Search
Close this search box.

Ræða Katrínar Jakobsdóttur á flokksráðsfundi 29. janúar 2021

Deildu 

Kæru félagar!

Enn og aftur ávarpa ég ykkur á fjarfundi og ég ætla að leyfa mér að segja það hér í upphafi þessa flokksráðsfundar – sem ég aldrei hélt að ég myndi segja – en ég sakna funda. Og þá er ég að tala um góðra funda eins og funda þar sem maður sér framan í ykkur öll, fær að hlæja með ykkur, taka kaffi og faðmast og kyssast. Mikið sakna ég þess.

En þetta ástand sem er vissulega orðið æði langdregið kennir manni líka ýmislegt. Það var fullt tungl í vikunni og ég varð sem uppnumin að horfa á tunglið í öllu sínu veldi. Hvað jafnast á við það? Óteljandi göngutúrar um hverfið gera það að verkum að maður er farinn að taka eftir fegurðinni í nærumhverfi sínu. Og daginn er tekið að lengja; í gær var morgunbirtan einstök og minnti okkur á að vorið kemur bráðum.

Daginn er að lengja í ýmsum skilningi. Þó að árið 2021 verði krefjandi – eins og árið 2020 – eru eigi að síður bjartari tímar framundan; breytingin er sú að það er komið bóluefni, við erum byrjuð að bólusetja og þó að enn séu afhendingaráætlanir lyfjafyrirtækjanna á hreyfingu þá er bólusetningin eigi að síður hafin, tæplega fimm þúsund manns hafa lokið bólusetningu og tæplega sex þúsund hafa hafið hana. Þetta mun  gerast smám saman á þessu ári.

Og ekki má gleyma því að árangur okkar í að takast á við faraldurinn er góður. Samkvæmt nýlegri álitsgerð er Ísland í sjöunda sæti í heiminum þegar árangur er metinn í baráttunni við faraldurinn, í fyrsta sæti í okkar heimshluta þar sem veiran hefur annars haft mest áhrif. Nú um mundir er Ísland eina græna landið í Evrópu á lista Sóttvarnastofnunar Evrópu. Árangur okkar hefur fyrst og fremst náðst vegna þess öfluga fólks sem staðið hefur í framlínunni, innan heilbrigðiskerfisins og annars staðar. Hann náðist líka með þeirri ákvörðun að tryggja öllum gjaldfrjálsa sýnatöku þar sem fólk gat mætt samdægurs og fengið niðurstöður samdægurs. Þetta þykir okkur núna í árslok sjálfsagt en var það ekki fyrir ári og er alls ekki sjálfsagt annars staðar og er lykilatriði í árangri okkar, ásamt öflugri smitrakningu og markvissri beitingu á sóttkví og einangrun.

Vegna þessara öflugu aðferða hefur hingað til ekki þurft að grípa til jafn harkalegra aðgerða og gert hefur verið í mjög mörgum, ef ekki flestum nágrannalanda okkar. Og áhugaverðar rannsóknir OECD benda til að sóttvarnarárangur af öflugri smitrakningu, sóttkví og einangrun sé ekki síðri en  af mun harkalegri aðgerðum á borð við útgöngubann.

Í þessari baráttu skipti höfuðmáli að setja sér skýr markmið í upphafi faraldursins og það gerðu stjórnvöld: Að vernda líf og heilsu landsmanna var okkar mikilvægasta markmið enda frumskylda stjórnvalda að tryggja öryggi fólks. En samhliða því að lágmarka samfélagslegan og efnahagslegan skaða.

Að þessum tveimur markmiðum unnum við allt árið í fyrra og vinnum enn. Stærsta verkefni okkar hefur verið að styðja við almenning og atvinnulíf í landinu en þessi tvö markmið eru órjúfanleg heild þar sem atvinnuleysið er stærsta böl sem nú ógnar íslensku samfélagi. Þar höfum við beitt ríkissjóði til að styðja við fólk og fyrirtæki. Hlutastarfaleiðin er líklega umfangsmesta úrræði stjórnvalda en einnig voru atvinnuleysisbætur hækkaðar, tekjutengt tímabil atvinnuleysisbóta framlengt og margháttaðir styrkir voru í boði fyrir fyrirtæki. Ráðist var í umfangsmiklar opinberar fjárfestingar og stuðningur við grunnrannsóknir og nýsköpun stóraukinn.

