PO
EN

Ræða Katrínar Jakobsdóttur á landsfundinum 2019

Deildu 

Kæru vinir, kæru félagar,

Það er mér sannur heiður að fá að standa hér í dag og ávarpa ykkur, og það er gaman að finna andann hér í dag og hlýjuna sem streymir hér úr salnum. Þegar við komum síðast saman á landsfundi í október 2017 var skammt til kosninga og ég verð að segja að mér finnst miklu lengra en tvö ár liðin. Enda hafa þau verið viðburðarík fyrir okkur, okkar hreyfingu og líka íslensk stjórnmál almennt.

Mig langar að ræða við ykkur í dag um hugtak sem mér hefur verið ofarlega í huga. Hugtak sem ég kalla pólitíska nýsköpun og á auðvitað rætur að rekja í sögu vinstri hreyfingarinnar. Það var árið 1944 sem  Einar Olgeirsson hélt fræga ræðu sem kölluð var „nýsköpunarræðan“ en það tengdist óvenjulegri ríkisstjórn sem sósíalistar höfðu þá myndað meðal annars ásamt Sjálfstæðisflokknum. Einar og Sósíalistar litu svo á að einstakt tækifæri væri uppi á Íslandi til að nýta þann gjaldeyrissjóð sem safnast hafði upp á stríðsárunum til að byggja upp undirstöður atvinnulífs á Íslandi og tryggja afkomu almennings á Íslandi. Í ræðunni sagði hann:


„En ef við hins vegar förum nú að berjast af öllum mætti innbyrðis … þá verður lítið sem ekkert af þessu framkvæmt nú á næstunni, þá kaupum við matinn handa okkur erlendis frá fyrir innistæðurnar, á meðan við rífumst hér heima …. Og glæsilegasta tækifæri sem Ísland hefur haft til að verða atvinnulega sjálfstætt og velmegandi þjóðfélag væri glatað.“

Og bætti svo við:

„Ég hef nú orðið svo langorður um þessa framtíðarmöguleika þjóðar vorrar, vegna þess að ég álít, að sjálfstæði vort, markaðir fyrir framleiðslu vora, nýsköpun atvinnulífsins og afkoma almennings í landinu verði mestmegnis undir því komin næstu árin, hvaða ákvarðanir verða teknar nú þegar um þessi mál, – hvort mynduð verður sterk stjórn í landinu með samstarfi þingflokkanna til þess að inna þetta hlutverk af hendi eða hvort hér á að verða sundrung og flokkadrættir, atvinnuleysi og öngþveiti, öll bestu tækifærin látin ganga þjóðinni úr greipum.“

Nýsköpunarstjórnin var umdeild á sínum tíma og Einar gangrýndur harðlega fyrir þessa ræðu. Og þegar ég les þessa sögu þá sé ég að við höfum ekki yfir neinu að kvarta undan gagnrýni dagsins í dag. Stjórnmálin voru svo sannarlega stormasöm á þeim tíma, stjórnin lifði aðeins í  rúm tvö ár en ég held að ég megi segi það að  Sósíalistar sáu aldrei eftir að hafa gripið þetta tækifæri og hrint sinni stefnu í framkvæmd. Og að einhverju leyti finnst mér þessi orð eiga ennþá við, ekki endilega vegna þess að við séum að tala um nýsköpun atvinnuvega heldur vegna þess að við erum að tala um nýsköpun í stjórnmálum við gripum tækifærið til að hrinda ákveðnum málum í framkvæmd og það er það sem mig langar að tala við ykkur um í dag.

Ég hafði gaman að því að rifja upp ræðu mína hér fyrir tveimur árum, í þessum sal. Og hvað var ég eiginlega að segja þá og hvað segi ég nú? Í fyrsta lagi talaði ég aðeins um pólitískan stöðugleika em það var hugtak sem við héldum mjög á lofti fyrir síðustu kosningar. Þá vorum við á leið í fimmtu alþingiskosningarnar á tíu árum og við höfðum gengið í hús fyrir kosningar og barið á dyr og reynt að hlusta á það sem að fólk sagði og við skynjuðum mjög sterka kröfu frá fólki að það væri orðið aðeins þreytt á kosningum.. Ég sagði þá að:

„Staðreyndin er sú að pólitískur stöðugleiki á Íslandi nútímans næst ekki með gamaldags frekjupólitík; pólitík þar sem „stórir og sterkir flokkar“ berja öll mál í gegn með offorsi og yfirgangi án þess að hlusta á gagnrýni eða aðrar raddir.“

Ég held enn að þetta sé rétt – pólitískur stöðugleiki næst ekki með gamaldags frekjupólitík. En vandinn er auðvitað sá að þó að ein hreyfing snúi baki við gamaldags frekjupólitík i þá hættir hún ekki að vera til í heiminum. Og á eftir langar mig aðeins að ræða pólitískan stöðugleika.

En svo talaði ég líka um stóru viðfangsefnin framundan og þá talaði ég sérstaklega um loftslagsvána, aukinn jöfnuð í samfélaginu, kynferðisofbeldi og kynbundið ofbeldi, framtíð lýðræðis á umbrotatímum og hvernig ætti tryggja ætti almannahagsmuni.

Nú eru tvö ár liðin, og skömmu eftir þessa ræðu voru haldnar kosningar og við fórum í ríkisstjórnarsamstarf sem svo sannarlega hefur verið umdeilt á köflum. Eigi að síður mælist ríkisstjórnin enn með helmings fylgi sem er nú líklega besti árangur ríkisstjórnar frá hruni. Og hvernig hefur okkur, Vinstrihreyfingunni-grænu framboði, gengið að vinna að þessum fimm viðfangsefnum sem voru okkar aðalmál fyrir kosningarnar 2017 og öðrum þeim hjartans málum sem okkur standa nærri?

