Search
Close this search box.

Ræða Katrínar Jakobsdóttur á landsfundi

Deildu 

Kæru félagar,

Þá hefst seinni hluti þessa fjarlandsfundar. Enn og aftur vil ég þakka félögum í hreyfingunni fyrir ótrúlega útsjónarsemi við að færa málefnastarf yfir á nýjan vettvang þannig að við höfum getað haldið okkar striki og haldið okkar landsfund. Enda væri þessi hreyfing ekkert án félaganna sem hafa haldið uppi starfinu af óþreytandi atorku sem sýnir hvað við tilheyrum burðugum lýðræðisflokki. Og áhuganum sem sjá má í fjölmörgum framboðum til stjórnar. 

Félagarnir eru ástæða þess að Vinstri-græn hafa haft rík áhrif á þróun samfélagsins undanfarinn áratug. Við sem erum kjörnir fulltrúar þessarar hreyfingar búum við þau forréttindi að geta sótt innblástur og aðhald til okkar félaga sem láta pólitísk veðrabrigði ekki trufla sig og standa með sinni sannfæringu – bæði hvað  varðar hugsjónir og gildi en líka með því að við viljum hafa mótandi áhrif á íslenskt samfélag til framfara. Þess vegna stöndum við styrkum fótum núna við upphaf kosningabaráttu. Eigum okkar samtal fyrst og fremst við fólkið í landinu því við vitum hvaðan við komum og hvert við erum að fara.

Ísland nútímans er ungt samfélag, það hefur aðeins verið lýðveldi í 77 ár, fullveldi í rúmlega öld og fyrir hálfri annarri öld var það allt annað samfélag, fátækara, fábrotnara, mjög háð duttlungum náttúrunnar. Minningin um þessa fortíð er jafnframt styrkur þessarar þjóðar sem þekkir harðindi og fátækt og bregst fumlaust og sameinuð við þegar áföll dynja yfir, hvort sem eru eldgos, hamfarir eða válynd veður. Hamfarastjórnun hefur einkennt þetta kjörtímabil en þar nýtur íslenska þjóðin sín og ég er stolt af því hvernig allt hið opinbera kerfi og allt samfélagið hefur tekist saman á við erfiðleikana.

Vinstrisósíalískar hreyfingar voru lengi áhrifalitlar á Norðurlöndum en höfðu mun meiri áhrif hér á landi og síðar í Færeyjum og á Grænlandi, meðal annars vegna þess að öfugt við róttæka flokka annarstaðar voru íslensku, færeysku og grænlensku flokkarnir til í að stjórna. Þess vegna fór Sósíalistaflokkurinn í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og Alþýðuflokknum árið 1944 og þess vegna fór Alþýðubandalagið síðar í stjórn með Framsóknarflokknum, Alþýðuflokknum, Samtökum frjálslyndra og vinstrimanna og með hluta Sjálfstæðisflokksins. Þess vegna hafa Vinstri-græn unnið með þremur af núverandi þingflokkum að stjórn landsins seinasta áratug og enn fleiri flokkum á sveitarstjórnarstiginu. 

Hverju höfum við náð fram með því að taka þátt í að stjórna samfélaginu?

Við höfum einbeitt okkur að stórum framfaramálum fyrir samfélagið. Undir forystu okkar í ríkisstjórn höfum við innleitt þrepaskipt skattkerfi, lengt fæðingarorlof, hækkað barnabætur, styrkt almenna íbúðakerfið, innleitt ný hlutdeildarlán, dregið úr skerðingum hjá eldri borgurum og öryrkjum, stytt vinnuvikuna, lækkað kostnað sjúklinga og styrkt opinbera heilbrigðiskerfið. Þessu höfum við ekki aðeins lofað, því það er auðvelt að lofa, við beinlínis gerðum það.  

Okkar ríkisstjórn var sú fyrsta sem setti fram raunhæfa og fjármagnaða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, hefur áttfaldað framlögin til málaflokksins, sú fyrsta sem steig raunveruleg skref til að fjármagna uppbyggingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, sem hóf vinnu við að innleiða hringrásarhagkerfi, sem hefur friðlýst fleiri svæði en nokkur önnur. Þetta hefur þegar verið gert og allt sem verður gert síðan mun byggja á þeim grunni. Þetta eru aðgerðir sem um munar – alvöru aðgerðir.

