Search
Close this search box.

Ræða Katrínar á flokksráðsfundi á Ísafirði

Deildu 

Kæru félagar!

Af hverju tökum við hér inni þátt í stjórnmálum?

Forsendurnar eru eflaust jafn margar og við erum mörg. Einn myndi nefna réttlátara skattkerfi, önnur myndi segja að hún vildi útrýma fátækt. Sú þriðja myndi vilja berjast fyrir opinberu heilbrigðiskerfi til að tryggja jafnan rétt allra til heilbrigðisþjónustu, fjórði myndi nefna öflugt opinbert skólakerfi sem veitir öllum tækifæri til að blómstra á eigin forsendum og sá fimmti myndi nefna loftslagsvána og mikilvægi þess að við drögum úr losun og bindum meira kolefni. Enn einn myndi nefna mikilvægi náttúruverndar, og einhver myndi örugglega nefna rétt kvenna til að ráða yfir eigin líkama og njóta öryggis í samfélaginu. Og – já ég get haldið endalaust áfram – en já, einhver myndi nefna að það skipti máli að samfélagsumræða fari fram út frá fleiri þáttum en einungis efnahagslegum – til dæmis félagslegum, menningarlegum og umhverfislegum.

Það eru margar ástæður og miklu fleiri en ég hef nefnt. En heildarsýnin er það sem sameinar okkur. Heildarsýn um réttlátt samfélag – sjálfbært samfélag. Og slíkt samfélag verður ekki til nema með öllu því sem ég hef nefnt og raunar miklu fleiru. Slíkt samfélag er ástæðan fyrir því að við förum á Ísafjörð, mætum á fundi, tökum þátt í málefnahópum, mætum í vinnuna – við sem erum kjörnir fulltrúar og störfum fyrir hreyfinguna, að við förum fram úr á morgnana og höldum áfram okkar baráttu fyrir réttlátara samfélagi.

Og það er ekki eins og vegferðin sé alltaf einföld eða allt sem við gerum sé endilega rétt. En þessi heildarsýn er ástæðan fyrir að við tökum þátt, tölum við fólkið í landinu og berjumst fyrir málum á þingi, í sveitarstjórnum, á samfélagsmiðlum og á kaffistofunni. Vegna þess að við viljum réttlátt samfélag fyrir okkur öll og næstu kynslóðir – þar sem við öll fáum að njóta okkar, þar sem við öll fáum að vera við sjálf.

Kæru félagar.

Vegferðin er ekki alltaf einföld, sagði ég. Nú eða auðveld! Og eitt hef ég lært á undanförnum fimm árum. Þau mál sem enda á borði forsætisráðherra eru iðulega málin sem enginn hefur leyst í kerfinu. Og forsætisráðherrann sendir þau ekki neitt áfram. Skrifborðið mitt er endastöðin. Þannig að oft geta þessi mál verið flókin úrlausnar. Stundum eru þessi mál ekki mörg og stundum eru þau smá. Stundum eru þau risavaxin og geta haft áhrif á samfélagið allt. Í tveggja ára glímu við heimsfaraldur voru þau nánast alltaf stór og lausnirnar yfirleitt ekki augljósar. En þegar litið er á reynsluna – bæði af sóttvarnaráðstöfunum og efnahagsaðgerðum – held ég að ákvarðanirnar hafi heilt yfir reynst réttar og farsælar fyrir íslenskan almenning.  Þó að þær hafi verið farsælar ætla ég að leyfa mér að segja að þær voru ekki alltaf einfaldar.

Ég ætla ekki að dvelja við mikilvægi þess að hafa vísindi og þekkingu að leiðarljósi við ákvarðanatöku í heimsfaraldri – en minni á að hið sama á við á öllum tímum. Það skiptir máli að við byggjum okkar ákvarðanir á bestu mögulegu þekkingu – ekki kreddum sem byggja á einfaldri svart-hvítri heimssýn. Þar með er ég ekki að segja að þessar aðgerðir hafi orðið til í pólitísku tómarúmi – þvert á móti. Þær voru ákveðnar með almannahagsmuni að leiðarljósi og þá skýru sýn að vernda líf og heilsu og tryggja afkomu almennings og hamingju.