Halli ríkissjóðs hefur því miður aldrei verið meiri í lýðveldissögunni – og tekur langt fram úr halla eftirhrunsáranna – en það er vegna þess að við tókum þá pólitísku ákvörðun að fara ekki eingöngu í sértækar stuðningsaðgerðir heldur að verja alla samfélagslega innviði; að beita ekki niðurskurði heldur verja velferðina og afkomu fólks og áfram verði jöfnuður mikill á Íslandi. Þessi kraftur ríkisfjármálanna hefur notið stuðnings peningastefnunnar en aldrei í lýðveldissögunni hafa vextir verið jafn lágir. Það er gríðarlega stórt lífskjaramál sem mun einnig styðja okkur út úr kófinu. Þetta er fjarri því að vera sjálfsögð ákvörðun og kröfur um niðurskurð gætu skollið á þjóðinni ef illa færi í næstu kosningum.

Kæru félagar

Þrátt fyrir kreppu og kóf þá hvikum við hvergi frá þeirri uppbyggingu sem við höfum staðið fyrir á kjörtímabilinu: Að lækka greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu svo um munar sem er ein mikilvægasta jöfnunaraðgerð sem við getum ráðist í. Þetta hefur verið forgangsverkefni okkar kröftuga heilbrigðisráðherra en markmiðið er að í lok þessa kjörtímabils verði greiðsluþátttaka sjúklinga sambærileg við það sem best gerist annars staðar á Norðurlöndum. Það mun nást og mun skipta mjög miklu máli, ekki síst fyrir öryrkja og aldraða. Um áramótin hækkaði örorkulífeyrir sérstaklega fyrir hina tekjulægstu og 2019 var dregið úr skerðingum í örorkukerfinu. Innleiddur hefur verið félagslegur viðbótarstuðningur fyrir þá tekjulægstu í hópi aldraðra. Þá hafa barnabætur hækkað í þrígang og atvinnuleysisbætur verið hækkaðar um 35% á þessu kjörtímabili um 80 þúsund krónur. Allt eru þetta mikilvægar réttlætisaðgerðir sem tryggja aukinn jöfnuð á erfiðum tímum en gleymast oft í allri umræðunni.

Það er grundvallaratriði að atvinnuleysi verði ekki langtímaböl í okkar samfélagi. Þess vegna skiptir hvorttveggja máli; að verja störf og skapa störf. Við verjum þann árangur sem við höfum náð við uppbyggingu í heilbrigðis, velferðar- og menntakerfis en sköpum einnig ný störf, bæði með því að auka og efla opinbera fjárfestingu á fjölbreyttum sviðum og stuðla að fjárfestingum einkaaðila. Grundvallaratriði í sýn okkar er að enduruppbyggingin verði græn og þess vegna höfum við fjárfest í umhverfismálum; í loftslagsmálum, orkuskiptum, hringrásarhagkerfi. Líka í náttúruvernd með uppbyggingu innviða á friðlýstum svæðum. Og með auknum fjárfestingum í rannsóknum og nýsköpun þannig að við tryggjum aukna verðmætasköpun í samfélaginu öllu.

Þegar Vinstri-græn voru síðast í ríkisstjórn voru sett fyrstu lögin um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Ég veit ekki hvort þetta er tilviljun en á þessu kjörtímabili – þegar Vinstri-græn eru aftur í ríkisstjórn –  hafa opinber framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina aukist um meira en 70%. Árið 2020 jókst svo fjárfesting einkaaðila, bæði innlendra og erlendra, í íslenskum nýsköpunar- og tæknifyrirtækjum verulega og nam hún alls 17 milljörðum króna sem er hærri upphæð en fjárfest var fyrir 2019 þó að um færri fjárfestingar hafi verið að ræða. Þessu þurfum við að vekja athygli á.

