Kæru félagar!
Mikið ofboðslega er gaman að sjá okkur svona mörg saman komin hér á landsfundi hreyfingarinnar okkar. Þetta er fjölmennasti landsfundur í mörg ár og það er algjörlega frábært!
Og hvað segir það okkur? Jú, það segir okkur að hér er líf! Fólk er að koma til baka, nýtt fólk að bætast í hópinn – og ég finn að það er eftirvænting í lofti.
Þegar ég tók við sem formaður hreyfingarinnar okkar á vormánuðum sagði ég að við þyrftum að leita aftur í ræturnar. Skerpa vinstri áherslur okkar og áherslur á græn gildi, kvenfrelsi og friðarhyggju.
Og, finna okkur betur í okkar eigin pólitík. Tala meira um okkar pólitík. Og, það var, og er enn, ákall um það.
Síðan þá höfum við í stjórn hreyfingarinnar blásið til fjölmenns félagsfundar í lok júní þar sem við ræddum sérstaklega stöðu VG, málefnaáherslur og málefnavinnu fyrir næstu kosningar.
Flokksráðsfundurinn í ágúst var líka fjölmennur. Hann var kraftmikill, og hann sendi frá sér skýr skilaboð. Skilaboð um vinstri beygju, græna pólitík, mannréttindabaráttu og áherslu á menntamál.
Frá því á flokksráðsfundinum hafa fastanefndir og sérstök málefnanefnd um kvenfrelsi unnið ótrúlega þétt og árangursríkt starf og fyrir landsfundinum liggja tillögur að fjórum nýjum stefnum og breytingar á fjölmörgum öðrum, ásamt fjölda ályktana.
Þetta er til vitnis um áhuga, kraft og metnað. Ég vil þakka öllu þessu frábæra fólki fyrir að gefa af tíma sínum í þágu þessa mikilvæga hluta af starfi hreyfingarinnar okkar.
Ég vil sömuleiðis þakka öllum þeim sem komið hafa að skipulagningu og framkvæmd þessa landsfundar, starfsfólki skrifstofunnar sérstaklega, en líka öllum sjálfboðaliðunum og félögunum. Fastanefndum og ritstjórn þakka ég ómælda vinnu í undirbúningi stefna og ályktana, að ógleymdri lagabreytinganefnd.
Mér varð síðan á í messunni hér áðan undir skýrslu stjórnar að mér ljáðist að nefna Loftslagsráðstefnu VG sem haldin var í apríl 2023 í minningu félaga okkar Jóns Hjartarsonar. Hér með er þakkað fyrir hana líka.
Kæru félagar.
Þær eru margar ræturnar hjá VG. Rótarskotið sem ég upphaflega festi mig á eru umhverfis- og náttúruverndarmálin. Það voru Vinstri græn sem settu þessi mál á dagskrá af miklum krafti í íslenskri stjórnmálasögu. Við höfum alla tíð haft þau efst á stefnuskránni og þar eru þau enn.
Hvað eiga til dæmis Geysir, Látrabjarg, Kerlingarfjöll, Gerpissvæðið og Goðafoss sameiginlegt? Jú, þau voru friðlýst í tíð VG í umhverfisráðuneytinu eins og tugir annarra svæða.
Og munið þið eftir baráttunni gegn Kárahnjúkavirkjun? Hver leiddu þá baráttu á þinginu? Og, baráttuna fyrir Hálendisþjóðgarði, sem svo sannarlega er ekki lokið. Aðförinni að náttúru Íslands er heldur ekki lokið. Hún birtist núna meðal annars í stórkallalegum hugmyndum um vindorkuver í einkaeign út um allt land og í formi sjókvíaeldis í öðrum hverjum firði landsins. Á þessum málum verður að taka með bættri löggjöf, hertari reglum og skýrri sýn sem tekur mið af náttúruvernd.
Ísland á að vera þjóðgarðaparadís, þar sem verndun víðerna og villtrar náttúru er forgangsraðað. Með neti þjóðgarða og friðlýstra víðernasvæða. Með verndarsvæðum vatnsfalla þannig að stórar jökulár geti áfram runnið óhindrað frá upptökum til ósa. Eins og Jökulsárnar í Skagafirði, Skjálfandafljót, Hólmsá og Markarfljót. Nú eða ár eins og Hvalá á Ströndum. Í þessu felast gríðarleg verðmæti.