Reynslan sýnir okkur hversu árangursríkt það var að beita ríkisfjármálunum til að verja störf og tryggja afkomu heimila og fyrirtækja. Þetta sjáum við meðal annars í því að störfum hefur fjölgað og atvinnuleysi minnkar hratt, kaupmáttur hefur  styrkst á undanförnum árum, skuldastaðan er góð og fjárhagserfiðleikar og vanskil hafa til þessa ekki aukist.

Vegna vel heppnaðra aðgerða stjórnvalda var atvinnulífið allt í stakk búið til að taka hratt og örugglega við sér þegar sóttvarnaráðstafanir voru felldar niður og nýleg þjóðhagsspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir að hagvöxtur í ár verði ríflega 5%. Viðspyrna ferðaþjónustunnar hefur verið öflug og verulegur stígandi hefur verið í komum erlendra ferðamanna það sem af er ári. Útlit er fyrir að komur erlendra ferðamanna í ár fari fram úr bjartsýnustu spám.

En þó að við séum um margt í góðri stöðu og vel í stakk búin til þess að takast á við nýjar áskoranir þá geta þær verið ansi stórar. Innrás Rússa í Úkraínu í vor hefur haft víðtæk efnahagsleg áhrif um allan heim og þau áþreifanlegustu eru hækkun á orkuverði. Aðfangakeðjur heimsins eru enn ekki komnar í fyrra horf eftir faraldur og stríðið hefur orðið til að tefja enn fyrir.  Þessi staða veldur því að verðbólga plagar nú samfélög vestan hafs og austan og hafa viðlíka verðbólgutölur ekki sést í lengri tíð.

Við þessar aðstæður skiptir máli að stjórnvöld og Seðlabankinn séu samstillt og ríkisfjármálin og peningamálastefnan vinni í sömu átt til að auka ekki frekar á vandann. Það skiptir máli að stuðningur stjórnvalda beinist að þeim sem finna mest fyrir áhrifum stöðunnar nú og eiga erfiðast með að mæta henni.

Stjórnvöld brugðust strax í vor við aukinni dýrtíð með því að grípa til markvissra aðgerða til að verja hin tekjulægstu. Greiðslur almannatrygginga voru hækkaðar á miðju ári til að verja kaupmátt þeirra hópa sem reiða sig á þær, húsnæðisstuðningur hækkaður og barnabótaauki greiddur út.

Á vettvangi þjóðhagsráðs hefur verið unnin veruleg vinna til að skýra hvað stjórnvöld geta gert til bæta lífskjör almennings á þessum tímum. Þar ber húsnæðismálin hæst en við sjáum skýr merki um jákvæð áhrif af þeim félagslegu aðgerðum á sviði húsnæðismála sem ráðist hefur verið í á undanförnum árum m.a. verulegri fjölgun almennra íbúða sem auka húsnæðisöryggi og tryggja tekjulægri heimilum hóflegan húsnæðiskostnað.

Frá því lög um almennar íbúðir tóku gildi hafa verið veitt stofnframlög frá ríki og sveitarfélögum til ríflega 3.000 íbúða sem eru um 9% af áætluðum fjölda leiguíbúða í landinu. Þar af hafa ríflega 1.650 íbúðir þegar verið teknar í notkun og áætlað er að á þessu ári verði 6-700 íbúðir teknar í notkun.

Raunar er það svo að þó staðan hafi verið erfið á húsnæðismarkaði undanfarin misseri vegna mikillar eftirspurnar og uppsafnaðs vanda, þá hefur sjaldan verið byggt jafn mikið af nýju húsnæði og á undanförnum árum og þriðjungur alls þessa húsnæðis var byggt með opinberum stuðningi.

Sérstakur átakshópur þjóðhagsráðs lagði í vor fram ítarlegar tillögur að umbótum í húsnæðismálum en þar var lögð áhersla á aukið framboð á íbúðarhúsnæði, aukið húsnæðisöryggi, ekki síst þeirra sem eru á leigumarkaði, og endurbættan húsnæðisstuðning.

Mikilvægur áfangi var undirritun rammasamnings um húsnæðisuppbyggingu til næstu 10 ára en þetta samkomulag er nýlunda og snýst um að ríki og sveitarfélög leggi sameiginlega sitt af mörkum til að tryggja nægjanlegt framboð á húsnæði. Markmið samkomulagsins er að byggja 35.000 íbúðir fram til ársins 2032 til að mæta íbúðaþörf en lögð verður sérstök áhersla á að tryggja þarfir ólíkra hópa með uppbyggingu hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði sem verði að jafnaði um 30% nýrra íbúða.