Á flokksráðsfundi fyrr á þessu ári, þar sem töluðum um 20 ára afmæli okkar rifjaði ég það það upp að allt frá okkar  stofnun 1999 hafa loftslagsmálin verið hluti af okkar stefnumótun. Og þar held ég að við höfum verið frumkvöðlar einsog í svo mörgum öðrum málum í íslenskum stjórnmálum. Það var svo undir forystu Vinstri-grænna sem fyrstu lögin voru sett um loftslagsmál árið 2012 og vegna þess að ég var á staðnum þá veit ég að það var við lítinn áhuga annarra flokka. Síðan má segja – og sem betur fer – að árið 2015 markaði straumhvörf í umræðu um loftslagsmál en við undirritun Parísarsáttmálans færðust loftslagsmálin nær meginstraumi stjórnmálanna.

En ég vil segja það að þó að íslensk stjórnvöld hafi þá strax – sem betur fer – ákveðið að skrifa undir Parísarsáttmálann þá gerðist lítið á vettvangi  íslenskra stjórnmála í loftslagsmálum fyrr en núverandi ríkisstjórn tók við og setti þessi mál í forgrunn. Enginn getur mótmælt því að á þessu kjörtímabili hefur í fyrsta sinn verið veitt verulegum fjármunum til málefnisins og það er á þessu kjörtímabili sem okkar stefnumál um kolefnishlutleysi er orðið að veruleika. Stefna sem er búin að ná slíkri útbreiðslu á skömmum tíma að í gær lýsti formaður Samtaka atvinnulífsins því yfir að atvinnulífið tæki þátt í þessari stefnumótun og styddi hana. Þetta hefðu einhvern tímann þótt tíðindi í íslenskum stjórnmálum. Stefnunni hefur verið fylgt eftir með raunverulegum aðgerðum sem munu skila raunverulegum árangri. Sú breyting hefur nefnilega orðið í tíð þessarar ríkisstjórnar, og með áherslum Vinstri-grænna í henni, að við erum ekki lengur eingöngu að tala um það sem ætti að gera og þyrfti að gera – við erum byrjuð að gera.

Eðlilega eru margir í heiminum orðnir langþreyttir á aðgerðaleysi í þessum málaflokki. Þess vegna er mikilvægt að Ísland hefur nú skipað sér í hóp þeirra þjóða sem eru lagðar af stað, sem því miður er hópur sem minnihluti þjóða heims tilheyrir, enn sem komið er.

Vísindin eru í stórum dráttum alveg skýr. Við vitum að til þess að ná árangri þarf að draga úr losun kolefnis. Það þarf að binda meira kolefni. En það er líka flókið hvernig við gerum það  og það er mikilvægt að allt sem við gerum byggi á bestu þekkingu, nýjustu rannsóknum og að fjármunum sé vel varið. Hitt getur enginn efast um ef við gerum ekkert höfum við brugðist komandi kynslóðum og við höfum brugðist okkur sjálfum.

En markmiðið er skýrt, fyrsta fjármagnaða aðgerðaráætlunin hefur verið lögð fram hún snýst fyrst og fremst um orkuskipti í samgöngum og stóraukna kolefnisbindingu. Þetta er stórmál og þó að ríkisstjórnin hefði ekkert annað gert en þetta hefur hún samt tekið skref sem fyrri valdhöfum tókst ekki að stíga.

Með verkefnum í landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis sem eru þegar farin af stað munum við binda helmingi meira kolefni árlega árið 2030 en við gerum í nú. Til að setja umfangið í samhengi endurheimtum við í fyrra votlendi á stærð við um 63 fótboltavelli en árið 2022 munum við endurheimta votlendi á stærð við 700 fótboltavelli. Sama ár verða landgræðsluverkefni á svæði á stærð við tæplega 17.000 fótboltavelli og skógrækt á öðrum ríflega 3000 völlum. Þannig að þetta er mjög margir fótboltavellir.

Ég er ánægð með það að samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs um grænar lausnir leit dagsins ljós fyrr í vetur. Þar þurfa fleiri að koma að borðinu ekki síst verkalýðshreyfingin sem er sömuleiðis að taka á þessum málum af miklum krafti. Og það sem við höfum sagt allan tímann er það að þetta verkefni er stærra en svo að það verði leyst með einni ríkisstjórn, að það verði eingöngu leyst með fjárframlögum úr ríkissjóði. Það skiptir máli að við öll tökum þátt, fyrirtækin í landinu, verkalýðshreyfingin, almenningur, frjáls félagasamtök, stofnanir. Og það segir sína sögu að þegar stjórnvöld kynntu 450 milljóna króna styrki í orkuskipti í samgöngum fyrir árin 2019 og 2020 stóð ekki á viðbrögðum og það stefnir í heildarfjárfestingu upp á milljarð í orkuskiptum í samgöngum. Markmiðið er enda skýrt. 2030 á að banna innflutning ökutækja sem eru knúin óendurnýjanlegum orkugjöfum.

Á sama tíma höfum við kynnt risavaxna fjárfestingu í almenningssamgöngum en tímamótasamkomulag ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu felur í sér að jafnmiklum fjármunum verður varið í almenningssamgöngur og hjóla- og göngustíga annars vegar og stofnframkvæmdir hins vegar. Ég segi; þetta er raunveruleg breyting. Þetta samkomulag hefði litið öðruvísi út ef við hefðum ekki verið við borðið. Þetta er gerbreyting á samgöngustefnu.

Og svo þarf okkar fólk á vettvangi  sveitarfélöga höfuðborgarsvæðisins að tryggja að þeir sem nota almenningssamgöngur mest muni taka mestan  þátt í að móta kerfið og að algild hönnun sé höfð að leiðarljósi í hverju einasta skrefi – því að ef við viljum breyta ferðavenjum þarf kerfið líka að vera frábært og aðgengilegt fyrir alla. Almenningssamgöngur eiga nefnilega að vera okkar fyrsti kostur til framtíðar.