Kæru félagar. Við þurfum að horfa á náttúruna sem friðhelga og að nýting sé undanþága frá þeirri meginreglu.
Hin ýmsu stjórnmálaöfl hafa keppst við að taka undir orðræðu um meintan gríðarlegan orkuskort og mikilvægi umfangsmikilla virkjanaframkvæmda, þ.m.t. Samfylkingin og Viðreisn. Við sjáum á þessari umræðu að þörfin á kraftmikilli náttúruverndarpólitík er augljós. Slík pólitík er mín pólitík og mín sannfæring, líkt og svo margra annarra hér í þessum sal. Þetta er okkar pólitík. Þetta er pólitík Vinstri grænna. Vinstri græn settu líka loftslagsmálin á oddinn fyrir 25 árum. Loftslagsmálin, ólíkt náttúruverndinni, hafa síðan orðið meginstefnumál og baráttumál margra stjórnmálaflokka á Íslandi. Og, það er alveg frábært.
Fyrstu lögin um loftslagsmál voru sett í tíð Svandísar Svavarsdóttur í umhverfisráðuneytinu, og fyrsta fjármagnaða aðgerðaáætlunin og lögfesting kolefnishlutleysis í tíð minni í ráðuneytinu.
Núna, heyrast hins vegar fleiri og fleiri raddir innan úr pólitískum skúmaskotum afturhalds- og íhaldsflokka, um að hverfa beri frá frekari aðgerðum í loftslagsmálum, og sú skoðun hefur heyrst æ oftar að við eigum að draga okkur út úr Parísarsamningnum. Öflugar raddir þarf sem mótsvar við þessari orðræðu. Við erum það mótsvar.
Og, félagar. Ég er ósáttur, afar ósáttur, við þau þáttaskil sem hafa orðið í umræðunni um loftslags- og orkumál. Sjálfskipaðir sérfræðingar sem eru nátengdir hagsmunaaðilum ríða um héruð og espa upp ótta við yfirvofandi meintum gríðarlegum orkuskorti sem þjóðinni verði aðeins forðað frá með stórtækum virkjanaáformum. Ég er þakklátur forstjóra Landsvirkjunar að hafa blásið á þessar fullyrðingar um orkuskort nú á dögunum, líkt og umhverfisverndarsamtök hafa ítrekað gert.
Með þessu er ég ekki að segja að ekkert þurfi að virkja á komandi árum. En við skulum fara varlega. Við skulum móta okkur stefnu um hvað við ætlum að nota orkuna í. Og sú stefna á hverfast um náttúruna og um fólk en ekki stórfyrirtæki. Orku sem við þurfum vegna þess að landsmönnum fjölgar og orku til að nýta til innlendra orkuskipta en ekki orku af því bara. En líka í sátt við viðkvæma og verðmæta náttúru landsins. Um þetta höfum við Vinstri græn verði alveg skýr.
En, því miður hefur kapítalistunum tekist að rugla umræðuna alveg stórkostlega og telja fólki trú um að sama-sem-merki sé á milli loftslagsmála og nýrra virkjana, eða grænnar orku. En þetta er rangt. Við þurfum ekki alla þessa orku. Og loftslagsmál eru auk þess svo miklu meira en græn orka. Þau snúast líka um betri orkunýtingu, úrgangsmál, landbúnað, byggingaiðnað, landnýtingu, snúast um að fanga koltvísýring úr andrúmslofti og binda t.d. í jarðvegi, gróðri eða bergi, og þau snúast um nýja tækni og rannsóknir. Hér er rými fyrir umhverfisverndarhreyfingu að stíga inn af afli og festu. Einmitt til að mæta einföldun og tala gegn grímulausum hagsmunaöflum sem smætta heilan málaflokk niður í tvö orð: Græna orku.
Umræða um loftslagsmál verður að vera á breiðum grunni því málaflokkurinn snertir flest svið samfélagsins. Loftslagið er grunnurinn og umgjörðin utan um allt líf og auðlindir á jörðinni sem við byggjum tilvist okkar á og fáum þaðan fæði og klæði. Og þess vegna er baráttan gegn loftslagsvánni ekki bara stærsta umhverfismálið heldur líka stærsta velferðarmál 21. aldarinnar.