Þessar aðgerðir sem ég taldi upp munu ekki aðeins auka húsnæðisöryggi heldur einnig draga úr sveiflum á húsnæðismarkaði en húsnæðisverð er einn af þeim þáttum sem oft og tíðum hefur ýtt undir óstöðugleika í verðlagsmálum hér á landi. Þess vegna forgöngsröðum við húsnæðismálunum á þessu kjörtímabili eins og á því síðasta – aukum þannig lífsgæði fólks og tryggjum meiri jöfnuð, bæði í upp- og niðursveiflum efnahagslífsins.

Kæru félagar.

Við Vinstri-græn munum beita okkur fyrir áframhaldandi umbótum á húsnæðismarkaði og uppbyggingu á félagslegum lausnum í húsnæðismálum.

Við munum áfram beita okkur fyrir betra barnabótakerfi en á síðasta kjörtímabili drógum við úr tekjuskerðingum og tryggðum að skerðingamörk hækkuðu til samræmis við hækkun lægstu launa. Barnafjölskyldum sem fá barnabætur hefur fjölgað um ríflega 3.100 frá árinu 2018 og útgreiddur stuðningur aukist um ríflega 3,5 milljarða króna á verðlagi hvers árs. Við munum á þessu kjörtímabili halda áfram endurskoðun á þessu mikilvæga kerfi.

Við munum ná fram löngu tímabærum umbótum á almannatryggingakerfinu og bæta þannig kjör öryrkja eins og við höfum beitt okkur fyrir á undanförnum árum. Mikið starf er nú hafið við endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu sem byggir á þeirri hugmyndafræði að bæta bæði lífskjör og lífgæði fólks með skerta starfsgetu.

Og við munum áfram vinna að réttlátara skattkerfi – á síðasta kjörtímabili tókum við upp þrepaskipt skattkerfi,  fjármagnstekjuskattur var hækkaður og við stöðvuðum það óheillafyrirkomulag að hinir ríku bæru sífellt minni skattbyrði og hinir tekjulægstu sífellt meiri skattbyrði.

Nú er kominn tími til að breyta skattlagningu þeirra sem fyrst og fremst hafa fjármagnstekjur og tryggja að þau greiði sanngjarnan hlut í útsvar til sveitarfélaganna til að fjármagna þau mikilvægu verkefni sem þau sinna ekki síst í félags- og velferðarþjónustu.  Um það hefur verið talað í tuttugu ár en nú er kominn tími aðgerða.

Í vetur eru kjarasamningar lausir. Mörg þeirra réttlætismála sem við Vinstri-græn vinnum að eigum við sameiginleg með verkalýðshreyfingunni. Munum það samt líka að það eru fulltrúar launafólks og atvinnurekenda sem sitja við samningaborðið en ekki stjórnvalda. Ég hef fulla trú á því að þessir aðilar nái góðum samningum í vetur fyrir íslenskt samfélag og almenning allan.

Og þá er mikilvægt að tala ekki að tala niður kröfur launafólks um bætt kaup og kjör og kalla eftir ábyrgð um leið og launahæstu forstjórar landsins, sem hafa margföld mánaðarlaun venjulegs fólk, fá launahækkanir sem einar nema kannski hundruð þúsunda á mánuði ásamt mögulegum kaupréttum og háum arðgreiðslum til eigenda fyrirtækjanna í landinu.

Hér má t.d. taka dæmi af forstjórum tveggja stærstu fyrirtækjanna á dagvörumarkaði sem höfðu í fyrra mánaðarlaun sem nema 15-16 földum lágmarkslaunum á vinnumarkaði (5,4-5,6 m) og launahækkun ársins nam ein og sér einum og hálfum til tvennum lágmarkslaunum (480-740 þús) – á tímum þar sem launafólk er beðið að sýna hófsemd í kröfum sínum.

Í þeirri snúnu stöðu sem við erum öll í er einfaldlega ekki boðlegt að ganga fram með þessum hætti heldur hljótum við öll að gera þá kröfu að atvinnurekendur sýni hófsemd í eigin kjörum og tali af ábyrgð.