Við  munum líka nýta efnahagslega hvata til að ná loftslagsmarkmiðum, bæði græna skatta og grænar ívilnanir. Nú þegar hefur verið varið gríðarlegum fjármunum í ívilnanir fyrir vistvæn ökutæki, um áramót munum við lækka álögur á rafhjól sem líka mun draga úr bílaumferð.

Landbúnaður og þróun hans hefur mikil áhrif á baráttuna gegn loftslagsvánni. Meðal annars þess vegna var sett á laggirnar sérstök ráðherranefnd um mótun matvælastefnu fyrir Ísland en sú stefna lítur dagsins ljós í vetur. Þar verða loftslagsmarkmiðin höfuðmarkmið ásamt lýðheilsu og sjálfbærni. Á sama tíma höfum við líka ákveðið að forgangsraða fjármagni til rannsókna á loftslagsbreytingum.  Og við vitum það að við munum þurfa að endurskoða okkar aðgerðaáætlun með reglubundnum hætti. Þróunin er hröð og eins og ég sagði hér áðan þá munum við alltaf þurfa að viða við nýjustu rannsóknir og nýjustu þekkingu. En, það er margt að gerast.

Það var mér mikill heiður þegar ég var beðin að flytja ávarp  á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna í síðasta mánuði til að ræða aðgerðir okkar í loftslagsmálum. Ástæðan er sú að Ísland hefur brugðist við ákalli um aðgerðir og til okkar er horft. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna hefur stigið fram og sagt að hér eru það aðgerðirnar sem þar skipta máli – ekki orð. Aðgerðir eins og við höfum hafið  hér á Íslandi.  Og við eigum að halda ótrauð áfram á þeirri braut. Við vitum að váin er til staðar, en við vitum líka að  lausnirnar eru til staðar og verða bæði sífellt fleiri og öflugri með vaxandi rannsóknum og tækniþróun á grænum lausnum.

Ég heyri í mörgu ungu fólki sérstaklega sem talar við mig um loftslagsmál. Það er kvíðið og því líður illa. Stundum er tilfinningin sú að við séum stödd í skipi sem er að sökkva. Þá er hins vegar mjög mikilvægt að láta hvorki sem ekkert sé né að lamaðast af ótta – það þarf að grípa til allra ráða til að koma í veg fyrir að skipið sökkvi. Það er okkar verkefni og nákvæmlega eins og við höfum séð – að við mennirnir getum gert ótrúlega hluti þá mun okkur takast þetta.. En við þurfum hins vegarl að hafa augun opin gagnvart því að þetta er byltingarástand; það þarf byltingu í loftslagsmálum. Og Ísland á að taka virkan þátt í henni og það er þess vegna sem við, Vinstri-græn, gripum tækifærið á sínum tíma. Það er vegna þess að við ætlum að vera hluti af þessari byltingu, við ætlum að leiða þessa byltingu og við ætlum að tryggja lausnir fyrir komandi kynslóðir.

Það eru vissulega fleiri áskoranir framundan á sviði umhverfis- og náttúruverndarmála þó að ekki séu þær jafn stórar. Í stjórnarsáttmála er kveðið á um stofnun Miðhálendisþjóðgarðs sem var stór áfangi. Frá upphafi kjörtímabils hefur verið unnið að stofnun hans; hvernig eigi að draga mörkin , hvaða línur eigi að leggja um vernd ólíkra svæða og hvernig eigi að haga stjórnskipan slíks þjóðgarðs. Ég er bjartsýn. Bjartsýn á að í lok þessa kjörtímabils hafi Alþingi samþykkt frumvarp umhverfisráðherra um Miðhálendisþjóðgarð sem mun skipta samfélagið allt máli Það mun skapa ný tækifæri fyrir Ísland.  Það mun vekja ómælda athygli fyrir framsýni þjóðar sem ákveður að vernda ein stærstu ósnortnu víðerni Evrópu. Og ég er handviss um að þetta mun takast.

Og um leið skulum við vera meðvituð um að þrátt fyrir þann mikilvæga árangur sem náðst hefur og þau risastóru framfaraskref sem stigin hafa verið í umhverfismálum á Íslandi, hvort heldur í loftslagsbaráttunni eða náttúruvernd, fyrir tilstilli Vinstri-grænna – þá verða alltaf einhverjir  sem horfa ekki á heildarmyndina heldur benda eingöngu á  einstök mál þar sem við höfum ekki náð öllu okkar fram. Þetta þekkjum við öll. Þegar við tölum um þessa stóru mynd þá erum við spurð; En hvað með þetta hér?

Við þau segi ég: Enginn stjórnmálaflokkur í samsteypustjórn neins staðar í heiminum hefur nokkru sinni fengið hverju einasta máli framgengt og það er ekki heiðarlegt mat að tala aldrei um neitt annað en slík mál. Við búum við þennan veruleika rétt eins og samstarfsflokkar okkar (stundum heyrist nú hljóð úr horni frá þeim um það líka) og allir íslenskir stjórnmálaflokkar sem hafa tekið þátt í ríkisstjórnarsamstarfi á Íslandi eða munu gera það í framtíðinni. Og ég tel þetta styrki lýðræðið en veiki það ekki. Málamiðlanir og sátt um breiðar línur stjórnmálanna eru ekki merki um skoðanaleysi eða stefnuflökt. Þvert á móti þarf einmitt að hafa skýra sýn, skýran kjarna og þor til að semja um framgang mála með þeim hætti að meirihluti þjóðarinnar geti fellt sig við niðurstöðuna til lengri tíma er litið og að við mjökum málum áfram. Því miður vex pólitískum öfgum fiskur um hrygg beggja vegna Atlantsála. Þessi ríkisstjórn getur hins vegar sýnt og sannað að það er hægt að vinna saman þvert á pólitískar átakalínur, landi og þjóð til heilla.

Kæru félagar.

