Kæru félagar,
Það má með sanni segja að frá því á síðasta flokksráðsfundi hafi margt gerst í hreyfingunni okkar. Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði af sér formennsku 5. apríl síðastliðinn eftir að hafa verið í forystusveit hreyfingarinnar í yfir tuttugu ár, þar af rúm tíu ár sem formaður. Katrín hefur borið af sem leiðtogi í erfiðum aðstæðum og staðið í fremstu víglínu fyrir málefni sem okkur öllum eru kær. Hún hefur verið fyrirmynd í baráttu fyrir réttlæti, jöfnuði, umhverfisvernd og kvenfrelsi, og við skuldum henni miklar þakkir fyrir þann eldmóð og þá staðfestu sem hún hefur sýnt. Við þökkum henni óeigingjarnt starf í þágu hreyfingarinnar og landsins alls, um leið og við óskum henni velfarnaðar.
Í kjölfar þessara breytinga er Guðmundur Ingi Guðbrandsson starfandi formaður hreyfingarinnar og sú sem hér stendur, áður kjörin ritari, starfandi varaformaður. Þá urðu róteringar á ráðherrastólum þegar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir tók við embætti Matvælaráðherra og Svandís Svavarsdóttir færði sig yfir í innviðaráðuneytið.Einnig bættist Eva Dögg Davíðsdóttir í okkar góða þingmannahóp. Við óskum þeim öllum velfarnaðar í nýjum hlutverkum.
Kæru félagar,
Á fundinum í dag ætlum við skoða ræturnar og horfa til framtíðar, ég verð þó að fá að nefna mikilvæg mál sem fóru í gegn við síðustu þinglok. Tímamóta frumvarp Guðmundar Inga um endurskoðun örorkulífeyriskerfisins var samþykkt, þar voru gerðar langþráðar kerfisbreytingar og 19 milljörðum króna verður veitt til viðbótar við kerfið. Af þessu getum við verið stolt. Ísland eignaðist loksins Mannréttindastofnun og stendur þá við alþjóðlegar skuldbindingar, stofnun Mannréttindastofnunar er líka lykilatriði í lögfestingu Samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Heita kartaflan í mötuneytum grunnskóla landsins er loksins orðin endurgjaldslaus fyrir foreldra, sumum finnst það hið hræðilegasta mál. En við í VG erum ánægð með að sérstakt baráttumál okkar um gjaldfrjálsar skólamáltíðir sé orðið að veruleika og öll börn í grunnskólum landsins eigi kost á næringaríkri, endurgjaldslausri máltíð á skólatíma. Ýmis fleiri mál í tengslum við kjarasamninga komust í gegnum þingið eins og t.d. hækkun fæðingarorlofsgreiðslna og húsnæðisbóta og sérstakur vaxtastuðningur. Þessar stuðningsaðgerðir skiptu sköpum til að hægt væri að ljúka langtímasamningum á vinnumarkaði að mati verkalýðshreyfingarinnar. Það er magnað að sjá hvaða breytingum er hægt að ná fram þegar umbótaöfl í samfélaginu vinna saman. Nú er hluti opinbera markaðarins búin að semja með svipuðum hætti og hinn almenni. Þá er nauðsynlegt að sveitarfélögin fylgi eftir sínum hluta er varðar kjarasamningana meðal annars loforðum um hóflegar gjaldskrárhækkanir.
En kæru félagar, þó svo að ég standi hér og telji upp mörg góð mál sem farið hafa í gegn frá því að við hittumst síðast, þá breytir það ekki þeirri staðreynd að í skoðunarkönnunum mælumst við utan þings. Það gerðist ekki yfir nótt. Fylgið hefur sigið hægt niður á við frá því í upphafi kjörtímabils og í raun frá kosningum 2017. Það er líkast til margt sem hefur áhrif á það, en eitt er víst að grunnstoðir Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs eiga jafn mikið við, ef ekki meira, í dag og þegar hreyfingin var stofnuð árið 1999.
Þetta getur verið áhyggjuefni, en einnig tækifæri til sjálfsskoðunar og endurmats. Við verðum að spyrja okkur:
· Hvað veldur því að við erum ekki að ná til fólksins eins og við viljum?
· Hvar getum við bætt okkur?
· Og hvernig getum við tryggt að stefna okkar endurspegli þá þætti sem landsmenn meta og óska eftir?
Ég trúi því að stefna okkar sé sterk og réttsýn. Við höfum alltaf barist fyrir réttlæti, jöfnuði, umhverfisvernd og mannréttindum – gildi sem eru ekki aðeins mikilvæg, heldur nauðsynleg fyrir framtíð okkar allra.
Við þurfum að skoða hvernig við getum betur miðlað þessum gildum og tryggt að fólk skilji að við erum hreyfing sem á erindi við hvern einasta íbúa landsins.