Okkar ríkisstjórn ákvað að marka sér stefnu um efla grunnrannsóknir, þróun, nýsköpun og skapandi greinar til að efla þekkingargeirann á Íslandi og auka fjölbreytni í efnahags- og atvinnulífi. Og það þarf engum að koma á óvart þar sem Vinstri-græn voru líka í ríkisstjórn þegar í fyrsta sinn voru sett sérstök lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki 2009. Aukinn stuðningur við háskóla og samkeppnissjóði, nýir vísisjóðir og hærri endurgreiðslur til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar hafa bætt nýsköpunarumhverfið á Íslandi. Sama má segja um eflingu verkefnasjóða á sviða listgreina og fjölgun listamannalauna. Þetta hefur skilað árangri nú þegar og lagt grunninn að fjölbreyttara og grænna atvinnulífi til framtíðar og aukið kraftinn í viðspyrnunni. Okkar hugmyndafræði um fjölbreytni sem byggist á aukinni þekkingu hefur náð fótfestu og hefur skipt sköpum fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. 

Annað sem við höfum gert er aukið gagnsæi með nýjum framsæknum upplýsingalögum og lögum um vernd uppljóstrara – þetta hefur verið á okkar stefnuskrá lengi og skiptir almenning í landinu verulegu máli. 

Við höfum stigið risastór skref í mannréttindamálum á þessu kjörtímabili sem við getum verið stolt af. Undir okkur forystu voru sett lög um kynrænt sjálfræði sem færa einstaklingum réttinn til að velja sér kyn, og við höfðum forystu um að styrkja sjálfsákvörðunarrétt kvenna með grundvallarbreytingum á þungunarrofslöggjöfinni sem staðið hafði óbreytt frá 1975. Í fjörutíu og fjögur ár.

Við höfum haft forystu um það að innleiða hugmyndafræði velsældahagkerfa – hugmyndafræði sem kalla má félagshyggju 21. aldarinnar – og snýst um að hlutverk stjórnvalda sé að tryggja velsæld allra þannig að hvert og eitt okkar geti leitað hamingjunnar og þroskað hæfileika sína. Það gerum við ekki með því að leggja eingöngu efnahagslega mælikvarða á samfélagið heldur með því að horfa til fleiri þátta til að mæla velsæld. Hvernig tryggjum við afkomu fólks? Hvernig gerum við fólki kleift að ná jafnvægi milli einkalífs og vinnu? Hvernig tryggjum við aðgengi að heilnæmu umhverfi? Í fyrsta sinn voru kynntir nýir velsældarmælikvarðar og í fyrsta sinn voru settar sérstakar velsældaráherslur í fjármálaáætlun. Þetta er róttækt hugmyndalegt fráhvarf frá hinum hagrænu mælikvörðum á alla hluti sem einkenndi seinustu áratugi 20. aldar. 

Kæru félagar

Erindi okkar framan af kjörtímabilinu var að byggja upp innviði – ráðast í löngu tímabærar aðgerðir og framkvæmdir við okkar sameiginlegu kerfi. Þar stóðum við frammi fyrir stórum og aðkallandi verkefnum.

Við hófumst strax handa.

Við hófum átak í samgöngumálum sem þarf að halda áfram með og snýst meðal annars um öflugri almenningssamgöngur, réðumst í átak í að fjölga hjúkrunarrýmum, og flýta ýmsum framkvæmdum – nefni ég þar sérstaklega þá ákvörðun að flýta framkvæmdum við ofanflóðavarnir og að leggja flutningskerfi raforku í jörð. Og það þurfti líka að auka fjármagn í menntakerfið og auka fjármagn til heilsugæslu, heilbrigðisstofnana og spítala. Aðgerðir til að efla og byggja upp heilbrigðiskerfið sem gerðu okkur betur í stakk búin til að takast á við heimsfaraldurinn þegar hann skall á.  

Við hófum strax vinnu við breytingar á skattkerfinu í þágu tekjulægri hópa og aukins jöfnuðar sem skilaði réttlátara skattkerfi. Eins ákváðum við þá að hækka atvinnuleysisbætur til að mæta mögulegu atvinnuleysi. Lífskjarasamningarnir voru mikilvæg varða þar sem stjórnvöld komu að málum með afgerandi hætti og hafa stuðlað að bættum kjörum fólksins í landinu.