Fyrir tveimur árum spurði ég líka hvernig við gætum leyst úr þeim áskorunum sem við blöstu til að tryggja félagslegt réttlæti og auka jöfnuð. Eitt af því sem við ákváðum þegar við fórum í þessa ríkisstjórn var að ef við gætum lagt okkar af mörkum til þess að byggja ákvarðanir okkar og stefnu á gögnum og staðreyndum þá myndum við gera það. Þess vegna var ég mjög ánægð með að kynna gagnagrunninn Tekjusagan.is. Þar er hægt að kynna sér þróun ráðstöfunartekna landsmanna og strax má segja að þessi fyrsta gerð af þessum gagnagrunni  hafi skilað strax mikilvægum vísbendingum. Meðal annars kom klárlega í ljós var að ungt fólk hafði setið eftir í þróun ráðstöfunartekna og að einstæðir foreldrar væri hópur sem sérstaklega þyrfti að huga að. Það var því mikilvægt að allar aðgerðir í þágu félagslegs réttlætis og félagslegs stöðugleika myndu taka mið af þessu. Við munum halda áfram vinnu við að þróa þennan gagnagrunn og setja þar inn fleiri breytur sem verða kynntar á komandi misserum. Því þetta er mikilvægt tæki í umræðunni um félagslegt réttlæti.

Og hvað höfum við gert? Því ekki er nóg að hafa bara gögn og mælikvarða. Í tengslum við lífskjarasamningana fyrr á þessu ári gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um margháttaðar aðgerðir til að efla félagslegan stöðugleika og félagslegt réttlæti. Í fyrsta lagi er það innleiðing nýja skattkerfisins sem verður þriggja þrepa kerfi líkt og það sem við tókum upp í ríkistjórninni 2009-2013. Þetta kerfi er ekki aðeins til hagsbóta þeim sem þá sömdu um sín kaup og kjör á almennum vinnumarkaði heldur gagnast öllum Íslendingum og ekki síst þeim tekjulágu.

Það er áhugavert að bera saman lykiltölur kerfanna þá, eins og það er núna árið 2019 og nýja kerfisins þegar það verður að fullu innleitt 2021. Hátekjuþrepið verður hið sama en lengra verður á milli þrepanna í nýja kerfinu en var 2012 og fyrsta þrepið verður mun lægra og jafnast á við grunnþrep skattkerfa Norðurlandanna.

Það skiptir miklu máli að hafa stigmögnun í skattkerfinu. Það skiptir líka máli að hafa lága prósentu fyrir þá sem eru  með lægri tekjur og háa prósentu fyrir þá sem eru með hærri tekjur. Skattkerfi eiga nefnilega að vera til tekjujöfnunar ekki síður en tekjuöflunar. Það höfum við alltaf sagt en þeirri skoðun hafa ekki allir deilt með okkur.

Ég hef þá trú að þessi breyting muni standa og hún muni lifa af ólíkar ríkisstjórnir. Það mun ríkja sátt um þetta kerfi, sem jafnar kjörin en tryggir um leið tekjuöflun. Þannig að þetta er gríðarstór áfangi.

Á sama tíma hækkum við barnabætur og hækkum skerðingarmörk þeirra sem mun gagnast best tekjulágu barnafólki. Sú aðgerð samhliða því að lengja fæðingarorlof (okkar gamla baráttumál), fyrst í tíu mánuði og svo í tólf mun skipta allt barnafólk verulegu máli og skila raunverulegum árangri í því að útrýma fátækt barna á Íslandi. Þetta er ein af þeim aðgerðum sem beinlínis er lögð til í í nýlegri skýrslu um fátækt barna á Íslandi, um það sem stjórnvöld geta gert; Lengja fæðingarorlof og að sveitafélögin mæti því með því að tryggja leikskólavist strax að loknu fæðingarorlofi. Brúa bilið milli sem er einn erfiðasti tíminn í lífi ungs barnafólks. Og ekki aðeins vonast ég til þess að þetta verði til þess að útrýma barnafátækt á Íslandi, ég vonast líka til þess að þetta verði til að auka hamingju okkar sem hér búum. Mér finnst svo löngu tímabært að við förum líka að tala um aðra þætti en þá efnahagslegu. Ég er mjög stolt af þessum árangri og segi; Ef við náum þessu, ásamt árangrinum í loftslagsmálunum; þá er ég ekki ósátt og hvorttveggja  sýnir hvort um sig hversu nauðsynlegt það var að við gripum tækifærið haustið 2017.

Þá var sömuleiðis í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við lífskjarasamningana kveðið á um aukinn stuðning við félagslegt húsnæði samhliða aðgerðum til að styðja við fyrstu kaupendur. Hvorttveggja eykur húsnæðisöryggi alls almennings og tryggir um leið val fólks milli ólíkra húsnæðiskosta, en undirstrikar líka að húsnæði er ekki munaður. Húsnæði eru mannréttindi og það skiptir máli að tryggja öllum þak yfir höfuðið, hvar sem þeir búa og hvaða stöðu sem þeir gegna.

Þá er í undirbúningi nýtt námslána- og stuðningskerfi sem mun bæta hag ungra námsmanna á Íslandi og færa kjör þeirra nær því sem tíðkast á Norðurlöndum.

Að lokum var ákveðið í sumar að draga úr skerðingum í örorkukerfinu sem hefur verið baráttumál  hagsmunasamtaka örorkulífeyrisþega árum saman. Því verkefni að bæta kjör öryrkja er auðvitað hvergi nærri lokið. Hins vegar er líka ljóst að nýtt skattkerfi, hærri barnabætur, minni kostnaður við að sækja sér heilbrigðisþjónustu og betra félagslegt húsnæðiskerfi munu líka gagnast örorkulífeyrisþegum og tekjulægri eldri borgurum þannig að margt mun hjálpast þar að og þetta kæru félagar eru ekki aðeins loforð heldur aðgerðir sem eru þegar hafnar.