Í umræðu um fylgi hreyfingarinnar hefur mikið verið rætt um samtal flokksforystunnar við grasrótina og jafnvel látið í veðri vaka að VG verði að gera betur, gera betur til að hlusta eftir röddum félagsfólks. En munum samt að fáir flokkar hafa jafn langa hefð fyrir beinum áhrifum starfandi félagsfólks á stefnu síns flokks.
Kæru félagar, það má þó ekki gleymast að við eigum ekki einungis kjörna fulltrúa á Alþingi, heldur einnig í sveitarstjórnum víða um land. Fulltrúa sem vinna daglega að vinstri grænum málum í nærsamfélaginu.
Sveitarstjórnir eru það stjórnsýslustig sem stendur næst fólki í daglegu lífi. Þar eru ákvarðanir teknar sem hafa bein áhrif á nærumhverfi fólks, á sviðum menntunnar, félagsþjónustu, skipulagsmála og umhverfismála. Með sterkari stöðu VG á sveitarstjórnarstiginu getur flokkurinn einnig skapað sterkari tengingu milli flokksins og kjósenda, um leið virkjað grasrótarstarf.
Ég tel að við eigum mikið inni á sveitarstjórnarstiginu, við eigum nokkra fulltrúa í sveitarstjórnum víða um land en eins og staðan er í dag eigum við einungis einn fulltrúa í meirihluta sveitarstjórnar. Stjórnmál eiga sér stað á sveitarstjórnarstiginu, skipulagsmál skipta til dæmis sköpum þegar kemur að umhverfis- og loftslagsmálum og tækifæri til aukins jöfnuðar má finna í skólakerfinu líkt og við höfum séð skýrt í umræðunni varðandi kjarasamninga. Félagsþjónusta og menntamál eru tveir lykilþættir í stefnu VG, með því að hafa áhrif á þessum sviðum getur VG stuðlað að auknum jöfnuði og tryggt að félagsleg úrræði séu aðgengileg fyrir alla, sérstaklega þá sem eru í viðkvæmri stöðu. Þannig sköpum við réttlátara samfélag fyrir alla. Á sveitarstjórnarstiginu má innleiða umhverfisvænar lausnir og þróa sjálfbær samfélög. Með þátttöku VG á þessum sviðum getur hugmyndafræði flokksins birst kjósendum í raunverulegum aðgerðum við raunverulegar aðstæður, hvort sem það er með orkuskiptum, skipulagsmálum eða verndun náttúruauðlinda.
Eins og við vitum þá er starfandi sveitarstjórnarráð innan VG sem er samstarfsvettvangur kjörinna fulltrúa hreyfingarinnar í sveitarstjórnum og er öðrum stofnunum til ráðuneytis um sveitarstjórnarmál. Ég vil vekja athygli á því að samkvæmt lögum hreyfingarinnar er fulltrúm í flokksráði heimilt að sitja fundi sveitarstjórnarráðs með málfrelsi og tillögurétt þótt þeir séu ekki fulltrúar í sveitarstjórn. Það er ástæða til þess að hvetja til slíkrar þátttöku.
Sveitarstjórnarstigið er ekki aðeins vettvangur til að framkvæma stefnu VG heldur einnig grundvöllur til að styrkja tengsl við kjósendur, þróa nýjar hugmyndir og efla styrk hreyfingarinnar. Þannig getur VG áfram verið kraftmikið umbótarafl í íslenskum stjórnmálum bæði á sveitarstjórnarstigi og á landsvísu.
En kæru félagar
Á dagskrá fundarins í dag er rými gefið til að ræða málefnin. Aftur í ræturnar er yfirskrift málefnastarfsins og gefst fólki kostur á að taka þátt í í það minnsta tveimur fastanefndum á fundinum. Til að brýna okkur höfum við fengið áhrifafólk úr samfélaginu til að flytja nokkur örerindi og veita innblástur inn í málefnavinnuna. Ég minni á að fastanefndir eru starfandi milli funda og allir skráðir félagar hvattir til að taka þátt. Skráningar í málefnahópa fara fram á heimasíðu hreyfingarinnar, vg.is.
Eigum gott samtal um málefni líðandi stundar, framtíðarsýn hreyfingarinnar og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Það er hverri stjórnmálahreyfingu nauðsyn að hittast í eigin persónu endrum og sinnum og efla félagsandann.
Kæru félagar.
Ég vil að lokum þakka skrifstofunni fyrir undirbúning og skipulag fundarins. Einnig vil ég þakka Gústa okkar fyrir störf sín á skrifstofunni en hann er að flytja sig yfir til að starfa fyrir þingflokkinn. Inni á skrifstofu kemur til starfa Sunna Valgerðardóttir sem áður starfaði fyrir þingflokkinn, bjóðum hana velkomna til starfa.
Hér með er flokksráðsfundur settur.