Í upphafi árs 2020 var ófyrirséð að líf og störf okkar allra yrðu undirlögð af algjörlega nýju verkefni næstu mánuði og misseri. Enginn þjóðarleiðtogi óskar sér þess að lenda í heimsfaraldri. Heimsfaraldri sem hafði í för með sér ótrúlegar afleiðingar á samfélagið allt og við erum enn að glíma við. Íslensk stjórnvöld tóku frá upphafi þá ákvörðun að leiðarljós okkar yrðu tvenns konar. Að vernda líf og heilsu landsmanna og lágmarka samfélagslegar og efnahagslegar afleiðingar veirunnar. 

Þessi markmið mótuðu stefnu stjórnvalda sem framan af var leið niðurbælingar, að lágmarka smit enda engin leið að hafa stjórn á fjölgun smita ef engar ráðstafanir væru í gildi. Oft var beitt hörðum ráðstöfunum, þó sjaldan jafn hörðum og víða annars staðar, og niðurstaðan varð sú að þrátt fyrir erfiða tíma þá stendur Ísland í hópi þeirra þjóða þar sem hvað fæst dauðsföll hafa orðið vegna veirunnar. Við stöndum líka í hópi þeirra þjóða sem hafa náð hvað mestum árangri í bólusetningu landsmanna. Reynt var að gera bólusetningaráætlun okkar tortryggilega á hinum pólitíska vettvangi – ýmis orð látin falla sem ekki hafa elst vel. 

Við höfum alltaf notað þá aðferð að byggja okkar aðgerðir á gögnum og upplýsingum og þess vegna höfum við, í samráði við sóttvarnayfirvöld, slakað á aðgerðum þegar við töldum ástæðu til. Þegar Delta-afbrigði veirunnar fór að dreifa sér af miklum krafti þurfi enn og ný að meta stöðuna. Við sáum að mikil þátttaka í bólusetningum gerði það að verkum að almennt var fólk betur varið gegn því að veikjast alvarlega en hins vegar kom hún ekki í veg fyrir smit. Þessar upplýsingar gerðu það að verkum að stjórnvöld tóku þá ákvörðun að tempra fjölgun smita með tiltölulega mildum aðgerðum. 

Aftur er markmiðið það sama: Vernda líf og heilsu en lágmarka um leið samfélagsleg og efnahagsleg áhrif. Eða með öðrum orðum; lágmarka veikindi og hámarka frelsi. Til þess að ná þessum markmiðum réðumst við í aðgerðir til að styðja enn betur við Landspítalann, við ákváðum að gefa þeim örvunarskammta sem fengið höfðu Jansen-bóluefnið og við settum ákveðnar samfélagslegar takmarkanir. Í dag taka gildi ívilnandi breytingar og þannig fikrum við okkur áfram til eðlilegs lífs með varúðina að leiðarljósi. 

Samhliða sóttvarnaráðstöfunum réðst ríkisstjórnin í margháttaðar félagslegar og efnahagslegar aðgerðir. Við hækkuðum atvinnuleysis- og barnabætur, jukum stuðning við sálfræðiþjónustu og félagslegar aðgerðir, hlutabótaleiðin tryggði afkomu þúsunda manna um margra mánaða skeið, lokunarstyrkir, tekjufallsstyrkir og viðspyrnustyrkir komu til móts við þau fyrirtæki í landinu sem að öðrum kosti hefðu þurft að loka dyrum sínum og segja upp fólki og átakið Hefjum störf hefur tryggt störf fyrir fjölda manns sem hefur verið lengur en ár á atvinnuleysisskrá. Þessar aðgerðir, til viðbótar við þær umbætur sem byrjað var að vinna strax í upphafi kjörtímabils, sköpuðu grunn fyrir kraftmikla samfélagslega og efnahagslega viðspyrnu. Besti mælikvarðinn á það er að við höfum séð atvinnuleysið ganga hraðar niður en nokkur þorði að vona.