Þetta er jákvæð vísbending um að sú stefna sem ríkisstjórnin hefur tekið og breytingar sem gerðar hafa verið til að bregðast við veikleikum í umhverfi nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi séu að skila sér. Við sjáum þessa stefnu þegar skila sér og hún mun skila samfélaginu enn meiri verðmætum til framtíðar. Á þessari braut viljum við halda áfram; með skýra stefnu að leiðarljósi og alvöru aðgerðir sem skila árangri til að ná því markmiði sem við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði höfum alltaf haft að leiðarljósi: Fjölbreyttara atvinnulíf sem byggist á þekkingu.

Annað gott dæmi um stefnu sem hefur skilað árangri er aukin áhersla á nýsköpun í matvælaframleiðslu. Matvælasjóður hefur verið stofnaður og framlög til garðyrkjubænda aukin um fjórðung í nýjum samningi. Tvö mikilvæg skref að því markmiði að Ísland geti aukið verðmæti í matvælaframleiðslu og framleitt meiri matvæli, bæði fyrir heimamarkað og til útflutnings. Eins og staðan var árið 2018 voru til að mynda 91,2% af því sem borðað er af blómkáli á Íslandi innflutt. Tækifærin til að gera betur á þessu sviði eru gríðarlega mörg.

Við getum og eigum að gera betur í að beita kröftum okkar til að byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf og tryggja um leið að hvatar séu fyrir hendi fyrir atvinnulífið í landinu til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla þannig að því að við náum loftslagsmarkmiðum okkar. Þannig getur viðspyrnan orðið snögg og ekki aðeins upp á við heldur spyrnum við landinu fram á við þannig að covid verði hraðall fyrir jákvæðar breytingar á samfélagi okkar.

Enn eitt dæmi er tækniþróunin, gjarnan kennd við fjórðu iðnbyltinguna. Stórfelldar breytingar hafa orðið á samskiptaháttum í faraldrinum þegar vinnustaðir tóku upp ný vinnubrögð, heimavinna varð hluti af lífinu og tæknin var nýtt til margs konar fundahalda og verður áfram. Stór skref hafa verið tekin í að nýta tæknina í þágu heilbrigðisþjónustunnar í faraldrinum og mikilvægt að halda þeirri þróun áfram að loknum faraldri. Stjórnvöld hafa ákveðið að fjárfesta í Stafrænu Íslandi og færa þar með opinbera þjónustu inn á hið stafræna svið. Þar er þó að mörgu að hyggja, ekki síst netöryggismálum sem stjórnvöld hafa einnig ákveðið að styrkja sérstaklega. Síðast en ekki síst stendur til að hið opinbera taki yfir útgáfu rafrænna skilríkja sem verða þá opinber auðkenni sem var auðvitað löngu tímabært.

Við munum áfram standa vaktina í gegnum þennan heimsfaraldur, koma Íslandi í gegnum hann og byggja upp að honum loknum.  Við munum vaxa út úr þessari kreppu og hagkerfið sem mun koma út úr kófinu geti orðið sterkara en áður – ef við höldum áfram að styðja við aukna verðmætasköpun og fjölbreytni í öllum atvinnugreinum.

Góðir félagar

Árið 2021 er kosningaár. Þá leggjum við verk okkar í dóm kjósenda og þau málefni sem við munum setja á oddinn á nýju kjörtímabili.

Og verkin eru mörg. Við höfum reynt að safna þeim saman á heimasíðunni okkar undir yfirskriftinni Við gerum betur – en þar eru verkin orðin svo mörg að það er nánast eins og að lesa orðabók að ætla sér þangað inn.

Ég var spurð að því um daginn á svokölluðum slembivalsfundi sem stjórn VGR stóð fyrir hvort við gætum boðið fram sem flokkur félagslegs réttlætis eftir að hafa starfað með Sjálfstæðisflokknum. Mér fannst fundurinn góður – vegna þess að þar hitti ég félaga, suma til margra ár, sem leggja ekki endilega í vana sinn að mæta á fundi. Og vegna þess að allar spurningarnar voru góðar.