Að síðustu um þessi mál vil ég segja að við verðum að tryggja stjórnarskrárvarða þjóðareign á auðlindum. Og, það ber að þakka fyrir alla þá vinnu sem Katrín Jakobsdóttir lét fara fram um stjórnarskrármálin. Ég bind enn vonir við að vinna formanna stjórnmálahreyfinga á Alþingi muni skila okkur bæði auðlindaákvæði og umhverfisverndarákvæði í stjórnarskrá.
Kæru félagar.
Frá stofnun hefur VG látið sig kvenfrelsismál miklu varða. Við höfum alltaf staðið þá vakt og við ætlum að standa hana áfram. Á síðustu árum hefur grettistaki verið lyft í kvenfrelsismálum með aðkomu margra ráðuneyta og ráðherra, félagasamtaka, fyrirtækja og sveitarfélaga.
Ný löggjöf um jafnan rétt utan sem innan vinnumarkaðar, um þungunarrof og kynjajafnrétti, og bætta réttarstöðu brotaþola kynferðisofbeldis, eru ágætis dæmi. Þá má nefna nýjar aðgerðaáætlanir og aukið fjármagn í hinsegin málefni, þjónustu við þolendur og gerendur ofbeldis, og forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu ofbeldi og áreitni, svo eitthvað sé nefnt. Og, ég veit að það hallar ekki á neinn þegar ég nefni hlut Katrínar Jakobsdóttur í þessu samhengi, sem stýrði jafnréttismálunum í Stjórnarráðinu síðastliðin 6 ár. Það er heiður fyrir mig að taka við málaflokknum og ég mun ekki láta mitt eftir liggja þó skammur tími sé eftir af kjörtímabilinu.
Fyrir fundinum okkar liggur tillaga að nýrri stefnu um kvenfrelsi. Róttæk og ítarleg stefna.
Í mínum huga eru brýnustu verkefnin hér að útrýma kynbundnum launamun og útrýma kynbundnu ofbeldi. Hvorugt á heima í íslensku samfélagi. Árangur hefur vissulega náðst en þetta má ekki að líðast og þessu verður að breyta.
Konur verða af tekjum, starfstækifærum og lífeyrisréttindum í mun meira mæli en karlar á fyrsta heila árinu eftir fæðingu barns. Það er stórt kvenfrelsismál að laga þetta og að sama skapi að umönnunarbilið sé brúað milli fæðingarorlofs og leikskóla. Þetta eru, góðir félagar, stærstu kvenfrelsismálin, og við getum ekki kallað Ísland jafnréttisparadís fyrr en kynbundinn launamunur og kynbundið ofbeldi heyra sögunni til og umönnunarbilinu hefur verið lokað. Já, vinnan heldur áfram.
Kæru félagar.
Árið 2018 vorum við í 18. sæti á Regnbogakorti ILGA, regnhlífarsamtaka hinsegin fólks í Evrópu, sem mælir lagalega réttindastöðu hinsegin fólks í álfunni. Í ár vorum við komin í 2. sæti. Þarna skipta mestu máli ný lög um kynrænt sjálfræði og aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks.
Eftir að hafa fundað með formanni og framkvæmdastjóra Samtakanna 78, þá stefnum við í sameiningu að því að Ísland nái enn betri árangri og taki fyrsta sætið. Til þess að svo megi verða þarf meðal annars að ná betur utan um aðgerðir varðandi hatursorðræðu. Við eigum einfaldlega að tryggja öllu hinsegin fólki, líka trans og intersex fólki, sjálfsögð mannréttindi og vinna áfram að auknum réttindum þessara hópa. Og við verðum að berjast af alefli gegn bakslagi hér heima og erlendis.
Alþjóðleg friðarhyggja er líka ein af okkar grunnstoðum VG. Ófriðarbál geysa því miður víða um heim, í Súdan, í Úkraínu, Jemen, Sýrlandi, Kongó, Líbanon, að ógleymdri Palestínu, og auðvitað miklu víðar. Staðan í Afganistan er hörmuleg og minnir þróunin þar helst á Sögu þernunnar eða Handmaid‘s tale eftir Margaret Atwood. Konur í Afganistan hafa verið hnepptar í þrældóm og stúlkur fá ekki að ganga í skóla. Það er ótrúlegt að upplifa þetta nú á 21. öldinni. Í Palestínu fara Ísraelsmenn fram með ofríki á Vesturbakkanum og þjóðarmorði á Gaza. Ísraelsstjórn virðist hvorki virða alþjóðalög né úrskurði Alþjóðadómstólsins. Stigmögnun átaka fyrir botni Miðjarðarhafs er að eiga sér stað með innrás Ísraels í Líbanon. Það er ekki gott að sjá hvar þetta endar.