Ég er ekki hrædd við dóm sögunnar í þessum efnum – ég er sannfærð um að hann verður sá að Ísland hafi staðið vaktina í þágu fólksins í landinu. Ef heimsfaraldur kórónuveiru verður kosningamál hef ég engar áhyggjur, fólkið í landinu veit að við höfum staðið með því.

Og ég vil segja það hér – að þó að viðfangsefni síðustu missera hafi stundum verið yfirþyrmandi – og öruggleg hefur okkur öllum fundist við ansi smá gagnvart verkefninu – þá hefur það samt verið heiður að fá að gegna embætti forsætisráðherra á þessum krefjandi tímum. Þó að heimsfaraldur sé ekki óskastaða neins þá hefur þetta verið lærdómsríkur tími og ég er þakklát fyrir að tilheyra þessu samfélagi sem hefur tekist svo vel á við þetta verkefni.

Kæru félagar.

Verk okkar í ríkisstjórn tala sínu eigin máli. Þjóðin veit hvernig við stjórnum í þágu alls almennings með félagslegar lausnir að leiðarljósi. Við erum tilbúin að vera áfram við stjórnvölinn og eins og áður snúast kosningarnar ekki aðeins um næstu fjögur ár heldur alla framtíðina.

Við höfum lagt mikilvægan grunn á þessu kjörtímabili með því að byggja upp velsældarhugmyndafræðina. Hún snýst um það markmið að tryggja jöfn tækifæri allra til að þroska sína hæfileika og leita hamingjunnar. Í slíku samfélagi geta fjölskyldur átt meiri tíma saman, þar þarf fólk ekki að kvíða afkomunni, þar eiga allir aðgang að heilbrigðis- og velferðarþjónustu, þar er mengun og losun gróðurhúsalofttegunda ekki vandamál, þar er efnahagslífið fjölbreytt og þar gilda skýrar leikreglur um vinnumarkaðinn. Velsældarhugmyndafræðin snýst um að minnka bilið milli ólíkra hópa samfélagsins, auka skilning og efla traust. 

 Um þetta hafa flestar okkar aðgerðir snúist en í velsældarhugmyndafræðinni er efnahagsstefnan velferðarstefna og með það að leiðarljósi ákváðum við að beita ríkissjóði af fullum krafti gegn samfélagslegum og efnahagslegum afleiðingum heimsfaraldursins. 

Markmiðin eru skýr. Við leysum viðfangsefnin með hamingju og velsæld fólksins í landinu að leiðarljósi. Við vitum hvaðan við erum að koma og hvert við erum að fara. 

Framundan eru stór verkefni. Loftslagsmálin eru krefjandi og ný skýrsla Sameinuðu þjóðanna er skýr og órækur vitnisburður um að þjóðir heims þurfa bæði að setja sér metnaðarfyllri markmið en líka að gera raunhæfar áætlanir til að ná þeim. Við eigum að setja Íslandi sérstakt markmið um 60% samdrátt. 

Sú aðgerðaáætlun sem nú er í gildi er grunnurinn og hana þurfum við að uppfæra til að ná þeim árangri. Mikilvægur hluti af henni er að stórefla almenningssamgöngur, breyta ferðamátum, ráðast í orkuskipti í sjávarútvegi, þungaflutningum, landbúnaði og byggingariðnaði. 

Og síðast en ekki síst eigum við að tala skýrt á alþjóðavettvangi um loftslagsvána,– því árangur mun ekki nást eingöngu með því sem við gerum – allar þjóðir verða að axla ábyrgð á að leysa málið.

Við eigum að halda áfram að byggja upp hringrásarhagkerfið þar sem við breytum neyslumynstrinu með aukinni endurnýtingu og endurvinnslu. Við eigum líka að halda áfram okkar ferðalagi í náttúruvernd – og halda áfram að vinna að þjóðgarði á miðhálendinu og þjóðgarði á Vestfjörðum.

Kæru félagar.

Undanfarin ár höfum við séð bakslag víða um heim þegar kemur að réttindum kvenna. Löggjöf um þungunarrof hefur víða verið þrengd og þar með hefur verið þrengt að sjálfsákvörðunarrétti kvenna. Á sama tíma fór Ísland í öfuga átt og styrkti þennan mikilvæga rétt kvenna yfir eigin líkama. Við höfum séð umræðuna um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi brjótast upp á yfirborðið og springa út. Það er forgangsmál okkar hreyfingar að berjast gegn þeirri samfélagslegu meinsemd – sem kalla má bæði orsök og afleiðingu misréttis í samfélagi okkar. 