Sú krafa hefur í áranna rás skilað okkur því að Ísland er meðal allra fremstu ríkja innan OECD-ríkja þegar kemur að tekjujöfnuði. Við ætlum ekki að glata þeirri stöðu því við vitum – og það er ekki kredda heldur byggt á rannsóknum – að aukinn jöfnuður skilar aukinni hagsæld fyrir samfélagið allt.

Kæru félagar.

Þjóðinni allri var brugðið vegna harmleiksins á Blönduósi um síðustu helgi. Ekki var annað hægt en að tárast yfir ávarpi forseta sveitarstjórnar Húnabyggðar þegar hann bað um stuðning þjóðarinnar vegna þessara skelfilegu atburða sem ristu samfélagið svo djúpt.

Við höfum átt því láni að fagna að búa í friðsælu samfélagi. Svona ofbeldisverk skekja tilveru okkar. Það er sameiginlegt verkefni okkar að tryggja áfram friðsælt samfélag. Það þarf að takast á við aukinn vopnaburð og það gerum við með því að herða vopnalöggjöfina en líka og ekki síður að efla umræðu og fræðslu hjá öllum kynslóðum – við viljum ekki almennan vopnaburð og höfnum slíku samfélagi. Eins skiptir að sjálfsögðu máli að fara yfir hlutverk ólíkra ráðuneyta, heilbrigðisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og dómsmálaráðuneytis í málum sem þessum og gera það sem getum til að gera betur.

Á meðan slæmir hlutir geta gerst í öllum samfélögum hljótum við að læra af þeim og gera allt sem við getum til að þeir endurtaki sig ekki.

Kæru félagar.

Ég nefndi áðan stríðið í Úkraínu og efnahagsleg áhrif þess. En auðvitað er efnahagslegu áhrifin minnsti hlutinn af því sem við er að eiga. Stríðið hefur nú varað í meira en hálft ár og fórnarlömbin eru – eins og í öllum stríðum – óbreyttir borgarar, saklaust fólk. Milljónir Úkraínumanna eru á flótta, þúsundir óbreyttra borgara hafa fallið og um heim allan sjáum við aukna vígvæðingu, ríki heims boða aukin framlög í vopn og vígbúnað. Yfir þessu öllu vofir kjarnorkuógnin þar sem við höfum séð skelfilega þróun á síðustu árum, þar sem samningar um afvopnun hafa einn af öðrum raknað upp.

Fyrir okkur sem tölum fyrir friðsamlegum lausnum er útlitið dökkt. Við sjáum vaxandi spennu víða í heiminum, ekki er langt síðan Ísraelsmenn drápu óbreytta borgara í Palestínu í nánast reglubundnum árásum, heræfingar eru í gangi undan ströndum Tævan sem er til marks um aukna spennu á svæðinu og svo mætti lengi telja. Stríð sem varað hafa lengi gleymast og í skugga þessarar ógnvænlegu þróunar sjáum við mannréttindabrot um allan heim – afganskar konur hafa verið sviptar réttindum sínum, í Bandaríkjunum hafa konur víða verið sviptar réttinum til að ráða eigin líkama, hatursglæpir gagnvart hinsegin fólki færast í vöxt.

Þetta er ekki fögur mynd sem ég dreg upp – fyrir okkur Íslendinga hefur aldrei verið mikilvægara að standa vörð um okkar gildi. Við erum ekki bara efst á alþjóðlegum listum um tekjujöfnuð heldur erum við líka efst á lista Alþjóða efnahagsráðsins um kynjajafnrétti.

Árangur í jafnréttismálum á Íslandi, hvort sem í leikskólamálum, fæðingarorlofi, kynbundnum launamun eða kynbundu ofbeldi, hefur ekki komið af sjálfu sér. Þennan árangur má fyrst og fremst rekja til kvennahreyfingar sem hefur barist fyrir og náð fram mikilvægum kerfislægum umbótum í samfélagi okkar.

Baráttan fyrir félagslegu réttlæti er endalaust frelsisstríð. Krafan um kvenfrelsi og jafnrétti kynjanna er hluti af þeirri baráttu og þó að okkur Íslendingum hafi gengið vel í þeirri baráttu þá er henni hvergi nærri lokið.