Íslensk stjórnvöld hafa á alþjóðavettvangi kallað eftir því að Ísrael og Hamas samþykki langvarandi vopnahlé. Það má ekki dragast. Palestínumenn eiga fullan rétt á að byggja upp ríki sitt í takt við tveggja ríkja lausnina. Öll vitum við að Bandaríkjamenn eru lykilaðili í að láta þetta gerast.
En ég vil fá að fagna þingsályktunartillögu Steinunnar okkar Þóru og fleiri þingmanna um alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart Ísrael. Það er skylda okkar sem friðarhreyfingar að tala fyrir málstað Palestínu, fyrir málstað friðar og það höfum við gert og munum halda áfram að gera.
Önnur stór rót hreyfingarinnar okkar er tileinkuð félagslegu réttlæti og jöfnuði.
Velferðarkerfið í heild sinni og menntakerfið eru lykilkerfi ásamt skattkerfinu til að ná fram jöfnuði í samfélaginu. Um þessi kerfi stöndum við í VG vörð og vinnum að umbótum og styrkingu þeirra.
Þannig var í tíð Svandísar í heilbrigðisráðuneytinu lögð áhersla á draga úr kostnaðarþátttöku sjúklinga, með áherslu á eldra fólk og örorkulífeyrisþega. Að koma á geðheilsuteymum á heilsugæslunni og ekki má gleyma byggingu nýs Landsspítala.
Nú er svo komið að greiðsluþátttaka sjúklinga á Íslandi, sem var ein sú hæsta á Norðurlöndunum þegar við tókum við stjórnartaumunum, er í dag á pari við hin Norðurlöndin.
Fyrir fáu hef ég síðan brunnið jafnmikið í starfi mínu sem félagsmálaráðherra og málaflokki fatlaðs fólks. Að sjá það óréttlæti sem birtist í minna aðgengi að námi, minna aðgengi að vinnu, og alltof bágum kjörum hjá alltof mörgu fötluðu fólki, sker mann einfaldlega í hjartað.
Þess vegna skiptir nýtt örorkulífeyriskerfi afar miklu máli. Stærsta kerfisbreyting sem ráðist hefur verið í í áratugi í þessum málaflokki raungerðist þegar Alþingi samþykkti lög þess efnis nú í júní. Til hamingju öllsömul! Nýja kerfið verður sanngjarnara. Við bætum kjör þeirra sem ekki geta unnið.
Við búum til rétta fjárhagslega hvata til atvinnuþátttöku þeirra sem geta unnið að hluta. Og við drögum úr fátækt. Þetta er risastórt mál og þetta eru breytingar sem beðið hafði verið eftir svo árum og áratugum skipti.
En fleira hefur gerst í þessum málaflokki. Frumvarp Katrínar Jakobsdóttur um Mannréttindastofnun Íslands var loksins samþykkt í vor. Þetta markar djúp spor í mannréttindabaráttunni, ekki síst fyrir fatlað fólk, því stofnunin er forsenda þess að við getum náð fram því baráttumáli fatlaðs fólks og félagshyggjuafla, að lögfesta loks samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Ég hef sett smíð slíks frumvarps í algjöran forgang í ráðuneyti mínu eftir að mannréttindamálin færðust þangað yfir í byrjun september, og hyggst leggja frumvarpið um lögfestinguna fram á þingi í nóvember. Við höfum því stigið stór skref í málefnum fatlaðs fólks og öryrkja á þessu kjörtímabili og af því megum við einfaldlega vera stolt.
Góðir félagar.