Við réðumst í sérstaka vinnu til að greina hverjir standa höllustum fæti í hópi aldraðra. Þar kom fram að þeir sem eru þar með lægstar tekjur eru þeir sem ekki hafa full réttindi í almannatryggingakerfinu, oft fólk af erlendum uppruna. Sérstökum fjármunum verður varið til að rétta hlut þessa hóps í komandi fjárlögum og von er á þingmáli frá félagsmálaráðherra nú á haustþingi þar sem þessum viðkvæma hópi verður tryggð framfærsla.

Kæru félagar.

Eins og þið munið þá var heilbrigðiskerfið var efst á dagskrá kjósenda fyrir kosningarnar árið 2017,  rétt eins og fyrir kosningarnar árið 2016 enda ekki furða, það er grunnur að velferð allrar þjóðarinnar. Aldrei hefur verið varið meiri fjármunum í þetta kerfi en í tíð þessarar ríkisstjórnar. Og það er svo merkilegt að þegar við rifjum upp kosningaloforð þá eru framlögin langt umfram það sem nokkur þorði að lofa fyrir síðustu kosningar, og vildu þó margir meina að þau loforð okkar væru allt of stór. Helstu áhersluatriðin eru gömul stefnumál Vinstri-gænna: að styrkja sérstaklega heilsugæsluna, byggja loksins nýjan Landsspítala, ásamt því að draga úr greiðsluþátttöku þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Þar hafa risastór skref verið stigin á þessu kjörtímabili og áfram verður haldið á næstu árum. Ekki verður gert of mikið úr mikilvægi þess að tryggja hér sterkt, opinbert heilbrigðiskerfi sem allir hafa sama aðganginn að. Mín sannfæring er sú að við séum bæði á hárréttri leið og mikilli siglingu.

Ég ætla að víkja aftur að atriði sem ég ræddi hér fyrir tveimur árum; Almannahagsmunir snúast nefnilega ekki síst um það hvernig við verjum fjármunum ríkissjóðs og þess vegna höfum við haft í undirbúningi nýja mælikvarða til að meta hvernig útgjöld hins opinbera nýtast til að bæta lífsgæði fólks, svokallaða velsældarmælikvarða. Og það er merkilegt þegar við skoðum ályktanir þessarar hreyfingar frá stofnun að þetta hefur oft borið á góma í okkar ályktunum og stefnum. Verg landsframleiðsla er  ekki upphaf og endir alls, höfum við gjarnan sagt og stundum verið gagnrýnd harkalega fyrir vikið. Það er því stór áfangi að næsta fjármálaáætlun mun fela í sér nýja mælikvarða sem snúast um skýrari markmið í þágu alls almennings þar sem útgjöld ríkisins verða miðuð við 39 mælikvarða bæði á sviði umhverfismála, samfélagsmála og efnahagsmála. Við erum ekkert að henda vergu landsframleiðslunni, við ætlum bara að horfa á aðra hluti líka. Þetta er stór áfangi fyrir okkur.

En almannahagsmunir snúast líka um það hvernig við öflum teknanna. Ég nefndi fjölþrepa skattkerfi, nokkuð sem við áttum ekki endilega von á að yrði lendingin fyrir tveimur árum,  við hækkuðum fjármagnstekjuskattinn.. Og þess vegna er mikilvægt að við höfum tryggt að veiðigjöldin sem greidd eru fyrir afnot af hinni sameiginlegu auðlind eru núna afkomutengd sem tryggir að almenningur mun í auknum mæli njóta góðs af því þegar vel árar í sjávarútvegi.

Kæru félagar.

Staða efnahagsmála á Íslandi er sterk og ég tel að ef við skoðum hagstjórnina frá hruni þá höfum við verið að ná fram verulegum úrbótum og til að gæta allrar sanngirni þá hafa ýmsar ríkisstjórnir komið að því þegar kemur að því að styrkja stoðir ríkisfjármála, peningastefnu og vinnumarkaðar. Við höfum búið í haginn með því að skila verulegum afgangi sem nýtist okkur vel nú þegar  um hægist í hagkerfinu.

Við höfum séð hvernig peningastefnan og vinnumarkaðurinn hafa spilað saman í kjölfar lífskjarasamninga í vor og kólnunar í hagkerfinu eftir loðnubrest og áföll í flugrekstri. Seðlabankinn hefur lækkað stýrivexti sína um 1,25 prósentustig á tiltölulega skömmum tíma, sem var ein af forsendum Lífskjarasamninganna. Það er gríðarstórt hagsmunamál almennings en sýnir líka að hagstjórnin er að skila árangri og ég held að það sé lykilatriði. Samningarnir byggja á nýjum forsendum í kjarasamningagerð sem ég tel sömuleiðis að muni reynast farsælar þar sem launafólki er tryggð hlutdeild í hagvexti. Þetta er ný nálgun og við eigum að sjálfsögðu eftir að sjá hvernig hún mun reynast en þar ríður auðvitað á að allir þeir sem gáfu yfirlýsingar í kringum þá samninga, hvort sem er atvinnurekendur eða stjórnvöld, standi undir þeim væntingum sem til þeirra eru gerðar. Þannig að það skiptir mikli máli að við ljúkum þeim þingmálaum sem verða lögð fram og hafa verið lögð fram á Alþingi og tryggjum það að við stöndum við loforðin sem við gáfum í vor.

Þá leggur ríkisstjórnin til að auka opinbera fjárfestingu til að vinna gegn slaka í hagkerfinu. Framlög til opinberrar fjárfestingar í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár eru um 80 milljarðar kr. og þau hafa aukist að raungildi um 27 milljarða kr. á ársgrundvelli frá árinu 2017. Þetta er rétti tíminn bæði út af kólnandi hagkerfi en líka vegna þess að við erum með verulega uppsafnaða þörf þegar kemur að fjárfestingum hins opinbera. Nægir þar að nefna samgöngumálin og það hefur vakið athygli mína að sjá hve margar ályktanir hafa komið frá félögum okkar varðandi samgöngumál en líka mikilvæga innviði á borð við nýjan Landspítala.