Við höfum ráðist í margháttaðar aðgerðir en þeirri ferð er ekki lokið. Við þurfum að fylgja eftir forvarnaáætlun gegn kynbundu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni enda eitt mikilvægasta tæki sem við eigum til að breyta viðhorfum í samfélaginu og ala upp nýjar kynslóðir án ofbeldis. Við þurfum að ljúka réttarbótum í þágu brotaþola. Við megum aldrei slaka á í þessari baráttu – dæmin að utan sýna að hægt er að snúa við þeim réttarbótum sem nást. Sama má segja um réttindi hinsegin fólks sem víða er verið að skerða. Þar hefur Ísland – líka – farið í öfuga átt þar sem mikilvægasta breytingin eru lögin um kynrænt sjálfræði og réttarstöðu trans- og intersex-barna. Við eigum að halda áfram á sömu braut og tala skýrt í alþjóðasamfélaginu fyrir mannréttindum, kvenfrelsi og hinsegin réttindum.

Kæru félagar.

Við eigum að forgangsraða húsnæðismálum á komandi árum. Ekki hefur verið byggt jafnmikið af íbúðum og á þessu ári allt frá hruni en mikilvægt er að tryggja stöðugleika á húsnæðismarkaði með því að efla stuðning við félagslegt húsnæði til að tryggja öllum þak yfir höfuðið.

Við eigum að setja okkur aðgerðaáætlun gegn fátækt í samfélaginu, ekki síst fátækt barna, og það gerum við meðal annars með því að halda áfram endurreisn barnabótakerfisins og fjölga þeim sem eiga rétt á barnabótum, bæta framfærslu almannatrygginga í áföngum og halda áfram að lækka kostnað fólks í heilbrigðiskerfinu.

Við eigum að taka vel á móti fólki á flótta enda hafa aldrei fleiri þurft að yfirgefa heimili sín vegna stríðsátaka eða loftslagsbreytinga. Réttlæti og mannúð eiga þar að vera okkar leiðarljós.

Við eigum að tryggja öllum tækifæri til menntunar við hæfi því að menntakerfið er ásamt skattkerfinu eitt mikilvægasta jöfnunartæki sem við eigum. Þar eru næg verkefni á öllum skólastigum. Eitt það mikilvægasta er að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla en fyrsta skrefið í því var að lengja fæðingarorlof. Að brúa þetta bil er stórt skref til að auka velsæld barnafjölskyldna, draga úr óvissu og óöryggi, draga úr skutli og veseni og auka tíma til samveru.

Annað mikilvægt mál til að tryggja jöfnuð og velsæld er að endurskoða löggjöf um framhaldsfræðslu þannig að hún taki mið af áskorunum samtímans, ekki síst tæknibreytingum og grænni umbreytingu. Framboð og aðgengi að framhaldsfræðslu er lykilatriði til að tryggja jöfnuð í samfélagi sem gerir vaxandi kröfu um hreyfanleika og þar verður að huga sérstaklega að innflytjendum og þörfum þeirra.

Við eigum að stíga sams konar skref og við höfum stigið hvað varðar heilbrigðisþjónustu og draga úr gjaldtöku á nemendur. Sérstaklega þarf að huga að námi þar sem ekkert val er um annað en að greiða há skólagjöld – til dæmis í listnámi á háskólastigi.

Við eigum að vera í forystu um frekari framfarir á sviði rannsókna, nýsköpunar og skapandi greina. Við eigum að gera fjölgun listamannalauna varanlega og halda áfram uppbyggingu sjóðanna. Grunnsjóði á sviði grunnrannsókna og tækniþróunar þarf að efla á nýjan leik enda má segja að stuðningur þessa kjörtímabils hafi skilað því að þekkingargeirinn hafi sprungið út. Hugmyndirnar eru alls staðar og með hugvitinu er hægt að skapa endalaus verðmæti – samfélagsleg og efnahagsleg. 

Kæru félagar.