Mannréttindabaráttu lýkur aldrei. Baráttu fyrir betri kjörum efnaminni lýkur aldrei. Fram undan er áframhaldandi barátta fyrir bættum kjörum og húsnæðismálum öryrkja, bættri stöðu láglaunafólks, innflytjenda og þeirra í hópi eldra fólks sem lökust hafa kjörin. En við verðum líka að horfa til frekari kerfislægra breytinga. Eins óspennandi og það kann að hljóma að breyta kerfum, þá eru kerfi fyrir fólk. Og breytingar á kerfum geta skilað stærri sigrum, auknum jöfnuði og bættum lífsgæðum hjá stórum hópum fólks. Rétt eins og kerfisbreytingin á örorkulífeyriskerfinu sem við náðum í gegn í vor mun gera.
Ein stærsta kerfisbreytingin sem við gætum ráðist í felst í stóraukinni áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir og forvarnir, og það að grípa snemma inn í þegar hallar undan fæti hjá fólki. Þetta á við um öll velferðarkerfin okkar og menntakerfið, börn sem fullorðna. Hér hafa verið stigin mikilvæg skref á undanförnum árum, en það þarf að gera meira.
Annar mikilvægur liður sem tengist kerfisbreytingum er að brjóta niður sílóin. Sílóin sem hefta þjónustu og framfarir. Síló einstakra fagstétta og síló ráðuneyta og stjórnsýslustiga. Við þurfum að tryggja samþættingu ólíkra kerfa. Þannig að kerfin vinni betur fyrir fólkið sem þau eiga að halda utan um og þjónusta. Þetta á til dæmis við um heilbrigðis- og félagsþjónustu, eins og við erum núna að gera í verkefninu Gott að eldast þar sem við erum að nálgast þjónustu við eldra fólk með allt öðrum hætti en áður.
Og við þurfum líka áframhaldandi markvissa uppbygging heilbrigðiskerfisins með áherslu á sterka heilsugæslu um allt land. Þar þarf grunnþjónusta við íbúa að byggjast á þverfaglegum teymum heilbrigðisstétta, ekki bara áherslu á heimilislækni fyrir hvern og einn. Þá er það stórt hagsmunamál fyrir landsbyggðirnar að mörkuð verði skýr stefna um hvaða þjónusta sérgreinalækna eigi að teljast til nærþjónustu og síðan veita hana í öllum heilbrigðisumdæmum.
Kæru félagar. Varðstaða um velferðarkerfin og grunninnviðina eru hluti af hjartslætti okkar Vinstri grænna. Í gangi er sífelld ásókn gróðraafla í auðlindir, velferðarkerfið og menntakerfið og henni verðum við að veita kröftuga mótstöðu. Annars molnar undan þjónustu og velferð á Íslandi.
Og, hlustið nú vel:
Vinstri græn hafna frekari einkavæðingu í heilbrigðis- og velferðarkerfinu.
Vinstri græn hafna því að grunninnviðir eins og orkumannvirki, fjarskiptabúnaður og vegakerfi séu í eigu annarra en opinberra aðila. Og Vinstri græn hafna einkavæðingu í menntun.
Umræðan um menntamál undanfarið, þar sem Viðskiptaráð hefur beitt sér af þunga, bendir eindregið til þess að þar eygi menn gróðavon. Menntakerfið, þá sérstaklega grunnskólakerfið er talað skipulega niður, líka af Mogganum, gefið í skyn að það sé ónýtt, og óstjórn ríki. Það væri þá aldrei í þeim tilgangi að hvetja til einkavæðingar. Um væri að ræða feitan bita. Kæru félagar, það má ekki gerast.
Þessi orðræða er mjög ósanngjörn gagnvart kennurum. Við eigum frábæra kennara sem sinna starfi sínu af alúð og fagmennsku, og við eigum ekki að líða það umtal sem hefur verið um kennarastéttina, einn af máttarstólpunum í samfélaginu. Erum við ekki öll sammála um það?
Og, þá að efnahagsmálunum, kæru félagar.
Síðustu sjö ár höfum við sannarlega sett mark okkar á efnahagsstjórn landsins með það að leiðarljósi að draga úr ójöfnuði í samfélaginu.
Og nú kemur langa upptalningin.
Númer 1. Stóra breytingin var auðvitað að koma á þriggja þrepa skattkerfi með upptöku nýs lágtekjuþreps og tryggja að skattleysismörk gæfu ekki eftir með tímanum. Þessar breytingar þýddu á sínum tíma að flest fengu 70-120 þúsund króna meira í vasann á ári. Eðli málsins samkvæmt nýttist þetta lágtekjufólki hlutfallslega best.