Og svar mitt við þessari var klárt já.

Við horfum á þetta kjörtímabil og getum sagt:

Félagslegt réttlæti:

Þriggja þrepa skattkerfi

Löngu tímabær lenging fæðingarorlofs upp í heilt ár og jöfn skipting foreldra

Umbætur á almannatryggingum sem ég fór áðan yfir

Minni kostnaður fyrir fólk í heilbrigðiskerfinu sem þýðir jafnari aðgang

Sterkara opinbert heilbrigðiskerfi

Hærri atvinnuleysisbætur

Hærri barnabætur

Hærri fjármagnstekjuskattur

Uppbygging innviða um land allt

Kraftur í uppbyggingu félagslega húsnæðiskerfis

Hlutdeildarlán til að hjálpa ungum og tekjulágum að eignast húsnæði

Umhverfis- og náttúruvernd

Ný og metnaðarfull loftlagsmarkmið

Stóraukin framlög til umhverfismála

Hringrásarhagkerfi

Tólf friðlýsingar um land allt

Miðhálendisþjóðgarður

Ákvæði um náttúru- og umhverfisvernd í stjórnarskrá

Betri fjármögnun framhaldsskóla og háskóla

Kvenfrelsi

Þungunarrof

Fjármögnuð forvarnaráætlun gegn kynbundnu og kynferðislegu áreitni og ofbeldi

Endurskoðuð jafnréttislög og bætt stjórnsýsla jafnréttismála

Ný lög um kynrænt sjálfræði

Framfaraskref í upplýsinga- og tjáningarfrelsismálum

Vinstri-græn í ríkisstjórn skila árangri. Um það verður ekki deilt og þess vegna erum við í stjórnmálum; af því að við viljum leggja allt í sölurnar til að samfélagið okkar verði betra, réttlátara og grænna.

Ég sá um daginn umfjöllun um að öll ráðuneytin hefðu blásið út, þannig var það orðað – líkt og útgjöld sem færu í gegnum ráðuneytin væru bara fyrir þeirra eigin tilvist. En það sem þarna er undir er hin gríðarmikla útgjaldaaukning sem hefur farið í samfélagsleg verkefni á þessu kjörtímabili. Við töluðum um nauðsyn þess að útgjöld ríkisins yrðu aukin til að mæta þörf á mörgum sviðum í síðustu kosningum, og við það höfum við staðið. Slík var þörfin og þessum fjármunum hefur verið varið í að byggja upp sterkari samfélagslega innviði – og m.a. öll þau verkefni sem ég taldi hér upp.

Að lokum vil ég verja nokkrum mínútum í að ræða stjórnarskrá. Þær breytingar sem ég hef nú lagt til á þingi og byggja á vandaðri vinnu og samtali formanna og fulltrúa stjórnmálaflokka svara ákalli samfélagsins um að stjórnarskráin verði ekki þögul um sum stærstu málefni samtímans, ekki síst þjóðareign á auðlindum og umhverfis- og náttúruvernd.

Að tryggt verði að auðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti verði þjóðareign, að þær verði ekki afhentar varanlega og löggjafanum beri að kveða á um gjaldtöku fyrir nýtingu auðlinda í ábataskyni og gagnsæis og jafnræðis sé gætt við úthlutun nýtingarheimilda. Ennfremur að ákveðnar grundvallarreglur á sviði umhverfis- og náttúruverndar verði færðar í stjórnarskrá og almannaréttur hljóti stjórnskipulega stöðu. Kafli stjórnarskrár um forseta og framkvæmdavald er færður í nútímalegra horf. Byggt er á niðurstöðum almannasamráðs og lagt til að tekin verði upp röðuð kosning til embættis forseta Íslands. Mikilvægi íslenskrar tungu og táknmáls verður undirstrikað í stjórnarskrá.

Þó að  verkinu sé ekki lokið snúast tillögurnar að mínu viti um kjarnann í mörgu því sem almenningur hefur kallað eftir og byggjast á vandaðri vinnu og ígrundun. Það er ljóst að ekki eru allir sammála um þær tillögur sem ég hef lagt til en ég er sannfærð um að það  er raunverulegt tækifæri nú til að marka leiðina fram á við með góðum breytingum á stjórnarskrá.