Við Vinstri-græn getum sannarlega glaðst yfir að hafa verið í forystu í kynjajafnréttismálum alla okkar tíð og í okkar stjórnartíð hafa náðst  mikilvægir áfangar.

Alþingi Íslendinga samþykkti fyrir fáum árum ný og framsækin lög um þungunarrof sem voru einn mesti kvenfrelsisáfangi sem  við höfum séð á síðari árum og viðurkenning á rétti kvenna til að ráða eigin líkama. Í samfélagi sem tekur slíkar ákvarðanir er betra að vera kona en víðast hvar annars staðar.

Samt stöndum við enn frammi fyrir áskorunum.

Stundum er sagt að kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni séu í senn orsök og afleiðing kynjamisréttis í samfélaginu. Það er ekki og getur ekki verið eðlilegt ástand að konur á öllum aldri lifi í ótta – heima hjá sér eða á vinnustað eða í almannarými. Við vitum öll að öryggi er forsenda hins góða lífs.

Það er sláandi staðreynd að tilkynnt heimilisofbeldisbrot voru 1058 á Íslandi árið 2021. Á árunum 2020 og 2021 var helmingur allra ofbeldisbrota sem kom til kasta lögreglu heimilisofbeldisbrot. Það er önnur sláandi staðreynd að tilkynntum nauðgunum fækkaði um rúm 40% á meðan harðar sóttvarnaráðstafanir voru í gildi og afgreiðslutími skemmtistaða var takmarkaður.

Þessar tölur segja sína sögu. Við verðum að geta tryggt öryggi kvenna og barna heima hjá sér og að konur geti farið út að skemmta sér og verið öruggar á sama tíma. Stjórnvöld hafa aukið fjármagn til lögreglunnar til að takast á við þessi brot, fyrir utan að styðja betur við þjónustuúrræði fyrir þolendur ofbeldis. Ráðist hefur verið í vitundarvakningu um ofbeldi og áreitni í næturlífinu. Forvarnaáætlun um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni fór af stað í grunnskólum landsins í fyrra. Markmiðið er skýrt: að útrýma þeirri samfélagslegu meinsemd sem kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni er.

Dregið hefur hægt og bítandi úr kynbundnum launamun á undanförnum árum og ekki er óvarlegt að draga þá ályktun að aðgerðir stjórnvalda hafi átt stóran þátt í  þeim árangri. Árið 2020 var leiðréttur launamunur kynjanna 4,1% og talið að kynskiptur vinnumarkaður skýri að stóru leyti þann launamun sem enn er til staðar.   Við höldum áfram en aðgerðahópur sem ég hef skipað vinnur að tillögum að aðgerðum til að útrýma launamun sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum. Það er mín von að þær tillögur færi okkur nær því að leiðrétta þessa skekkju.

Á dögunum samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína um að hefja undirbúning að rannsókn á ólaunuðum heimilis- og umönnunarstörfum sem unnin eru á annarri og þriðju vaktinni. Það er trú mín að þetta geti orðið einn hlekkur til viðbótar í að greina og skilja ólíka stöðu kynjanna og undirbyggja aðgerðir til að auka félagslegt- og efnahagslegt jafnrétti.

Þessu tengt er það fagnaðarefni að eftir að lög um jafnlaunavottun tóku gildi árið 2017 hafa 385 fyrirtæki, stofnanir og aðrir opinberir aðilar innleitt jafnlaunastaðalinn og fengið jafnlaunavottun. Hjá þeim launagreiðendum sem lög um jafnlaunavottun ná til starfa  um eitt hundrað þúsund starfsmenn. Meginmarkmiðið er skýrt: Við ætlum að útrýma kynbundnum launamun. Vinna kvenna er engu síður verðmæt en vinna karla. Slíkt kerfislægt misrétti á sér enga réttlætingu á 21. öldinni.

Ég hlýt líka að nefna stóra áfanga eins og nýja jafnréttislöggjöf, nýja mismununarlöggjöf og lengingu fæðingarorlofs þar sem tryggt var að báðir foreldrar nýti sinn hluta orlofsins sem hefur verið ein mikilvægasta jafnréttisaðgerð síðari tíma á Íslandi.