Númer 2. Uppbygging almenna íbúðakerfisins. Frá árinu 2016 hafa verið veitt stofnframlög til rúmlega 3700 íbúða eða um 44 ma.kr. Þetta hefur VG lagt ríka áherslu á og ríkisstjórnin hefur þannig jafnt og þétt tryggt aukin stofnframlög og nú síðast skuldbundið sig fyrir eitt þúsund íbúðum árlega út þetta kjarasamningstímabil. Og hverjum nýtist þetta kerfi? Láglaunafólki á leigumarkaði.
Munar um þetta á húsnæðismarkaði? Já, heldur betur því, um einn þriðji nýbyggðra íbúða síðustu ár hefur verið byggður með stuðningi ríkisins í gegnum þetta kerfi. Ég þori því að fullyrða að uppbygging almenna íbúðakerfisins er án efa ein stærsta efnahagsaðgerðin síðustu ár.
Númer 3. Húsnæðisbætur til leigjenda hafa hækkað í áföngum, samtals um ríflega 50% á síðustu tveimur árum, og nú hefur húsnæðisbótakerfið jafnframt verið útvíkkað þannig að það nýtist enn betur stærri fjölskyldum. Breytingarnar nýtast lágtekjufólki á leigumarkaði.
Númer 4. Umbætur á barnabótakerfinu. Tekjuskerðingamörk voru færð upp í lægstu laun árið 2019, kerfið einfaldað í fyrra og enn var bætt í núna í ár. Þetta þýðir að mörg þúsund fjölskyldur hafa bæst í hóp þeirra sem fá stuðning, og heildarframlög ríkisins nær tvöfaldast. Og, aftur, breytingarnar nýtast sérstaklega lágtekju- og millitekjufólki.
Númer 5. Fæðingarorlof var lengt úr 9 mánuðum í 12 á fyrra kjörtímabili og jafnari skiptingu komið á milli foreldra en áður var. Stórt jafnréttismál. Og hámarksgreiðslur í kerfinu munu hækka í áföngum upp í 900 þúsund krónur á næstu tveimur árum.
Kæru félagar. Þessar breytingar allar hafa meira og minna verið gerðar í tengslum við gerð kjarasamninga og því hafa þær einnig stuðlað að stöðugleika á vinnumarkaði.
Ég gæti haldið áfram að telja upp í 10: Númer 6, númer 7 og númer 8: Hækkun fjármagnstekjuskatts, nýtt örorkulífeyriskerfi, ókeypis skólamáltíðir.
Kæru félagar, þetta er veganesti inn í næstu kosningar, að líta um öxl, og síðan fram á við.
Þessi skref fela nefnilega í sér raunverulegar félagslegar áherslur, réttlátari skattbyrði, sterkari tilfærslukerfi, og forgangsröðun í þágu tekjuminni hópa – og þar með jafnara samfélag. Og ég leyfi mér að spyrja: Hefði þetta verið svona ef VG hefði ekki verið í ríkisstjórn? Í mínum huga blasir svarið við: Svarið er NEI, þetta hefði ekki verið svona. Þessi góðu og mikilvægu mál hefðu ekki orðið að veruleika nema vegna VG.
Kæru félagar.
Ég er stoltur af öllu því ótalmarga sem VG hefur náð fram í þessari ríkisstjórn. Á sama tíma finn ég djúpstætt að það er hart í ári hjá mörgu fólki núna. Verðbólgan er þrálát, vextirnir sliga fólk og hækkun húsaleigu og matarverðs kemur við meginþorra landsmanna, en þó sérlega lágtekju- og millitekjufólk.
Það er augljóslega erfiðara að reka heimilið þegar afborganir stökkbreytast. Hækka, ekki um nokkra þúsund kalla, heldur tugi þúsunda eða hundruð á mánuði. Þetta getur augljóslega ekki gengið svona áfram. Hávaxtastefna heldur nefnilega fólki sem skuldar og fólki sem er á leigumarkaði í fjötrum og flytur fjármagn frá þeim sem eiga minna til þeirra sem eiga meira. Stærsta kjarabótin fyrir fólkið í landinu núna er því lækkun vaxta.