Við sem stjórnmálahreyfing eigum að hugsa um það hvernig fólkinu í landinu líður. Og við eigum að gera það að okkar verkefni að bæta líðan allra landsmanna. Við sjáum stöðugar vísbendingar um vanlíðan ungs fólks. Á sama tíma og utanaðkomandi áreiti á ungt fólk hefur aldrei verið meira, meðal annars vegna tæknibyltingarinnar og tilkomu samfélagsmiðla, hefur framhaldsskólinn verið styttur og því minna svigrúm til félagslífs, íþrótta- og tómstundastarfs sem um leið er risastórt lýðheilsumál. Við eigum að skapa framhaldsskólanemum aukið svigrúm til fjölbreytni og félagsstarfs með auknum sveigjanleika. Við eigum líka að efla fræðslu og samtal um samfélagsmiðla og vera opinská með það hvernig okkur sjálfum líður með eilífan samanburð við aðra. 

Á sama tíma og við tölum um vanlíðan ungs fólks heyrum við æ meir um einmanaleika og einangrun eldra fólks. Það er raunveruleg þörf fyrir samtal kynslóðanna um mikilvægustu mál samtímans, meðal annars hvernig við viljum þróa þjónustu við aldraða. Margir eldri borgarar hafa haft samband við mig og lýst þeirri skoðun að þau taka virkan þátt á vinnumarkaði lengur en núverandi kerfi gera ráð fyrir. Við eigum að hækka þennan aldur en tryggja um leið sveigjanleika fyrir þau sem ekki geta stundað vinnu lengur vegna heilsu sinnar. Við eigum líka að tryggja fjölbreyttari þjónustu fyrir aldraða, meðal annars með aukinni heimaþjónustu samhliða framboði á hjúkrunarrýmum fyrir þau sem þess þurfa.  

Öll þessi mál byggjast á velsældarhugmyndafræðinni – félagshyggju 21. aldarinnar. Þau snúast um að tryggja öllum jöfn tækifæri og þar með auka hamingju og velsæld okkar allra. Velsældarhugmyndafræðin er ekki markmið okkar næstu daga eða vikur. Hún er félagshyggja til framtíðar þar sem við byggjum upp samfélag fyrir 21. öldina.

Kæru félagar.

Við Vinstri-græn höfum sýnt það að við hefjum verkefnin og ljúkum þeim, erum með skýr markmið og erum til í að taka slaginn. Verkin sýna merkin. Og við viljum halda áfram að vinna í þágu fólksins í landinu. 

Við eigum samfélag þar sem við erum fær um að mæta hvert öðru af virðingu og ræða okkur niður að niðurstöðu. Það hefur aldrei verið mikilvægara að standa vörð um það samfélag – við sjáum hætturnar víða um heim þar sem samfélög brotna upp vegna skautunar í stjórnmálaumræðunni. Ísland má ekki og á ekki að verða þannig. Við tökum glöð að okkur það hlutverk að leiða saman ólík öfl að bestu niðurstöðu. Ekki eingöngu vegna þess að það er rétt að gera það – heldur vegna þess að við veljum samtalið fram yfir bergmálshellinn.

Ísland er land tækifæranna. En það er ekki sjálfgefið að við öll fáum notið þeirra. Þess vegna er það okkar hlutverk að skapa samfélag þar sem öllum býðst að nýta þessi tækifæri. 

Næsta ríkisstjórn snýst um þetta; jöfn tækifæri og jöfn réttindi allra. 

Næsta ríkisstjórn snýst um að bæta lífskjör á Íslandi með sjálfbærni að leiðarljósi. Við munum öll sjá hversu miklu innviðauppbygging undanfarinna ára mun skila landinu fram á við.

Næsta ríkisstjórn snýst um að snúa vörn í sókn í baráttunni gegn loftslagsvánni.

Næsta ríkisstjórn snýst um að stíga stór skref í að auka verðmætasköpun í öllum greinum með aukinni áherslu á þekkingargeirann og skapandi greinar.

Og nákvæmlega þessa ríkisstjórn erum við tilbúin að leiða og tryggja að sú bjarta framtíðarsýn sem við stöndum fyrir verði leiðandi við ríkisstjórnarborðið á næsta kjörtímabilið og tryggja áfram velsæld og framfarir fyrir Ísland – fyrir okkur öll.  

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search