Search
Close this search box.

Ræða Guðmundar Inga vegna yfirlýsingar forsætisráðherra

Deildu 

Virðulegi forseti.

Ríkisstjórnarflokkarnir þrír hafa sammælst um áframhaldandi samstarf sín á milli. Að baki stjórninni er traustur þingmeirihluti sem starfar eftir sama stjórnarsáttmála og áður. Unnið verður eftir sömu leiðarstefum og ríkisstjórnin lagði upp með í byrjun: Efnahagslegar og félagslegar framfarir, vernd umhverfis og náttúru, kraftmikil verðmætasköpun, jafnrétti kynjanna og jafnvægi byggða og kynslóða. Við tökumst á við allar áskoranir með hag almennings að markmiði.

Virðulegi forseti, erindi þessarar ríkisstjórnar er sem fyrr skýrt. Við ætlum að halda áfram uppbyggingu þar sem öll í samfélaginu eru þátttakendur og þar sem við jöfnum kjörin, tryggjum mannréttindi allra hópa og sýna stjórnfestu.

Efnahagsmálin verða áfram í forgrunni á næstu misserum og við munum senn sjá árangur af kjarasamningum og baráttunni gegn verðbólgu og háum vöxtum. Lækkun vaxta er eitt brýnasta hagsmunamál almennings í landinu. Við munum áfram vinna að því að bæta lífskjör þeirra sem verst standa og leggja áherslu á að jafna aðstæður og tækifæri fólks í samfélaginu. Því er mikilvægt að koma nýsamþykktum stuðningsaðgerðum stjórnvalda við kjarasamninga til framkvæmdar hið fyrsta.

Þar eru undir mjög mikilvæg mál sem munu styðja við barnafjölskyldur og lágtekjuhópa á næstu árum, svo sem auknar húsnæðisbætur, innspýting inn í stofnframlög í almenna húsnæðiskerfinu, barnabætur og hækkun þaks í fæðingarorlofi. Mig langar svo að nefna sérstaklega, ókeypis skólamáltíðir, sem munu draga úr fátækt barna, og hafa verið stórt baráttumál okkar Vinstri grænna í langan tíma. Aðkoma ríkisstjórnarinnar mun skila okkur betra, jafnara og réttlátara samfélagi.

Virðulegi forseti.

Stærsta áhersla mín sem félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur verið að skapa samfélag þar sem er pláss fyrir okkur öll, þar sem við eru öll með. Við Vinstri græn viljum skapa samfélag þar sem við hvetjum til aukinnar þátttöku allra þjóðfélagshópa.

Mannréttindi fatlaðs fólks, bætt kjör þeirra og aukin tækifæri til mennta og atvinnu hafa verið og verða áfram helstu baráttumál mín sem félags- og vinnumarkaðsráðherra. Þar er heildarendurskoðun örorkulífeyriskerfisins lykilatriði. Í stuttu máli felast breytingarnar í því að við erum að hverfa frá ógagnsæju og flóknu kerfi yfir í einfaldara, sanngjarnara og framsæknara kerfi. Verði frumvarpið að lögum munum við bæta sérstaklega kjör þeirra örorkulífeyrisþega sem einungis fá greiðslur frá ríkinu og þeirra sem eru með lágar tekjur umfram þær sem koma frá Tryggingastofnun. Með öðrum orðum, hagur þeirra sem minnst hafa eykst.

Réttlátar umbætur í örorkulífeyriskerfinu munu verða stærsta skref í síðari tíð til að draga úr fátækt á meðal örorkulífeyrisþega. Ég vona að við sjáum þær verða að veruleika á þessu þingi.

Virðulegi forseti

Ríkisstjórnin mun taka utan um málaflokka innflytjenda og útlendinga í samræmi við heildarsýn í málaflokknum sem kynnt var nýverið. Heildarsýnin byggir á mannúð, virðingu og samþættingu kerfa. Nú verður horft á allan ferilinn frá því að umsækjandi um alþjóðlega vernd kemur til landsins, eða innflytjandi sem hingað flyst, og þangað til hann hefur náð rótfestu í samfélaginu. Þannig tryggjum við jafnt, opið og fjölbreytt samfélag.

Við Vinstri græn höfum lagt ríka áherslu á að við séum að horfa til inngildingar innflytjenda þar sem fólk fái jöfn tækifæri. Við viljum ekki sjá stéttskiptingu verða til með ójöfnum tækifærum í íslensku samfélagi, en það er þróunin í dag. Þá þróun þarf að stoppa. Þeirri þróun verður að snúa við. Þessi ríkisstjórn ætlar að stíga markviss skref í þá átt það sem eftir lifir kjörtímabilsins.

Virðulegi forseti

Við áætlum að ráðast í heildarendurskoðun á útlendingalöggjöfinni frá árinu 2016. Fyrirhugaðar aðgerðir í heildarsýninni tryggja einnig betur að verndarkerfið nýtist þeim sem eru í brýnustu neyðinni og forgangsraðað verður í þágu þess að taka á móti fólki úr flóttamannabúðum sem er í viðkvæmri stöðu, til dæmis hinsegin fólki, einstæðum konum og börnum þeirra. Í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu er nú unnið að fyrstu heildstæðu stefnumótun í málefnum innflytjenda og flóttafólks sem verður grundvöllur að löggjöf um móttöku og inngildingu í íslensku samfélagi. Sú vinna hefur farið fram í samráði við innflytjendur um allt land. Þar að auki verður markvisst unnið að því að viðurkenna og nýta betur reynslu, þekkingu og menntun innflytjenda. Það er gott bæði fyrir samfélagið og einstaklingana sjálfa.