Það er þess vegna algert lykilatriði að halda áfram að styðja við lækkun verðbólgu. Hið jákvæða er að hún er sannarlega á niðurleið, og vaxtaákvörðun Seðlabankans nú fyrr í vikunni markar upphafið að lækkun stýrivaxta.
Kæru félagar.
Ég hef vikið að allnokkrum málum sem Katrín Jakobsdóttir fyrrum formaður okkar og forsætisráðherra hefur komið til leiðar, en langar að bæta við að hinar félagslegu umbætur í efnahagsmálum sem ég fór yfir hér að ofan sýna arfleið Katrínar. Fyrir það ber að þakka.
Aðrir ráðherrar okkar hafa líka staðið sig vel á þessu kjörtímabili. Svandís Svavarsdóttir hefur stýrt málaflokkum sínum af festu, bæði í matvælaráðuneytinu og nú í innviðaráðuneytinu.
Ég vil sérstaklega fagna endurnýjun samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og að áframhaldandi uppbygging Borgarlínu er tryggð. Og nú í október leggur Svandís síðan fram samgönguáætlun fyrir þingið sem verður eitt stærsta mál vetrarins og er afskaplega þýðingarmikið fyrir landið allt. Það er fagnaðarefni að Svandís geti sett VG áherslur inn í þessa mikilvægu áætlun.
Og nýi matvælaráðherrann okkar, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, verður með stór mál í þinginu í vetur sem tengjast sjávarútvegsmálum og eru afrakstur Auðlindarinnar okkar, stefnumótunar sem Svandís vann að í tíð sinni í ráðuneytinu. Þar skiptir mestu máli að auka gagnsæi í sjávarútvegi.
Mig langar líka að nefna að Bjarkey hefur gefið út fyrstu reglugerðina sem Ísland hefur átt um sjálfbæra landnýtingu. Hún markar tímamót í náttúruvernd og er engin tilviljun: VG hefur sett þetta mál á oddinn og látið þetta gerast. Mig langar sömuleiðis að nefna fyrstu landsáætlunina um útrýmingu sauðfjárriðu og aðgerðaáætlun um eflingu lífrænnar matvælaframleiðslu.
Það urðu líka frekari mannabreytingar hjá okkur í þingflokknum í vor þegar Eva Dögg Davíðsdóttir tók sæti á þingi í stað Katrínar. Við bjóðum Evu Dögg hjartanlega velkomna í hóp þingmanna hreyfingarinnar. Hóp þingmanna sem svo sannarlega stendur vaktina við Austurvöll.
Það gerir líka sveitarstjórnarfólkið okkar út um allt land. Og, það gerir hinn almenni félagi í Vinstri grænum. Við erum ekki bara rík af hugsjónum og góðri stefnu, heldur líka fólki. Þakkir til ykkar allra kæru vinir/kæra samstarfsfólk fyrir að standa vaktina.
Kæru félagar.
Það hefur verið heiður að gegna embætti formanns Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Varaformaður verður alltaf að vera tilbúinn að stíga upp og gegna starfi formanns og það hef ég gert eftir bestu getu, og notið mín í þessu hlutverki. Formennskan hefur þroskað mig sem stjórnmálamann, reynt á ýmsa vöðva líkama og hugar, og þroskað mig sem manneskju. Fyrir þá dýrmætu reynslu sem ég hef öðlast síðustu mánuði er ég afar þakklátur. Ég hef lagt mig fram um að eiga í góðu og nánu sambandi og samstarfi við stjórn hreyfingarinnar og auðvitað þingflokkinn, og aukið samtalið við grasrótina. Takk fyrir öll sömul. Þakklæti mitt er þó mest til ykkar, kæru félagar, fyrir allan stuðninginn sem ég hef fengið þessa síðustu mánuði frá ykkur, í gegnum ótal skilaboð og ótal símtöl. Það hefur verið algjörlega ómetanlegt.
Kæru félagar.
Landsfundur er vettvangurinn þar sem við ræðum stefnuna og stöðuna í stjórnmálunum. Ég veit að stjórnarsamstarfið liggur þungt á mörgum, og eðlilega. Eins og þið þekkið mæta vel var stofnað til þess í upphafi eftir að pólitískt gjörningaveður hafði gengið yfir þjóðina. Við svöruðum ákallinu um samstöðu ólíkra stjórnmálaafla og komum á stöðugleika. Síðan þá höfum við náð mörgum framfaramálum í gegn og mörgum baráttumálum okkar Vinstri grænna.
