PO
EN
Search
Close this search box.

Ræða: Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Deildu 

Virðilegi forseti, kæru landsmenn!

Í viðbrögðum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur við kórónuveirufaraldrinum hefur verið lögð áhersla á réttindi og hag launþega. Áhersla á jafnréttissjónarmið. Áhersla á nýsköpun, menntaúrræði og geðheilbrigðismál. Og áhersla á loftslagsmál, náttúruvernd og greiðari samgöngur. Við horfum þannig bæði til skemmri og lengri tíma í aðgerðum okkar.

Viðspyrna ríkisstjórnarinnar er með grænum áherslum og stuðlar að grænni umbyltingu. Í reynd flýtir hún því – og bætir við – það sem þegar var hafið áður en kórónuveiran reið yfir, því það má með sanni segja að rík áhersla hefur verið á umhverfis- og náttúruvernd í tíð þessarar ríkisstjórnar. Sé litið til fjárframlaga til málaflokksins, þá hafa þau aukist um 47% milli áranna  2017 og 2021, eins og fram kemur í fjármálaáætlun.

Virðulegi forseti

Í loftslagsmálum gildir að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga. Í júní síðastliðnum kynnti ég ásamt formönnum stjórnarflokkanna metnaðarfyllstu aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem við Íslendingar höfum eignast, en hún sýnir að Ísland mun ná meiri árangri árið 2030 en alþjóðlegar skuldbindingar okkar krefjast af okkur.

Nýútkomnar bráðabirgðatölur Umhverfisstofnunar sýna að samdráttur hafi orðið í losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum í fyrsta skipti í fyrra síðan árið 2014. Aldrei hafa fleiri nýtt sér vistvæna samgöngumáta með rafbílum, reiðhjólum, rafhjólum og rafhlaupahjólum. Aldrei hefur hlutdeild hreinorkubíla verið hærra í nýskráningum.

En við erum líka að stíga mikilvæg skref í öðrum geirum loftslagsmála, meðal annars í úrgangsmálum, með stóraukinni landgræðslu og skógrækt, í sjávarútvegi og landbúnaði, með meiri nýsköpun, aukinni grænmetisframleiðslu og með Borgarlínunni.Og nú í þessari viku kynnti ríkisstjórnin áform um skattaafslætti til grænna fjárfestinga sem er afar farsælt skref fyrir framtíðina.

Niðurstaðan er: Viðsnúningur hefur orðið í loftslagsmálum á þessu kjörtímabili sem skapar rými og getu til að takast á hendur enn frekari skuldbindingar í loftslagsmálum.

Góðir landsmenn

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur lagt feykilega áherslu á nýsköpun og eflingu grunnrannsókna. Suma hluti þarf hreinlega að hugsa upp á nýtt – leita nýrra leiða og tækifæra. Ég tel til dæmis að mikil sóknarfæri felist í samþættingu umhverfismála og landbúnaðarmála og bind vonir við að verkefni sem nú eru í þróun og lúta að loftslagsmálum, náttúruvernd og landbúnaði, geti orðið fyrirmynd að breyttu stuðningskerfi í landbúnaði þar sem stuðningurinn yrði í mun meira mæli tengdur við góðan árangur bænda í umhverfismálum.

Virðulegi forseti

Á þessu kjörtímabili hef ég lagt ríka áherslu á að fjölga friðlýstum svæðum á Íslandi. Nú hafa mikilvæg svæði eins og Geysir, Goðafoss og Kerlingarfjöll verið friðlýst. Það er þjóðhagslega hagkvæmt.

Við undirbúning stofnunar Hálendisþjóðgarðs hef ég á undanförnu ári átt mörg og mikilvæg samtöl við fjölda fólks um áformin. Allt þetta fólk á það sammerkt að unna hálendinu og vilja taka þátt í skipan mála á svæðinu. Í því felast mikil verðmæti.

Með Hálendisþjóðgarði fáum við tækifæri til þess að vernda ein stærstu óbyggðu víðerni Evrópu og ómetanlegt landslag. Fyrir komandi kynslóðir.

Hálendisþjóðgarður felur líka í sér fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni og uppbyggingu í móttöku og fræðslu til ferðamanna.

Hálendisþjóðgarður mun skapa ferðaþjónustu á Íslandi mikil sóknarfæri í markaðssetningu erlendis sem stærsti þjóðgarður Evrópu og gæti orðið einn af hornsteinum þess að reisa atvinnugreinina aftur við eftir kórónuveiruna.

Nú hillir undir að þetta stærsta náttúruverndarverkefni Íslandssögunnar komi fyrir Alþingi.

Góðir landsmenn

Kórónuveiran hefur sýnt okkur hvað tilvera okkar allra er samtvinnuð. Ekki bara okkar hér á Íslandi heldur heimsbyggðarinnar allrar. Sama gildir í umhverfis- og loftslagsmálum. En kórónuveiran hefur líka sýnt okkur hvers við erum megnug þegar við leggjumst öll á eitt. Og af því skulum við læra. Góðar stundir.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search