykkur mín mynduð þið m.a. sjá að unnið er að tillögum í ráðuneyti mínu um hvernig bifreiðastyrkir til örorkulífeyrisþega geti nýst til kaupa á rafbílum, að á næstu vikum hyggst ég að koma af stað rannsóknarverkefni um störf sem tapast gætu vegna loftslagsbreytinga og hvernig við eigum að bregðast við því, og þið mynduð sjá að við höfum komið á auknu samstarfi um réttlát græn umskipti á Norðurlöndunum með aðilum vinnumarkaðarins, í samræmi og í tengslum við formennskuáætlun Íslands í norrænu ráðherranefndinni.

Virðulegi forseti.

Við Vinstri græn munum hér eftir sem hingað til halda á lofti kyndli náttúruverndar. Mikilvæg verkefni í náttúruvernd eru fram undan, m.a. að koma á fót hálendisþjóðgarði, sem er á borði umhverfisráðherra, og þá hefur Ísland nýlega samþykkt alþjóðamarkmið um að vernda 30% af haffletinum fyrir árið 2030. Matvælaráðherra hefur hafið vinnu við að móta stefnu og aðgerðir hvað það varðar sem munu verða mikilvæg skref í náttúruvernd, náttúrunnar sjálfrar vegna en líka fyrir samfélag okkar þar sem við byggjum stóran hluta af afkomu okkar á hafinu annars vegar og ómetanlegri náttúru landsins hins vegar.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search