Aldrei áður í íslenskri stjórnmálasögu hefur þriggja flokka stjórn lifað heilt kjörtímabil og þaðan af síður þrjú ár í viðbót. En, kæru félagar, við erum ekki hér til að safna árum í ríkisstjórn, heldur til að hafa áhrif! Við í stjórn hreyfingarinnar töldum mikilvægt að landsfundarfulltrúar fengju tækifæri til að ræða sérstaklega stöðu VG eftir sjö ár í ríkisstjórn, nú í upphafi kosningavetrar, og það munum við gera í fyrramálið. Fyrir fundinum liggur jafnframt ályktun frá níu félögum um að horfa skuli til slita á ríkisstjórn. Hugur minn liggur til þess að við ræðum þessi mál í hreinskilni og á opinskáan hátt, eins og við Vinstri græn kunnum best.
Kæru félagar.
Munu þau þrjú stjórnmálaöfl sem mynda ríkisstjórnina öll vinna aftur saman eftir næstu kosningar?
Svarið er held ég flestum augljóst. Sjálfur vil ég að næsta ríkisstjórn verði sterk félagshyggjustjórn, mynduð frá miðju til vinstri – og með okkur innanborðs. Í slíkri stjórn er hægt að taka enn stærri skref en við höfum tekið í velferðar- og menntamálum og umhverfis- og náttúruverndarmálum. Ísland þarf á slíkri stjórn að halda og kannski aldrei meira en nú.
Breiðu bökin eiga að leggja meira til samfélagsins. Við eigum að hafa auðlegðarskatt. Þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt sem ver betur ævisparnað hjá venjulegu fólki en skattleggur auðmenn og gróðafyrirtæki. Sanngjörn auðlindagjöld hvort sem horft er til sjávarútvegs, fiskeldis eða ferðaþjónustu. Og, við eigum að nota fjármagnið til að byggja frekar upp í heilbrigðiskerfinu, draga enn frekar úr kostnaðarþátttöku, bæta áfram kjör öryrkja og þeirra í hópi eldra fólks sem höllustum fæti standa, styðja við flóttafólk og íslenskunám innflytjenda, ekki síst í skólunum, og efna fögur orð um að fjármögnun háskólastigsins nái ekki bara OECD-viðmiðum heldur líka háskólum á hinum Norðurlöndunum.
Ný félagshyggjustjórn þarf að setja húsnæðismálin í öndvegi líkt og VG hefur lagt áherslu á og ríkisstjórnin hefur, þökk sé okkur, gert í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Ný stjórn þarf að halda áfram að byggja upp leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði og koma á leigumarkaði sem virkar fyrir fólk en ekki fjármagn.
Við eigum að auka aðgerðir okkar í loftslagsmálum. Og, kæru félagar, við eigum svo sannarlega að klára Hálendisþjóðgarð, nema hvað. Þar getur Ísland brotið blað og við eigum að hugsa stórt.
Um þessi atriði öll á að vera hægt að ná saman um í félagshyggjustjórn og í slíkri stjórn værum það við sem myndum færa stjórnina nær vinstrinu og fjær hægrinu, færa hana nær grænum gildum og fjær hinum gráu, nær kvenfrelsi og nær friðarhyggju. Við eigum mikið inni kæru félagar, en við eigum líka langan veg fyrir höndum að öðlast aukið traust og trú fólks á okkur og því sem við stöndum fyrir.
Við viljum samfélag sem er fyrir fólk, ekki fjármagn. Við viljum samfélag sem verndar náttúruna og fórnar henni ekki fyrir skammtímagróða. Við viljum samfélag sem rúmar okkur öll, líka fatlað fólk, innflytjendur og hinsegin fólk. Við viljum samfélag án ofbeldis, án kynbundins ofbeldis og án launamunar kynjanna. Og, við stöndum gegn einkavæðingu innviða og einkavæðingu velferðar- og menntakerfis. Og við höfnum hugmyndafræði hægri öfgahyggju og öllu sem henni fylgir.
Kæru félagar. Ég hlakka til helgarinnar með ykkur. Notum tímann til að þétta raðirnar. Látum verkin tala. Og verum tilbúin til að einhenda okkur í framhaldið. Saman.