Þetta er umtalsverður árangur og það eru forréttindi að fá að standa í stafni á slíkum tímum – á tímum þegar Ísland sækir fram meðan við sjáum hörmulegt bakslag víða um heim. Það sýnir svo ekki verður um villst að árangur er ekki sjálfgefinn – heldur næst vegna þess að við höfum skýra pólitíska sýn, við berjumst fyrir henni og fylgjum henni alla leið. Þó það sé ekki alltaf einfalt.

Á sama tíma hefur Ísland tekið stökk upp á við á regnbogakorti ILGA Europe sem leggur mat á réttindi hinsegin fólks. Þar höfum við Vinstri-græn látið til okkar taka. Þyngst vegur líklega löggjöfin um kynrænt sjálfræði og aukin réttindi trans og intersex barna. Þá mun framkvæmdaáætlun í málefnum hinsegin fólks vonandi lyfta okkur enn hærra á næsta ári. Þessi mál eru áþreifanlegur vitnisburður um það að það skiptir máli hvaða stefnu og ákvarðanir við tökum í stjórnmálum.

Það er dapurlegt að skynja aukna fordóma og niðrandi umræðu á sama tíma og þessar framfarir hafa orðið í löggjöf og regluverki. Það sýnir okkur svo ekki verður um villst að réttindabaráttu lýkur aldrei og við þurfum alltaf að vera á vaktinni í þeim málum.

Starfshópur um hatursorðræðu hóf störf í sumar en meginverkefni hópsins er að skoða hvort stjórnvöld skuli setja heildstæða áætlun um samhæfðar aðgerðir stjórnvalda gegn hatursorðræðu sem er m.a. vegna kynþáttar, litarháttar, þjóðernisuppruna, kynhneigðar og kynvitundar. Ég bind miklar vonir við vinnuna en henni á að vera lokið fyrir áramót.

Annað verkefni sem á eftir að hafa mikil áhrif á réttindi fólks í daglegu lífi sínu er lögfesting Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hluti af því verkefni er að koma á laggirnar sjálfstæðri mannréttindastofnun og nú á haustmánuðum er að hefjast samráðsferli um það verkefni af fullum þunga.

Mannréttindi eru kjarni í vinstri-grænni pólitík. Sú grundvallarhugmynd að öll fái notið sín, geti þroskað hæfileika sína og fengið að vera þau sjálf. Grundvallarhugmyndin í okkar pólitík er að tryggja réttlæti og jöfnuð fyrir okkur öll. Og þar með má segja að mannréttindabarátta sé eitt mikilvægasta verkefni okkar sem stjórnmálahreyfingar og það er okkar hlutverk að halda því frelsisstríði áfram taka af öllu afli á móti ranglæti og hatri sem hvergi á að líðast.

Kæru félagar.

Á síðasta kjörtímabili voru stigin stór skref í baráttunni við loftslagsvána enda löngu tímabært þar sem mál höfðu lítið hreyfst frá árinu 2012 þegar sett voru lög um málaflokkinn í tíð okkar í umhverfisráðuneytinu. Sett voru ný markmið og aðgerðaáætlun smíðuð til að ná þeim og markmið um kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040 var fest í lög. Strax í upphafi þessa kjörtímabils voru kynnt enn metnaðarfyllri markmið um 55% samdrátt í losun á okkar ábyrgð og lagt var fram frumvarp um bann við olíuleit í efnahagslögsögunni – sem kláraðist því miður ekki en verður lagt fram aftur á haustþingi.

Flaggskip aðgerðaáætlunar eru samdráttur í losun frá samgöngum á landi, lofti og legi með orkuskiptum og landgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis. Fjárframlög til umhverfismála hafa verið stóraukin, og þar af hafa bein framlög til loftslagsmála ríflega áttfaldast.

Til að ná markmiði um kolefnishlutlaust Ísland fyrir árið 2040 er kolefnisbinding með skógrækt og landgræðslu lykilaðgerð til að ná árangri, auk annarra aðgerða í landnotkun, s.s. endurheimt votlendis. Efla þarf slíkar aðgerðir sem geta samhliða frumkvöðlastarfi við bindingu kolefnis í berglögum markað Íslandi sérstöðu meðal fremstu ríkja varðandi upptöku kolefnis úr andrúmslofti, sem er ein megináhersla í Parísarsamningnum.