Góðir félagar

Í gær bárust þau tíðindi að skotið hefði verið á bíl borgarstjóra fyrir utan heimili hans. Sem betur fer eigum við því ekki að venjast að skotvopnum sé beitt hér á landi í slíkum árásum.

Ég fordæmi þessa árás og vona að hún verði einstakur viðburður.En ég verð líka að segja að hún kemur ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti. Því miður hefur samfélag okkar viðurkennt hatursorðræðu gagnvart stjórnmálum og einstökum stjórnmálamönnum og nægir að líta yfir samfélagsmiðla reglulega til að lesa um ónýta og viðurstyggilega spillta stjórnmálamenn sem eru undirlægjur, fullir af mannhatri og mannvonsku og standa jafnvel fyrir nýjum helförum. Svo ég noti nokkur þau orð sem ég hef nýlega séð höfð um sjálfa mig og aðra. Mörkin hafa færst til og það hefur áhrif. Þar með er ég ekki að biðjast undan málefnalegri umræðu þar sem fólk greinir á. Við getum verið ósammála en þurfum ekki að vera óvinir. Ég vil samfélag þar sem fólk í stjórnmálum getur gengið frjálst um götur og þar sem fjölskyldur og nágrannar stjórnmálafólks þarf ekki að búa við óeðlilegar aðstæður. Þetta hefur verið aðalsmerki Íslands og þannig á það að vera áfram.

Kæru félagar!

Síðustu tvennar kosningar hefur borið óvænt að og það verður ágæt tilbreyting ef tekst að kjósa að loknu heilu kjörtímabili. Það gefur okkur í þessari hreyfingu tíma og tækifæri til að stilla saman strengi. Nú þegar hafa öll kjördæmi ákveðið að halda forvöl og ljóst að víða verður tekist á um efstu sæti. Það er heilbrigðismerki að margir hafi áhuga á að taka þátt í starfi hreyfingarinnar og ég fagna því. Þá hafa málefnahópar hreyfingarinnar haldið uppi þrotlausu starfi undir erfiðum kringumstæðum á fjarfundum.

Hér á fundinum á morgun munu hópstjórar málefnahópa fara yfir stöðuna á vinnunni og þá gefst öllum félögum færi á að koma með athugasemdir við stefnumótun hópanna. Niðurstöðurnar verða bornar upp á landsfundi sem haldinn verður í vor.

Það verður að öllum líkindum annars konar landsfundur – að miklu leyti rafrænn – og innan þeirra sóttvarnatakmarkana sem þá verða í gildi.

Forvöl verða í haldin á ýmsum tímum í kjördæmunum; það fyrsta verður haldið í Norðausturkjördæmi um miðjan febrúar og síðan verða þau haldin frameftir vori. Stefnt er að því að allir framboðslistar liggi fyrir í júnímánuði.

Það getur verið krefjandi að taka þátt í stjórnmálastarfi. Það snýst í grunninn um að fólk sem deilir hugmyndum og gildum kemur saman og myndar stjórnmálahreyfingu. Félagarnir kjósa fólk í trúnaðarstörf og alltaf er það okkar skylda sem til þess veljumst að reyna að draga þræði grasrótarinnar saman og skynja vilja félaganna. Að leiða hreyfingu jafningja er eitt það erfiðasta viðfangsefni sem að ég hef tekist á við en um leið það mest gefandi. Ég hlakka til að mæta á landsfund, taka þátt í forvali og vonandi fá að heyja enn eina kosningabaráttuna með ykkur sem gefið af ykkur, styðjið, skammið og hrósið á hverjum degi vegna þess að við erum öll í sama liði og fylkjum okkur öll saman undir fána félagslegs réttlætis, náttúru- og umhverfisverndar, kvenfrelsis og friðarstefnu. Við höfum ekki aðeins sýnt að við þorum og viljum heldur einnig að við getum og ég hef þá trú að þar með séum við vel nestuð.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search