PO
EN

Ræða Guðrúnar Ágústsdóttur á fundi UN Women

Deildu 

Ráðherra, komið öll sæl

Hugmyndin að kvennafrídeginum kom frá Rauðsokkahreyfingunni. Tilgangurinn var að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna til atvinnulífsins og samfélagsins alls. Við þekkjum öll hvernig til tókst. 90% íslenskra kvenna tóku þátt og samfélagið fór á hvolf. Hjól atvinnulífsins stöðvuðust – skólar voru lokaðar – skrifstofur, verslanir, frystihúsin, pylsur seldust upp af því að pabbar samfélagsins voru ekki allir flottir kokkar og kannski var ekki hægt að panta pizzu.

Börnin fengu að fara með pabba í vinnuna og líklega var tími til kominn. Og íslenskar konur áttu daginn og trúðu vart sínum eigin augum þegar þessi stærsti útifundur sögunnar hér á landi var orðinn að raunveruleika. Viðburðurinn komst í heimsfréttirnar og er enn fréttaefni víða um heim. Kvikmynd um kvennafrídaginn sem þær Pamela Hogan grammý verðlaunahafi frá ónefndu landi og hún Hrafnhildur Gunnarsdóttir bera ábyrgð á fer nú sigurför um heiminn.

Við hér heima gerðum okkur ekki almennilega grein fyrir því að hér var um heimsviðburð að ræða fyrr en seinna og það er enn að koma á óvart. 24. október n.k. eru 50 ár liðin frá þessum merka degi þegar konur komu gangandi niður á Lækjartorg, alls staðar að, með þeim afleiðingum að í hönd fór alda vitundarvakningar og aukinnar meðvitundar um stöðu kvenna í landinu. Aldrei aftur var hægt að halda launum konu niðri með þeim rökum að hún skipti ekki máli; karlar væru fyrirvinnur heimilanna og konurnar næðu sér í smá vasapening með stopulli útivinnu sinni.

Rauðsokkahreyfingin varð til vorið 1970 þegar konur sameinuðust á rauðum sokkum á Hlemmi og tóku þátt í 1. maí göngu verkalýðshreyfingarinnar. Þær héldu á stórri styttu af Venusi, sem hafði verið leikmunur í MR leikriti. Fyrir náð og miskunn fengum við að vera aftast í röðinni en vorum ekkert sérstaklega velkomnar þar, Slagorðin þá voru „Manneskja ekki markaðsvara“, „Konur nýtið mannréttindi ykkar“, „Vaknaðu kona“.

Sumarið fór svo í að undirbúa baráttuna og liði var safnað og svo var haldið af stað með brauki og bramli. Við ætluðum ekkert endilega að vera stilltar og prúðar já eða auðsveipar – við notuðum nýstárlegar aðferðir við að koma málstaðnum á framfæri. Við þóttum frekar og uppreisnargjarnar og mættum stundum harðri mótstöðu, en við héldum ótrauðar áfram.

Við gáfum út blöð og vorum með 10 útvarpsþætti, fórum með kvígu sem varð okkar fegurðardrottning og stóðum fyrir utan félagsheimilið þar sem fegurðarsamkeppni átti að fara fram. Við vildum að konur væru metnar út frá verðleikum sínum en ekki mittismáli og öðru útliti. Það þurfti að beita nýjum og ferskum aðferðum til að fá fólk til að sjá og viðurkenna óþolandi ástand í stöðu og réttindum kvenna.

Gangan 1. maí 1970 var tákn um samstöðu og baráttuvilja og þar var fetað í fótspor kvenna einkum í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku sem börðust gegn misrétti bæði kvenna og annarra kúgaðra hópa. Konur hér fylgdust með alþjóðlegu baráttunni með lestri bóka, tímarita og blaða. Hér á Íslandi hafði ein kona verið skipuð prófessor, Fyrsta konan var nýsest í ráðherrastól, ein kona var á Alþingi í hópi 60 þingmanna, um þriðjungur giftra kvenna var í vinnu utan heimilis og 45% ef þeim sem höfðu einhverjar tekjur árlega var bætt við. 10% kvenna luku stúdentsprófi og 17% karla. Konur voru um 15% þeirra sem luku háskólaprófi.

Þungunarrof var nánast bannað. Það var ekki auðvelt að komast í gegnum nálarauga neikvæðra lækna, þegar sótt var um. Dagheimili/Leikskólar voru eingöngu fyrir börn einstæðra og námsmanna og fleira mætti telja. En þá kom hugmyndin um kvennaverkfall 1975 fram – kviknaði fljótlega hjá fleiri en einni rauðsokku og til þess að ná samstöðu með öllum konum hvar í flokki sem þær stóðu og hver sem þeirra lífsviðhorf voru þurfti, á stórum fundi í Reykjavík, að breyta einu orði í tillögunni til að hún yrði samþykkt. En fundir voru haldnir um allt land.

Verkfall varð frí. Kvennafrí. Sú samstað sem þarna myndaðist er einstök og ég er ekki viss um að slíkt hefði getað gerst í öðrum löndum. Síðan hafa íslenskar konur oftar en einu sinni myndað samstöðu sem hefur breytt aðstöðu kvenna nú síðast á alþingi 2019 þegar konur fengu loksins réttinn til að ráða yfir eigin líkama. Það var stór samstöðustund.

Árangurinn af starfi Rauðsokkahreyfingarinnar, kvennafríinu og kvennabaráttunni varð vitundarvakning. Í kjölfarið komu ýmiss mikilvæg réttindi – fæðingarorlof allra kvenna á vinnumarkaði, aukin menntun kvenna, , og ný lög um fóstureyðingar 1975, leikskólar og lengi mætti telja. Kvennaathvarf, Kvennaframboð, Samtök um kvennalista, bylting í þátttöku kvenna í stjórnmálum Stígamót. En vænst þótti mér og fleirum um kjör Vigdísar fimm árum eftir kvennafrídaginn, ekki síst þar sem hún taldi sjálf að kvennafríið hefði skipt miklu máli um sigur hennar.

En erum við þá ekki bara ánægðar kerlingar nú fimmtíu árum síðar. Nei. Baráttunni lýkur aldrei. Enn eru konur beittar ofbeldi sem getur leitt þær til dauða og þær sem lifa af búa gjarnan við óbærilegar aðstæður í stöðugum ótta við gerendur sína sem sjaldnast hljóta dóma fyrir glæpsamlegt athæfi sitt. Og munum: börn á ofbeldisheimilum vita alltaf af ofbeldinu og skaðast líka.

Konur af erlendum uppruna eiga oft erfitt uppdráttar og það virðist freistandi að notfæra sér oft erfiða stöðu þeirra til að misnota vinnuframlag þeirra og hafa af þeim umsamin laun.Við eigum að sýna samstöðu með þessum konum. Við erum sérfræðingar í samstöðu. Síðast en ekki síst þá þurfum við að horfa út fyrir landsteinana og taka þátt í baráttu fyrir konum víða um heim sem nú er búið og verið er að svipta ýmiss konar réttindum þeirra. Þar er ástandið ískyggilegt.

Þess vegna eigum við að halda upp á 50 ára afmæli þessa merka dags með því að standa með kúguðum konum um allan heim, Mikið væri nú gaman ef hægt væri að ganga með Venusarstyttu í 1. maí göngunni eftir tæpa tvo mánuði. Ekki aftast. Heldur fremst.

Gleðilegan alþjóðlegan baráttudag kvenna kæru systur.

Guðrún Ágústsdóttir, fyrrverandi forseti borgarstjórnar
Ræða á fundi UN Women í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll 8. mars 2025

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.