Góðir félagar.

Af þeim málum sem við höfum þurft að ræða hvað mest í okkar hreyfingu á undanförnum mánuðum eru utanríkismálin hvað flóknust, rétt eins og raunin varð í stjórnarsamstarfinu 2009–2013. Við samþykktum stjórnarsáttmála þar sem kveðið er á um að við munum standa við samþykkta þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland þar sem fjallað er um öryggismál út frá breiðri nálgun en einnig kveðið á um aðildina að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamninginn við Bandaríkin. Ég hef líklega ekki verið spurð eins mikið út í neitt eitt atriði og nákvæmlega þessi mál og þá uppbyggingu sem fyrirhuguð er í Keflavík sem byggir á samkomulagi sem þáverandi utanríkisráðherra skrifaði undir árið 2016 um við bandarísk stjónvöld um aukna viðveru Bandaríkjanna hér og árið 2017 voru gefin vilyrði um var gengið frá fjárhagslegar skuldbindingum vegna þess samkomulags .

Um þetta hef ég það að segja; og segi það eftir að hafa tekið allmarga fundi fundi með félögum í VG um nákvæmlega þessi mál á undanförnum vikum og mánuðum;  að ég tel sóknarfæri felast í þeirri gagnrýni sem andstæðingar okkar hafa haldið á lofti vegna ákvarðana fyrri ríkisstjórna og búið þar til frasann „á vakt vinstrigrænna“ til að útskýra hvernig við berum ábyrgð á ákvörðunum fyrri ríkisstjórna sem þeir voru jafnvel sjálfir í – ég er að hugsa um að stela þessum frasa, „á vakt vinstrigrænna“, í næstu kosningarbaráttu þegar við fjöllum um öll þau góðu mál sem við hrintum í framkvæmd frá 2017-2021. En er Viðreisn horfin frá þeirri ákvörðun sem þau stóðu að í sinni ríkisstjórn um uppbyggingu í Keflavík? Ég spyr; Er Samfylkingin hætt að styðja aðild að Atlantshafsbandalaginu? Eru viðhorf flokka á Alþingi til varnarmála að breytast? Ég lít svo á að við Vinstri-græn höfum tekið okkar ákvörðun um að standa með þjóðaröryggisstefnunni með opin augu og ræddum það á fundi í þessu húsi og við eigum ekki erfitt með að standa við orð okkar. En verði sú ákvörðun til þess að aðrir flokkar endurskoði afstöðu sína í varnarmálum og það myndist nýr meirihluti á Alþingi fyrir stefnu sem er í ætt við okkar stefnu þá auðvitað fögnum við því. Og þess vegna höfum við lýst þeirri skoðun að það þurfi meiri opinbera umræðu um þessi mál og meiri aðkomu Alþingis að þeim ákvörðunum sem teknar eru á þessu sviði. Við eigum bara að vera ánægð og stolt af því sem við erum að gera. Vera dugleg að halda okkar sannfæringu á lofti og það geri ég hvar sem er og hvenær sem er. Það þýðir ekki að ég ætli að ganga á bak orða minna. Einmitt vegna þess að við höfum skýra sýn og sterkan kjarna getum við samið um mál og staðið við orð okkar.  

Á sama tíma hefur margt annað verið gert í alþjóðamálum á vakt Vinstri- grænna sem ég er stolt af. Þegar Bandaríkin yfirgáfu Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna skyndilega ákváðu íslensk stjórnvöld að sækjast eftir sæti þeirra. Þar hefur Ísland sýnt að litlar þjóðir geta svo sannarlega haft áhrif með skýrum málflutningi í þágu kynjajafnréttis, réttinda hinsegin fólks og barna og skýrri gagnrýni á mannréttindabrot mun stærri þjóða. Þá hefur málflutningur okkar úr formennskusæti Norðurskautsráðsins vakið athygli en þar er áhersla lögð á umhverfismál; hafið, loftslagsvána og réttindi þess fólks sem býr við Norðurskautið. Og sömuleiðis vil ég segja það að okkar sýn í formennsku í Norðurlandaráði og norrænu ráðherranefndinni hefur skilað  að loftslagsmálum verða höfuðstefna í norrænni stefnumótun á næstu árum. Og ég er mjög stolt af okkar framgangi á alþjóðavettvangi þessarar ríkisstjórnar þó að málin séu stundum flókin og ekki svart hvít. Það er bara eðli lífsins kæru félagar.

Kæru félagar.

Ég átti eftir að ræða þriðja stórmálið úr ræðu minni 2017. Við höfum beitt okkur af alefli fyrir kvenfrelsisstefnu okkar á þessu kjörtímabili. Jafnréttismál voru færð inn í forsætisráðuneytið um áramót og á þeim vettvangi hefur verið unnið að heildstæðum tillögum um úrbætur fyrir brotaþola kynferðisofbeldis í samvinnu margra ráðuneyta. Þeirri vinnu sem réttarfarsnefnd hefur þær nú til skoðunar,  þeirri vinnu þarf að ljúka áður en kjörtímabilið er úti. Við höfum sömuleiðis lagt mikla vinnu í forvarnir á þessu sviði en nú hefur afhjúpast á undanförnum árum – sem við höfum alltaf vitað hér og nú sannarlega öllum ljóst að að kynbundið ofbeldi og áreitni og kynferðisofbeldi eru ein mesta samfélagslega meinsemd samtímans. Það skiptir svo miklu máli hvernig við bregðumst við því þar höfum við tækifæri. Þar höfum við náð öflugu samstarfi með aðilum vinnumarkaðarins, sem brugðust mjög sterklega við eftir metoo hreyfinguna og æ fleiri fyrirtæki og stofnanir hafa sett sér skýr markmið um hvernig megi útrýma þessari meinsemd af íslenskum vinnustöðum.