Málefni Grindavíkur verða áfram í brennidepli en ríkisstjórnin hefur ráðist í aðgerðir til að tryggja örugga framtíð fyrir Grindvíkinga. Ríkisstjórnin hefur skapað forsendur fyrir Grindvíkinga til að koma sér upp öruggu heimili á eigin forsendum með því að gefa kost á að leysa út þá fjármuni sem bundnir eru í íbúðarhúsnæði, auk þess að grípa til aðgerða til að tryggja framboð á íbúðarhúsnæði. Þá er líka vert að nefna stuðning við launagreiðslur þeirra sem ekki geta sótt vinnu í Grindavík vegna náttúruhamfaranna.

En hér bíða frekari áskoranir sem við munum leysa í sameiningu.

Virðulegi forseti!

Við Vinstri græn tökum nú við innviðaráðuneytinu, en Svandís Svavarsdóttir er nýr innviðaráðherra. Með þessu breikkum við aðkomu okkar að mikilvægum áherslumálum vinstra fólks og umhverfisverndarsinna.

Í fyrsta lagi þýðir þetta að húsnæðismál eru nú undir stjórn okkar og það skapar tækifæri til að efla félagslegar áherslur með það að markmiði að tryggja lágtekjuhópum þak yfir höfuðið á mannsæmandi verði. Hér vil ég meðal annars horfa til húsnæðismála fatlaðs fólks, en þar þarf á grettistaki að halda í samvinnu við sveitarfélögin.

Hitt áherslumál okkar Vinstri grænna sem við fáum nú tækifæri til að vinna ötular að, eru umhverfismálin. Að auki við matvælaráðuneytið, sem nú er stýrt af nýjum ráðherra, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, þar sem tækifæri til að ná árangri í loftslagsmálum liggja á sviði landbúnaðar, sjávarútvegs og landnýtingar, þá förum við nú einnig með samgöngumál, og þar munum við auðvitað horfa til orkuskipta í þágu samgangna, klára uppfærslu samgöngusáttmálans og setja fullan kraft í Borgarlínuna.

Þá skapast tækifæri til að standa frekari vörð um náttúruna í gegnum skipulagsmál sem hýst eru í innviðaráðuneytinu, þó vissulega megi gera ferla skilvirkari. Ríkisstjórnin mun hér eftir sem hingað til leggja áherslu á að náttúruverndarsjónarmið verði ávallt höfð að leiðarljósi við sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda, og faglegir ferlar virtir, og rammaáætlun er leiðarljós okkar þar, héreftir sem hingað til.

Þá vil ég nefna að í matvælaráðuneytinu eru einnig brýn náttúruverndarverkefni, ekki síst skiptir þar máli að klára frumvarp um lagareldi sem brátt verður mælt fyrir hér á Alþingi, en þar er í fyrsta skipti af alvöru lögð til skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Er þar ekki síst mikilvægt að vernda villta laxastofna og þróa laxeldi í sjó með þeim hætti að villtum laxastofnum stafi ekki hætta af.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég gera málefni hinsegin fólks að umtalsefni. Alþingi samþykkt frumvarp Katrínar Jakobsdóttur fyrrv. forsætisráðherra um kynrænt sjálfræði árið 2019 og var þar um afar stórt skref í réttindabaráttunni að ræða. En, líkt og alþjóð veit hefur átt sér stað bakslag í viðhorfum til hinsegin fólks á undanförnum misserum, bæði hérlendis og erlendis. Við það verður ekki unað, og stjórnvöld og almenningur verða að stíga inn með krafti. Við stjórnmálamenn þurfum að draga línu í sandinn og leiða með góðu fordæmi.

Ég vil í þessu samhengi nefna mikilvægi þess að klára frumvarp um stofnun Mannréttindastofnunar sem liggur nú fyrir þinginu. Hlutverk Mannréttindastofnunar Íslands verður að efla og vernda mannréttindi á öllum sviðum samfélagsins og ég bind vonir við að það frumvarp verði klárað nú í vor.

Virðulegi forseti.

Vinstri græn hafa afl, úthald, vilja og pólitíska skerpu til að leysa flóknustu mál í góðri samstöðu – það sýnum við aftur núna og það skiptir þjóðina máli í veigamiklum ákvörðunum. Nú á seinni hluta kjörtímabilsins klárum við þau mikilvægu mál sem við hófum. Hér eftir sem hingað til verður Vinstrihreyfingin – grænt framboð hreyfiafl mikilvægra breytinga í þágu umhverfis og náttúru, kynjasjónarmiða, félagslegra gilda og friðar með þátttöku sinni í ríkisstjórn. Breytinga í þágu almennings. Ég hlakka til að vinna áfram fyrir fólkið í landinu.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search