Þær eru einnig til þess fallnar að auka samkeppnishæfni Íslands, skapa störf og styrkja byggðir, auk þess að vera „náttúrulegar loftslagslausnir“, sem stuðla að vernd og endurheimt vistkerfa og landgæða. Með auknum aðgerðum á þessu sviði getur Ísland náð þeim áfanga að verða kolefnishlutlaust varðandi losun á beinni ábyrgð Íslands í kringum árið 2030.

Loftslagsváin hefur skapað neyðarástand nú þegar víða um heim. Okkar stærsta verkefni er að draga úr hraða þessarar ógnvænlegu þróunar, lágmarka skaðann og tryggja framtíð okkar og lífríkisins alls á þessari plánetu. Því að mannkynið á ekki eftir að fá annað tækifæri á annarri plánetu heldur aðeins það tækifæri sem við höfum hér og nú.

Við erum á réttri leið. Við settum okkur skýr markmið í upphafi kjörtímabils og höfum fylgt þeim eftir af festu og ákveðni. Til að ná raunverulegum árangri í baráttunni við loftslagsvána skiptir öllu að láta verkin tala. Ísland á að skipa sér í fremstu röð í þessum málum; börnin okkar eiga að geta litið um öxl og sagt: Hér var gripið í tauma og ráðist í aðgerðir fyrir framtíðina. Það er ekki eingöngu okkar ábyrgð – heldur líka tækifæri fyrir Ísland til framtíðar.

En við vitum það líka að orkuskipti eru ekki einföld og valkostirnir geta verið flóknir. Þarf meiri orku? Spyrja sum okkar. Önnur segja – mögulega þarf meiri orku en náttúruverndarsjónarmið  verða samt að vera miðlæg í okkar stefnu. Og rammaáætlun er mikilvægasta tækið sem við eigum og að við verðum að standa vörð um hana. Enn og aftur: Á okkar vegferð eru valkostirnir ekki alltaf einfaldir. En við vitum að réttlátt samfélag – sjálfbært samfélag – byggist ekki aðeins á endurnýjanlegri orku heldur einnig virðingu fyrir ósnortinni náttúru og vistkerfum okkar.

Og aftur minni ég á að þegar kemur að orkuskiptum og orkuframleiðslu þá er frumskylda okkar við íslenskan almenning – í nútíð  og framtíð. Það er okkar frumskylda að við getum náð orkuskiptum hér á Íslandi í öllum geirum íslensks samfélags. Samgöngum á landi, lofti og legi. Landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði og ferðaþjónustu. Það þýðir að við eigum að forgangsraða orkunni til innlendra orkuskipta. Það er hluti af réttlátu samfélagi því að orkuauðlindin og yfirráð yfir henni er hluti af fullveldinu.

Mikilvægi þess að almenningur eigi hér helsta orkufyrirtæki landsins, Landsvirkjun, verður ekki ítrekað nægjanlega og því stendur ekki til að breyta. Og ég hlýt að minna á andstöðu VG við hugmyndir fyrri ríkisstjórna um sæstreng til Evrópu – sú staða sem við erum í núna sem þjóð með okkar fyrirtæki í almannaeigu og orkumarkað undir innlendri stjórn er öfundsverð. Nú þegar raforkuverð í Evrópu er í hæstu hæðum sýnir staða okkar hér á Íslandi að okkar afstaða – okkar Vinstri-grænna – hefur reynst farsæl fyrir íslenskan almenning.

Kæru félagar.

Stundum er það svo að okkur öllum finnst baráttunni miða hægt í áttina samfélaginu sem ég nefndi hér í upphafi – að hinu réttláta samfélagi. Og staðreyndin er sú að þegar við hlaupum upp í móti þá er best að minnka skrefin. Og þegar vindurinn blæs í fangið þá er best að minnka skrefin. Þó að mér miði stundum hægt á mínum hlaupum þá kemst ég í mark. Stundum þurfum við að minnka skrefin. En við stoppum ekki. Gefumst ekki upp. 

Eins og ég kom inn á áðan eru málin sem enda á borði forsætisráðherra hverju sinni oft flókin. Og hagsmunir þjóðarinnar vega alltaf þyngst í þeim ákvörðunum. En hin bjarta framtíðarsýn Vinstri-grænna er ávallt mitt leiðarljós í öllum störfum, leiðarljós í átt að réttlátara samfélagi.

Við höldum áfram saman, áfram í átt að réttlátara samfélagi – fyrir okkur öll.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search