Jafnrétti verður ekki náð nema við útrýmum ofbeldinu sem fylgir kynjakerfinu og fylgir kynjamisrétti. En því miður er það svo að það heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem flestar þjóðir heims eiga lengst í land með að ná er markmiðið um jafnrétti kynjanna, samkvæmt því sem kom fram á fundi í New York. Það kemur því miður ekki á óvart hafi maður fylgst með því bakslagi sem orðið hefur víða um heim í jafnréttismálum. Þar er vegið að kynfrelsi kvenna með harðari þungunarrofslöggjöf en áður. Líkamar kvenna eru aftur orðnir pólitískt bitbein um allan heim, ekki aðeins í fjarlægum löndum. Þess vegna er ég ekki lítið stolt af nýju íslensku þungunarrofslöggjöfinni sem Svandís Svavarsdóttir lagði fram og skipar Íslandi í fremstu röð landa heims þegar kemur að kynfrelsi kvenna.

Á sama þingi var svo samþykkt frumvarp mitt um kynrænt sjálfræði – frumvarp sem snýst um sjálfstæði fólks til að velja sér kyn. Þessi löggjöf kemur Íslandi líka í fremstu röð þegar kemur að frelsi og réttindum fólks og hvorttveggja er í þágu almannahagsmuna. Það eru eiginlega forréttindi að fá að taka þátt í þessum réttarbótum, ekki síst í ljósi þess hversu stutt er síðan hinsegin fólk var jaðarsett svo rækilega í samfélaginu og kallað kynvillingar í opinberri umræðu. Nýir þættir Hrafnhildar Gunnarsdóttur um hinsegin fólk á Íslandi hafa svo sannarlega minnt okkur á að það þarf alltaf að berjast fyrir réttindum og því miður eru þau sjaldnast gefin. Við eigum því fólki sem hefur staðið í stafni, hvort sem er í réttindabaráttu kvenna, hinsegin fólks eða annarra fyrir frelsi sínu og sjálfstæði, þeim frumkvöðlum, allt að þakka. En það minnir okkur líka á að þessi réttindi eru aldrei varanleg það er víða vegið að þeim í heiminum og þá skiptir máli að við ætlum ekki að vera þar. Við ætlum að vera akkúrat hinum megin, við ætlum að vera í broddi fylkingar og við ætlum að tala með skýrri röddu ekki bara hér heima heldur líka á alþjóðavettvangi.

Kæru félagar.

Fyrir tveimur árum ræddi ég líka um tæknibreytingarnar sem ganga nú yfir samfélag okkar á ógnarhraða . Nefnd á mínum vegum skilaði í fyrra skýrslu um þessar tæknibreytingar sem við köllum í daglegu tali fjórðu iðnbyltinguna og nú er unnið að tillögum um aðgerðir. Í skýrslunni kemur fram að af þeim sem voru starfandi á íslenskum vinnumarkaði árið 2017 voru aðeins um 14% í störfum þar sem litlar líkur eru á sjálfvirknivæðingu. Önnur störf munu taka breytingum eða jafnvel hverfa. En ný störf munu líka verða til.

Við erum að mörgu leyti vel í sveit sett til að bregðast við en þurfum að efla fjárfestingu í nýsköpun og auka tækifæri fólks til að sækja sér nýja menntun og færa sig til í starfi. Hugvitið verður nefnilega í askana látið, þótt atvinnusköpun Íslendinga hafi ekki tekið nægilegt mið af því í áranna rás. Stóra áskorunin verður ekki bara sú að tryggja að Ísland nái tökum á tækninni og íslenskt samfélag og við öll. Heldur  að tryggja um leið að ávinningurinn af tæknibreytingunum dreifist með réttlátum hætti. Venjulegt fólk njóti ávaxtanna með styttri vinnuviku og bættum kjörum og breytingar á vinnumarkaði verði ekki til þess að skerða réttindi vinnandi fólks sem barist hefur verið fyrir svo lengi.

Þessi umbreyting – ásamt því sem ég hef áður farið yfir hér í dag – er líka grunnur þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Fyrir tveimur árum ákváðum við að mikilvægustu verkefnin væru að byggja upp félagslega innviði sem við höfum gert, takast á við loftslagsvána og búa Ísland undir nýja tíma á vinnumarkaði. En eftir því sem liðið hefur á þessi tvö ár hefur það líka raungerst fyrir mér að í raun og veru snýst þetta tækifæri ekki aðeins um þessar stóru áskoranir. Ég spurði einnig hér fyrir tveimur árum: Hvernig getum við tryggt að lýðræðið virki sem skyldi?


Hillur bókaverslana svigna um þessar mundir undan bókum þar sem rætt er um dauðateygjur lýðræðisins. Ég er búin að kaupa nokkrar þeirra og stundum held ég að ég sé að kaupa sömu bókina, en þetta eru margar bækur. Og af hverju er okkur svona umhugað um þetta? Jú,  samfélagsmiðlar hafa breytt pólitískri umræðu. Útbreiðsla falsfrétta, upplýsingaóreiða og pólitísk umræða sem hunsar staðreyndir – ekkert af þessu er nýtt af nálinni, pólitísk lygi er ekki nýtt fyrirbæri en tæknibreytingar hafa gert þessa þróun ýktari en áður. Hún skapar óreiðu í pólitískri umræðu, hver og einn dregur ályktanir í eigin bergmálshelli eða því sem viðkomandi ímyndar sér að sé veruleikinn og furðar sig svo á skoðunum þeirra sem eru ósammála.

Þegar lýðræðið deyr verður það ekki þannig að fólk vakni einn daginn og það er skriðdreki fyrir utan gluggann. Miklu heldur þannig að það hverfur smám saman án þess að við veitum því eftirtekt, meiri völd færast í hendur stórfyrirtækjanna þar sem hin opinbera umræða fer fram, meiri völd færast í hendur þeirra sem hagnast á uppnámi stjórnmálanna eins og sjá má svo ljóslega í stjórnmálum samtímans.

Fyrir tveimur árum ræddi ég líka um pólitískan stöðugleika. Þetta er orð sem vinstrimönnum líkar gjarnan illa og telja að stöðugleiki sé dulmál hægrimanna um að halda fátæku fólki niðri. En heimurinn hefur því miður breyst og svörtustu hægriöflin hafa nú náð góðum tökum á óreiðunni og nýta sér samfélagsbreytingar til að skapa uppnám, andstæður og klofning. Við þurfum líka að fylgjast með þessu: óreiðuöflin ógna öllu því sem barátta seinustu tveggja alda hefur náð fram og í staðinn þurfum við að tefla fram samtalinu og samvinnunni. Glundroðinn getur verið hættulegur og allt bendir til að sá glundroði sem nú stefnir í verði ekki í þágu jöfnuðar, réttlætis og frelsis þeirra sem minnst mega sín.

Ég trúi því að ríkisstjórnin okkar sé dæmi um slíkt samtal sem við teflum fram til að koma í veg fyrir glundroða, glundroða sem sagan hefur sýnt okkur að getur haft skelfilegar afleiðingar. Það er í nokkurri tísku að tala illa um stjórnmálaflokka og vissulega eru þeir alls ekki fullkomnir. En þeir hafa eigi að síður marga kosti og lýðræðislega uppbyggðir stjórnmálaflokkar eru farvegur fyrir lýðræðislega umræðu í samfélaginu, þeir eru félagslegur vettvangur og þegar vel tekst til tryggja þeir að kjósendur hafi úr raunverulegum valkostum að velja. En kannski skiptir mestu fyrir stjórnmálaflokka og trúverðugleika þeirra að þeir hafi skýra og heildstæða stefnu og snúist ekki eingöngu um skoðanir á málefni dagsins eða einstök upphlaup í netheimum.

Forsenda þess að við treystum okkur í þetta ríkisstjórnarsamstarf og treystum okkur enn er að Vinstrihreyfingin-grænt framboð snýst ekki bara um skoðanir á vettvangi dagsins. Hún býr að skýrri og heildstæðri stefnu. Við vitum því hvar við getum sótt fram og hvar við getum gefið eftir í samstarfi við aðra flokka. Við skulum nefnilega hafa það hugfast að þegar upp er staðið, þegar átök dagsins eru til lykta leidd og við erum öll saman hér í þessu samfélagi þá erum við hvorki meiri né minni Íslendingar, hver sem skoðun okkar er eða uppruni. Örlög okkar allra eru samtvinnuð, óháð því hvar í flokk eða sveit við kjósum að skipa okkur. Öflugt lýðræðislegt samfélag er það sem bindur okkur saman og næsta kynslóð mun ekki aðeins dæma okkur af aðgerðum okkar gegn loftslagsvánni hún mun líka dæma okkur af því hvernig okkur tekst að verja lýðræðið og hvernig við tökumst á við þær áskoranir sem ég hef rakið hér.

En kæru félagar, nú er tíminn að verða útrunninn og það er orðið framorðið, eins og segir í góðum málsfarsþætti.

Við erum stödd í hálfleik, höfum ekki siglt sigrinum í höfn en að mörgu leyti átt góðan fyrri hálfleik og ég er þess fullviss um að  leikslokum munum við fagna sigri. Við höfum góða sögu að segja um stór skref í loftslagsmálum, í þágu jöfnuðar og réttlætis, í þágu kvenfrelsis og í þágu lýðræðis og almannahagsmuna.

Í næsta hálfleik munum við sjá stór skref stigin í lykilmálaflokkum og þar er ég meðal annars að tala um:

Aukna fjárfestingu í nýsköpun sem mun tryggja blómlegt efnahagslíf til framtíðar.

Raunverulegar aðgerðir til að bregðast við fjórðu iðnbyltingunni til að ávinningur hennar gagnist samfélaginu öllu.

Að áfram verði dregið úr kostnaði sjúklinga við að sækja sér heilbrigðisþjónustu.

Nýtt stuðningskerfi fyrir námsmenn.

Stjórnarskrárbreytingar, ákvæði um þjóðareign á auðlindum og umhverfisvernd og fleiri breytingar.  

Sstofnun Miðhálendisþjóðgarðs – baráttumál okkar til margra ára.

Þetta er ekki tæmandi upptalning en hún sýnir mikilvægi þeirra viðfangsefna sem við munum eiga við á næstu tveimur árum. Verkefnin eru miklu fleiri og ég hef nefnt mörg þeirra í þessari ræðu – það er ekki laust við að maður fyllist ákveðnum eldmóði.

Ég trúi því að sá málefnalegi árangur sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun skila í lok þessa kjörtímabils muni auka lífsgæði alls almennings, tryggja aukinn jöfnuð, skila betri árangri í loftslags- og jafnréttismálum og vera samfélaginu öllu til góðs.

Ég trúi því líka að fólkið í landinu muni meta verk okkar að verðleikum. En þá vil ég  segja það að lokum að það skiptir máli hvernig við sem hreyfing tökumst á við það að láta í okkur heyra. Það skiptir máli, því að umræðan getur verið hörð og óvægin – að við tökum öll þátt í þeirri umræðu og látum öll í okkur heyra. Og við erum mörg stödd hér sem getum lagst saman á árar. Ekkert okkar getur gert allt en við getum öll gert eitthvað. Og mig langar að segja það að ekkert skiptir mig meira máli en þegar ég heyri frá ykkur. Og ég er alveg óendanlega þakklát fyrir að vera hluti af þessari heild sem er hér. Fyrir að finna stuðning en einnig fá gagnrýni, fá heiðarleg samtöl. Fyrir fátt er ég meira þakklát. En kæru félagar ég trúi því að við saman munum lyfta grettistaki á þessu kjörtímabili af því að við bæði þorum og getum, en ekki síst af því að við erum saman.

Takk fyrir!

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search